28. febrúar 2011

Bíó

Við Ísak og Jökull fórum í bíó í gær. Sáum Jóga Björn í þvívídd. Það var bara hin besta skemmtun en elsku kúturinn minn var ekki mjög spenntur. Hann veit hvað hann er hræddur við hávaðann. Held hann hafi síðast farið á Algjör Sveppi með Hjalta og Jökli og Hjalti hélt á tímabili að hann yrði að fara með hann út. Núna voru auðvitað auglýsingarnar á hæstu stillingu og hann hrökk í kút við allan óvæntan hávaða. Var orðinn skíthræddur þegar stuttmynd um Road Runner var sýnd og þegar mér varð litið á hann við hliðina á mér sá ég að barnið hristist bókstaflega og skalf! Allur líkaminn titraði og hann var ískaldur. Litla skinnið mitt, hann var svoooo hræddur! Sem betur fer jafnaði hann sig þegar lækkað var í mesta hávaðanum og myndin byrjaði. Jökull veltist um af hlátri við hliðina á honum.

Alveg ótrúlegur óþarfi þessi hávaði í bíó! Mér finnst oft að þetta sé allt of hátt stillt, hvað þá viðkvæm barnaeyru. En Ísak er óvenju viðkvæmur og maður verður kannski bara að muna eftir eyrnatöppum fyrir hann eins og á Gamlárs og Menningarnótt.

Við fengum konu til að sölumeta íbúðina um daginn. Hún hringdi í dag og lét vita með áætlað verð. Það var svipað og við héldum. Við erum alltaf að skoða á netinu en algjörlega óvíst hvort við getum nokkuð hreyft okkur. Verðum eiginlega bara að bíða og sjá til.

23. febrúar 2011

fjórar óskir

Ísak á fjórar óskir
Númer eitt: Eignast litla systur (!!!???)
Númer tvö: Giftast Ragnheiði (en sko Ívan er svo skotinn í henni líka-sagt með miklum mæðutón)
Númer þrjú: Eignast nýja rennibraut
Númer fjögur: Eignast nýja vini

22. febrúar 2011

Bangsímon Púi


Við erum búin að vera að lesa Bangsímon fyrir Ísak sem kvöldsögu. Hann er bara OF dásamlegur hann Bangsímon. Þessar línur voru í kafla kvöldsins:
"Halló Gríslingur," sagði hann. "Ég hélt að þú værir úti."
"Nei," sagði Gríslingurinn, "það varst þú sem varst úti, Bangsímon."
"Já, einmitt já," sagði Bangsímon. "Ég vissi að annar okkar hefði verið þar."


21. febrúar 2011

Gaman að lifa

Ísak fór í selló-hóptíma á laugardaginn og ég fékk að fara með. Hann stóð sig ofsalega vel, spilaði nýtt lag aleinn við undirspil Örnólfs en þau eru einmitt að æfa sig að koma ein fram krakkarnir. Þetta eru krakkar milli líklega 5 og 6 ára og eru ótrúlega dugleg og ófeimin. Á leiðinni heim sagði Ísak að sér þætti gaman að spila á selló og ég sagði að það væri gaman að heyra því mér þætti svo gaman að fylgjast með honum taka framförum. Þá sagði hann "mér finnst gaman að lifa!" Gjörsamlega bræddi mig þessi elska.

Ég held að það besta sem gat gerst var að sellóið brotnaði um daginn og hann fékk 3 vikna pásu. Hann hefur tekið þvílíkum framförum síðan og lærir sí flóknari lög. Nú er hann að spila lag sem krefst þess að fingurnir færi sig milli strengja OG boginn líka! Rosa flókið sko fyrir 5 ára. Hann situr með tunguna út og útskýrir þetta allt fyrir mér. Hann spilaði fyrir krakkana á deildinni sinni í síðustu viku og tók svo sellóið með í föstudagsmat í Fiskó sl. föstudag og spilaði fyrir ömmu og afa og svo spiluðu þeir frændur í fyrsta sinn saman; Jökull á píanó og hann á sellóið. Þeir gátu spilað "gulur, rauður.." og "Góða mamma". Algjörir snillingar enda ekkert slor í tónlistaruppeldinu hjá þessum drengjum. Svo ekki sé nú minnst á þegar þeir fóru á ballettnámsekiðið sl. vor. Aumingja Frosti og Jakob verða bara látnir éta sand, öll menningin fer í elstu synina.

