Einu sinni hélt ég að stjórnmál snérust um hugsjónir. Fólk sem vildi hafa áhrif á umhverfi sitt til hins betra væri reiðubúið að skrá sig í stjórnmálaflokka og ganga hugmyndakerfum þeirra á hönd; vinna svo að því að hörðum höndum að yfirfæra þessar hugmundir og hugsjónir í lög, reglur, ákvarðanir og skipulag sem gerði líf fólks betra og bærilegra. Þeir sem væru því ósammála gengju til liðs við aðra flokka sem ynnu annars konar hugmyndum fylgi.
Þetta hefur verið sérlega slæmur vetur fyrir þess háttar barnatrú. Allt of margir íslenskir stjórnmálamenn hafa opinberað það með afgerandi hætti að þeir meta völd öllu ofar. Samherjar í flokkum verða uppvísir að því æ ofan í æ, gersamlega kinnroðalaust, að setja sig ofar heildinni og berjast jafnvel svo svívirðilega innbyrðis að flestir sem ég þekki (og þeir eru nú ekkert annálaðir fyrir það að vera einsleit hjörð) hafa fengið nóg af bægslaganginum.
Hvenær heyrðist síðast frétt um það að einhver sem almenningur kaus til þess að fara með forystu í stefnumótun fyrir samfélagið hafi sett fram einhverja spennandi sýn, byltingarkennda hugmynd eða snjalla lausn sem felur í sér möguleika á bættum lifskjörum, viðhorfum eða betra samfélagi?
Um hvað snúast fréttir af þessu fólki í dag. Þær snúast um það hvernig viðkomandi stendur innan eigin flokks. Hvort „samherjar“ treysti viðkomandi til þess að starfa í þeirra nafni“... menn verða upvísir af lygaþvættingi og dellu, sjást læðast í burtu frá fjölmiðlum út um bakdyr, jafnvel menn sem áður voru hvassir gangrýnendur í fjölmiðlastétt segjast ekki lengur hafa tíma fyrir fjölmiðla. Í dag eru menn einungis að reyna að „styrkja stöðu sína...“ „meta ástandið...“ „...hugsa næsta leik...“ Kalkúlerað að plotta og gæta sín á meðal samherjanna. Af þeim stafar víst mesta ógnin.
Hvernig væri að fara bara að vinna?
Þetta andlit stjórnmálanna er ekki fagurt fés. Svo finnst mönnum skrýtið að ungt fólk hafi ekki áhuga á pólítík! Ég hef í það minnsta ekki mikla trú á því að flykkist í vinnu fyrir þá og flokksbindist.
PS:
Hef reyndar álíka litla trú á því og að það geri eitthvað gagn að senda microsoft error report þegar explorerinn minn frýs aftur og enn. Guð blessi Firefox.