be[¡]kon

29.12.08
 
Áramót!

Ég hef ekki skrifað hér í hálft ár maður. Þetta dó algjörlega. Ég lofa nú ekki að skrifa neitt mikið meir á næsta ári, en mig langar að reyna það, það er alltaf jafn gaman og ég veit að þeir fáu sem hafa skoðað þetta finnist þetta alveg pínu skemmtilegt.

En ég verð nú að gera upp árið, það er bara eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri. Hef nú ekki hlustað á jafnmargar nýjar plötur og ég gerði í fyrra, en ég komst þó í gegnum dágóðan slatta. Ég færi ykkur í þetta skipti: Topp 5 tónleika, Topp 10 erlend lög, topp 10 íslensk lög og svo 25 alþjóðlegar plötur!

Topp 5 tónleikar í engri sérstakri röð:
Samamidon, Reykjavík! og Retro Stefson - Grillinu, október.

Retro æfðu sig, Sam var með stand-up og samkvæmisleik og Reykjavík! buðu upp á minnsta circle-pit sem ég hef séð.

Agent Fresco - Kaffibarnum, desember + allir tónlekarnir í Nakta apanum.

Alltof "stór" hljómsveit á alltof litlum stöðum. Stórskemmtilegt.

Fuck Buttons - Hafnarhúsinu, október

Það var svo gaman hversu oft þeir skyldu hækka. Hljóta að hafa farið upp í 11.

Hjaltalín - Græna hattinum, janúar

Í raun var það bara allt fjörið í kringum þetta sem var skemmtilegt, en tónleikarnir voru einstaklega vel heppnaðir - þarna fékk maður líka að heyra annað kover lag en þetta Palla-grín sem er búið að vera allstaðar...

Borko, Seabear - Tjarnarbíó, apríl

Ég get ekki valið hvaða Borko tónleikar mér fannst skemmtilegastir, þannig að ég vel þessa, sem svona aðal-tónleikana. Ég var líka alltaf hrifnari af Borko þegar þeir voru enn í hlýrabolum, og Örvar og Robbi voru langflottastir.


Íslensk lög:
10. Skakkamanage - Good Times

Þetta minnir mig svo á gamalt Blonde Redhead stuff, en er bara einhvernveginn, miklu sniðugara. Frábært gítar og trommu-samspil.

9. Reykjavík! - Random Acts

Frábær lokapunktur á frábærri plötu, algjört brjálæði í alla staði og ómstríðir gítarhljómarnir vekja ótrúlegar tilfinningar innra með manni.

8. Evil Madness - La Magica Vendetta dell'Inferno

Ég get ekki annað en hrópað og kýlt höndum upp í loft eins og sigurvegari þegar ég hlusta á þetta!

7. Benni Hemm Hemm - Avían í Afganístan

Best heppnaðasta lag eftir Benna síðan hann gaf út fyrstu plötuna, allar takt-skiptingar næstum fullkomnar og röddun Högna fyllir mann af hlýju og vellíðan

6. Mammút - Geimþrá

Einhver besta sönglína sem ég hef heyrt lengi, ég get ekki - ekki sungið með þessu lagi... svo verð ég líka að syngja það fyrir sjálfan mig í nokkra daga eftir á ég heyri það. Flott geimhljóðin í lokin líka.

5. Sudden Weather Change - St. Peters Day

Þetta lag verður betra með hverri hlustun og Guð minn góður hvað það er gaman að hrópa "God I Hate Nicolas Cage"!

4. Reykjavík! - The Blood

Byrjunin á plötunni er enn betri en lokapunkturinn, enn meira brjálæði, en samt svo hnitmiðað... besti inngangur að rokklagi síðan Thunderstruck.

3. FM Belfast - Par Avion

Það var ekki lengi að velja uppáhalds FM Belfast lagið sitt - þetta er bara algjörlega ódauðlegt. Ég veit ekki hversu oft ég hef raulað þessa laglínu á árinu sem er að líða

2. Retro Stefson - Paul Is Dead

Ég hef hinsvegar raulað þessa oftar.

1. Sigur Rós - Gobbledigook

Þessa enn oftar. Synd að þeim tókst ekki að hafa alla plötuna jafn góða og þetta lag. Það er nánast fullkomið.

