20110620

Ríkisborgararéttur

Ég á barn, dóttur, sem á sænska móður. Ragna er fædd í Noregi.

Við vorum ekki gift þegar hún fæddist og þar af leiðandi fékk hún ekki íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu.

Við móðir hennar giftum okkur þegar hún var eins árs. Þá fékk hún sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt, samhliða þeim sænska.

Nú eru lög og reglur þannig úr garði gerð að ef íslenskur karlmaður eignast barn erlendis með erlendri konu og þau eru ekki gift, þarf hann að sækja um það sérstaklega til Innanríkisráðuneytis að barnið fái íslenskan ríkisborgararétt og borga fyrir það 7 500 krónur. Í lögum um ríkisborgararétt stendur:

Eignist ógift kona, sem er erlendur ríkisborgari, barn erlendis með karlmanni sem er íslenskur ríkisborgari getur faðirinn, áður en barnið nær 18 ára aldri, óskað þess við dómsmálaráðuneytið að það öðlist íslenskan ríkisborgararétt, og skal hann hafa samráð við barnið hafi það náð 12 ára aldri. Leggi hann fram fullnægjandi gögn, að mati ráðuneytisins, um barnið og faðerni þess öðlast barnið íslenskan ríkisborgararétt við staðfestingu ráðuneytisins.

Mér fannst ég misrétti beittur, og þverskallaðist við það að sækja um ríkisborgararétt fyrir dóttur mína, þangað til ég komst að því að ég þyrfti ekki að gera það. Þá tók ég mig til og sendi Jafnréttisstofu fyrirspurn hvort reglurnar stæðust jafnréttislög. Fyrirspurnin var kannski hálfklunnaleg, en Jafnréttisstofa skildi meginatriðin og fór fram á greinargerð frá Innanríkisráðuneyti. Og svarið kom í dag. Það er hægt að ná í bréfið frá Jafnréttisstofu hér:

Bréf frá Jafnréttisstofu við fyrirspurn minni um lög um íslenskan ríkisborgararétt

Dreifið, deilið, lesið, hafið áhrif!

(þess má geta að sænskur karlmaður í sömu stöðu þarf ekki að greiða gjald eða sækja um það sérstaklega að barnið hans fái sænskan ríkisborgararétt, það er nóg að viðurkenna faðerni)

20110411

Áhættusækni

Orðin sem flugu í gegn um höfuðið á mér á leiðinni á kontórið í morgun voru: áhættusækni, þvergirðingsháttur, tilætlunarsemi, tækifærissinni.

Nú megið þið geta hvað ég var að hugsa um.

Ég ákvað í síðustu viku að hætta að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum. Ég gerði þetta líka í kringum áramótin 2008-2009 en var aftur fallinn í þá gryfju að lesa DV og Vísi á netinu og hlusta á Spegilinn. Nú er ég guðsblessunarlega óvitandi um hvað gerist á Íslandi (nema maður sér náttúrlega hvað fólk er að æsa sig yfir í gegn um Facebook). Ég skammast mín fyrir að þurfa að kenna mig við þjóð sem getur ekki gert samninga við nágrannaþjóðir sínar. Mér finnst það þyngra en tárum taki að hrunið skuli ekki hafa leitt af sér málefnalegri umræðuhefð á Íslandi.

Í stað þess grassera skinkur og hnakkar og börn alast upp við það að það sé best að hegða sér bara eins og manni sýnist. Græðgi er orðin að dyggð á Íslandi.

20110404

Sumar

Ef maður á að trúa sænsku veðurstofunni, þá er komið sumar. Meðalhitinn fór nefnilega ekki niðurfyrir 10°C síðasta dægrið. Það er gott.

Konan spurði mig í gær hvort ég ætlaði ekkert að sá sumarblómum og ég fékk kvíðakast og byrjaði samstundis að svitna af angist og hljóp út til að þrífa bílinn. Ég vil alveg hafa garðinn fullan af blómum, en ég hef ekki þolinmæði í mér til þess að standa í sáningum. Svo grunar mig að allt drepist úr þurrki ef manni skyldi detta í hug að bregða sér af bæ í nokkra daga. Og það er nú bara þannig að ég hef jafnmiklar áhyggjur af blómunum mínum og börnunum mínum ... og það er varla á það bætandi.

