27 december 2007

Niðurlensk jól

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir gjafirnar og kortin.

Smelltu á myndina til að stækka hana
Út um stofugluggann í 's-Gravendeel (Holland), á Þorláksmessu

Jólin hér voru nokkuð á aðra lund en heima, sem von var. 24. desember fór af stað eins og hver annar dagur. Eftir hádegið undirbjuggum við Jolanda jólaeftirréttinn, eins konar líkjörs-möndlutertu með „löngum fingrum“, rjóma og jarðarberjum. Hún þurfti svo að bíða í átta tíma í kæli. En ég gekk vitaskuld með sama gamla jólagjafafiðringinn síðan úr barnæsku, sem gerði ekki annað en að ágerast eftir því sem á leið daginn. Um kl. 18 var hann orðinn svo mikill að við Jolanda tókum okkur til og skreyttum pakkana aðeins meira --- úr því að Niðurlendingar eru svona þolinmóðir að bíða með gjafirnar til 25. des er þó alltént skárra að pakka a.m.k. inn þann 24. og káfa aðeins á þeim. Kortér fyrir níu á aðfangadagskvöld fórum við öll í jóla(aftan)messu, kirkjuna opnaði þó ekki fyrr kl. 21:00 og messuna byrjaði kl. 21:30. Presturinn bauð þá velkomna sem þangað voru komnir, og þá sem heima sátu, svo vafalaust hefur messunni verið útvarpað. Messan var aðallega söngur en presturinn laumaði inn nokkrum orðum annað veifið. Predikunin var sérstök og í styttri kantinum. Presturinn líkti sambandi manns við Guð við stefnumót og talaði m.a. um stefnumótaþætti í sjónvarpinu (t.d. Bóndi leitar konu / Bóndakona leitar karls, sem eru skondnir þættir) --- fyrirsögn messunnar var: Jóladeit? Kammó og átti áreiðanlega að höfða til yngri kynslóðarinnar.

Smelltu á myndina til að stækka hana Smelltu á myndina til að stækka hana
Jólakötturinn Kawa í Zeist (Utrecht)

Jólamorgunn hófst með myndarlegum morgunverði með fínu brauði og ýmsu áleggi, meðal annars sneiddum jólaosti sem var í laginu eins og jólatré (Osta- og smjörsölunni mætti benda á þá hugmynd), jógúrt með niðursoðnum ávöxtum útí, og svo jólabrauð (sætt brauð með rúsínum og einhverju fleiru, en möndlumassaklessa í miðjunni). Ég fékk ekki að vera í mínu fínasta (og því dauðhræddur um að jólakötturinn þefaði mig uppi og réðist til atlögu) en þrjóskaðist þó til að vera í skyrtu og með bindi, og í flauelisjakka sem ég keypti nokkrum dögum áður (svona til öryggis). Eftir hádegið kom amma Nootenboom og frændi og frænka Jolöndu í heimsókn og voru fram eftir degi. Um kl. hálfsjö var jólamaturinn: rækjuréttur með (blað?)salati, aspas, heimagerðri sósu með sýrðum rjóma og fleiru í forrétt. Mjög gott. Svo nautasteik með allskyns meðlæti, svo sem soðnum kartöflum, kartöflukrókett, baunum, soðnu hvítsalati, (rauðum) perum gegnsósa í ávaxtasafa og ýmsu og perusíder til að drekka með. Mjög, mjög gott. Eftir þetta byrjuðum við að opna gjafirnar og átum svo eftirréttinn sem við Jolanda höfðum útbúið daginn áður.(Uppskriftina að honum mætti alveg setja hérna í karlmannlega uppskriftabálkinn til hliðar.) Annar í jólum byrjaði eins, með svipuðum jólamorgunverði og daginn áður. Ekkert varð úr heimsókn til ömmu Feestar og frænda og frænku eins og til stóð vegna þess að einhver veira gekk á elliheimilinu sem amma Feest dvelur á (hefur þó látið hana í friði, 7-9-13). Við komumst vonandi á nýárinu í staðinn.

20 december 2007

Í Hollandi á ný!

Þetta les áreiðanlega enginn, en ef einhver á í erfiðleikum með að ná í mig er það einungis hægt með því að nota hollenska símanúmerið frá því í sumar, þ.e. +31 648-217-180 (annars finnst mér ritmál alltaf skemmtilegra mál). Íslenska númerið verður óvirkt þar til ég sný aftur, 13. janúar 2008.

Annars er það að segja héðan að veðrið er mjög fallegt, um fimm stiga frost, blankalogn, allt hrímað og jólalegt frá náttúrunnar hendi en lítið um jólaskreytingar. En ég kann ágætlega við þetta; mér þótti nóg um alla jólavitleysuna heima --- jólin eru nú ekki einu sinni byrjuð.


Smelltu á myndina til að stækka hana Smelltu á myndina til að stækka hana



Frábært að vera kominn hingað aftur; fyrir utan hið augljósa þótti mér ákaflega skemmtilegt að sjá dómkirkjuna í Trekt aftur, nú fegurri en nokkru sinni fyrr enda nýkomin úr smá andlitslyftingu.

5. Gulrótakaka1

2 lítil kringlótt kökuform. Ofnhiti 175 °C / blástur.

Botn:
    — 2 dl olía
    — 3 1/4dl púðursykur
    — 3 egg
    — 300 g gulrætur
    — 1 dl smátt saxaðir valhnetukjarnar
    — 3 1/2 dl hveiti
    — 2 tsk lyftiduft
    — 2 tsk kanill

Aðferð:
1. Setjið öll þurrefnin saman í skál
2. Skolið gulrætur, skafið ysta lagið af ef þarf og rífið á rifjárni og bætið svo í skálina með þurrefnunum.
3. Bætið eggjum í einu í einu, brjótið þau fyrst í bolla.
4. Hellið olíunni út í og hrærið allt saman með sleif.
5. Skiptið í tvö frekar djúp lítil tertuform.
6. Bakið í um það bil 30 mínútur í miðjum ofni.

Krem:
    — 200 g rjómaostur
    — 2 msk vatn
    — 1 dl flórsykur
    — 1 tsk sítrónubörkur
    — 2 tsk sítrónusafi

Hrærið allt saman með rafmagnsþeytara.
Smyrjið á kökuna þegar hún er orðin alveg köld.

1 Frá Námsgagnastofnun, unglingastig.

4. Norska kakan (Noorse taart)

(Nederlandse versie onderaan.)

Botninn:
    — 4 eggjahvítur
    — 150 gr. sykur
    — 150 gr. möndlur með hýði (malaðar)
    — 1 msk. hveiti
    — 1 tsk. lyftiduft

Stífþeytið eggjahvíturnar og sykurinn saman. Blandið möndlunum, hveitinu og lyftiduftinu vel saman og klappið það svo varlega saman við eggja- og sykurblönduna.

Bakað við 150°C í ofni í 40 mín.

Krem:
    — 4 eggjarauður
    — 50 gr. sykur
    — 1 dl. rjómi

Þetta þrennt er soðið saman varlega og hrært í á meðan. Svo tekið af hellunni og 75 gr. af smjöri hrært saman við. Hellt ofan á kökuna eftir að hún er orðin köld (ágætt að hvolfa henni fyrst). (Dökkt) súkkulaði raspað yfir.

§ § § § § § § § § § § § § § § § § § § §

Noorse taart

Voor de bodem:
    — 4 eiwitten
    — 150 gram suiker
    — 150 gram amandelen met huid, gemalen
    — 1 eetlepel bloem
    — 1 theelepel bakpoeder

De eiwitten met de suiker opkloppen tot het 'fluffy' is (romig is niet genoeg). Dan amandelen, bloem en bakpoeder toevoegen en niet te veel roeren (anders gaat het fluffy-effect weg). 40 minuten in de oven bakken op 150 graden. Vervolgens laten afkoelen.

Voor de bovenlaag:
    — 4 eigelen
    — 50 gram suiker
    — 1 deciliter room
    — 75 gram boter

De eigelen, de suiker en de room langzaam aan de kook brengen maar dan meteen van het vuur halen, en ondertussen roeren. Eenmaal van het vuur gehaald de boter toevoegen en roeren.

Als de koek is afgekoeld kun je de gele massa over de koek gieten en netjes verspreiden. Als puntje op de i geraspte chocolade over de taart verdelen.

25 augustus 2007

Sitthvað

Jæja! Svei mér þá ef dvöl mín hérna í Niðurlandi er ekki brátt á enda. Mér reiknast svo til að ég fari heim eftir svona fimm daga. Skrítin tilhugsun.

Ég hef ekkert sinnt blogginu lengi og ekkert flikkrast heldur svo brátt mánuðum skiptir. Því síðarnefnda skelli ég á Flickr sjálfan, en græðgi hans er slík að hann vill nú hafa af mér dágóðan skilding fyrir að leyfa mér að sýna myndir á síðunni hjá honum, og það í árs áskrift í senn, vilji maður halda myndunum sýnilegum. Hann rétt ræður því. Fyrir það má hann fyrir mér eiga sig allan eins lengi og hann vill.

En, rétt í þessu, þó í gær, sneri ég heim úr 8 daga ferðalagi með betri helmingnum um þetta ágæta land. Við fengum frábært veður allan tímann, þó var vætusamt nær allar nætur, en tjaldið alveg regnhelt svo það kom ekki að sök. Niðurstaða mín er sú að Drenthe og Schiermonnikoog séu fegurstu staðirnir hér, en þá á ég eftir að sjá Limburg, hið minnsta, sem sumir segja flottari. Limborgarsvæðið sé ég á morgun; sný svo aftur „heim“ á þriðjudagskvöld. Þarmeð lýkur Niðurlandsreisunum í þetta skiptið.

Ég lendi á Íslandi 31. ágúst, um kl. 14:25 ef mig minnir rétt. Ég nenni alveg áreiðanlega ekki að skrifa neitt hér þangað til, og fráleitt þar síðar.

Köttur úti í mýri ...

09 augustus 2007

Nú er ég (fyrir löngu) kominn heim úr Danmerkurferðalaginu. Skemmtilegt var að endurnýja kynnin við þessa fyrrum fósturjörð okkar. Mér þótti merkilegt hve margt minnir á Ísland, eða öllu heldur og réttara frá sagt, hve margt minnir á Danmörku á Íslandi. Umferðaskilti og ýmis umgjörð er oft sú sama; þó eru móðins gönguljósin í miðborg Kaupmannahafnar ekki enn komin --- mér vitanlega --- í Reykjavík, en stutt hlýtur að vera í það. Þau sýna manni hversu margar sekúndur munu líða þar til grænt eða rautt gönguljós birtist. Sennilega myndi slíkt þó bara verða til þess að skapa enn meiri glundroða í umferðinni á Íslandi, því að gönguljósin loga hvort eð er ekki lengur en þeirri vegalengd sem maður nær á harðaspretti á einni sekúndu eða svo, semsé hálfa leið yfir götuna, og varla það.

Við stoppuðum líka í Þýskalandi eina nótt, þar sem ég lenti í ýmsum ævintýrum. Niðurstaða kynna minna af þessu mjög svo umdeilda landi er þessi: Þjóðverjar eru uppstökkir og afskiptasamir besserwisserar sem finnst heimurinn snúast í kringum sjálfa sig. Nóg um það.

Við fórum víða um í Danmörku, stoppuðum í grennd við Silkiborg, þar sem ég hitti ömmu og fleiri í fjölskyldunni eiginlega hálfpartinn fyrir tilviljun, við litum á Árósa líka, söfn af ýmsum toga, skrúðgarða og strendur. Skruppum einn dag yfir til Svíþjóðar, það þótti mér ekki síður skemmtilegt. Svo var ekið í einum rykk aftur til Hollands. Veður var ýmiss konar, allt frá góðu til viðunandi, með stöku leiðindatímabili inn á milli; en þá var veðrið alltaf verra í Niðurlöndum, svo það kom út á eitt.

Tilvera mín einkennist þessa dagana af stússi. Ég kem til með að stússast fram til 16. ágúst, en þá höldum við Jolanda til Fríslands, og verðum þar næstu [8 daga].