Erlend lög
10. Hercules & Love Affair - Blind

Þetta lag átti gjörsamlega allan fyrri hluta ársins.

9. Nôze - L'Inconnu du Placard

Pákur og tréspil í dans-tónlist? ha?

8. Animal Collective - Water Curses

Bölvun? Alls ekki!

7. The Walkmen - Red Moon

Það er svo fínt þegar lúðrarnir byrja að spila... maður getur séð stóra rauða tunglið speglast í vatni.

6. Ricardo Villalobos - Enfants

Töfrandi, dáleiðandi og fallegt lag frá ókrýndum konungi tech-húsi

5. Squarepusher - A Real Woman

Svo fyndið, en í leiðinni svo grípandi! Alveg dásamlegt! Frábær vélröddin sem syngur þetta líka...

4. Portishead - The Rip

Ef það er eitthvað sem Portishead geta gert með lokuð augun, þá er það að framkalla ótrúlega skæra von úr myrkustu aðstæðum. Þetta er líklega best-heppnaðasta tilraun þeirra.

3. Paavoharju - Italialaisella laivalla

Draumkenndasta lag allra tíma, geri ég ráð fyrir. Hljómar eins og bernskuminningar.

2. Erykah Badu - The Healer

Tími stöðvast algjörlega þegar þetta lag byrjar. Allt umhverfi hverfur, og þú ert bara ein(n), í grúvi, með Badu og Madlib.

1. The Bug - Skeng

Úff. Einum of djúpur bassi, einum of mikið delay á snerlinum, einum of dimmraddaðir MC-ar, orðarbókar dæmi fyrir orðið "cool".

TOPP 25 PLÖTUR!

25. Beach House - Devotion

Glæsilega falleg plata frá þessu dularfulla tvíeyki, sem stöðvar tímann og færir þig á fjarlægar strendur í ljósaskiptum.

24. Women - Women

Konur færa fjöll, og þessar gera það líka. Óvæntur frumburður frá Touch & Go, sem hægt er að hlusta á aftur og aftur.

23. Reykjavík! - The Blood

Djöfull er þetta hávær plata! En það er ekki séns að maður vilji slökkva á henni! Ég vil bara hækka meira!

22. Atlas Sound - Let The Blind Lead Those Who Can See But Cannot Feel

Plata til að hjálpa þér að sökkva ofan í rúmið þitt.

21. Deerhoof - Offend Maggie

Þau geta bara ekki hætt að senda frá sér frábærar plötur! Ár eftir ár! Jeminn!

20. Lindstrøm - Where You Go, I Go Too

Þessi fer með mér allstaðar. Bíla, flugvélar, vinnuna, heim til mín. allstaðar.

19. FM Belfast - How To Make Friends

Aaalgjör paartí plata! hehehe! :p XD

18. Snowman - The Horse, The Rat & The Swan

Einhver tilfinningaþrungnasta plata sem ég hef heyrt lengi! Fyrsta ástralska platan á þessum lista í ár - þeir hafa aldeilis notið góðs af minnkun heimsins sem netið býður upp á! Pælið líka í flottu nafni á plötu! Ég mana ykkur að hlusta á hana!

17. Times New Viking - Rip It Off

Drullusvalt lo-fi hávaða brjálæði. Svo mikið rokk á alla vegu.

16. Xiu Xiu - Women as Lovers

Ég er ekki frá því að Xiu Xiu hafi algjörlega gert annað meistaraverk með þessarri plötu, ég gæti trúað að þessi mun lifa lengur en síðustu tvær. Ótrúlega falleg og vel skipulögð plata.

15. Samamidon - All is Well

Hlýjasta plata sem ég hef heyrt á öllu árinu. Rödd sams passar svo ótrúlega vel við tónlistina sem er svo einföld og sterk. Lýsir upp köldum vetrardögum.

14. Klive - Sweaty Psalms

Þessi er líka hlý, en á alveg annan máta. Hún læðist inní mann og mýkir alla vöðva, en bítur svo fast þegar hún þarf að gera það. Og það er ekki slæmt bit.

13. Possessed by Paul James - Cold & Blind

Partí plata fyrir þann sem vill vera einn heima og bölva nútímanum. Ekta, 19. aldar partí.

