föstudagur, apríl 27, 2012

Kattahland

Nokkrir hlutir hafa ávallt vakið furðu mína þrátt fyrir að flokkast sem endurtekið efni. Eitt af þessu er lyktin sem sest í handarkrikana á bolum úr bómull eða gerviefnablöndum. Hvers vegna lyktar þetta alltaf eins og að köttur hafi komið við og migið á þvottinn og miðað sérstaklega á handarkrikana?

Svo var það fyrir tæpum áratug síðan, þegar ég var ennþá skemmtileg og nennti að fara á barinn, að ég velti því fyrir mér eftir hverja einustu helgi hvaða gráa drulla var alltaf á skónum mínum. Þetta var hin svokallaða ,,Sirkusleðja"; Ljósgrá og þaulsetin. Ég lét því miður aldrei verða af því að fara með sýni í rannsókn. Eitthvað segir manni samt að þetta hafi verið blanda af áfengi, slabbi, sígarettuösku og hlandi. Mig grunar það allaveganna.

Æ, ef allir hefðu jafn mikinn tíma og ég. Þá væri internetið þungt af áhugaverðum frásögnum og vangaveltum um mikilvæga hluti.

mánudagur, febrúar 27, 2012

Bæjarins Bezta útsýni

Í haust snérist lukkuhjólið mér í hag og ég hreppti einstaklega huggulega skrifstofu. Hún er panelklædd, meðleigjendurnir eru jafn huggulegir og skrifstofan sjálf og rúsínan í pylsuendanum er sú að við erum með útsýni yfir Bæjarins Beztu. Fátt veitir mér jafn mikla gleði og að góna á fólk borða pulsur. Þarna koma leigubílstjórar, fyllibyttur, sjúkraflutningamenn og löggur. Suma daga má sjá Egil Helgason og Kára litla á vappi. Svo koma gæsir og akfeitir þrestir og liggja þarna á beit.
Mér verður varla neitt úr verki með þessa flugeldasýningu fyrir utan gluggann hjá mér.

Núna er til dæmis maður að bíða í röð og hann lítur út fyrir að vera í spreng. Viðskiptavinirnir sem eru á undan honum í röðinni eru ekkert að flýta sér og standa brosandi og skrafa við pylsusalann í rauðu peysunni.
Þarna koma túristar. Á eftir þeim, feitlagin miðaldra kona. Þetta er jafn dáleiðandi og að horfa á sjó í vondu veðri eða dönsku konuna á RÚV baka brauð.

En að allri rómantík slepptri og til að koma í veg fyrir alla öfund þá má ég ekki gleyma að minnast á hinn stórkostlega leynda galla skrifstofunnar. Hann er lúmskur og yfirþyrmandi í senn. Utan á húsinu liggur nefnilega loftræstirör. Þar inni er mótor af einhverju tagi og suma daga slæst hann utan í málminn sem gerir það að verkum að herbergið sem ég sit í nötrar. Eftir nokkra klukkutíma af þessum titringi verð ég að fara heim og hvíla mig. Þá líður mér alltaf eins og að ég sé að koma af vakt af togaranum og þjáist af sjóriðu í dágóða stund á eftir.

Ískr

Fingurnir á mér eru orðnir ryðgaðir af skrifleti. Liðamótin ískra af áreynslu.

Ef einhver kærir sig um útskýringu á óvæntu innliti mínu hér er hún í stuttu máli svona: Ég hef mikinn áhuga á því að koma mér upp þolinmæði til þess að orða hugsanir mínar og skrifa þær niður. Kannski er blogg góð leið til þess, kannski ekki. Þetta er þó mun betra en að gera ekki neitt. Glob forði mér einnig frá því að handskrifa margar síður í dagbók sem ég mun ekki vilja lesa aftur. Bók sem ég mun síðan ekki henda vegna þess að það er ekki eitthvað sem ég geri. Muna að hætta að kaupa fallegar stílabækur.

Vikan sem hefst um leið og ég vakna á morgun verður strembin. Fyrst þarf ég auðvitað að skipa mér í rúmið. Verst hvað ég er slappur uppalandi.

Sambýlismenschenið er frekar lélegur aðstoðarmaður þegar kemur að svefnvenjum. Saman húkum við fyrir framan sjónvarpið og eldumst. Hann á aldrei eftir að reka mig í rúmið.