Blogga ekki á næstunni.

17 juli 2007

Ferie!

Jæja. Þá er ég loksins kominn í sumarfrí. Í tilefni þess fór ég í sumarklippingu í dag --- ég hef aldrei fyrr þurft að sitja með vetrarklippinguna svona langt fram á sumar.

Núna á fimmtudaginn fer ég í ferðalag til Danmerkur ásamt Jolöndu og foreldrum hennar. Við leggjum snemma af stað en gistum fyrstu nóttina í Þýskalandi, nálægt dönsku landamærunum. Svo færum við okkur nær Kaupmannahöfn, en náum þó sennilega ekki þangað fyrr en á laugardaginn. Annað er enn óljóst.

Áætluð heimkoma er 1. ágúst eða svo.

Á morgun þarf ég því að reyna að finna mat án aukaefna til þess að hafa með í ferðalagið. Það verður ekki auðvelt, því að hér er litar- og bragðefnum og bragðaukandi efnum laumað í næstum allan mat, sama hvaða nafni hann nefnist. Ekki nóg með að þetta sé oft í kjötmeti, jafnvel hráu og ókrydduðu, þá er meira að segja litarefni í osti, smjöri og jafnvel rækjum! Ég er farinn að lesa á allt sem ég kaupi, ég læt ekki bjóða mér svona krabbameinsvaldandi óþverra í mat sem ég neyti daglega. Bragðaukandi efnið MSG er auk þess slæmt fyrir asma.

Þetta er alveg í anda Hollendinga: það er ekkert nógu gott beint af kúnni. Ég sá skondinn brandara um daginn, svo þeir gera sér sennilega sjálfir vel grein fyrir þessu: Þar sem Hollendingur hefur farið um, mun aldrei framar vaxa gras að sjálfsdáðum. Fátt er sannara.

Semsé: bloggpása fram til 1. eða 2. ágústs.

11 juli 2007

Af bókakaupum

Það er skemmtilegra að kaupa bækur þegar maður er í Hollandi, þetta hef ég nú í tvígang upplifað. Á Íslandi hefur það alltaf verið svo að panti ég bók í gagnavarpinu og biðji um að hún verði mér send heim, greiði ég sendanda nokkur hundruð fyrir viðvikið, bíð svo í nokkra daga bókarinnar. Þegar bókin loksins kemur, fylgir með henni reikningur frá Póstinum þar sem mér er enn gert að greiða einhvers konar sendingar- eða meðhöndlunarkostnað, og virðisaukaskatt þar í ofanálag. Þessi gjöld nema stundum öllu verði bókarinnar, svo reikna má með að bók sem pöntuð er vaxi í verði um 1,5x-2x. Þetta þykir mér fúlt.

Hér í Hollandi hef ég semsagt í tvígang pantað bók í gagnavarpinu og fengið senda í niðurlensk hýbýli mín. Í fyrra skiptið var bókin send frá Danmörku (úr fornbókaverslun), þar sem ég greiddi sendanda nokkur hundruð krónur fyrir. Bókin kom þremur virkum dögum síðar, athugasemdalaust, inn um lúguna. Í síðara skiptið pantaði ég bók alla leið frá Bandaríkjunum (í gegnum Amazon), greiddi í sendingarkostnað nokkur (=þrjú) hundruð krónur og bókin skilaði sér athugasemdalaust sömu leið, fjórum dögum síðar.

Ef maður sendir nú einhverjum bréf, þá greiðir maður þeim sem flytur bréfið fyrir að það verði sent. Viðtakandinn þarf hins vegar ekkert að aðhafast; hann fær bréfið einfaldlega skammlaust í hendur. Hvernig stendur eiginlega á þessari fégirni íslenska póstsins þegar kemur að bókum?

Annars er allt gott. Ritgerðarskrif ganga hægt en örugglega. Í dag réttlauk ég við að betrumbæta fyrri bestunarkenningaranalýsu á því hvernig hinir mandarínumælandi læra afmarkað hljóðfræðilegt fyrirbrigði í ensku (eða öllu heldur sýna fram á ótrúlega heimsku og yfirsjón þeirra þriggja fræðimanna sem þá analýsu sömdu (sem þó er ekki heimskulegri en svo að ég tók ekki eftir gloríunum í analýsunni fyrr en ég hafði mergkrufið greinina, í sjötugasta yfirlestri)). Nú þarf ég að straumlínulaga kaflaskil, reyna að láta eitt leiða af öðru, smyrja svolítið utan á fræðilega inngangshlutann, taka saman niðurstöður og berja saman einhver vel valin lokaorð. Þessu skal vera lokið á föstudaginn kemur, ég er að verða óður á þessari bölvuðu vitleysu og vil fara að komast út í sumarið.

28 juni 2007

Enn af skólun

Jæja, nú hef ég opinberlega lokið öðru námskeiði þessarar misserisdeildar, og ég á lokaritgerð eftir í því síðara. Hinu lokna námskeiði lauk ég með meðaleinkunn upp á 9,5. Það námskeið fjallaði um tvítyngi, ögn almennt um máltöku og um máltöku 2. máls. Sjónarhornið var áhugavert, eins konar sambland generatífrar málfræði og félagstengdrar málfræði.

Þann tíma sem eftir lifir misserisdeildarinnar mun ég reyna að nýta til þess að skrifa sómasamlega ritgerð í hinu harðkjarna-generatífa námskeiði Hljóðfræðileg máltaka innan bestunarkenningarinnar. Merkingarfræðinámskeiðið innan bestunarkenningarinnar frá fyrri misserisdeild mun vonandi nýtast mér eitthvað, en það námskeið gekk að minnsta kosti mjög vel. Það verða samt átök að berja saman viðunandi lokaritgerð í þessu hljóðfræðinámskeiði.

Semsé: lítið um blogg á næstunni (vona ég).


Spurning: Hvað hét aftur þáttaröðin Keeping up appearances á íslensku? (sjá þátt á YouTube (1/3))

25 juni 2007

Kynning

8,0.

19 juni 2007

Framundan

Jæja, nú rétt í þessu kláraði ég lokaritgerð fyrir annað námskeiðanna sem ég sit þennan misserishelming. Ég sætti mig við sjöu. Annars finnst mér ég aldrei hafa verið jafn mikið úti á þekju í ritgerðarskrifum fyrr (ef undan er skilin (mislukkuð) tilraun mín í apríl til þess að skrifa lokaritgerð um andlagsstökk með naumhyggjustefnu Chomskys að vopni).

Nú á ég eftir að flytja fyrirlestur á mánudaginn þar sem ég kynni einhverja grein — sem ég á eftir að velja. Vonandi svo vel að ég fái sjöu. Fyrir það námskeið þarf ég svo líka að skrifa lokaritgerð um eitthvert mjög órætt efni, svo abstrakt að það er varla orðum að því komandi. Það snertir á einhvern hátt tungumál en ég er ekki viss nákvæmlega með hvaða hætti það er ... Skiladagur þeirrar lokaritgerðar ku víst 11. ágúst, en 6. júlí ef okkur liggur á að fá einkunn. Ekki nenni ég að sitja yfir þeim ósköpum í allt sumar, svo ég reyni að rumpa henni af sem fyrst.

Á morgun hef ég svo mælt mér mót við undarlega enska stelpu sem endilega vill fá að taka mig upp á band; hún á nefnilega að gera eitthvert verkefni um tungumál þar sem hrynjandin er alltaf á fyrsta atkvæði, eins og í íslensku. Ætli ég þurfi því ekki að bera fram orð á borð við alþjóðaatvinnumálastofnunin eins og ég hafi aldrei sagt annað, með áherslu á fyrsta atkvæði.

Æ, mikið vildi ég nú að ég mér yrði bara sett það verkefni fyrir að reyta arfa í Eilífðarbeðinu*. Nú er þetta komið gott af bókviti í sumar.

*) Eilífðarbeðið er feiknarlega langt beð við Engjaveg sem engum selfysskum unglingi gleymist.

15 juni 2007

Þéringar

Hér er þérað eins og í Þýskalandi, og á Íslandi „í gamla daga“. Þérunarformið er svolítið skrítið, einfaldlega: u. Óformlega fornafnið er hins vegar je, sem þó er eiginlega borið fram ju, þ.e. með schwa.

Þetta veldur mér verulegum vandræðum. Ekki nóg með að ég gleymi alltaf að þéra fólk, þá á ég bæði í vandræðum með að bera fram „u“ á hollensku, því að eiginlega er það eins og danskt „y“, og ég á líka í vandræðum með „e“ sem borið er fram með schwa-i, þ.e.a.s. næstum því eins og íslenskt „u“. Ég þarf semsé að segja danskt „u“ til að vera kurteis en íslenskt „u“ til að vera ókurteis ...!

Það er ruglingslegra en það hljómar.

Gjörið svo vel við fólk sér eldra og æðra er: alstublieft.
Gjörðu svo vel við jafnaldra og yngra fólk er: alsjeblieft.

Eini framburðarmunurinn á þessu hjá mér er T andspænis J, og mér gleymist mjög gjarnan að segja T/J, svo útkoman verður alsublieft, sem Hollendingar túlka sem ókurteisa formið.

Strætisvagnstjóri reiddist mér áðan fyrir þessi mistök og ruddi sármóðgaður út úr sér: U!!! Ég kvaðst ekki vera mjög sleipur í hollensku og var guðslifandifeginn að hann skyldi ekki stimpla fleiri punkta á vagnkortið mitt mér til refsingar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn. Hér eftir þéra ég bara, sama hver á í hlut.

14 juni 2007

Framburður á R-i

Hvernig R er borið fram skiptir mjög miklu máli á Íslandi, eins og von er. Hérna í Hollandi er hins vegar mjög algengt að fólk skrolli og eru af því að minnsta kosti tvær tegundir. Enn verri eru þó færeysk-amerískt-hljómandi R-in (Gooise R heitir það hér) sem heyrast nær undantekningalaust í sjónvarpi og í Utrecht heyri ég það oft; þetta er stundum nefnt fjölmiðla- og menntasnobbs-R. Á svæðum nær Belgíu hef ég þó heyrt góð íslensk R. (Ég deili því hikstalaust með Hollendingum hvað Íslendingum finnst um rangan framburð á R-i og hvaða ráðum beitt er til þess að leiðrétta svona mállýti.) -- Sjá nánar um dreifingu R-a á Víkípedíu.


Hollensk R: hljóðdæmi

#1 Rúllandi R
#2 Gormælt R
#3 Hræðilegt R (Gooise R, leiðinlega stutt dæmi)


#4 Öll þrjú hollensku R-in lesin í einu (#3 hér að ofan var tekið úr þessu broti).

Hér er súlurit sem sýnir notkun Gooise R-s í fjölmiðlum (og fer þessi framburður víst eins og eldur í sinu um framburð barna) -- sjá einnig hér:



Jæja. Staðlarnir eru mismunandi. Hér finnst sumum fínt að nota þetta ömurlega færeysk-ameríska R, í Noregi er fínt að skrolla og ég er ekki frá því að þannig sé það líka í Þýskalandi. Að minnsta kosti hefur eitthvað hræðilegt komið fyrir tunguna í söngvara hljómsveitarinnar Rammstein, þvíað sá söng alltaf með fögru rúllandi R-i. Nú skrollar hann eins og hálfviti, eins og glöggt heyrist ef bornar eru saman fyrsta platan og sú síðasta:

#1 brot úr Rammstein af Herzeleid (1995) [mp3, 96KB]

#2 brot úr Rosenrot af Rosenrot (2005) [mp3, 104KB]

Heimur versnandi fer.

09 juni 2007

Enn af veðurfari

Svo eftir kvöldmat fyllti himininn skýja, með þrumum og eldingum svo villtum (þær sem næstar voru, aðeins í um 300 metra fjarlægð) að ég hefði aldrei hætt mér út í slíkt veður. Fleiri í Hollandi hefðu átt að fara að dæmi mínu því að tvö dauðsföll hér í landi eru rakin til þess að eldingu hafi lostið niður í fólk. Svona skiptist á ofsafengið gott veður og grenjandi rigning með þrumum og eldingum. Þetta verður víst litlu skárra í dag, en hitinn er mér meira að skapi, 18°C.

