24. ágúst 2011

Fyrsti skóladagurinn

Þá er stórum áfanga náð í lífi Ísaks-og foreldranna. Fyrsti skóladagurinn á enda! Í gær fórum við í viðtal hjá Jenný kennara sem gekk rosa vel. Ísak hefur verið með smá áhyggjur, sagt að hann vilji ekki byrja í skóla og svona. En hann spjallaði dálítið við Jennýju sem virkar ofsalega fín. Svo voru það Maggi og Jakob sem fylgdu honum út í Rimaskóla í morgun. Hann hafði verði ofsa stoltur og spenntur með skólatöskuna á bakinu. Því miður gleymdist myndavélin en ég tók myndir af honum í gær á leið í viðtalið. Ég var með hnút í maganum í allan dag yfir því hvernig honum myndi ganga og líða. Ég er búin að kvíða þessu dálítið þar sem hann þekkir fáa og svona. Fékk frí eftir hádegi í vinnunni til að geta sótt hann og farið með honum í heimsókn í frístundaheimilið sem kallast Tígrisbær. Hann var svo mjög glaður þegar ég kom, sýndi mér allt og var spenntur að fara í Tígrisbæ. Þar vildi hann fyrst hafa mig frekar nálægt en svo varð ég algjörlega óþörf og út úr kú þarna. Þau fóru í nafnaleik og áttu að segja nafnið sitt og hvað þeim þætti skemmtilegt. Ísak sagði að sér þætti gaman í Tígrisbæ :-)
Ég ákvað þá bara að fara í göngutúr og sótti hann svo hálftíma seinna alsælan. Á morgun ætlar hann sko að fara ALEINN í Tígrisbæ-mjög spenntur. Það er því þungu fargi af okkur foreldrunum létt svona eftir fyrsta daginn. Vonandi eignast hann svo bara fljótt vini.

Það verða örugglega viðbrigði að vera foreldri grunnskólabarns. Spennandi tímar framundan en mjög gott að eiga einn ennþá í leikskóla ;-)

15. ágúst 2011

Sumarfrí frh.

Ef ég ætti að skrifa samantekt um ferðalag okkar síðustu vikur yrði ég örugglega fljótt uppgefin. En svona í grófum dráttum fórum við á ættarmót Magga-megin á Bíldudal síðustu helgina í júlí og þaðan ferðuðumst við aðeins um Vestfirðina; Breiðuvík, Látrabjarg og Barðarströndina. Ég var alveg heilluð af þessu landslagi og fannst bara eins og við værum í útlöndum með allar þessar hvítu fallegu sandstrendur. Svo fórum við í gegnum Dalina og áfram á Siglufjörð og þaðan í Mývatnssveitna þar sem var Gúmmiskór (ættarmót) um Verslunarmannahelgina. Svo vorum við bara í rólegheitunum í Vogum þar til fyrir rúmri viku. Ótrúlega er nú alltaf gott að koma í sveitina og gott fyrir strákana að vera þarna. Það var því miður ekkert allt of gott veður en einn daginn var samt hægt að vera í búinu út í eitt og svo fórum við út á vatn með pabba. Það var æðislegt, hef ekki komið út á vatn í mörg ár. Við fórum með smá erfiðismunum upp í Geitey sem Ísak fannst æðislegt-alvöru eyðieyja! Við fundum m.a.s. fjársjóð! Flottan kindakjálka með lausa tönn. Ótrúlega flott.

Gunnar var svo góður að passa íbúðina og Mahler á meðan við vorum í burtu. Reiður nágranni hringdi rétt áður en við fórum í fríið og sagði sig vera orðinn fullsaddan af kettinum. Hann kæmi inn á hverri nóttu hjá sér og færi beint í hundamatinn. Hann væri með 3 hunda og það yrði allt vitlaust! Nú skildum við bara sjá til þess að þetta kæmi ekki fyrir oftar!!! Við fórum alveg í panik en þetta reddaðist. Gunnar var hér og lokaði gluggum á nóttunni. Það þýðir reyndar lítið því hann opnar þá bara, jafnvel þó maður kræki þá aftur! Nú erum við reyndar búin að finna lausn á því líka og nágranninn hefur ekki hringt aftur. En ótrúlegt að gera bara ekki ráðstafanir sjálfur!

Nú er hið ótrúlega að fara að gerast á mánudaginn-Ísak byrjar í skóla. Mömmuhjartað smá titrandi en vonandi fær hann góðan kennara og góðan bekk. Hann kannast við nokkra krakka sem byrja með honum, þau eru 4 í húsinu sem vonandi lenda í sama bekk. Hann er mátulega spenntur-stundum finnst honum þetta spennandi og stundum langar hann ekki í skóla. Ég byrja´i 90% hlutfalli í september og verður gaman að vera aftur á einum vinnustað en ekki 2-3 yfir vikuna.

Jakob er líka að stækka og þroskast. Hann á að byrja á eldri deild í vikunni. Það átti ekki að færa hann strax en besti vinurinn fór á aðra deild og hann var víst alveg vængbrotinn lítill maður. Og vinurinn harðneitaði að vera á nýju deildinni af því Jakob var ekki þar. Hugsa sér að vera 2 ára og búinn að finna besta vin, ótrúlegu krúttin. Jakob náði sér í þetta fína /r/ í fríinu og rrrrrúllar því vandlega í munninum á sér. Dálítið mikið fyrr en bróðir sinn að því. /s/ er hins vegar enn mjög smámælt og vantar í alla samhljóðaklasa. (gott að skrifa þetta hér fyrir mig sjálfa upp á seinni tíma ;-))