Af hverju ákvað ég að fara í prufutíma í jóga á morgun? Af því að þú ert áhrifagjarnt linmenni. Svona spurningar koma einmitt bara frá áhrifagjörnum linmennum.

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Evrópa

Ég hef verið fengin til að myndskreyta ýmislegt og þessa dagana er það Evrópusambandið. Önnur myndin er af hressum evrópusinnum og hin af Evrógrýlunni. Mín eigin skoðun er á undanhaldi. Þar sem ég á hvorki kvóta, kindur, pening eða foss þá hef ég ekki margra hagsmuna að gæta. ,,Hvað með evrópuherinn?!" æpir þú. ,,Hvaða helvítis evrópuher?" svara ég. Björn Bjarnason langar í íslenskan her, Róbert Marshall langar í leyniþjónustu, er það eitthvað skárra, ekki eru þeir í Evrópusambandinu.

Annars er nú ekki hægt að ræða neitt á þessu landi. Ég ætla að senda aðstandendum íslensku orðabókarinnar bréf og segja þeim að taka út orðið málefnalegt og öll orð sem tengjast því. Við þurfum ekki á þeim að halda.
eh... já en hér eru teikningar.

föstudagur, apríl 23, 2010

Ee..heyrðö migh núhh!

ÉG VIL EKKI FARA AÐ SOFA.

Fokkk ég verð að aflétta feisbúkk banninu. Hér sit ég vinalaus og blogga.

Fyrst ég er að þessu á annað borð.


Ég var að teikna fyrir verkefni sem ég fékk. Mér fannst þessi eitthvað svo vel heppnuð. Svo verð ég að fara að blogga á Miðjunni því þar eru systir mín og ég með blogg. Mér finnst bara eitthvað svo erfitt við það að blogga þegar ég veit að það eru einhverjar líkur á því að fólk lesi það. Performance Anxiety Disorder eða PAD. Á íslensku heitir þetta víst ,, Að reyna að sofa hjá þegar maður er of fullur." og á aðallega við um drengi.
Gleðilegt sumar.

Sumardagur í frysti.

Í imbanum er uppvakningur að brenna. Ég nennti ekki að glápa á myndina sem RÚV ákvað að væri sniðugt að sýna á Sumardaginn fyrsta. Sem betur fer var ég svo heppin að renna öðru auganu í áttina að sjónvarpinu í þann mund sem aðalógeðið var að hefjast. Frekar næs.

Ákveðin tegund af bíóofbeldi höfðar til mín. Ég vil ekki sjá augu skorin , kynfæri klippt eða nálum stungið í augu eða andlit á meðan kona segir Kirikirikirikiri. Enn fremur get ég ekki horft á fólk slíta af öðru fólki neglurnar eða klippa af þeim puttana með vírklippum en ég get vel horft á fólk lúskra rækilega á náunganum. Ég er sem sagt hrifnari af bíóslagsmálum heldur en bíópyntingum.

Í fyrradag fórum við Sumar Snær á Kick Ass eða Sparkírass eins og systursonur Sumars kýs að kalla myndina. Hann er fjögurra ára og má þar af leiðandi ekki fara á myndina því hún er bönnuð innan tólf eða fjórtán ára. Þetta hefur orsakað þráhyggju hjá blessuðum drengnum og hann þreytist ekki á að segja mér að Sparkírass sé ljót og alls ekki fyrir börn. Ég held að fyrir honum sé ekkert í heiminum meira heillandi þessa dagana en að sjá einmitt þessa mynd. Ég er alvarlega að velta því fyrir mér að segja honum ekki frá því að við séum búin að fara og að okkur hafi fundist fáránlega skemmtilegt því það væri grimmd. Það er örugglega grein um þetta í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Grein 1178 liður 14:

Eigi skulu kvikmyndir ræddar í návist barna sem hafa ekki aldur til þess að horfa á þær. Þetta á við um kvikmyndir sem sýndar eru í kvikmyndahúsum sem og leigðar myndir, keyptar eða lánaðar.