Svo hefur mér tekist að ná mér í kvefpest sem hefur gengið um í húsinu, heldur svæsna, svo ég fer ekkert út í bráð. Sötra nú piparte í tíma og ótíma til þess að liðka kverkarnar og fjárfesti reyndar líka í öflugu „hóstameðali“, þýsk-ættuðu.

Jæja.

08 juni 2007

Af einkunnum, veðurfari og bílaumferð

Í dag er 30°C hiti. Mesti hiti sem ég hafði upplifað var einn fáránlegan dag á Selfossi, 27°C. Loftið er svo rakt hérna. Þegar það er kalt er einhvern veginn kaldara en heima --- út af rakanum --- og þegar það er heitt er ... óþægilega heitt. Heitt. Rakt. Sveitt. Skást finnst mér eiginlega að vera í lopapeysunni, klæða þetta veðurfar hreinlega af mér. Svo hins vegar ef maður fer inn í verslun er hitastigið þar 12°C gráður, svo það liggur við að sultardropana frysti á nefbroddinum.

Þetta var af veðurfari, ég held mig greinilega ekki í efnisröð miðað við titilinn.

Næst einkunnir. Ég varð hundfúll föstudaginn var þegar kennarinn í hljóðfræðimáltökubestunarkenningarnámskeiðinu gaf okkur einkunnir fyrir kynningar á greinum þann sama dag. Hann var brosandi út í eitt allan tímann og gerði ekkert nema góðar athugasemdir við fyrirlestrana. Hæsta einkunn sem hann gaf var hins vegar átta. Allir hinir fengu sjö. ... Ég skil ekki hvernig allir hinir geta fengið sjö, og af hverju þessi frábæri fyrirlestur sem kennarinn lofaði fram og aftur skuli bara fá átta. Eftir tímann spurði ég hina nemendurna hvort ég hefði eitthvað misskilið þessa einkunnagjöf, fengu kannski allir bara átta? Neinei, þeir voru bara hæstánægðir með sínar sjöur, og nemandinn með áttuna í skýjunum. Þau sáu svipinn á mér og sögðu: „Sjö er góð einkunn.“ Ég hvái, og segist aldrei nokkurn tíma hafa fengið sjö á mínum skólaferli (a.m.k. ekki í háskóla) og að mér finnist það nú bara asskoti lágt, svona án rökstuðnings fyrir því að 30% hafi verið slæm. „Það er almennt ekkert gefið hærra en átta.“ Ég verð því bara að sætta mig við mína sjöu.

Og kannski er það bara það: á Íslandi eru nemendur lofaðir ef þeir gera bara það sem þeir eiga að gera og verðlaunaðir með háum einkunnum. Til þess að fá svo háa einkunn hér þarf að gera eitthvað mjög framúrskarandi, en hvað það er hef ég ekki hugmynd um. Það finnst mér líka óþægilegt. Hvernig fæ ég átta fyrir næsta fyrirlestur ef ég sé ekkert að fyrirlestrinum mínum á föstudaginn var? Ég lagði mikla vinnu í hann, las greinar umfram þá sem ég kynnti, benti á lesefni sem gæti gert sumt skýrara sem greinin fjallaði um á svolítið abstrakt máta, OG: hélt mig við uppgefin tímamörk (sem ég var einn um að gera). Sá með áttuna hafði skilað inn fyrirlestri sem ekki með nokkru móti væri hægt að kynna á tuttugu mínútum, enda las hann ekki nema 1/3 af honum og fór samt yfir tímamörk. Kannski það sé ráðið. Hitt er svo annað mál, að ég hef ekkert við einkunnir núna að gera --- ég fæ bara einingar frá Erasmus. En á BA-stiginu hér skiptir máli að fá áttur þvíað sé meðaleinkunn lægri en átta fá nemendur einfaldlega ekki að fara í [rannsókna]master*. Punktur. (Þeim er hins vegar hleypt inn í [venjulegan eins árs] master, sem [leggur minni áherslu á fræðilegheit]*, enda ... hvað á hálfviti erindi inn á fræðasviðið, má kannski spyrja sig.)

Nú, af bílaumferð er það að segja að ég ætlaði að fara að skrifa hvað Hollendingar væru æðislegir í umferðinni. Ég vil reyndar skrifa það:

Hollendingar eru framúrskarandi tillitssamir í umferðinni!

En. Auðvitað þurftu tveir ökumenn, kvenkyns, að ata þessa fögru ímynd skít með því að reyna eftir fremsta megni að aka yfir mig á gangbraut rétt áðan --- það hefur áreiðanlega verið vegna hitans, einhvers lags óráð. Þetta er semsé í fyrsta sinn sem ekki er stoppað fyrir mér á gangbraut. Hægri réttur hefur sömuleiðis alltaf verið virtur (og honum beitt) ef ég hef verið hjólandi, sem er alveg til fyrirmyndar. Ef maður er fótgandandi og akandi bílar þurfa að komast úr innkeyrslu með því að aka yfir gagnstétt bíða þeir undantekningarlaust eftir manni, sömuleiðis ef þeir eru á gangstéttinni að reyna að komast inn á akveg: þeir aka þá afturábak, víkja svo maður komist leiðar sinnar án þess að þurfa að stoppa. Heima hef ég meira að segja lent í því að bílar aki einfaldlega hugsunarlaust í veg fyrir mig þegar ég hef verið skokkandi, og stoppi á gangstéttinni og bíði. Skokkarinn þarf þá að bíða við bílinn, í útblástursstækjunni.

Hér er líka sá munur að almennt fellur fólk tvisvar til þrisvar á ökuprófi. Heima er nú venjan sú að fólk nái í fyrstu tilraun, en þá að minnsta kosti í annarri. Það er þá kannski enn einn anginn á þessu með einkunnirnar. Það er ekki nóg að geta, maður þarf að standa sig og það með stæl. Fyrir vikið eru aular ekki með bílpróf. Ég ætti kannski að fara að leita mér að vinnu fyrir aula?

*[] Orðalags- (og merkingar-)breytingar gerðar 11.06.07.

03 juni 2007

3. uppskrift: Lalagne

Lalagne er tilbrigði við lasagne.

Fylgið uppskrift nr. 2 af lasagne en sleppið ostinum í ostasósunni. Bætið ostinum öllum ofan á réttinn (150-200 grömmum) áður en hann fer í ofninn.

(Þið megið reyna að giska á hvernig þessi réttur varð til.)

2. uppskrift: Lasagne

Lasagne

Kjötið:
    — 1 laukur
    — 2 hvítlauksrif
    — 500 g hakk
    — 500 g tómatamauk (eða slatti af tómötum og tómatsósu)
    — 2 msk kjarrmenta („oregano“)
    — 1 tsk pipar
    — ogguoggulítið salt
    — 100 g ostur ofan á (í lokin)

... og svo þarf auðvitað lasagne-plötur.

Ostasósan:
    — 40 g smjör
    — 40 g hveiti (meira eftir þörfum til þykkingar)
    — 0,9 l mjólk
    — 100 g ostur
    — 1 msk hrein kjarrmenta („oregano“)
    — 1 msk blóðberg eða hreint timían
    — oggulítill pipar

Aðfarir við kjöt (fylgið næsta lið samtímis):
    — Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið svolítið í pönnu í lítilli olíu.
    — Bætið hakkinu saman við, steikið í nokkrar mínútur og lækkið svo undir.
    — Hellið tómatamaukinu yfir kjötið og kryddið með kjarrmentu, pipari og salti.
    — Nú er ostasósan líka að verða tilbúin.

Aðfarir við ostasósuna:
    — Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu varlega saman við (þannig að klepri).
    — Hellið mjólkinni mjög varlega saman við í nokkrum þrepum og hrærið  v e l  á milli.
    — Bætið ostinum saman við.
    — Lækkið undir en haldið áfram að hræra af dugnaði.
    — Kryddið með kjarrmentu, blóðbergi/timíani og pipari.

Aðfarir við form:
    — Smyrjið stórt form og dreifið svolítlu af hakkinu á botninn.
    — Þekjið með lasagne-plötum og hellið ostasósunni yfir.
    — Dreifið hakkinu yfir og leggið lasagne-plötur ofan á.
    — Endurtakið þar til hakkið og sósan klárast.
    — Síðast er aðeins lasagne-lag, sósa og ostur ofan á.

Setjið í heitan ofn (200°C) og hitið í miðjum ofni í 30 mínútur. Umfram svartur pipar eftir smekk.

02 juni 2007

Allt með felldu

Þar sem fréttir héðan virðast berast nokkuð vel milli landa vil ég bara segja að ég er við bestu heilsu, kl. átta að íslenskum tíma (tíu að hollenskum), laugardagskvöld 2. júní 2007. Hér í byggingunni, ekki þó á minni hæð, var sennilega framið ... ja, ódæði, með mjög vondum afleiðingum. Ég hef engar opinberar fréttir heyrt af þessu. En sem sagt: allt gott hér.

31 mei 2007

Nýjar myndir á Flickr

Jæja, loksins myndir frá því á mánudaginn var; ég setti nokkrar myndir úr víkingaþorpinu og Eindhoven inn á Flickr. Myndirnar eru hér, tuttuguogein talsins ef ég man rétt.

(Mér er sönn ánægja að tilkynna lestrarhestum að þeir finna meira við sitt hæfi á Flickr í þetta sinn en oft áður.)

29 mei 2007

Víkingar og fornar skræður

Ferðin í víkingu fór ágætlega. Við fjölmenntum í Eindhoven húsungarnir og mættum vígalegum mönnum og börnum á leiðinni í þetta ágæta víkingaþorp í útjaðri borgarinnar. Eiginlega kom mér á óvart hversu vel þarna hefur tekist til við að skapa skemmtilega víkingastemningu með gömlum kofaskriflum, uppáklæddu fólki sem virðist fljótt (og langt) á litið vera víkingar inn að beini og kókandi matar og reykjarþefjan sem áreiðanlega hefur fylgt norrænum mönnum. Ef eitthvað er illt segjandi um aðbúnað og útlit þá er það helst að víkingar hafa alveg áreiðanlega ekki reykt Marlboro. Ég leyfði þessum ljóta ósið leikaranna ekki að eyðileggja stemninguna, en það hefði vel mátt líma á þá nikótínplástra í staðinn, innanklæða.

Þarna voru líka tjöld þar sem varningur af ýmsum (gæða-) toga var seldur. Sumt var í ætt við hinar ágætu norsku eftirlíkingar sem ég kann ekki lengur að nefna, úr gæðamálmum, en annað var unnið úr verðminni efnum, þó mjög gjarnan í höndunum með ærinni fyrirhöfn. Ég fann því miður ekkert sérstakt á þessum mörkuðum sem ég kærði mig um að burðast með til Íslands (það er jú alltaf vandamál). Hins vegar gæddi ég mér á ágætum vöfflum með sultu og rjóma sem ég renndi niður með hunangsvíni. Því miður var enginn mjöður á boðstólum, hann seldist upp daginn áður. Eftir mikla göngu og útiveru og lokun safnsins þáðum við Jolanda svo matarboð hjá Christiani Íslandsvini sem þarna býr. -- Það koma víkingamyndir á Flickr einhvern tíma fljótlega.

Þetta var semsé af víkingum. Fyrirsögn þessarar færslu er víst líka „fornar skræður“ og hún á fyllilega rétt á sér. Ég var nefnilega rétt í þessu að fjárfesta í mjög svo mætri bók, Íslenskri hómilíubók, sem Andrea de Leeuw van Weenen annaðist útgáfu á og út kom 1993. Þetta er mikill doðrantur, rúmar fjögurhundruð hnausþykkar blaðsíður að ég mig minnir; tvöhundruð síður af inngangsorðum ritstjóra, hundrað síður með tvílitum ljósmyndum af handritinu (þ.e. í litum en ekki í grátónum) og enn hundrað síður með nákvæmum texta handritsins, en handritið sem hér er útgefið á bók er talið vera frá um 1200 og elst samfelldra íslenskra texta, varðveittra í „heild“, eða hvernig sem það er nú orðað. Ég kvel öfundarmenn mína ekki með hvað ég greiddi fornbókasala fyrir þessa bók en það var sannarlega hlægilegt verð — vonandi ekki sanngjarnt því að þá má bókin vera mikið ljót. Ég fæ hana senda frá Kaupmannahöfn innan viku.

