Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir gjafirnar og kortin.

Út um stofugluggann í 's-Gravendeel (Holland), á Þorláksmessu
Jólin hér voru nokkuð á aðra lund en heima, sem von var. 24. desember fór af stað eins og hver annar dagur. Eftir hádegið undirbjuggum við Jolanda jólaeftirréttinn, eins konar líkjörs-möndlutertu með „löngum fingrum“, rjóma og jarðarberjum. Hún þurfti svo að bíða í átta tíma í kæli. En ég gekk vitaskuld með sama gamla jólagjafafiðringinn síðan úr barnæsku, sem gerði ekki annað en að ágerast eftir því sem á leið daginn. Um kl. 18 var hann orðinn svo mikill að við Jolanda tókum okkur til og skreyttum pakkana aðeins meira --- úr því að Niðurlendingar eru svona þolinmóðir að bíða með gjafirnar til 25. des er þó alltént skárra að pakka a.m.k. inn þann 24. og káfa aðeins á þeim. Kortér fyrir níu á aðfangadagskvöld fórum við öll í jóla(aftan)messu, kirkjuna opnaði þó ekki fyrr kl. 21:00 og messuna byrjaði kl. 21:30. Presturinn bauð þá velkomna sem þangað voru komnir, og þá sem heima sátu, svo vafalaust hefur messunni verið útvarpað. Messan var aðallega söngur en presturinn laumaði inn nokkrum orðum annað veifið. Predikunin var sérstök og í styttri kantinum. Presturinn líkti sambandi manns við Guð við stefnumót og talaði m.a. um stefnumótaþætti í sjónvarpinu (t.d. Bóndi leitar konu / Bóndakona leitar karls, sem eru skondnir þættir) --- fyrirsögn messunnar var: Jóladeit? Kammó og átti áreiðanlega að höfða til yngri kynslóðarinnar.

Jólakötturinn Kawa í Zeist (Utrecht)
Jólamorgunn hófst með myndarlegum morgunverði með fínu brauði og ýmsu áleggi, meðal annars sneiddum jólaosti sem var í laginu eins og jólatré (Osta- og smjörsölunni mætti benda á þá hugmynd), jógúrt með niðursoðnum ávöxtum útí, og svo jólabrauð (sætt brauð með rúsínum og einhverju fleiru, en möndlumassaklessa í miðjunni). Ég fékk ekki að vera í mínu fínasta (og því dauðhræddur um að jólakötturinn þefaði mig uppi og réðist til atlögu) en þrjóskaðist þó til að vera í skyrtu og með bindi, og í flauelisjakka sem ég keypti nokkrum dögum áður (svona til öryggis). Eftir hádegið kom amma Nootenboom og frændi og frænka Jolöndu í heimsókn og voru fram eftir degi. Um kl. hálfsjö var jólamaturinn: rækjuréttur með (blað?)salati, aspas, heimagerðri sósu með sýrðum rjóma og fleiru í forrétt. Mjög gott. Svo nautasteik með allskyns meðlæti, svo sem soðnum kartöflum, kartöflukrókett, baunum, soðnu hvítsalati, (rauðum) perum gegnsósa í ávaxtasafa og ýmsu og perusíder til að drekka með. Mjög, mjög gott. Eftir þetta byrjuðum við að opna gjafirnar og átum svo eftirréttinn sem við Jolanda höfðum útbúið daginn áður.(Uppskriftina að honum mætti alveg setja hérna í karlmannlega uppskriftabálkinn til hliðar.) Annar í jólum byrjaði eins, með svipuðum jólamorgunverði og daginn áður. Ekkert varð úr heimsókn til ömmu Feestar og frænda og frænku eins og til stóð vegna þess að einhver veira gekk á elliheimilinu sem amma Feest dvelur á (hefur þó látið hana í friði, 7-9-13). Við komumst vonandi á nýárinu í staðinn.