Ætli maður kaupi ekki bara eitthvert ódýrt rusl sem drepst á einum mánuði og láti þar við standa.

Bíllinn er allavega hreinn utan sem innan.

20110329

Vabbað

Það verður enginn engill í dag. Ég er ekki í englastuði þessa stundina.

Kennarinn hringdi í gær um tvöleytið og bað um að T yrði sóttur. Hann var kominn með hita og þar sem A-L var önnum kafin við að undirbúa kennslu fór ég og sótti ómegðina og vabbaði (sá um börnin). Þar sem A-L var að kenna í dag féll það í minn hlut að vabba í dag líka.

Börnin eru mjög auðveld viðureignar og ég kvarta ekki yfir því að vera heima með þeim, það er voðalega notalegt, en eftir að hafa ekki fengið hálfa sekúndu fyrir sjálfan sig í tvo daga er heilinn í manni gjörsamlega steiktur.

Ég greip því tækifærið þegar frúin kom loksins heim og hljóp út til að skipta um dekk á bílnum. Það má reyndar ekki skipta yfir á sumardekkin fyrr en 1. apríl, en skítt veri með það, geðheilsa mín var í húfi. Hér er mynd af hægra framdekki:



Núna eru börnin sofnuð og Dexter kominn í tækið.

*knùz*

20110328

Engill dagsins

20110327

Sunnudagur á sumartíma

Það var haldið upp á 8 ára afmæli í gær. Við tókum okkur saman foreldrar þriggja barna í bekknum og héldum stórveislu. Það var vellukkað þótt enginn hafi komið í sparifötunum. Það er sérstök lykt af þrjátíu börnum sem eru búin að úða í sig sælgæti og kökum og hlaupa viðstöðulaust í tvo klukkutíma. Tryllingsglampinn í augunum er rosalegur.

Við misstum svo klukkutímann sem við fengum í haust í nótt; það er kominn sumartími.

Mér leiðist þetta eilífa tímaflakk, en það er einn kostur við það að seinka klukkunni á vorin, nefnilega sá að klukkan er meira þegar sólin sest.

Dagurinn fór annars í snatterí. Fótboltaæfing, barnaafmæli nr. 2 þessa helgi (næstu helgi eru þau líka tvö), matarinnkaup fyrir vikuna. Ég var svo búinn á því þegar ég kom heim að ég lagðist upp í rúm og sofnaði. Ég HATA matvöruverslanir.

Engill dagsins

20110326

Engill dagsins

20110325

Daglegt amstur

Jæja, þá er komið að því eina ferðina enn. Heimsókninni til lögfræðingsins.

Við erum nefnilega svo ótrúlega heppin að maðurinn sem kallar sig föður stjúpsonar míns á erfitt með að láta okkur í friði og enn erfiðara með að vera samvinnuþýður, sem endaði í því fyrir jól að strákurinn þvertók fyrir að fara til föður síns. Núna er allt andlega ofbeldið gleymt og strákurinn vill hitta pabba sinn, sem lætur eins og ekkert hafi gerst, aftur.

Karlpungurinn hefur ævinlega gert allt til þess að gera líf okkar að helvíti (þótt það hafi til allrar guðs lukku batnað eftir að við fluttum). Núna verður sleginn nagli í kistuna, það verður sótt um að hann missi forræði yfir barninu. Það á allt eftir að fara í háaloft með tilheyrandi hótunum og veseni. Ég veit ekki hvernig ég á að lifa þetta sumar af ef það verður eins og sumarið 2007 ...

Engill dagsins



20110324

Engill dagsins

FB

Hvaða gæðablóð er það sem tengir inn á bloggið mitt frá Facebook?

Þú mátt alveg láta það eiga sig.

20110323

Bók

Æ, hvað maður á góða að.

Þegar ég kom heim beið mín umslag í póstkassanum.

Þórdís sendi mér 90 sýni úr minni mínu eftir Halldóru K Thoroddsen. Ég ætla að lesa hana í kvöld í stað þess að hanga á FB <3

*knùz* og TAKK fyrir mig!