24 mei 2007

Þjóðlegt

Um hvítasunnuhelgina verður víkingahátíð í Eindhoven þar sem saman koma tæplega 400 niðurlenskir og erlendir víkingar. Ein varandanna (Warande-íbúanna), sem ég hef kallað víking hússins hér áður, hefur boðið samhúsungum sínum á þessa hátíð, þar sem meðal annars verður mjög svo áhugaverður víkingamarkaður. Hæðin hefur ákveðið að halda þangað saman nú á mánudaginn. Ég mun áreiðanlega þurfa að hafa svolítinn hemil á mér á þessum markaði, því þó að mér leiðist almennt skart, á það ekki við um fornlega muni. En svo er það nú enn eitt, hvað átt er við með þessu orði, víkingur. Það virðist notað á alla lund, um hvað norrænt sem er, jafnvel yfir allt norrænt fólk að fornu. Víkingar, í íslensku merkingu orðsins, voru skúrkar og óbermi sem enginn ætti svo sem að vilja kannast við, hvað þá að kenna sig við.

Jájá.

Annars er merkilegt hvað dvöl í útlöndum fyllir mann ættjarðarástar. Ég hlusta núorðið varla á annað en norræna tónlist, les fornar sagnir á www.sagnanet.is og ég lít annað slagið á vegamyndavélarnar á vegagerdin.is svona til þess að athuga hvort fjöllin séu ekki örugglega enn á réttum stað (því miður sést Esjan og Ingólfsfjall ekki á þeim, en ég hef öruggar heimildir fyrir því að þau standi enn — að minnsta kosti að nokkru leyti — óhögguð). Mér finnst alveg hræðilegt að nú þegar komið er sumar skuli ég ekki komast í fjallgöngu. Leitt er líka að þurfa að vera í skólanum langt fram á sumar ... en þetta skilja útlendingar svo sem ekki. Það er hálfgert sumar allt árið hvort eð er.

17 mei 2007

Fuglasöngur

Fuglar eru, ásamt músum og músútlítandi dýrum, í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef aldrei fyrr búið í jafnmiklu návígi við þessar fjöðruðu skepnur, svo undanfarna mánuði hef ég heldur betur getað fylgst með þeirra mjög skemmtilega og margbreytilega hátterni; og ég fæ ekki betur séð en að fuglar séu um margt líkir mannfólki í háttum. Rétt eins og gildir um fólk, að minnsta kosti fólk sem fylgir óskráðum mannasiðalögum, klára krákurnar og skjóarnir* ekki það sem skilið er eftir úti á svölum handa þeim. Nei, þeir skilja eftir einn bita! Þetta gera þeir meira að segja ef við gefum þeim rúsínur, sem þeir eru sólgnir í.

Svo er mikill munur á krákunum og skjóunum; krákurnar eru tiltölulega óhræddar við mannfólk (en hafa þó mjög greinilega augun hjá sér), skjóarnir hins vegar staldra stutt við og spyrna sér fram af svölunum liggur við áður en þeir eru lentir. Þó fer það að nokkru leyti eftir því hvað lagt er niður fyrir þá, því báðar tegundir virðast fórna sér meira fyrir til dæmis rúsínur og hrísgrjón heldur en árbítsköku, brauðmola og kexkökur.

Þeirra erkióvinur er hins vegar kötturinn á hæðinni fyrir ofan, sem einnig venur komur sínar á svalirnar hjá mér ... en hann fær reyndar sömuleiðis góða meðferð, hefur bragðað íslenskan harðfisk (lítur þó ekki við roðinu), soðinn ufsa frá Alaska, hollenska mjólk, nautahakk í framandi sósu og stelst reyndar líka í hrísgrjón sem ætluð eru fuglunum.

Svo eru hér hænur á vappi í skógarþykkninu umhverfis húsin (sem kunna vel að meta árbítsköku) og íkornar í trjánum.

En, það sem ég ætlaði eiginlega að segja var nú bara það, að ég er handviss um að fjölmargir tónlistarmenn hafi fengið innblástur af því að hlýða (viljugir eða óviljugir) á fuglasöng. Ég heyri söngfuglana sífellt syngja línur sem ég kannast við úr lögum — nema því sé hreinlega öfugt farið!

Hvað er þetta vinsæla lag hér til dæmis annað en daðrandi karldúfa?




* Mynd breytt 19.05.07 (hollenskur skjór)

14 mei 2007

Oggupínuponsu

Jæja. Nú má segja að sannarlega sé tími til kominn að ég skrifi eitthvað hér. Fyrst:

Það var gaman í Tékklandi. Myndir hér (3 síður minnir mig, ca 50 myndir).

Pápi heiðraði okkur Jolöndu með nærveru sinni í fyrradag, laugardag. Það var líka skemmtilegt. Við röltuðum um Utrecht, börðumst fyrripart dags við veðurguðina en nutum veðurblíðu seinnipart og fram eftir kvöldi. Fórum (í blíðu) í dómkirkjuna og upp í dómkirkjuturninn, fengum okkur að borða, og ýmislegt fleira.

Já.

Þessa vikuna er ég ekki í tímum (vegna forfalls kennara og byggingar verða lokaðar á föstudaginn) en ég þarf eftir sem áður að lesa og vinna verkefni. Hins vegar ætlum við Jolanda í tívolí, sem ekki má þó svo kallast, á föstudaginn með nokkrum vinum hennar. Það verður ábyggilega spennandi. Mér skilst að það eigi að draga mig í Hollendinginn fljúgandi, en það verður þungur dráttur. Ég finn mér vonandi passlega rólega hringekju við mitt hæfi í staðinn.

Jájá.

Ég hef tengt gagnavarpssímtæki („rödd yfir IP“-síma eins og hann nefnist á einhverjum öðrum málum) sem einhverjir gætu séð hag í að hringja í, í stað gemsans. Þetta fylgdi herberginu mínu en ég þorði ekki að stinga þessu skrapatóli í samband. Sennilega gagnast þetta helst þeim sem búa eða eru staddir hérna í Hollandi og vilja ná í mig (líklega er líka ódýrara að hringja í þetta númer frá Íslandi, ef einhver kærir sig um).

Jæja, númerin eru þá:

Heimasími (Zeist, fastlína): +31 307 113884
GSM: +31 648 217180

(Sennilega er ókeypis að tala við fastlínunúmerið ef hringt er úr öðrum gagnavarpssíma, að minnsta kosti gildir það um þennan, óháð því hvert hringt er, skilst mér.)

01 mei 2007

Drottningardagur

Jæja, ég hyllti drottninguna í gær ásamt nokkrum húsfélögum og vinum þeirra í Trekt. Drottningin lét reyndar ekki sjá sig þar. Hún þvælist um landið ár hvert á þessum appelsínugula afmælisdegi móður sinnar, þegnum sínum til mikillar ánægju. Fullt af fólki, hávaðasöm tón„list“, skemmtilegir markaðir sem Hollendingar nefna draslmarkaði. Þeir eru skör lægra sýnist mér en flóamarkaðir, með sannkallað drasl á boðstólum: úr sér setna hnakka á hjól, sundurryðgaðar luktir, haugdrullug borðföng, ryðgaðar þjalir og hamrar; en þó líka talsvert af bókum, geisla- og mynddiskum, spólum og snældum, og ýmsu matarkyns sem ekkert var mjög listugt (en sumt sannarlega þjóðlegt og vel lyktandi). Þetta er jú mestallt eitthvert drasl sem fólk er að losa sig við úr geymslum (ekki þó maturinn, held ég!), og allt selt fyrir slikk. Þarna sá maður alls kyns fólk og það var skondið að sjá furðulega stafsett skilti frá Tyrkjum og annarra þjóða lýðum (ég segi ekki óþjóðalýðum). Ég keypti mér þarna næstum Erik the Viking á DVD á um 150 krónur, en víkingur hússins varð fyrri til.

Eftir um þriggja klukkustunda ráp um götur borgarinnar var ég samt kominn með svolitla „menningar“þreytu, svo við Jolanda drógum okkur í hlé. Það er reglulega fallegt að hjóla á milli Trektar og Zeistar í góðu veðri, og nú eru lömbin orðin stælt og tiltölulega gæf. Góða veðrið mætti samt fara að draga sig í hlé, hér hefur ekki dropi fallið úr lofti í mánuð og bændur orðnir pirraðir. Ég er ekki frá því að mig sé farið að langa í svolitla rigningu og kulda líka.

Það koma myndir á Flickr seinna í dag; frá Keukenhof (sem áður hafði verið lofað), Blijdorp og smá frá drottningardegi í gær.

26 april 2007

Haförn í beinni

Hér í Niðurlöndum er talsvert af vefmyndavélum sem sýna alls kyns athafnir. Ég rambaði á skemmtilega vél sem sýnir arnarhreiður í beinni útsendingu — mjög skemmtilegt (sjá hér).

Annars er allt gott að frétta. Ný önn hafin; þeirri fyrri lauk að mestu ágætlega, með eina góða einkunn og eina ... ekki — svona eins og gengur. Ég sendi bráðlega inn myndir úr ferðalögum síðustu viku, sem var kennsluhlé (ótrúlegt en satt er kennsluhlésvikan eða de onderwijsvrije week sannarlega kennslufrí; og stranglega bannað að setja nemendum fyrir í þeim. FRÍ = FRÍ).

16 april 2007

Norðurferð

Jæja, við komum heim úr helgarferð seint í gærkvöldi og það var rosalega skemmtilegt. Við fórum 6 saman, þrennt af hvoru kyni, yfir um til Texel með ferju í kringum hálfátta á föstudagskvöld og áttum þar rólega kvöldstund. Veðurspáin fyrir helgina var alveg ótrúleg, um og yfir 25°C hiti alla helgina -- og svo heitt var það (og sennilega heitara því þegar við fórum heim á sunnudagskvöldið og sólin löngu sest var hitinn enn 24°C...).




Á laugardaginn leigðum við hjól og fórum í einhvers konar sædýragarð, þar sáum við seli, fugla, fiska, krabba, froska og önnur vatna- og sjávardýr af ýmsu tagi. Mjög skemmtilegt. Svo hjóluðum við meira um eyjuna, í bæinn De Koog þar sem við kíktum í nokkrar búðir og fórum svo á ströndina. Bæði í De Koog og á ströndinni var talsvert margt fólk en það var þó vel hægt að vappa um ströndina. Sérstakt að sjá svona alltöðruvísi sand og svoleiðis. Á heimleiðinni fórum við í stórmarkað og keyptum í matinn, ég fékk mér líka einhverskonar sólhatt og baðskó því hitinn var að drepa mig. Svo fórum við heim og borðuðum. Um kvöldið hjóluðum við aftur á ströndina til þess að fylgjast með sólsetrinu, sátum svo á mannlausri ströndinni í myrkrinu með snakk og drykki. Eftir það tvístraðist hópurinn, annar helmingurinn fór í bæinn að skemmta sér að íslenskum sið, hinn hópurinn (með Íslendinginn innanborðs) fór heim að spjalla og snemma í háttinn því að hann ætlaði snemma á fætur daginn eftir og hjóla meira um eyjuna.

Snemma morguninn eftir fór reglusami hópurinn út, keypti kort af eyjunni og hjólaði norður eftir eyjunni og að áhugaverðum stöðum. Hitinn var næsta óbærilegur á köflum (ég auðvitað sólbrann þrátt fyrir að hafa atað mig allan út í sólolíu), þannig að við sóttum í leiðir í gegnum skógarþykkni frekar en annað, en þess var yfirleitt ekki kostur. Á leið okkar eftir ströndinni austan megin var mikið af kindum og nýfæddum lömbum, mjög krúttlegum. Þessi eyja er reyndar þekkt fyrir kindamergð, og gengur hálfpartinn undir nafninu „fjárey" þess vegna. Merkilegt nokk sá ég bara eina vindmyllu á eyjunni (óvenjulegt), en í staðinn komu gríðarstórir háhollenskir túlípanaakrar í öllum regnbogans litum (og fleiri litum til). Síðdegis, að sextíu funheitum kílometrum liðnum, fórum við svo heim að baka hollenskar pönnukökur (með eplum; nautahakki; osti; súkkulaðihöglum (hagelslag); sírópi; flórsykri ...). Um áttaleytið tókum við svo ferjuna heim og vorum komin til 's-Gravendeel um hálfellefu á sunnudagskvöld.