13. febrúar 2011

Ekki fréttir

Þá er maður búinn að skella í fyrsta kransakökudeigið um ævina. Verður spennandi að smakka. Strákarnir liggja í sófanum og horfa á Latabæ. Meira hvað þetta er vinsælt. Jakob hefur verið með Latabæ meira og minna á heilanum síðan fyrir jól. Ísak var nú aldrei svona húkkt-sem betur fer því þetta er ekki beint það skemmtilegasta sem ég veit. Samt skárra en margt annað eins og Bubbi Byggir sem ég fékk alveg ofnæmi fyrir!

Jakob er búinn að vera lasinn síðan á þriðjudag. Hiti og hor og nú mikill ógeðslegur hósti. Hann hóstaði svo mikið í gærmorgun að hann kastaði upp yfir mig! Gaman að byrja morguninn þannig ;-) En hann er hitalaus og hóstar ekkert á nóttunni lengur svo ég er að vona að þetta sé búið. Hins vegar er Ísak að kvarta um höfuðverk og magapínu núna svo ætli hann sé ekki að taka við... Annars var hann ansi skondinn í fyrrakvöld. Lýsti því yfir að hann ætlaði að verða afi sem væri bara heima, ekkert að vinna, þegar hann yrði stór. Hann ætlaði að búa í sveit því þá þarf maður aldrei að fara í vinnuna! En hann ætlaði samt að vera læknir því hann myndi passa barnabörnin þegar þau væru veik og þá væru þau örugg. Hehe hann er að óska sé sama hlutverks og amma Dísa hefur fengið. Hún hætt að vinna og búin að vera að passa Jakob sl. viku í veikindunum. Ísak hefur áður sagt að hann óski þess að hann sé ekki í leikskóla svo hann geti alltaf verið hjá ömmu Dísu. M.a.s. stundum stunið að honum sé svoooo illt í maganum að hann bara verði að vera hjá ömmu sinni. Klókur

Amma Kristín var að passa drengina á miðvikud.kvöldið. Hún var að lesa fyrir Jakob og spyrja hann út úr "hvað er þetta?" Þegar hún benti á nornina svaraði hann; "amma". Hann var örugglega með óráði af hita blessað barnið hahaha. En fyndinn er hann. Hann er líka ALJGÖR bókaormur. Kemur með hverja bókina á fætur annarri hérna fram og lætur okkur lesa til skiptis. Í uppáhaldi núna eru Max á leikvellinum og Max í feluleik, Bóbó bangsi og Tuma bækurnar. Eða "Tumi læknir" eins og hann kallar hann. Kom að honum undir hjónarúmi í gær (var að elta Mahler) tautandi við sjálfan sig "Bóbó bangsi rólar og rólar, það er ákaflega gaman.." upphafssetningin í bókinni um Bóbó. Það er mjög lítið sem Jakob leikur sér með dót, hann skoðar bækur og eltir köttinn inn á milli. Reyndar þegar hann sest niður við kubbana eða playmoið þá þykist hann aðeins; lætur kallana hoppa eða labba í smá stund.

Jæja, drengir heimta epladjús. Skal gert

4. febrúar 2011

Svona er þetta á hverju kvöldi

Jakob "reynir" að sofna...
Svona getur þetta haldið áfram út í það óendanlega þar til hann sofnar í miðri setningu.