26. janúar 2011

Miðvikudagur

Jesús minn hvað strákarnir eru lengi að sofna! Sérstaklega kobbinn sem fór upp í rúm fyrir einum og hálfum tíma og er enn glaðvakandi. Hann hefur mikið yndi af að henda öllu sem lauslegt er úr rúminu og galar svo og gólar. Ég prófa að vera reið og blíð og ákveðin og hundsa og bara allt sem mér dettur í hug en ekkert virkar. Nú liggur hann og syngur "lítt'inn í Latabæ, ævintýi da ehti da...enginn latu í Latabæ..." voðalega krúttlegt en hann á samt sem áður að vera sofandi á þessum tíma!

Í fyrradag vaknaði hann eins og vanalega um 7 og fór inn til pabba síns að kúra þar sem ég var að fara út úr dyrunum. Þá segir hann "pabbi er að sofa". Þar með er nafnháttur kominn og hann tönglast á alls kyns setningum með "er að" eins og hann sé að æfa sig! Ekki benda á mig, ekki var ég að kenna honum neitt! En hann prófar sig áfram og m.a.s. sagði hann "Ísak er að sofandi". Svo svarar hann oft ef ég segi honum að passa sig eða bara eitthvað "geri það!" Svo ægilega fullorðins eitthvað.

Ísak er alltaf að æfa sig að mála núna. Nær í pensilinn sinn og vatnslitina og málar þær myndir sem hann var búinn að teikna af vinum sínum fyrir 5 ára afmælið. Þær voru örugglega 15 og nú eru þær allar komnar upp á vegg. Það er eiginlega alveg fáránlegt hvað mér finnst þetta gaman og ég reyni að vera rosalega hvetjandi svo hann haldi nú sem lengst á penslinum. Um helgina hringdi Jökull frændi og spurði eftir Ísak. Það sem ég heyrði var eftirfarandi:
-hæ
-nei því miður, við erum að fara í mat hjá Önnu Daggar
-já, það væri gaman að koma á morgun

Hi hi, mætti halda að hann væri fimmtugur en ekki 5 ára. Með þetta allt á hreinu sko. Aumingja Frosti litli þurfti að láta taka aðra framtönnina úr neðri góm í gær. Hafði fengið dót yfir sig og það hreinlega tók nánast tönnina með rót! Þegar ég sagði Ísak þetta spurði hann "er hann dáinn?" Skilningurinn á þessu sviði ekki alveg kominn.

Annars er alltaf jafn brjálað í vinnunni. Nú er ég með nema einu sinni í viku og hún þarf að hitta 4 skjólstæðinga á 4 tímum sem er mjög þétt. Hún er fram til 12 á hádegi og kl. 13 á ég að vera kominn út í bæ á leikskóla. Fimmtudagar eru dálítið "töff". En á morgun fer ég snemma úr vinnunni því ég er að fara að láta taka helv...blöðruna/bóluna innan úr vörinni sem ég hef haft síðan á Þorláksmessu. LOKSINS! Hjúkk hvað það verður gott, búið að vera óþolandi að hafa þetta upp í sér. Það þarf eitthvað að sauma en ég vona að ég geti talað og borðað. Og að ég komist í BALLETT!!! Ætla að prófa að hlaða inn smá krúttvídeói af bræðrum

22. janúar 2011

Fyrst ég byrjaði þá held ég bara áfram!