En, á föstudaginn litum við Jolanda líka aðeins á Amsterdam ... hvílík og önnur eins borg! Ha, hjálpi mér.

Má bjóða einhverjum sleikjó?


Ég fékk þvílíkt menningarsjokk að ég var næstum allan daginn að ná mér. Eins og þið getið fullvissað ykkur um með sjónrænum sönnunargögnum Flickr-rásinni var þarna ýmislegt misjafnt, ... þarna á ósköp venjulegum blómagötumarkaði var hægt að kaupa sér kannabisplöntur, kannabisfræ („Grow your own kannabis, starter kit“), kannabissleikjó, kannabisskífur, kannabiste, sveppate og ég veit ekki hvað og hvað; eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég sá líka nokkur málverk, en það má kannski segja að þessi ósköp hafi svolítið eyðilaggt stemninguna, sem og lyktin.

Það er gott að búa í Hollandi ... hm!

08 april 2007

Gleðilega páska!

Í gær brugðum við Jolanda og Íslandsvinurinn Christian okkur í smá „lautarferð“ til Trektar, með nesti og tilheyrandi. Ég tók auðvitað fullt af myndum (les: 171) og geta áhugasamir kíkt á Flickr-rásina mína til að berja þær augum (ég bendi reyndar óáhugasömum á að gera slíkt hið sama). Mér finnst frábært hvað gróðurinn er farinn að taka mikið við sér.

(En mikið vildi ég að hér yrði sett á algert reykingabann.)

05 april 2007

Ég ...

... er ekki (lengur) gefinn fyrir generatífa málfræði (»»)

... er 17,8 ára gamall að líffræðilegum aldri (»»)

... er 79% kristinn (ekki öll vitleysan eins) (»»)

... er í víðlesnu hérlendu dagblaði (sjá einnig í gagnavarpinu! 04.05.2007) í viðtali vegna erlends húsfólks, með flennistórri mynd og beinum tilvitnunum (en rangnefndur Heimir Freyr Vitarsson, af hlægilegum ástæðum) (»»)

... er farinn að kunna mjög vel við mig hérna.

28 maart 2007

Jæja, það er sannarlega tími til kominn að ég skrifi eitthvað á þessa bloggrás.

Ballið í Den Bosch var mjög áhugavert. Áhugavert segi ég, jú, skemmtilegt líka — svolítið spes. Við fórum þangað þrjú og vorum komin mjög tímanlega. Svona nærri klukkan níu var byrjað að dansa, fyrst allir saman í hóp með leiðsögn tveggja hæfileikaríkra dansara. Auðvitað gekk mér hræðilega að ná sporunum, handahreyfingunum, sveiflum, víxlingum, skiptingum og að halda svo þessu öllu í takt við tónlistina. Ég segi það og skrifa, mér er músík ekki í blóð borin. Ég sé bara engin tengsl milli tónlistar og þess að þurfa, vilja eða geta hreyft sig í „takt“ við hana. Ég get kannski hreyft hendur í „takt“ við einhverja dynki sem ég heyri, en ef ég á að fara að hreyfa fætur með, og ekki líta út eins og ég sé að einbeita mér að því að skrifa óundirbúna tímaritgerð ... það er bara ekki hægt. Jæja. Þessi partur gekk þó tiltölulega vel fyrir sig. Eftir langa, sveitta og þreytandi danslotu var örlítið skipt um gír og við látin dansa leiðbeiningarlaust. Það þótti mér svo skelfilegt að ég flúði í sófa hæfilega fjarri dansgólfinu. Gerði, ef ég man rétt, tvær tilraunir til þess að fara aftur inn á dansgólfið en ég forðaði mér þaðan örskömmu síðar, enda hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera.

En það er eitt, stór munur frá öllu því sem ég hef séð á Íslandi. Þarna var fólk aðallega á aldrinum þetta 18-25 ára, þó talsverður slatti af eldra fólki líka, 40-50 og stöku eldra ... en ekkert af þessu fólki var drukkið, né að drekka áfengi. Áfengi var þó selt þarna, meira að segja við vægu verði. Þetta finnst mér aðdáunarvert, en um leið hálfpartinn óskiljanlegt. Heilbrigð skemmtanamenning.

Héðan er annars allt gott að frétta, veðrið alveg yndislegt (það er reyndar spáð þrumum og eldingum á morgun) og ég hlakka mikið til þess að komast í frí og skoða mig betur um hérna. Mér gengur svona la-la með að ná málinu, ég skil meira og meira en mér finnst erfitt að tjá mig. Sumum finnst alveg óhemju fyndið að hlusta á framburðinn hjá mér, til dæmis hvernig ég skýt ósjálfrátt inn T í orð með SL, til dæmis sla 'kál' sem ég (og allir Íslendingar myndu) bera fram „sTla“. Ga maar sTlapen in je sTlaapkamer (þ.e. 'farðu bara að sofa í svefnherberginu þínu').

Jæja.

19 maart 2007

Vetrarhörkur

Jæja! Loksins þegar vorið hafði hafið innreið sína dundi hér á hið mesta illviðri í gær, með grenjandi rigningu og hagléljum á víxl, auk þrumna og flennistórra eldinga í um 600 metra fjarlægð. Í dag var veðrið talsvert dannaðra, og um hádegisbil hrutu hvorki meira né minna en hundslappir makindalega niður af himni. Ég spurði að sjálfsögðu hvað svona hundslappadrífa nefndist á hollensku en auðvitað eru hér engin sérstök orð um það höfð, bara blautur snjór, um 5 sentímetrar í þvermál, fallandi af himni! Jæja.

Mér þótti skemmtilegt að þetta skyldi endilega sjást í miðjum merkingafræðitíma, þar sem við vorum einmitt að ræða um ýmis fyrirbrigði sem ekki eru til orð yfir í tungumálum. Til dæmis er inni í myndinni að tungumál hafi ekki orð yfir nema 3 liti (sem eru þá svartur, hvítur og rauður, ekki fyrir tilviljun). Skemmtilegt íslenskt dæmi er liturinn „appelsínugulur“ sem engin ástæða var áðurfyrr að nefna og ekkert orð þá til yfir (enda sennilega lítið um appelsínur); þó var — og er — auðvitað hægt að lýsa honum sem „rauðgulum“.

Getur eitthvað verið fölrautt? Eða er eitthvað sem er fölrautt bara sjálfkrafa bleikt? Um þetta eru víst deildar meiningar. Ég þykist vel geta ímyndað mér að eitthvað væri fölrautt og að ég gæti haft slíkt orð um svoútlítandi hlut. (Með gamansamri einföldum gæti ég kannski lýst minni túlkun á þessum litum svona: þegar rauður er orðinn það ljós/fölur að hann er ekki lengur fallegur, þá nefnist hann bleikur.)

Jájá, héðan er allt ágætt að frétta. Ég á orðið í stórkostlegu basli með að tala ensku (sem er góðs viti!) því hollenskur orðaforði og hollensk málfræði treður sér inn í hartnær hverja setningu. Þetta er mér sérstaklega erfitt ef ég sé til dæmis tölur skrifaðar með arabískum tölustöfum, og tönnlaðist til dæmis sífellt á hollensku tölunum, sem og hikorðum og öðrum sjálfkrafa viðbragðsorðum í fyrirlestri í merkingarfræði í síðustu viku. Þetta fer bara versnandi, Guði sé lof.

Á næstunni þarf ég að komast langt með að berja saman tvær meðalstórar ritgerðir um efni sem ég hef varla hundsvit á, þreyta (heima)próf um þarnæstu helgi sem ég mun svo sannarlega skríða á (ef ég næ þá svo langt) enda hefur kennarinn þegar lýst því yfir að hann eigi sjálfur í basli með að leysa það innan gefinna tímamarka. Sennilega er setningafræði ekki mín deild eftir allt saman, en það er þá ágætt að vita (þó) það.

Hins vegar stendur líka til að fara á einhvers slags (víkinga)danshátíð á föstudagskvöld í Den Bosch þar sem einn húsfélaga minna starfar sem víkingur. Einnig kemur til greina að fara á tónleika með færeysku hljómsveitinni (eða segir maður núorðið bara með Týr? — þannig er það a.m.k. ábyggilega á færeysku) í Arnhem, en ég er svolítið smeykur við kannabisreykingarnar sem vafalaust sjást þar meira en ég sé nú þegar á götum úti.

Þar sem fólk hefur verið að spyrja um símanúmerið mitt endurtek ég það hér enn og aftur:

+31 648 217180
(hins vegar er meira vit í að nota Skype þar sem ég er á skrá, heimsinn)

Að lokum þetta: ég held að mér finnist ekki að Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands ættu að ganga í eina sæng. Eiginlega finnst mér það uggvænlegt ef ég hugsa til nokkurra kennaraháskólanemenda sem ég vann í námunda við á síðasta skólamisseri. Mér sýnist þeir vera í námi í allt öðrum tilgangi en gengur og gerist innan veggja Háskólans. (Hitt er svo annað mál að e.t.v. væri ég betur geymdur í Kennaraháskólanum.)

13 maart 2007

Vorboðar

Jæja, nú er náttúran svo sannarlega farin að taka við sér, krókusar spretta upp eins og gorkúlur (þær hef ég reyndar ekki séð hér), og páskaliljur og fífilsafbrigði, ásamt ýmsum öðru sem ég þekki ekki, og sólin skín eldheit eins og um sumar. Í gær var ég alveg að leka niður í Trekt vegna hita, búinn að troða því sem hægt var af spjörum ofan í skólatöskuna. Í morgun fengum við húsfólkið okkur morgunmat úti á eldhússsvölum og ég sat svo í stuttbuxum einum fata úti á herbergissvölunum að (reyna að) lesa. Og það er mars! Niðurlendingarnir virðast þó vera eitthvað kulvísari en ég því mér sýndist fólk ganga um kappklætt í götunni þó það væru rúmar 15°C gráður í forsælu, heiðskýrt og næsta vindlaust.

Til sönnunar því að vorið hefur hafið hér innreið sína er hér mynd af krókusum sem ég tók í Trekt í gær (sjá stærri gerðir og fleiri myndir á Flickr-rásinni):




Ný myndaalbúm á Flickr: Dordrecht (7) og Einn sólríkan vetrardag (6)

08 maart 2007

FlickrrrRRR!

Jájá, ég veit að ég hef sagt að ég vilji ekki nota Flickr en „það ótrúlega hefur gerst“! Ég er kominn með Flickr-rás:

http://www.flickr.com/photos/hfv/

Þarna má nú sjá myndir af tunglmyrkvanum 3. mars, séð af svölunum í Zeist. Ég mun í framtíðinni setja tilkynningu hér ef ég bæti myndum þarna inn.

(Flickr (flikker) er ekki gott nafn á myndaþjónustu ef maður talar (eða skilur) hollensku)

07 maart 2007

Niðurlenska þjóðarsálin

Hér er val í hávegum haft. Kannski er það líka svo á Íslandi, ég veit það ekki, og tengist sennilega almennu frjálslyndi, en mér finnst þetta einkenna hina niðurlensku þjóðarsál (ég hef svo gaman af alhæfingum). Augljóst er að sjálfsögðu það val að mega neyta fíkniefna sem yfirleitt eru bönnuð meðal siðaðra þjóða (en það kemur þó að öllum líkindum ekki til af þessari valhneigð heldur fremur af öfgafullum pólitískum stórslysum á afmörkuðu tímabili — það hefur þó að minnsta kosti ekki verið afturkallað) — nei, þetta sést víðar. Hér er mælst til þess að fólk aki með ljós á bifreiðum sínum yfir daginn, en þess er ekki krafist. Það er auðvitað víðar svo. Þegar kveikt er á tölvunum úti skóla er notandinn spurður:

Viltu ræsa upp í Windows- eða Linux-stýrikerfinu?

