Hvað á það að þýða að fá kvef og hálsbólgu svona um mitt sumar? Ég er bara ekki sátt við þetta. Ég lá eins og barið buff í mest allan gærdag, hóstandi og hnerrandi á víxl, ekki gaman. Maður verður bara að dæla í sig vítamínunum og athuga hvort þau virka.
Já, ég fór á djammið sl. laugardag með Björgu, Halldóri og vinafólki þeirra. Jösses, ég hef bara ekki dansað svona mikið í fleiri ár, held ég. Við fórum sem sagt á Nasa þar sem Straumar og Stefán voru að spila og það var svaka fjör. Ég skreið heim um hálf 4 leytið, alveg búin í fótunum eftir öll danssporin og með ýlfur í eyrunum (ó það er svo gaman að vera með eyrnasuð).
Nú er rauðhærða skvísan mín farin til pabba síns í sumarfrí. Ég sakna hennar strax, að sjálfsögðu, en hún hefur verið dugleg að hringja í okkur á hverjum degi, sérstaklega reyndar til að fá að heyra í litlu systur sinni. Ég held þær sakni hvor annarrar álíka mikið og þær voru farnar að fara í taugarnar hvor á annarri síðustu vikuna sem þær áttu í fríi saman.
Verslunarmannahelgin framundan og það lítur nú ekki út fyrir að við leggjum í einhverja langferð þá helgina. Vonast bara eftir góðu veðri á höfuðborgarsvæðinu svo við getum notið sólar á palli og í potti :) Fólk er velkomið í heimsókn!
