19. júlí 2011

Lausar tennur!

Nú er það LOKSINS að gerast. Ísak (sem er búinn að tilkynna með reglulegu millibili síðast liðið ár að hann sé með lausar tennur) er kominn með 2 lausar framtennur!!! Þær bifast aðeins ef maður ýtir vel á þær en samt; þær eru lausar!

Við fórum í útilegu um helgina. Eina nótt á Þingvelli. Það var geggjað veður en mér var ansi kalt um nóttina. Svo vaknaði maður auðvitað í svitabaði eins og það á að vera í tjaldi. Hmm ég er ekki mikill aðdáandi þess að sofa í tjaldi en læt mig hafa það. Hjalti og Vala og strákarnir voru með okkur og Frosti er greinilega ekki heldur aðdáandi þess að sofa í tjaldi... En þetta var skemmtilegt í alla staði fyrir utan nóttina. Nýja tjaldið okkar gerði sitt gagn og verður notað meira fljótlega.

Við Maggi réðumst í framkvæmdir í eldhúsinu fyrir viku. Tókum eldhússkápana í yfirhalningu og borðstofustólana í bólstrun. Við máluðum eldhúsið alveg hvítt og settum nýjar höldur og skiptum gömlu sessunum út fyrir leðurlíki (sem má sulla á!!!). Vala hjálpaði okkur með það svo þetta kostaði sama og ekki neitt. Nú er voða fínt hjá okkur, mikill munur á smá breytingum. Kannski verður íbúðin söluvænni fyrir vikið?

12. júlí 2011

Sumarfrí

Hér eru allir komnir í sumarfrí og í góðum gír. Maggi byrjaði á að fara í Skálholt í eina viku en við vorum bara heima á meðan. Við fórum reyndar og heimsóttum hann sl. föstudag og Ísak fékk að vera eftir og gista. Hann var ekkert smá montinn. Svo sótti ég hann á laugardaginn og við hlustuðum á tónleika Hljómeykis í Skálholtskirkju. Hann var alveg að drepast greyið úr leiðindum en var ekki með nein læti, bara allur á iði og stundi og stundi. Jakob fékk að vera hjá ömmu og afa í Fiskó á meðan og skemmti sér þvílíkt vel. Fór að skoða blómin í Grasagarðinum og datt í vatnið sem var voða skemmtilegt. Hann steig reyndar bara með annan fótinn en engu að síður hægt að ræða það fram og til baka. Svo erum við búin að fara og grilla í Heiðmörk sem var dásamlegt og eyddum hálfum sunnudeginum á Árbæjarsafni sem strákarnir elska. Þeim finnst svo gaman í "leikhúsinu" þar sem allt dótið er og búningarnir og brúðuleikhúsið.
Það er lítið á stefnuskránni hjá okkur næstu daga. Förum svo á ættarmót á Bíldudal og þaðan norður í Mývatnssveit seinna í mánuðinum. Ísak ætlar að vera í 2 vikur-tilkynnti það. Hann hlakkar svo til að fara í sveitina og fara í í búið. Ég óska þess svo bara að fá fleiri sólardaga á pallinum :-D