Mér krossbrá fyrst þegar á sá þetta og fyrsta hugsun: hvers vegna í ósköpunum skyldi mig langa til þess að ræsa upp í Linux? En þetta er í sjálfu sér gott val og heilbrigt. En þetta er dýrt val, það er hreint ekki hlaupið að því að halda tveimur kerfum á hverri tölvu rétt gangandi, en í ljósi valhneigðarinnar er þetta skiljanlegt. Að sama skapi eru aðrir möguleikar í boði með mikið notuð forrit, til dæmis er á öllum tölvum hægt að velja hvort maður vill heldur, Firefox eða Internet Explorer. Þeir virðast þó ekki ganga svo langt að bjóða Mac eða PC, en hver veit nema það leynist í einhverjum tölvustofum ...

06 maart 2007

Íslenska

Ég reyni svolítið að fylgjast með því sem er að gerast í íslenskum fjölmiðlum héðan úr Hollandi og ég vil hérmeð mótmæla þeirri misnotkun blaðamanna á íslensku máli sem felst í orðalaginu skjóta einhvern. Dæmi um þessa misnotkun er í eftirfarandi fréttagrein tekinni af www.mbl.is:

„Lögreglan í Kaupmannahöfn sleppti í dag úr haldi úrsmiðnum Michael Woollhead sem setið hefur í varðhaldi síðan 16. janúar. Mál Woollhead hefur vakið nokkra athygli í Danmörku en hann var handtekinn eftir að hann skaut tvo menn sem hugðust ræna verslun hans. Vefsíða Ekstrabladet segir frá þessu.“

Þetta merkir fyrir mér, eins og flestum sem á annað borð hafa íslensku að móðurmáli: úrsmiðurinn drap bófana. Seinna segir hins vegar:

„Woollhead rekur verslunina Vintageure við Kompagnistræti í Kaupmannahöfn, þann 16. janúar sl. ruddust inn í verslunina þrír menn, ættaðir frá A-Evrópu og höfðu í hyggju að ræna verslunina. Woollhead brást hinn versti við, dró upp skammbyssu og skaut á mennina. Einn mannanna fékk byssukúlu í handlegg, en annar í handlegg og bak.

Að skjóta einhvern og að skjóta Á einhvern er ekki það sama, þó að e.t.v. sé það svo á dönsku eða ensku.

Þetta er eins og litlu börnin segja þegar þau klaga félaga sína eftir illar viðureignir í frímínútum: „Hann kyrkti mig!“

04 maart 2007

Skyldurækni

Jæja, það hefur verið lítið um dýrðir á þessari gagnavarpsrás undanfarið og kannski tímabært að bæta ögn úr því.

Mér gafst svolítið svigrúm til þess að reyna að lesa mér til aukins skilnings afturábak í setningafræðibókinni, þ.e. kaflana sem við erum búin að lesa. Það hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi. Ég mun því sennilega bara verða að halda enn áfram að böðlast í gegnum kaflana með hundraðþúsund spurningar ... ég held sveimérþá að Noam Chomsky og félagar myndu fá að kenna á því ef galdrabrennur væru enn við lýði — mér finnast þessi fræði helst til galdrakennd, skvíssbæng- og töfralausnir við vandamálum. Svo var ég fyrir skemmstu að lesa að sú aðferð sem bókin ætlaði að beita við að gera grein fyrir setningum réði ekki við setningar á borð við: „Það hefur einhver étið hákarlinn“ og einfaldlega verður látið þar við sitja. Ég skil svo sem af hverju, en það er sama.

Núna á mánudaginn (á morgun) þarf ég fyrir klukkan 10:50 að vera búinn að ákveða um hvað ég ætla að skrifa lokaverkefni í merkingarfræðinámskeiðinu og sennilega verða bannsettu afturbeygðu fornöfnin fyrir valinu eina ferðina enn. Mig langar kannski að vinna það verkefni út frá tveimur greinum sem telja sig geta útskýrt afturbeygingu í íslensku (meðal annars) og sjá hvort ég geti ekki fundið eitthvað að þeim greinum og/eða betrumbætt eitthvað. Í annarri voru mjög svo undarlegir hlutir sagðir um íslensku sem þarf að skoða nánar, enda er höfundurinn ekki talandi á þetta ágæta mál.

Í gær lærði ég ekkert „ógagnlegt“, en af gagnlegu lærði ég að baka gulrótaköku sem ég fann uppskrift að á heimasíðu Námsgagnastofnunar (sjá stóra PDF-skrá hér, þar eru uppskriftir að ýmsum góðum réttum, kökum og þess háttar, sumum vafalaust mjög kunnuglegum). Ég get óhikandi mælt með þessari uppskrift. Ég sá líka tunglmyrkva í gærkvöldi á tímabilinu 22:30 til 0:20 (þegar hann náði hámarki), sem var stórskemmtilegt, enda blasir tunglið við mér þegar ég stend úti á svölum. Veðrið alveg óaðfinnanlegt og það var hæfileg kyrrð yfir hverfinu enda fara flestallir niðurlenskir stúdentar heim til sín um helgar.

Í vikunni (seinnipart) fer ég til 's-Gravendeel vegna veislu ömmu Jolöndu, þ.e. Omu Feestar í tilefni 88 ára afmælisins. Afmælið er um helgina en ég fer fyrr. Það skýrir því sambandsleysið ef einhver vill ná tali af mér; ég á óhægt með að vera í gagnavarpssambandi í 's-Gravendeel.

Það minnir mig á það að ég hef ekki gefið upp hérlent símanúmer mitt, en það er:

+31 6 48 21 71 80 (ef hringt er frá útlöndum)

Ég kýs heldur að fá send SMS en símhringingar, enda er alveg rándýrt að nota þessi skrapatól og merkilegt nokk dýrara hér. Þó sýnist mér það notað ámóta mikið.

Ég nenni ekki að setja inn myndir að sinni — þið sáuð tunglmyrkvann á Íslandi hvort eð var en hér náðust þó skemmtilegar myndir af honum.

27 februari 2007

Een weerbericht

Nu regent het.

21 februari 2007

Kjötkveðjuhátíð

Jæja. Í gær var hér haldið upp á sprengidaginn með kjötkveðjuhátíð, sums staðar með talsverðum látum. Ég fór ásamt Jolöndu og einum herbergisnágranna minna til 's-Hertogenbosch (Den Bosch) vegna þess að þar ku vera mest fjörið. Ferðin þangað gekk vel, strætisvagninn og lestin hvort um sig þéttsetin. Í lestinni voru ýmsir kynlegir kvistir, karlmenn í furðulegum klæðnaði, sötrandi bjór og með læti - nokkuð sem ég hef bara varla séð hér fyrr (þeir reyndust svo vera Bretar, sbr. athugasemdir hér fyrir neðan). Veðurspáin hafði verið þónokkuð slæm en í Den Bosch var mikil veðurblíða, hlýtt og bjart yfir öllu. Borgin er mjög lík öllum öðrum stöðum sem ég hef komið til hér, en þó mátti greina örlítil líkindi með byggingastíl sumra húsa í gamla austurhluta Reykjavíkur. Þarna búa um 105 þúsund manns svo stærðargráðan er einnig svipuð.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Á Íslandi er flest allt í tengslum við búninga ætlað börnum, en í Den Bosch var það alls ekki svo; mest voru þetta karlmenn í búningum, með bjór í annarri og sígarettu í hinni, stundum með eitt eða tvö börn, eða konur með það sama í höndunum en oftar einnig karl í eftirdragi. Þetta virtist fara fram án mikillar ölvunar en mér þótti samt skrítið að sjá hvernig fólkið hagaði sér að börnunum ásjáandi. Þarna voru markaðir, skrúðgöngur, mikið sungið og dansað. Í sambandi við markaðina finnst mér svolítið spes að maður má eiginlega ekki skoða neitt þar nema maður ætli sér að kaupa það. Ég verð alltaf svolítið forvitinn þegar ég sé til dæmis fiskborð, svona til þess að sjá hvað er á boðstólum og hvað það kostar, en „ég er bara að skoða“ er ekki vinsælt svar við spurningu um hvað megi bjóða mér. Í gær fékk ég til dæmis mjög kalt svar, nefnilega: „Óó. Skemmtilegt.“. Jæja, fleiri myndir:

Smelltu á myndina til að stækka hana
Smelltu á myndina til að stækka hana

Skemmtileg þessi hangandi tré sem eru yfirleitt nærri vötnum, það ku vel vera hægt að sveifla sér í þessum greinalengjum:

Smelltu á myndina til að stækka hana


Við skoðuðum líka skemmtanahaldið í Trekt, sem var talsvert öðruvísi, og ég gerðist svo frægur að fá mér flæmskar franskar með hollensku majónesi. Franskarnar voru ljúffengar af frönskum að vera, mjög gildar og þar af leiðandi mun „kjötmeiri“, og majónesið passaði mjög vel með.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Í Trekt og víðar er talsvert af gömlum Volvóum, ég sakna þess alltaf að vera ekki með myndavélina á mér en ég náði hér einum flottum:

Smelltu á myndina til að stækka hana

15 februari 2007

Rútína

Jæja. Nú er lífið hér í Niðurlöndum að komast í fastari skorður - mér liggur við að segja festast í rútínu, og það er bara ágætt. Mér hefur tekist ágætlega að aðlaga mig að ofurlítið breyttu starfsfyrirkomulagi frá því sem var í Háskólanum, þ.e. að fyrirlestrar séu aðeins á mánudögum (það er þó bara tilviljun, engin regla), en aðra daga sit ég í minni lesstofu (heima) og hamast við að lesa eitthvað sem ég engan veginn skil, en ég reyni. Tímarnir fara þó fram á ensku (ekki að minni beiðni) en lesefni er sumpart á hollensku, en ávallt eitthvað sambærilegt á ensku líka. Ég rembist þó við að tala hollensku við allar aðstæður - nema í tímum, það gera ekki einu sinni hollensku nemendurnir.

Ég verð þó þónokkuð fyrir því að fólk reyni að tala við mig ensku, sennilega af góðvild, en ég varð upp með mér þegar starfsmaður í verslun sagði við mig: „Þú ert alveg pottþétt frá Belgíu!“ - Belgar tala líka einhvers konar hollensku ...! En það er rétt, flæmskur framburður er mun auðveldari Íslendingum, líkari íslenskum framburði. Ég vona bara að starfsmaðurinn hafi ekki átt við mann úr frönskumælandi hluta Belgíu, þá er þetta móðgun!

En, tvennt þarf að leiðrétta í tengslum við nám.

Í fyrsta lagi eru samgöngur hér vissulega „alveg fríar (með nokkrum takmörkunum)“ fyrir nemendur, en aðeins hérlenda nemendur. Ég þarf að borga eins og aðrir. Það er því mjög heppilegt fyrir mig að ég þurfi bara að mæta á mánudögum „í skólann“, því ég hjóla þangað (það tekur um 30+ mínútur eða svo).

Í öðru lagi fá nemendur ekki að prenta og ljósrita ókeypis gegn framvísun sérstaks stúdentakorts, eins og mér hefur margsinnis verið sagt. Það er svolítið merkilegt hvernig hægt er að teygja og skrumskæla merkingu orðsins „ókeypis“. Ef eitthvað er ókeypis, þá þarf maður ekki að borga - eða sú er merking orðsins fyrir mér. Hér er sumsé frítt að ljósrita og prenta að því leyti að maður þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir að að ljósrita og prenta. Hins vegar þarf að greiða fyrir þann verknað að ljósrita og prenta. Með öðrum orðum: það þarf að greiða fyrir það að ljósrita og prenta. Það er ekki frítt á nokkurn hátt; ekkert frekar en það sé frítt að versla. Ef orðalagið „ókeypis“ væri almennt notað á þennan hátt mætti auglýsa: „Komdu til okkar og kauptu frítt inn!“ Það merkir þá 'þú greiðir ekkert fyrir það að kaupa af okkur; þú greiðir bara fyrir það sem þú kaupir'. Hm!

