Jæja! Nú hef ég loksins fengið herbergið mitt afhent. Þar sem ég get ekki sýnt myndir af því eins og er ætla ég að reyna að lýsa því fyrir ykkur nokkuð nákvæmlega - en þó ekki alveg af þórbergslegri nákvæmni:
Fyrst blasir við brún hurð af venjulegum toga, látlaust stálhandfang og venjulegt skráargat fyrir tiltölulega nettan lykil sem snúið er til hægri til þess að komast inn (hafi viðkomandi á annað borð lykil að herberginu). Hurðin opnast inn á við. Á miðju loftinu er svo venjulegt ljós með flötum kringlóttum diskaskerm fyrir. Herbergið er ágætlega rúmgott, trúlega um 20 fermetrar á að giska. Gólfefnið er einhvers konar móðins dúkur, gráskellótur, sennilega þrílitur (ljósgrátt, grátt og dökkgrátt, þó aðallega grátt [Jolanda segir gólfið þó vera blátt - og hurðina grábrúna að utanverðu ... [gólfið er grátt, trúið mér]). Veggirnir eru hvítmálaðir og ofarlega á hvorri hlið hefur spýta (um 5 sentímetrar á breidd) verið skrúfuð föst á vegginn, en allir eru veggirnir þykksteyptir. Þegar gengið er inn í herbergið er vaskur á vinstri hönd, í um (rúmlega) 2ja metra fjarlægð frá hurðinni, en út að vegg hinum megin (hægra megin) er um hálfur metri. Lofthæð er venjuleg, trúlega um tveir og hálfur metri. Fyrir ofan vaskinn er eikarhilla af hæfilegri stærð áföst veggnum og þar fyrir ofan spegill jafnbreiður hillunni, festur upp með stállituðum kanthöldum. Spegillinn er lítillega brákaður í neðra vinstra horninu. Við hliðina á þessu þrennu stendur lampi: standurinn úr stáli en skermurinn (sem er opinn að ofan verðu, kúptur) er úr plasti. Þess ber að geta að lampar, ljós, skápur, hillur, borð, stólar og rúm er allt úr IKEA, en það fer reyndar ekki framhjá neinum. Við hliðina á lampanum stendur ísskápur, lítill. Hann er þeirrar ónáttúru að geta ekki fryst matvæli en virðist að öðru leyti ágætur og sennilega nýr eins og hér um bil allt í herberginu nema spegillinn og rimlagluggatjöldin (brúnleit, málmkennd) sem blasa við, andspænis dyrunum. Ofan á ísskápnum er örbylgjuofn (sem verður sennilega ekki notaður), og þar ofaná stendur ágæt kaffivél. Við hliðina á ísskápnum er fataskápur, rúmlega helmingi hærri en ísskápurinn, úr ljósum viði eða viðarlíki. Á dyrum skápsins eru einnig hálf-ógagnsæjar (eftirgefanlegar) plastplötur. Ég lýsi ekki innihaldi fataskápsins nánar en svo að í honum eru föt. Við hliðina á fataskápnum er venjulegt einbreitt rúm - langsum eftir herberginu - , e.t.v. í breiðari kantinum með bláu laki og skræpóttri sæng ofaná (gult, appelsínugult, rauðgult, svart), koddinn er með beinhvítu koddaveri. Rúmið er fremur hart en er spánnýtt eins og annað og alveg ágætt álegu. Fyrir „ofan“ rúmið (eða við hliðina á því, eftir smekk) stendur lítið náttborð úr sama ljósa viðinum eða viðarlíkinu og er á fataskápnum (og öðrum skápum). Ofan á náttborðinu er tiltölulega stór lítill lampi, þ.e.a.s. talsvert hár, með hvítum en (hvít)munstruðum tauskerm, styrktum járngrind að innaverðu, fóturinn er svartur. Við hlið rúmsins, þ.e. á veggnum, er einhvers konar hvítur skjöldur eða eiginlega „þil“ (tvö), sennilega svo að ég krókni ekki úr kulda með steinsteyptan vegg mér við hlið. Þvínæst er ofn, tiltölulega venjulegur að sjá. Nú erum við komin út að glugga en hann er talsvert stór og þekur nær alla þá hlið - en græn spjöld/þil eins að lit og inngangshurðin að utan verðu