
Margt hefur á daga okkar drifið síðan síðast-enda langt um liðið. Sumt breytist þó lítið eins og að Nemó er enn í uppáhaldi og meðan ég skrifa þetta erum við Jakob að horfa á Nemó í örugglega 100.sinnSjáum til, hvað hefur nú gerst síðan í mars? Ég ákvað að hætta í Sæmó. Nú ætla ég að vera á einum vinnustað í fyrsta sinn frá því að ég vann áertälje sjukhus. Það verður þægilegt. Ég hugsa að ég fari í 80-90% hlutfall. Mig langar að geta verið styttra e-n dag svo Ísak þurfi ekki alltaf að vera lengi í skólaselinu. Já því frumburðurinn er að byrja í skóla í haust! Úff hvað mér fannst það erfið tilhugsun lengi vel en nú held ég að ég sé að mestu búin að jafna mig... samt finnst mér þetta ótrúlegt. Litla barnið! Hann er samt örugglega meira tilbúin en við foreldrarnir.Hann hefur þroskast svo mikið í vetur. Orðinn miklu öruggari með sig, svo mikið að vinir og fjölskylda taka eftir því. Hann t.d. þorir að tala við blá-ókunnugt fólk, bað um að fá að syngja fyrir alla í föstudagsmatnum síðast og bara almennt ótrúlega glaður. Skotinn í stelpu í leikskólanum og allt :-) Hann hefur fengið áhuga á að skrifa og situr stundum og "reiknar" (= skrifar stafi) í stílabókina sína, brýtur saman fötin sín á hverju kvöldi og er ótrúlega hjálplegur t.d. í matarinnkaupum. Eitt breytist þó hægt og það er samband þeirra bræðra. Jakob heldur áfram að lemja hann og Ísak heldur áfram að góla undan honum. Litla dýrið okkar! Hann er svo hræðilega mikið 2 ára þessa dagana eitthvað. Vill gera allt sjálfur og svo er hann hreinlega óþekkur oft á tíðum. Neitar að hlíða og öskrar og gargar ef eitthvað er ekki eftir hans höfði. Hann kastar sér hiklaust í gólfið í búðum og gargar. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að hann GARGAR heila bílferð af því eitthvað er ekki eins og hann vill. En svo er hann auðvitað bara dýrlegur. Segir "elsku litla mamma mín" og knúsar mann. Hann elskar að fikta í hárinu á mér og kúra með okkur í sófanum. Í gær sýndi ég honum mynd af Ragnari Steini í blaðinu ásamt leikskólanum sínum. Hann benti á leikskólakennarann og sagði "sjáðu, Indra! Oh hann er svo sæt!" Hann er náttúrulega farinn að tjá sig um allt og ekkert og oft segir hann bara eitthvað af því að allir eru að tala. Ég tékkaði á orðaforðanum í síðustu viku og skv Orðaskilum er hann með orðaforða á við 33 mánaða barn en hann er 27 mánaða. Mont mont. Framburðurinn er líka frekar skýr m.v. aldur og gaman að fylgjast með hvernig hann er að þróast. Hann er líka farinn að nota frekar flókna málfræði m.v. aldur svo ég er alveg steinhissa. Manni finnst hann auðvitað voða duglegur m.v. börnin sem ég er að hitta nánast daglega svo það er ekki skrýtið þó ég sé montin.
Þetta verður langur pistill ef ég ætla að fara að lýsa öllu sem hefur gerst og breyst. Við erum nú að fara í sumarfrí eftir viku svo þá kannski gef ég mér tíma til að skrifa oftar. Eða ekki... Vonandi verður veðrið gott svo maður verður bara úti. Maður þarf svo sannarlega sól og hita í kropinn eftir þetta kuldavor.