Jájá, ... veðrið hérna er ákaflega milt og fallegt. Það á samt ekki að vera svona, ekkert frekar en almenna snjóleysið á Íslandi. Hér eru flugur og köngulær sem eiga alls ekkert að vera á sveimi á þessum árstíma, ég vaknaði meira að segja við það að vespa sýndi annarri minna tveggja handa óþarflega mikinn áhuga einn morguninn, en ósjálfráðar handahreyfingar mínar hafa sennilega orkað „hafnandi“ á hana, og það hefur aftur fengið svo á vængjað greyið að það sprakk af harmi á skrifborði nærri beði mínum eigi alllöngu síðar - ekki séð vespur síðan.

Hér virðist vera haldið upp á valentínusardaginn - að minnsta kosti var 50% aukning á sendum SMS-símskeytum miðað við venjulega miðvikudaga og þónokkuð um karlmenn vappandi um með rósir. Ég veit ekki hvernig þetta er að verða á Íslandi, en mér heyrðist Óli Palli vera að reyna að hvetja til þess fremur en letja á Rás 2 í gær, m.a. með því að benda á að þetta er ekki bandarískur siður.

Jájá, ég hef semsagt ekkert að segja.

09 februari 2007

Vissir þú ... (1)

að Hollendingar skræla kartöflur áður en þeir sjóða þær (með ærinni fyrirhöfn að sjálfsögðu).

Ég er búinn að spyrjast fyrir um þetta og enginn vill gangast við því að sjóða kartöflur með hýðinu. Það er hreint ekki auðvelt að fylgjast með fólkinu hér í húsinu skræla kartöflurnar sínar - það er eilífðarverk, og það fer heilmikið af kartöflunum til spillis við hráskrælingu (eins og lesendur geta fullvissað sig um). Það er sök sér þegar siðir í framandi löndum eru öðruvísi og kannski eilítið betri, en ...

06 februari 2007

Herbergið mitt

Jæja! Nú hef ég loksins fengið herbergið mitt afhent. Þar sem ég get ekki sýnt myndir af því eins og er ætla ég að reyna að lýsa því fyrir ykkur nokkuð nákvæmlega - en þó ekki alveg af þórbergslegri nákvæmni:

Fyrst blasir við brún hurð af venjulegum toga, látlaust stálhandfang og venjulegt skráargat fyrir tiltölulega nettan lykil sem snúið er til hægri til þess að komast inn (hafi viðkomandi á annað borð lykil að herberginu). Hurðin opnast inn á við. Á miðju loftinu er svo venjulegt ljós með flötum kringlóttum diskaskerm fyrir. Herbergið er ágætlega rúmgott, trúlega um 20 fermetrar á að giska. Gólfefnið er einhvers konar móðins dúkur, gráskellótur, sennilega þrílitur (ljósgrátt, grátt og dökkgrátt, þó aðallega grátt [Jolanda segir gólfið þó vera blátt - og hurðina grábrúna að utanverðu ... [gólfið er grátt, trúið mér]). Veggirnir eru hvítmálaðir og ofarlega á hvorri hlið hefur spýta (um 5 sentímetrar á breidd) verið skrúfuð föst á vegginn, en allir eru veggirnir þykksteyptir. Þegar gengið er inn í herbergið er vaskur á vinstri hönd, í um (rúmlega) 2ja metra fjarlægð frá hurðinni, en út að vegg hinum megin (hægra megin) er um hálfur metri. Lofthæð er venjuleg, trúlega um tveir og hálfur metri. Fyrir ofan vaskinn er eikarhilla af hæfilegri stærð áföst veggnum og þar fyrir ofan spegill jafnbreiður hillunni, festur upp með stállituðum kanthöldum. Spegillinn er lítillega brákaður í neðra vinstra horninu. Við hliðina á þessu þrennu stendur lampi: standurinn úr stáli en skermurinn (sem er opinn að ofan verðu, kúptur) er úr plasti. Þess ber að geta að lampar, ljós, skápur, hillur, borð, stólar og rúm er allt úr IKEA, en það fer reyndar ekki framhjá neinum. Við hliðina á lampanum stendur ísskápur, lítill. Hann er þeirrar ónáttúru að geta ekki fryst matvæli en virðist að öðru leyti ágætur og sennilega nýr eins og hér um bil allt í herberginu nema spegillinn og rimlagluggatjöldin (brúnleit, málmkennd) sem blasa við, andspænis dyrunum. Ofan á ísskápnum er örbylgjuofn (sem verður sennilega ekki notaður), og þar ofaná stendur ágæt kaffivél. Við hliðina á ísskápnum er fataskápur, rúmlega helmingi hærri en ísskápurinn, úr ljósum viði eða viðarlíki. Á dyrum skápsins eru einnig hálf-ógagnsæjar (eftirgefanlegar) plastplötur. Ég lýsi ekki innihaldi fataskápsins nánar en svo að í honum eru föt. Við hliðina á fataskápnum er venjulegt einbreitt rúm - langsum eftir herberginu - , e.t.v. í breiðari kantinum með bláu laki og skræpóttri sæng ofaná (gult, appelsínugult, rauðgult, svart), koddinn er með beinhvítu koddaveri. Rúmið er fremur hart en er spánnýtt eins og annað og alveg ágætt álegu. Fyrir „ofan“ rúmið (eða við hliðina á því, eftir smekk) stendur lítið náttborð úr sama ljósa viðinum eða viðarlíkinu og er á fataskápnum (og öðrum skápum). Ofan á náttborðinu er tiltölulega stór lítill lampi, þ.e.a.s. talsvert hár, með hvítum en (hvít)munstruðum tauskerm, styrktum járngrind að innaverðu, fóturinn er svartur. Við hlið rúmsins, þ.e. á veggnum, er einhvers konar hvítur skjöldur eða eiginlega „þil“ (tvö), sennilega svo að ég krókni ekki úr kulda með steinsteyptan vegg mér við hlið. Þvínæst er ofn, tiltölulega venjulegur að sjá. Nú erum við komin út að glugga en hann er talsvert stór og þekur nær alla þá hlið - en græn spjöld/þil eins að lit og inngangshurðin að utan verðu fyrir neðan. Fyrir glugganum hanga læknisgræn gluggatjöld, ágæt en mættu gjarnan vera rauð. Í nokkru samræmi við staðsetningu inngangshurðarðinnar í herbergið er á þessum gluggavegg önnur hurð, hvít, út á svalir. Svalirnar eru steyptar, með góðu steyptu handriði, allmjög rúmgóðar, og útsýni af þeim ágætt. Þær snúa í suðvestur ef mér skjátlast ekki. Engin hæð er fyrir ofan mínar svalir, svo birtu nýt ég í meira mæli en gengur hér og gerist. Í horninu andspænis rúminu er enneinn lampi, nákvæmlega eins og sá sem stendur við vaskinn. Þvínæst er skrifborð, alveg eins og það sem ég var með í mínum fyrri heimkynnum en þó ekki með glerplötu. Það er úr viðarlíki. Við skrifborðið stendur dökkblár skrifborðsstóll, góður. Ofan á skrifborðinu er lampi (alveg við hliðina á gólflampanum), ágætur en kannski helst til bjartur. Hann er stálgrár að lit, fremur gamaldags í hönnun, og hringfóturinn sem liggur á borðinu er svartur og virðist geta þjónað hlutverki grunnrar skálar fyrir strokleður og annað í þeim dúr. Við hliðina á lampanum er gagnavarpssími (svartur, þunnur en fremur stór) sem ég nota einnig sem gagnavarpsbeini fyrir fartölvuna en að öðru leyti veit ég ekki hvernig síminn virkar og mun ekki reyna að komast að því. Á skrifborðinu er einnig pennavasi (tveir, stálgráir) og blaða- og möppuhirsla í sama lit með einhvers konar skúffum. Fyrir ofan skrifborðið er segultafla með seglum, sennilega fyrir myndir eða blöð, grátt að lit en seglarnir eru hvítir og svartir, fjórir af hvorum lit. Við hliðina á skrifborðinu er síðan loksins bókaskápur en því miður fylgdu svo mörg búsáhöld að hann stendur fullur af þeim og næstum ekkert pláss fyrir bækur. Fjöldi búsáhaldanna kom mér mjög á óvart því fyrir er í húsinu næstum allt sem þarf til fagmannlegrar eldamennsku, í sameiginlega eldhúsinu. Herberginu mínu fylgdi hins vegar - sérstaklega: 8 venjulegir diskar, 8 smærri diskar, 8 djúpir diskar, 8 hnífar, 8 gafflar, 8 matskeiðar, 8 teskeiðar, tvær steikarpönnur, þrír pottar, ostaskeri, eplaskeri, tveir dósaopnarar!, tappatogari og upptakari, sex rauðvínsglös, sex bjórglös, átta vatnsglös, átta kaffibollar, fimm tegundir af beittum hnífum, tvö pör (!) af öllu sem viðkemur sósugerð og spöðum af ýmsum stærðum og gerðum, þar með talið ausum og sleifum, þrenn skæri, klósettpappír til áramóta, kústur og fægiskúffa, og allskonar annað drasl sem nú þegar er til í húsinu - allt spánnýtt - en í ofanálag er eitthvað eldra leirtau sem fylgir líka sem ég nenni ekki að telja. Ég hlýt að líta svo á að skiptinemum sé ekki ætlað að blanda geði við niðurlensku nemana, og eigi að vera sér með allt sitt dót í sínu herbergi ...! Ég ætla að reyna að pakka mestöllu þessu drasli niður því þetta þvælist bara fyrir mér. Jæja! Svo er stóll við hliðina á skápnum, með rauðu áklæði, í harðari kantinum (frábær til lestrar, engin hætta á að sofna óvart í honum), tiltölulega „djúpur“ hvað „lengd“ (dýpt) varðar, á stálfótum. Lítið borð er við stólinn úr - sýnist mér - eik, hæfilega stórt fyrir einn til tvo (fjóra ef þeir eru mjög sáttir). Straubretti stendur við hliðina á stólnum og þvottagrind (upp við vegg) þar við hliðina. Loks fatahengi skrúfað á vegginn, fjórir stálhnúðar á eikarplötu. Dyrunum loka ég nú og blasir þá við hvítmáluð hurð séð að innanverðu og venjuleg hvít stofnanaklukka þar fyrir ofan.

05 februari 2007

Skemmtilegheit

Jæja, já. Föstudagurinn gekk ... svo-na, ágætlega. Ég gekk á milli upplýsingaborða til þess að fá upplýsingar almennt um skólann, aðstöðu og aðgengi, mögulega íþróttaiðkun (sem mér leist skelfilega á), yfirlit yfir helstu djömm og ferðalög skipulögð af Erasmus-netinu, og loks um klukkustundarlöng kynning á hinu og þessu, margt fróðlegt. Þarna skráði ég mig líka í fyrrnefnda „félagslega áttun“ fyrir daginn eftir, þar sem meðal annars átti að fara upp í dómkirkjuturninn. Hér eru myndir þaðan (ég biðst velvirðingar á því ef einhverjar myndir snúa ekki rétt- ég lagfæri það fljótlega).

Eins og venjulega er hægt að smella á myndirnar til að fá þær stærri.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Það var alveg ótrúlegt hvussu þröngur hringstiginn var - hreint ekki fyrir digurt fólk, og ekki fyrir fólk sem fær glatt innilokunarkennd:
Smelltu á myndina til að stækka hana

Það skemmtilega við þennan stiga var þó að hann var eiginlega bara ætlaður heldra fólki; annað fólk sem þurfti einhverra hluta vegna að komast á „fyrstu hæð“ turnsins átti (í gamla daga) að fara upp stiga sem var utan á turninum, 25 metra langur og auðvitað stórhættulegur (turninn sjálfur er þó 112 metrar á hæð). Á fyrstu hæð voru gjarnan haldnar veislur af ýmsu tagi (nú eru til dæmis stundum brúðkaup haldin þar), og til þessa hættulega stiga er rakið orðatiltækið að einhver sé ladderzat þ.e. 'stigadrukkinn', og það aftur merkir að maður sé svo drukkinn að maður standi ekki í lappirnar ... fólk í því ástandi gat sumsé ekki komist niður þennan stiga, oft með „skrautlegum“ afleiðingum.