fyrir neðan. Fyrir glugganum hanga læknisgræn gluggatjöld, ágæt en mættu gjarnan vera rauð. Í nokkru samræmi við staðsetningu inngangshurðarðinnar í herbergið er á þessum gluggavegg önnur hurð, hvít, út á svalir. Svalirnar eru steyptar, með góðu steyptu handriði, allmjög rúmgóðar, og útsýni af þeim ágætt. Þær snúa í suðvestur ef mér skjátlast ekki. Engin hæð er fyrir ofan mínar svalir, svo birtu nýt ég í meira mæli en gengur hér og gerist. Í horninu andspænis rúminu er enneinn lampi, nákvæmlega eins og sá sem stendur við vaskinn. Þvínæst er skrifborð, alveg eins og það sem ég var með í mínum fyrri heimkynnum en þó ekki með glerplötu. Það er úr viðarlíki. Við skrifborðið stendur dökkblár skrifborðsstóll, góður. Ofan á skrifborðinu er lampi (alveg við hliðina á gólflampanum), ágætur en kannski helst til bjartur. Hann er stálgrár að lit, fremur gamaldags í hönnun, og hringfóturinn sem liggur á borðinu er svartur og virðist geta þjónað hlutverki grunnrar skálar fyrir strokleður og annað í þeim dúr. Við hliðina á lampanum er gagnavarpssími (svartur, þunnur en fremur stór) sem ég nota einnig sem gagnavarpsbeini fyrir fartölvuna en að öðru leyti veit ég ekki hvernig síminn virkar og mun ekki reyna að komast að því. Á skrifborðinu er einnig pennavasi (tveir, stálgráir) og blaða- og möppuhirsla í sama lit með einhvers konar skúffum. Fyrir ofan skrifborðið er segultafla með seglum, sennilega fyrir myndir eða blöð, grátt að lit en seglarnir eru hvítir og svartir, fjórir af hvorum lit. Við hliðina á skrifborðinu er síðan loksins bókaskápur en því miður fylgdu svo mörg búsáhöld að hann stendur fullur af þeim og næstum ekkert pláss fyrir bækur. Fjöldi búsáhaldanna kom mér mjög á óvart því fyrir er í húsinu næstum allt sem þarf til fagmannlegrar eldamennsku, í sameiginlega eldhúsinu. Herberginu mínu fylgdi hins vegar - sérstaklega: 8 venjulegir diskar, 8 smærri diskar, 8 djúpir diskar, 8 hnífar, 8 gafflar, 8 matskeiðar, 8 teskeiðar, tvær steikarpönnur, þrír pottar, ostaskeri, eplaskeri, tveir dósaopnarar!, tappatogari og upptakari, sex rauðvínsglös, sex bjórglös, átta vatnsglös, átta kaffibollar, fimm tegundir af beittum hnífum, tvö pör (!) af öllu sem viðkemur sósugerð og spöðum af ýmsum stærðum og gerðum, þar með talið ausum og sleifum, þrenn skæri, klósettpappír til áramóta, kústur og fægiskúffa, og allskonar annað drasl sem nú þegar er til í húsinu - allt spánnýtt - en í ofanálag er eitthvað eldra leirtau sem fylgir líka sem ég nenni ekki að telja. Ég hlýt að líta svo á að skiptinemum sé ekki ætlað að blanda geði við niðurlensku nemana, og eigi að vera sér með allt sitt dót í sínu herbergi ...! Ég ætla að reyna að pakka mestöllu þessu drasli niður því þetta þvælist bara fyrir mér. Jæja! Svo er stóll við hliðina á skápnum, með rauðu áklæði, í harðari kantinum (frábær til lestrar, engin hætta á að sofna óvart í honum), tiltölulega „djúpur“ hvað „lengd“ (dýpt) varðar, á stálfótum. Lítið borð er við stólinn úr - sýnist mér - eik, hæfilega stórt fyrir einn til tvo (fjóra ef þeir eru mjög sáttir). Straubretti stendur við hliðina á stólnum og þvottagrind (upp við vegg) þar við hliðina. Loks fatahengi skrúfað á vegginn, fjórir stálhnúðar á eikarplötu. Dyrunum loka ég nú og blasir þá við hvítmáluð hurð séð að innanverðu og venjuleg hvít stofnanaklukka þar fyrir ofan.