En já fyrir þá sem eru læsir, eldri en fjórtán og inni á þessu bloggi þá var myndin afar skemmtileg en ég átti dálítið erfitt með aðaldrenginn í byrjun. Mér fannst hann tala skringilega og vera frekar pirrandi. Svo finnst mér alltaf furðulegt í kvikmyndum þegar augljóslega myndarlegt fólk er gert asnalegt með ljótum gleraugum og illa hirtu hári. Ef ljótt fólk gæti reddað sér með því að fá sér linsur og greiða sér þá væru svona myndir ekki einu sinni til. Hver ætti þá að fara í bíó og láta sig dreyma? Fallegt fólk með enga minnimáttarkennd og fólk sem lætur drauma sína rætast? Pah.... Talandi um fallegt fólk, í bíóinu voru tveir vöðvavinir sem kjöguðu um í hvítum bolum og ljósum gallabuxum. Ef ég væri appelsínugult tröll þá myndi ég reyna að fara ekki í eins fötum og appelsínuguli besti vinur minn, einnig tröll, í bíó. Þeir eiga örugglega síma og hraðskreiða bíla, bæði mjög góð tól til að koma í veg fyrir svona. Fullorðnir tvíburar myndu ekki einu sinni fara í eins fötum í bíó. Nema ef þeir heita Alda og Bára. Hvar eru þær annars?
.. Var ég ekki að tala um bíómynd?.. Jújújú fjör, læti, skemmtilegt ofbeldi og Nicolas Cage í essinu sínu. Fyndið að eftirnafnið hans sé Cage því hann situr einmitt fastur í búri. Hann getur nefnilega bara leikið sturlaða gæja. Þegar hann reynir að vera eðlilegur þá geispa bíógestir. Langsótt? Er ég kannski að vera Lína Langsótt?

Í dag var ég í amerísku símaviðtali. Ég reyndi vitaskuld að láta ljós mitt skína og kreisti út grínið eins og eitthvað mikilvægt væri í húfi. Talið barst að eldfjallinu fræga og ég vitnaði í brandara eftir Halldór Baldursson og sagði að þetta væri aska hins brunna efnahagskerfis sem væri að rústa flugumferð í Evrópu. Það er ekki beinlínis hægt að segja að brandarinn hafi slegið í gegn.

Þessi færsla er skrifuð af tilefni þess að ég las svo skemmtilegt blogg áðan að ég fylltist innblæstri.

sunnudagur, janúar 31, 2010

Tölvuteikning reynir að kyngja epli.



Myndirnar eru ekki í tímaröð. Öh, já nauðsynlegt er að það komi fram. Annað væri hrein og klár sögufölsun.

Nú sit ég í stofunni alelda eða nei annars andvaka. ,, Ein að rolast" myndi amma segja. Það er svo gaman að hlusta á hana tala. Einhvern tímann þarf að gefa út orðatiltækja bók ömmu minnar. Amma er ekki bara ein að rolast, stundum er hún líka drullusokkur. Einu sinni sagði hún að hún væri svo mikill drullusokkur af því að hún hefði ekki farið í Kolaportið og keypt lax eins og hún hafði ætlað sér. Ég sá ekki hvernig lax gæti mögulega komist fyrir á ofhlaðborðinu sem hún hafði hrist fram úr erminni. Þar að auki fannst mér ólíklegt að drullusokkur myndi bjóða mér í svona fínt kaffiboð.
Það er furðulega mikill munur á lítillætistilburðum milli kynslóða. Mamma er minna lítillát heldur en amma og miðað við þær tvær er ég sjálfhælinn monthani.

Ætli ég verði svona þegar ég verð eldri og mun eingöngu nota sagn- nafn- og lýsingarorð sem gera lítið úr gjörðum og hugsunum mínum? Mamma segir alltaf í gríni ,, Fyrirgefiði hvað þetta er lítið og ómerkilegt" þegar hún býður fólki upp á eitthvað fínt. Kannski byrjaði talsmátinn hennar ömmu sem eitt allsherjar spaug.

.. og hérna sorrí hvað þetta er glatað blogg og ómálefnalegt ég bara er eitthvað svo illa menntuð og drusluleg. Ekki það að nokkur sála láti sjá sig hér inni.

Nei, þetta var ekkert sérstaklega gefandi. Þá er nú skárra að monta sig dálítið. En ekki mikið. Fyrsta manneskjan sem minnist á gullna meðalveginn verður rasskellt með gylltri skóflu.