Á sunnudaginn hjóluðum við Jolanda svo eitthvað um og útfyrir Zeist, hér má til dæmis sjá ráðhúsið sem ég á erindi í á morgun:
Smelltu á myndina til að stækka hana

Rétt fyrir utan Zeist voru barasta hreindýr á beit, og viðvörunarskilti á veginum um að hreindýr gætu verið þar á hlaupum næstu 2 km, skondið:

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Fleiri myndir úr nágrenninu, hér er merkilegur píramídi sem var hlaðinn í kringum aldamótin 1800 - mjög gróinn, ég held að hann sé að mestu leyti úr sandi, og svo turn ofaná til þess að sjá nú í allar áttir (óvini?):
Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Á næstu mynd er „fjall“, ef vel er að gáð, ábyggilega svona hálfur Kögunarhóll eða svo:
Smelltu á myndina til að stækka hana

Loks mynd á leiðinni heim til Zeist, skemmtilegt samspil birtu og myrkurs, tré, vatn og engi:

Smelltu á myndina til að stækka hana

Í dag var ég svo í mínum fyrstu tímum í skólanum - það var hreint ekki auðvelt, svo ekki sé meira sagt. Herbergislyklana mína fæ ég loksins á morgun.

31 januari 2007

Alvara lífsins

Nú líður senn að því að skólinn byrji og mér sýnist að vel eigi að taka á móti okkur Erasmus-nemunum. Hér er það helsta sem virðist bíða mín á næstunni.*

*) Þetta er samsuða úr ýmsu sem ég hef fengið sent undanfarið og er því að mestu leyti skrásett fyrir sjálfan mig (þó að hinn innbyggði „„höfundur“ „textans““ hagi því svo að rödd„in“ í „textanum“ ávarpi (að mestu leyti) hinn ytri lesanda).

Stúdentakort
Til þess að ég geti skráð mig í námskeið (nú eiginlega í fimmta sinn), sannað hver ég er, komist lítt hindraður um húsakynni Trektarháskóla og nýtt mér afsláttarkosti fyrir stúdenta, þarf ég stúdentakort. Þetta kort næ ég í næstkomandi föstudag, 2. febrúar, í Almennri áttun (e. General orientation), eður almennri kynningu aðstæðna. Þar mun tengiliður minn, í eigin persónu, afhenda mér þessa gersemi.

Upplýsingamarkaður
Sama dag, föstudaginn 2. febrúar, er þess æskt að alþjóðlegir nemendur mæti í svonefnt Menntabúr (Educatorium) á Leuvenlaan 17 á milli klukkan 13:00 – 14:00, á efri hæð. Þar fræðist ég um tryggingamál, íþrótta- og menningariðkun, Erasmus-stúdentanetið og þar fæ ég einnig miða á félagslega fyrirkynningu.

Almenn áttun
Frá klukkan 14:00-15:30 verða alþjóðlegir nemendur að vera viðstaddir fyrirkynningu á þjónustum og kostum Trektarháskóla, auk þess sem þeir fá upplýsingar um landvistarleyfi, tryggingar og önnur hagnýt mál. Þetta er einnig í Menntabúrinu, í fyrirlestrarsalnum Leiksviðinu (Theatron).

Deildaráttun
Mér hafa ekki borist upplýsingar um hvar eða hvenær deildaráttun mun fara fram en hún er ætluð alþjóðlegum skiptinemum og meistaranemum. Það mun koma á daginn síðar.

Félagsleg fyrirkynning
Laugardaginn 3. febrúar fara allir skipti- og B-nemar (BA/BS) með Erasmus-stúdentanetsleiðsagnarmanninum sínum og öðrum samnemendum í bæjarreisu síðdegis frá dómkirkjutorginu í borgarmiðju Trektar.* Þar mun ég hafa viðkomu á hagnýtum og áhugaverðum stöðum í Trekt, eiga þátt í skemmtilegri iðju og fá mér drykk í Illviðrisklúbbnum (Club Storm). Kvöldmatur innifalinn.

*) Þessi sama hringlandi með hugtökin „borg“ og „bær“ var í frumtextanum.

Alþjóðleg teiti
Laugardagskvöld og sumpart aðfaranótt sunnudags (þ.e. frá klukkan 22:00-03:00) verður alþjóðleg teiti fyrir alþjóðlega nemendur sem skipulagt er af Erasmus-stúdentanetinu. Hvar þessi teiti verður kemur á daginn síðar.

(Vonandi fæ ég líka herbergislykil og annað í þeim dúr afhent 1. eða 2. febrúar. Hvað herbergismálin áhrærir hefur ýmiss konar vesen komið upp vegna herbergisins sem enn sér ekki fyrir endann á. Þar sem málið er flókið, hringavitlaust og leiðinlegt mun ég aðspurður humma það fram af mér. Ég hef nú loksins lært þá lexíu að maður abbast ekki upp á skrifræðið.)


Stundataflan mín

IVT-SEMANTIC STRUCTURES:
mánudaga kl. 11:00-14:00
próf.dr. H. E. de Swart

Kromme Nieuwegracht 80 (st. 131)
3512 HM, Utrecht
sími: 253 9091.



ED-VAN GB NAAR MINIMALISME:
mánudaga kl. 15:15-18:15
próf. dr. N. F. M. Corver

Drift 21 (st. 104)
3512 BR, Utrecht
sími: 253 6180.

29 januari 2007

Skyr

Mér var alltaf kennt að þýða skyr sem kwark þegar ég vildi tjá mig um þann mat á sumum öðrum málum (les: þýsku og sennilega líka dönsku), og þar sem ég held mikið upp á skyr er mikilvægt að fá botn í þann leyndardóm. Í minni viðkomu á flugvellinum í Kaupmannahöfn keypti ég mér eitthvað sem nefndist þar yoghurt og taldi ég þar jógúrt á ferðinni. Bragðið kom hins vegar á óvart - þetta var alls ekkert jógúrt heldur eiginlega frekar bragðbætt súrmjólk. Hér í Niðurlöndum varð ég því forvitinn að prófa bæði kwark og yoghurt þegar ég sá það í matvöruverslun. Viti menn! Yoghurt-ið bragðast hér einnig eins og bragðbætt súrmjólk.

Kwark er hins vegar til vandræða. Það er eiginlega líkara jógúrt nema kannski talsvert þykkara, e.t.v. ögn í ætt við þykkmjólk. Til þess að fá mér jógúrt að íslenskum hætti yrði ég því að kaupa bæði kwark og yoghurt og blanda því tvennu saman ... Svo er hér enn eitt afbrigðið sem er vla og er mikið haft í eftirmat (hér er yfirleitt alltaf einhver sætur desert eftir kvöldmat), en það er dísætt og álíka þykkt og kwark, kannski mætti kalla það einhvers konar jógúrt-búðing.

Hér er mynd af vlai (framborið: fvLa [L-ið frb. eins „þykkt“ og íslenskri tungu er best unnt]) til skrauts úr gagnavarpinu. Áhugasamir (les: Gunnar) geta bent á myndina um stund til þess að sjá á hvaða gagnavarpsrás hana er að finna.

Þetta er vla með súkkulaðibragði og bragðast álíka væmið og það lítur út fyrir að vera - en er skrambi gott:

Hýst á einni gagnavarpsrása Flickrs, sjá: http://static.flickr.com/48/182639046_3adaad0c5e_m.jpg

28 januari 2007

Af ýmsu

Jæja, nú um helgina hef ég verið í heimabæ Jolöndu, 's-Gravendeel. Honum hafði alltaf verið lýst fyrir mér sem agnarsmáum (þó er hann næstum tvöfalt stærri en Selfoss miðað við höfðatölu, en tæpast flatarmál) en mér finnst hann bara vel stór. Mér þótti skemmtilegt, til samanburðar, að koma í dag í enn minni bæ, Strijensas, en þar er móðir Jolöndu uppalin. Þar búa um 500 hræður en þó virkar hann einhvern veginn stærri en Eyrarbakki, sennilega vegna þess hversu þéttbýlt allt er hér. Mér virtist þó landsvæði þarna nógt og ástæðulaust að búa svona þétt.

Svæðið þarna í kring var merkilegt, þarna er til að mynda skógur með trjám sem ekki var plantað sérstaklega svo vitað sé (ef ég hef skilið samferðamenn mína rétt) - en það er ekkert sérstaklega algengt hér. Svo mikið náttúrulegur á þessi skógur að vera að ekki er hreyft við trjánum í honum, jafnvel þó að þau séu skekin hressilega af vindum, eins og sést til dæmis á þessum myndum (myndir er hægt að stækka núna með því að ýta á þær og ýta svo aftur á örina 'til baka' / fara í Back):

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Á næstu mynd sést eitthvert fragtskip sigla - en mér finnst það alltaf svolítið merkileg sjón að sjá skip og ferjur sigla fjarri sjó. Annað markvert á þessari mynd eru grasstráin í forgrunni, sem finnast hér mjög víða og eru í miklu uppáhaldi hjá mér, þessi eru þó í minni kantinum:

Smelltu á myndina til að stækka hana

Þarna sá ég líka mjög falleg tré í haustlitunum, að ég held. Greinarnar voru eldrauðar, eins og þær hefðu verið úðaðar rauðar með úðabrúsa:

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Hér í 's-Gravendeel er býsna rólegt, ekki ósvipað og á Selfossi. Ég minnist þess þó ekki að hafa mætt unglingum á Selfossi með kannabisský á hælunum, en þeirrar gæfu varð ég aðnjótandi hér á laugardagskvöld, sirkabát á þessum slóðum (í miðbænum):

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Af eiturefnum er það að segja að mér finnast Hollendingar reykja miklum mun meira en ég hef vanist á Íslandi, hlutföll eru áreiðanlega einhvers staðar í kringum 40%. Svo há prósenta er til mikils ama hér, þar sem svona margir búa, og svo þétt. Mér finnst ég alltaf standa í miðju reykskýi. Hins vegar hef ég aldrei nokkurn tíma séð drukkinn mann hér, og aðeins einu sinni séð mann yfirhöfuð með áfengi á vappi, eins og maður sér talsvert í Reykjavík. Aftur á móti þykir mér stóreinkennilegt að í næsta nágrenni við skólabygginguna mína hef ég fundið hvorki meira né minna en þrjú eiturlyfjakaffihús, sem er svona sirka fjórum eiturlyfjakaffihúsum of mikið. Illu heilli standa dyrnar galopnar, svo gangandi vegfarandur geti nú örugglega notið þess líka ... Ég vildi bara hraða mér í burtu, svo engar myndir þaðan.

Af heilbrigðu líferni er það að segja að í gær hjóluðum við Jolanda hérna eitthvert út í buskann eða þar til við komum að einhvers konar litlum húsdýragarði í grennd við fallegt útivistarsvæði með árabátum og ýmsu. Mér til mikillar undrunar var frítt inn en ef maður vildi gefa dýrunum var hægt að fá dollur með maísbaunum (handa fiðurfé) og einhverju fæðubótarefnismjöli (fyrir öll önnur dýr) fyrir um 50 krónur. Þarna voru geitur, villisvín og venjuleg svín, kanínur, kýr, páfuglar, hænur og einhver önnur dýr; einnig innanhúss: nagrísir, stökkmýs, skrítnar mýs og eitthvað fleira þess háttar sem ég kann ekki að nefna. Brúnu hænurnar eru svolítið líkar landnámshænunni, er það ekki?

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Smelltu á myndina til að stækka hana

Krunk, krunk, krá ... í lokin læt ég fylgja mynd af kráku sem mér þykja mjög skemmtilegar, en þær eru hér hálfpartinn eins og í stað krumma (þó að þeir sjáist hér reyndar líka):

Smelltu á myndina til að stækka hana

Einhvern tíma á morgun bíður mín svo 2ja tíma ferðalag með að minnsta kosti tveimur strætisvögnum og tveimur lestum aftur heim til Zeist. Tot ziens.