5. apríl 2011

Tveggja ára


Elskulegi Jakob okkar er orðinn 2 ára! Ótrúlegt, ég veit, maður segir þetta á hverju afmæli barna sinna en það er alltaf jafn ótrúlegt. Þessi litli maður er náttúrulega bara draumabarn. Fullkominn eins og við fengum staðfest í foreldraviðtalinu í leikskólanum í dag.

Afmælisdagurinn var haldinn hátíðlegur með pökkum og afmælissöng í morgunssárið. Jakob vaknaði nú ekki við tilraunir fjölskyldunnar til að syngja svona snemma morguns. Hann var enn hálf sofandi þegar hann opnaði pakkann frá Ísak (-sem hafði valið plastbollastell og hlakkaði sjálfur mikið til að fá þetta í leikfangasafnið-)en hann glaðvaknaði við Latabæjargallann sem hann fékk frá foreldrum sínum. "Klæða í" sagði hann bara og var alsæll :-D Svo kom fjölskyldan eftir vinnu og ég sver það hann hefði getað lifað á kortinu sem fylgdi pakkanum frá Daða og Önnu. Sjálfur Íþróttaálfurinn! En hann var ægilega glaður og spenntur yfir öllu, hljóp á milli fólks og sagði "sjáðu sjáðu...". Jakob er ekki enn farinn að borða kökur, hefur bara engan áhuga á þeim og mamman hefði kannski átt að missa aðeins færri hárstrá yfir afmæliskökunni einmitt þess vegna. Ég bakaði köku upp úr Disney-matreiðlsubókinni sem er með 2 villum í og ekki skrýtið þó hún væri handónýt...gerði 3 tilraunir! En það varð kaka og Jakob borðaði pastasallat og fetaost (uppáhaldið) og tróð sig út af vínberjum.

Annars er lítið búið að drífa á daga okkar fyrir utan afmælisstúss. Ísak fékk streptókokka helgina sem ég fór norður á aðalfund talmeinafræðinga. Síðan þá er hann búinn að vera meira og minna með hita. Var hitalaus sl föstudag og fór í leikskólann. Sló niður á sunnudaginn og var hitalaus í dag. Aftur hiti núna í kvöld :-( Ferlega pirrandi og leiðinlegt. Hann er samt ekkert svo óhress. Bara hósti og hor en hoppaði um öll gólf með Jakob hér rétt áðan. Við nýttum heimadaginn í dag í heimsókn í Rimaskóla. Hann fékk að koma með hinum leikskólunum í hverfinu og það var lítill drengur sem þrýsti sér fast upp að mömmu sinni á leiðinni. "Ég vil ekki vera hér" var það fyrsta sem hann sagði þegar við nálguðumst skólann! Litli karlinn minn. En svo fórum við inn í bekk, hittum nokkra krakka úr húsinu sem hann þekkir og hann gerði verkefni og fór á bókasafn og hlustaði á sögu og fannst bara gaman þegar upp var staðið. En kannski hefðum við betur verið heima þar sem hann er orðinn lasinn enn einu sinni. Þetta er alveg ferlegt þar sem við erum ekki vön þessu. Þeir hafa alltaf verið svo frískir.

Talandi um veikindi. Jakob er að fara í endurkomu til hjartalæknis á morgun. Þegar hann var um 6 mán uppgötvaðist að það var enn op milli tveggja hólfa hjá honum en engin hætta og endurkoma um 2 ára. Við ætlum að spyrja lækninn líka hvað við eigum að gera varðandi fæturna á honum. Hann gengur stundum svo undarlega-eins og hann geti ekki lyft fótunum eða noti ekki lærvöðvana. Þær tóku þetta upp við okkur á leikskólanum um daginn og sögðu að hann væri frekar linur m.v. hina krakkana. Síðan þá tökum við mikið eftir þessu og best að vera viss um að allt sé í lagi frekar en að bíða.