Nú er sko allt að komast í vetrarskorðurnar hér í Mosarimanum. Ísak orðinn vel skólaður og vikurútínan farin að taka á sig mynd. Ísak æfir frjálsar með Fjölni 2x í viku og fer í sellótíma 1x í viku. Hann er ánægður með lífið og tilveruna þessi elska. Í síðustu viku kom fyrsta lestrarheftið heim og nú les hann um Óla og Ara sem eiga ís og il o.s.frv. á hverjum degi. Ótrúlegt hvað það gengur vel. Hann er farinn að leika við e-a krakka og sagði í dag að Stefán Egill vildi fá hann í heimsókn eftir skóla. Það vill Emilía líka svo það er voða gaman :-). Síðasta föstudag fór ég með mömmu og strákunum í Grasagarðinn og þar hljóp Ísak um eins og kóngur í ríki sínu. Breiddi út faðminn og hrópaði "Lífið er dásamlegt!" :-) Litla tilfinningaveran mín. Svo tókum við allt í einu eftir fullorðinstönn sem er að gægjast upp úr neðri gómi-þó svo að barnatennurnar séu ekki dottnar enn! Spennandi hvenær það gerist.
Jakob er bara Jakob. Hann er orðinn altalandi þannig lagað. Er m.a.s. allt í einu eitthvað að laga /s/-ið sitt svona upp á eigin spýtur (ekki nema leikskólinn sé eitthvað að pota í það án okkar vitundar). Hann sagði allt í einu /gri:s/ um daginn en ekki /gri:þ/ og svo daginn eftir kom /I:sak/. Annars notar hann nefninlega alltaf /þ/. Um helgina vorum við að kúra upp í rúmi og hann knúsaði mig og knúsaði og sagði ýmist "þú elskar mig" eða "ég elska þig" :-) Seinna um daginn otaði hann svo að mér blokkflautu og hrópaði "ég drep þig"!! Hvað segir maður við því?? Og hvað í ósköpunum er hann að læra á þessum kristilega leikskóla hehe
Svo varð ég 35 í vikunni! Huxa sér, það er magnað. Við buðum auðvitað fjölskyldunni í mat eins og siður er. Það var ofsalega gaman -eins og alltaf. Hlógum mikið og að mörgu. Sögðum allar gömlu góðu sögurnar eins og þegar Hjalti gaf bílinn þeirra Völu, þegar Ingólfur fór á pönk-tónleika með dvergnum, þegar Ingólfur settist inn í stofu hjá ókunnugri konu, þegar Ingólfur....hehe Ingólfssögurnar eru margar!
Annars er ég helst í því að pirrast á strætó þessa dagana. Tek alltaf strætó í vinnuna og hann er svo troðinn þegar hann kemur að minni stoppustöð að ég kemst ekki nema rétt framhjá vagnstjóranum. Þar hangir maður í stólbaki eða súlu og gerir sitt besta að fljúga ekki á næsta mann eða fara úr axlarlið eða eitthvað. HVAÐ EF eitthvað gerist?? Samt er aukavagn sem fer aðeins fyrr en hann stoppar auðvitað ekki hjá mér! Why? Stundum kemst maður inn í miðjan vagn og það er hátíð því þá getur maður yfirleitt haldið sér almennilega í. Oh ég verð að fara að senda kvörtunarbréfið sem ég er marg búin að semja í huganum.