12. Vampire Weekend - Vampire Weekend

Mesta hype ársins á það fyllilega skilið, stórskemmtileg plata sem ég held ég muni ekkert hlusta sérstaklega mikið á á næsta ári.

11. Bruno Pronsato - Why Can't We Be Like Us?

Alveg kolrugluð raf/teknó/djass plata. Hún er svo paranoid og geggjuð... maður getur alls ekki misst einbeitingunni af henni, en hún skilur bara ekki neitt eftir nema klór á hausnum! Alveg ótrúlegt!

10. The Ruby Suns - Sea Lion

Fleiri ástralir, eða öllu heldur Ný Sjálendingar, sem keyptu sér töfrateppi og upptökugræjur. Þetta er afraksturinn. Maður fær meiraðsegja teppið í láni þegar maður er búinn að ýta á play.

9. Paavoharju - Laulu laakson kukista

Þessir helvítis Finnar brutust inní draumana mína og tóku allt upp á segulband sem þeir sáu. Bara til að selja mér það aftur. Ég er brjálaður.

8. The Walkmen - You & Me

Myrk og rómantísk plata frá hljómsveit sem náði að lifa af "The" bylgjuna í byrjun áratugarins. Ótrúlega vel heppnaður hljóðheimur og upptaka hækka þessa plötu einnig um tign.

7. Deerhunter - Microcastle/Weird Era Cont.

Þó þessi plata hafi komið út fyrir mánuði, hef ég verið að hlusta á hana síðan í byrjun sumars... ekki hefur hún dafnað. Tímalaus plata sem maður hlustar á aftur um leið og hún klárast

6. No Age - Nouns

Öllum lo-fi tónlistarmönnum hefur dreymt um að gera þessa plötu, það er eins og þeir hafi hugað að hverju einasta smáatriði á plötunni, þrátt fyrir að hún hljómi eins og hún hafi verið tekin upp á augnabragði... þessi mun líklega lifa lengur en margar plötur ársins.

5. Fuck Buttons - Street Horrrsing

Þessi plata er eins og heróín. Að ég held.

4. Retro Stefson - Montaña

Er það ekki?

3. Erykah Badu - New Amerykah Part One: 4th World War

Ég held ég hafi hlustað á þessa oftar en allar plöturnar í ár. Ég finn mig alltaf knúinn til að heyra hana. Hún er svo dularfull og skrýtin, allt öðruvísi en aðrir hlutir sem Erykah hefur gert, en ennþá syngur hún jafn vel. Það er þó eins og eitthvað hafi hrært við henni, hún hefur aldrei verið jafn list- og ljóðræn áður. Framkallar ótrúlegustu tilfinningar og ótrúlegustu gæsahúð. Það verða allir að hlusta á þessa frá byrjun til enda. Minnst þrisvar.

2. My Disco - Paradise

Síðustu ástralarnir á listanum gera rokktónlist sem er svo óþægileg og hrá og reið... nákvæmlega eins og rokktónlist á að vera. En það sem þeir gera er að endurtaka sama riffið, eða bara hljóminn, aftur og aftur og aftur eins og þeir séu að reyna að sprengja í þér allar taugar. Engin rokkplata hefur virkað svona á mig síðan 1000 Hurts með Shellac. Enda frekar svipuð.

1. Portishead - Third

Ótrúlegt hvernig svona hljómsveit getur farið í 1. stk. 10 ára pásu og endurheimt sjálfa sig svona. Portishead hafði allt sem hún þurfti til að vera stimpluð 90s hljómsveit en svo kemur hún með þessa myrku og drungalegu og ótrúlega óhugnalegu plötu. Ekki þetta týpíska unglinga-drama fyrir "öðruvísi" unglinga. Heldur málar Portishead myndir af hinum myrkustu og vonlaustu aðstæðum og tilfinningum sem maður getur lent í. Þér líður ekkert vel við að hlusta á þessa plötu en, ég meina, þér líður heldur ekkert vel við að horfa á Schindler's List. Þú bara einhvernveginn upplifir heiminn aðeins öðruvísi þegar þú heyrir þetta. Hreint ótrúleg plata.


Sjáið topp 100 hér