Grasekkjuhelgi framundan, Maggi er í Skálholti. Ég ætla svo miiiikið að taka því rólega. Þó er ýmislegt sem liggur fyrir; almenn heimilisstörf, skrifa eina fundargerð, kaupa eina gjöf... Það er dálítið meira að gera í heilanum á mér eftir að ég byrjaði hjá Heyrnar og talmeinastöðinni í október. Mikið sem ég er að pæla og hugsa um vinnuna utan vinnutíma. Sem er ekkert neikvætt, finn bara fyrir því að ég losna ekki undan skjólstæðingunum þegar heim er komið. Þetta þýðir bara að ég er að leggja meira á mig. Hin vinnan var orðin svo þægileg og ég kannski aðeins farin að tapa metnaði. Það er líka eitthvað svo vonlaus stemning í skólakerfinu núna. Þessi niðurskurður er náttúrulega hörmulegur og ég heyri það frá skólanum sem ég hætti í að þeir fáu stuðningsfulltrúar sem eftir eru séu að gefast upp og farnir að tilkynna veikindi vegna álags. Þetta er náttúrulega ekki í lagi því hverjum bitnar þetta á nema börnunum? Las í Fréttablaðinu í dag að ein tillaga til sparnaðar væri að kennarar fylgdu ekki 3. og 4. bekkjarnemendum í matartíma! Enn einn staðurinn þar sem stríðni og einelti getur blómstrað óáreitt! Manni hrís hugur við því að senda barnið sitt í skóla sem er með of stórum bekkjum og ofurþreyttum kennurum undir allt of miklu álagi.

Nóg um það. Við fórum með strákan í klippingu sl. fimmtudag til Daddýar. Jakob var EKKI hrifinn og sérstaklega ekki þegar hárið fór að detta ofan á buxurnar hans! Hvað var þessi kona að gera??? En svo tókst nú að róa hann og hann fékk þessa fínu klippingu og var ekkert lítið stoltur á eftir. Rigsaði um eins og hann ætti staðinn. Daddý spurði hann hvað hann væri gamall. Hann svaraði "eins árs, hvað ertu stór?" HAHAHAHA við sprungum úr hlátri. En ekkert nema eðlilegt framhald, alltaf verið að yfirheyra hann að þessu sama: hvað heitirðu, hvað ertu stór, hvað ertu gamall...." Hann kemur sífellt á óvart í orðaforða þessi elska. Sagði "fiðrildi" hérna áðan. Hver kenndi honum orðið fiðrildi ég bara spyr? Magnað hvernig börn tileinka sér tungumálið. Meiri fróðleikur um það síðar;-)

13. janúar 2011

Og þá var komið nýtt ár!

Gleðilegt ár! Alveg hreint ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og ég veit að maður er alltaf að hugsa þetta og segja þetta en það verður bara aldrei of oft sagt! Við eru nýbúin að ganga frá jólaskrautinu síðan í fyrra þegar við tókum það upp aftur og nú erum við strax búin að ganga frá því! Jólin í ár voru náttúrulega einstaklega snubbótt upp á frí og fannst mér ansi undarlegt að þurfa að vinna á milli jóla og nýárs. Maður er orðinn mjög góðu vanur að vinna í skóla verður að segjast. Mikil fríðindi sem fylgja því.

Lífið gengur sinn vanagang hér í Mosarimanum. Haustið leið hratt. Ísak var á sundnámskeiði frá því í september að mig minnir, hjá sunddeild Fjölnis. Fyrst 2 í viku og svo 3 í viku þegar hann færði sig upp um hóp. Hann tók þvílíkum framförum og er efnilegur sundkappi. Seinna námskeiðið var hann einn í lauginni því þetta var fyrir "stóra krakka":-) Hann vildi hins vegar alls ekki halda áfram og er það líka allt í lagi þar sem þetta var ansi stressandi oft að ná þessu inn í dagskránna. Hann hefur verið að æfa sig á sellóið líka og byrjaði hjá Örnólfi í haust. Það hefur gengið ágætlega, hann er ekkert æstur í að æfa sig en hefur farið mikið fram undanfarið og er þessa dagana að æfa "Góða mamma" og "Parísarhjólið". Hann er voða ánægður með leikskólann sinn eins og alltaf. Elstu börnin voru sameinuð í eina deild í nýju húsnæði í haust sem heitir Uglugarður. Þau fengu stílabækur og komu með pennaveski og hann hefur voðalega gaman af þessu blessaða veski! En að fá hann til að krota í bók eða blað hefur verið eins og að biðja hann að éta sand! Hefur bara ekki áhuga! Það hefur reyndar breyst síðustu 3-4 vikurnar. Allt í einu er hann aðeins farinn að lita í bók og gengur betur að halda á skriffæri. Það er samt enn langt í land í þeim þroska hjá honum. Við verðum kannski dugleg að æfa okkur nú þegar áhuginn er aðeins að vakna. Hann er tvisvar búinn að biðja um að skrifa á litla minnismiða og tókst þá að skrifa marga stafi ef ég bara sagði honum hvaða stafur kæmi næst. Um daginn skrifaði hann umsögn um daginn: "allir voru fyrir. Ég borðaði bjúgu". Góð súmmering á þeim degi! Hann er líka með mjög góða hljóðkerfisvitund og farinn að geta sagt til um á hvaða staf orð byrja og enda og hefur mikinn áhuga á orðum og rími. Enda orðinn FIMM! Vá, hvað hann var spenntur fyrir 5 ára afmælið, hann varð m.a.s. svo spenntur fyrir strákaafmælið að hann hreinlega lagðist í rúmið í miðri veislu og var orðinn lasinn! Skreið bara undir sæng meðan strákarnir voru hérna. Litla skinnið en það rjátlaði af honum eftir smá meðal frá henni Ameríku.

Þá er að koma að fréttum að skæruliðanum!!! Jakob er ofsalega kröftugur og hress og yfirleitt alltaf glaður. Hann byrjaði í leikskólanum Laufskálum í ágúst og fór í gegnum þátttökuaðlögun með okkur foreldrunum. Það gekk rosalega vel og hann var ekkert smá glaður að leika við alla krakkana og vera úti. Hann lærði nöfn hinna mjög fljótt og þroskaðist mikið á stuttum tíma. Svo komst hann inn á Vinagarð okkur algjörlega að óvörum og byrjaði þar 1.desember. Aðlögunin þar gekk líka vel, þó hann hefði grátið aðeins fyrst en nú er hann voða glaður þar líka. Málþroskinn er mjög góður, samkvæmt ákv málþroskaprófi sem ég hef verið að nota er hann eins og 23-24 mánaða í orðaforða en er 21 mánaða :-). Enda blaðrar hann og blaðrar allan daginn. Hann er farinn að tala í 3 orða setningum og ELSKAR að syngja! Hann var svo fyndinn þegar hann byrjaði í leikskóla, um leið og þær sögðu orðið "syngja" hljóp hann inn í litla samveruherbergið og settist upp við vegg, tilbúinn að syngja! Hann lærði fljótt fullt af lögum og nú kann hann svo mörg að maður hefur ekki tölu á því. Uppáhaldið var lengi vel "liggaliggalá" en nú tröllríður Latibær öllu svo það er komið langt fram úr því að vera einu sinni fyndið! Hann er gjörsamlega með Latabæ á heilanum og talar varla um annað. Gerir svo íþróttaæfingar á gólfinu eins og íþróttaálfurinn og segir "sjáðu mamma!" "sjáðu pabbi"! Hann er mikil kelirófa og biður oft um að kúra en getur svo verið algjört skass og hikar ekki við að lemja stóra bróður sinn ef Ísak er eitthvað fyrir honum! Það hefur nefninlega verið meira á þann veginn að Jakob er að slá og pirra Ísak af ásettu ráði en að Ísak geri svoleiðis við Jakob. Að lokum verð ég að skrifa að hann er ótrúlega fyndinn oft þegar hann er að reyna að sofna inni í rúmi. Þá galar hann og syngur hástöfum og talar við sjálfan sig lon og don. Ef þeir eru að fara að sofa á sama tíma þá er það hann sem stendur fyrir skemmtiatriðunum og Ísak liggur og hlær þar til hann sofnar löngu á undan bróður sínum.

Ætli ég fari ekki að segja þetta gott. Þurfti eiginlega bara að skrifa þetta til að geta lesið seinna :-) Ef einhver rekst á þetta má sá hinn sami gjarnan kvitta.