28. september 2011

Í fréttum er þetta helst...

Nú er sko allt að komast í vetrarskorðurnar hér í Mosarimanum. Ísak orðinn vel skólaður og vikurútínan farin að taka á sig mynd. Ísak æfir frjálsar með Fjölni 2x í viku og fer í sellótíma 1x í viku. Hann er ánægður með lífið og tilveruna þessi elska. Í síðustu viku kom fyrsta lestrarheftið heim og nú les hann um Óla og Ara sem eiga ís og il o.s.frv. á hverjum degi. Ótrúlegt hvað það gengur vel. Hann er farinn að leika við e-a krakka og sagði í dag að Stefán Egill vildi fá hann í heimsókn eftir skóla. Það vill Emilía líka svo það er voða gaman :-). Síðasta föstudag fór ég með mömmu og strákunum í Grasagarðinn og þar hljóp Ísak um eins og kóngur í ríki sínu. Breiddi út faðminn og hrópaði "Lífið er dásamlegt!" :-) Litla tilfinningaveran mín. Svo tókum við allt í einu eftir fullorðinstönn sem er að gægjast upp úr neðri gómi-þó svo að barnatennurnar séu ekki dottnar enn! Spennandi hvenær það gerist.

Jakob er bara Jakob. Hann er orðinn altalandi þannig lagað. Er m.a.s. allt í einu eitthvað að laga /s/-ið sitt svona upp á eigin spýtur (ekki nema leikskólinn sé eitthvað að pota í það án okkar vitundar). Hann sagði allt í einu /gri:s/ um daginn en ekki /gri:þ/ og svo daginn eftir kom /I:sak/. Annars notar hann nefninlega alltaf /þ/. Um helgina vorum við að kúra upp í rúmi og hann knúsaði mig og knúsaði og sagði ýmist "þú elskar mig" eða "ég elska þig" :-) Seinna um daginn otaði hann svo að mér blokkflautu og hrópaði "ég drep þig"!! Hvað segir maður við því?? Og hvað í ósköpunum er hann að læra á þessum kristilega leikskóla hehe

Svo varð ég 35 í vikunni! Huxa sér, það er magnað. Við buðum auðvitað fjölskyldunni í mat eins og siður er. Það var ofsalega gaman -eins og alltaf. Hlógum mikið og að mörgu. Sögðum allar gömlu góðu sögurnar eins og þegar Hjalti gaf bílinn þeirra Völu, þegar Ingólfur fór á pönk-tónleika með dvergnum, þegar Ingólfur settist inn í stofu hjá ókunnugri konu, þegar Ingólfur....hehe Ingólfssögurnar eru margar!


Annars er ég helst í því að pirrast á strætó þessa dagana. Tek alltaf strætó í vinnuna og hann er svo troðinn þegar hann kemur að minni stoppustöð að ég kemst ekki nema rétt framhjá vagnstjóranum. Þar hangir maður í stólbaki eða súlu og gerir sitt besta að fljúga ekki á næsta mann eða fara úr axlarlið eða eitthvað. HVAÐ EF eitthvað gerist?? Samt er aukavagn sem fer aðeins fyrr en hann stoppar auðvitað ekki hjá mér! Why? Stundum kemst maður inn í miðjan vagn og það er hátíð því þá getur maður yfirleitt haldið sér almennilega í. Oh ég verð að fara að senda kvörtunarbréfið sem ég er marg búin að semja í huganum.

24. ágúst 2011

Fyrsti skóladagurinn

Þá er stórum áfanga náð í lífi Ísaks-og foreldranna. Fyrsti skóladagurinn á enda! Í gær fórum við í viðtal hjá Jenný kennara sem gekk rosa vel. Ísak hefur verið með smá áhyggjur, sagt að hann vilji ekki byrja í skóla og svona. En hann spjallaði dálítið við Jennýju sem virkar ofsalega fín. Svo voru það Maggi og Jakob sem fylgdu honum út í Rimaskóla í morgun. Hann hafði verði ofsa stoltur og spenntur með skólatöskuna á bakinu. Því miður gleymdist myndavélin en ég tók myndir af honum í gær á leið í viðtalið. Ég var með hnút í maganum í allan dag yfir því hvernig honum myndi ganga og líða. Ég er búin að kvíða þessu dálítið þar sem hann þekkir fáa og svona. Fékk frí eftir hádegi í vinnunni til að geta sótt hann og farið með honum í heimsókn í frístundaheimilið sem kallast Tígrisbær. Hann var svo mjög glaður þegar ég kom, sýndi mér allt og var spenntur að fara í Tígrisbæ. Þar vildi hann fyrst hafa mig frekar nálægt en svo varð ég algjörlega óþörf og út úr kú þarna. Þau fóru í nafnaleik og áttu að segja nafnið sitt og hvað þeim þætti skemmtilegt. Ísak sagði að sér þætti gaman í Tígrisbæ :-)
Ég ákvað þá bara að fara í göngutúr og sótti hann svo hálftíma seinna alsælan. Á morgun ætlar hann sko að fara ALEINN í Tígrisbæ-mjög spenntur. Það er því þungu fargi af okkur foreldrunum létt svona eftir fyrsta daginn. Vonandi eignast hann svo bara fljótt vini.

Það verða örugglega viðbrigði að vera foreldri grunnskólabarns. Spennandi tímar framundan en mjög gott að eiga einn ennþá í leikskóla ;-)

15. ágúst 2011

Sumarfrí frh.

Ef ég ætti að skrifa samantekt um ferðalag okkar síðustu vikur yrði ég örugglega fljótt uppgefin. En svona í grófum dráttum fórum við á ættarmót Magga-megin á Bíldudal síðustu helgina í júlí og þaðan ferðuðumst við aðeins um Vestfirðina; Breiðuvík, Látrabjarg og Barðarströndina. Ég var alveg heilluð af þessu landslagi og fannst bara eins og við værum í útlöndum með allar þessar hvítu fallegu sandstrendur. Svo fórum við í gegnum Dalina og áfram á Siglufjörð og þaðan í Mývatnssveitna þar sem var Gúmmiskór (ættarmót) um Verslunarmannahelgina. Svo vorum við bara í rólegheitunum í Vogum þar til fyrir rúmri viku. Ótrúlega er nú alltaf gott að koma í sveitina og gott fyrir strákana að vera þarna. Það var því miður ekkert allt of gott veður en einn daginn var samt hægt að vera í búinu út í eitt og svo fórum við út á vatn með pabba. Það var æðislegt, hef ekki komið út á vatn í mörg ár. Við fórum með smá erfiðismunum upp í Geitey sem Ísak fannst æðislegt-alvöru eyðieyja! Við fundum m.a.s. fjársjóð! Flottan kindakjálka með lausa tönn. Ótrúlega flott.

Gunnar var svo góður að passa íbúðina og Mahler á meðan við vorum í burtu. Reiður nágranni hringdi rétt áður en við fórum í fríið og sagði sig vera orðinn fullsaddan af kettinum. Hann kæmi inn á hverri nóttu hjá sér og færi beint í hundamatinn. Hann væri með 3 hunda og það yrði allt vitlaust! Nú skildum við bara sjá til þess að þetta kæmi ekki fyrir oftar!!! Við fórum alveg í panik en þetta reddaðist. Gunnar var hér og lokaði gluggum á nóttunni. Það þýðir reyndar lítið því hann opnar þá bara, jafnvel þó maður kræki þá aftur! Nú erum við reyndar búin að finna lausn á því líka og nágranninn hefur ekki hringt aftur. En ótrúlegt að gera bara ekki ráðstafanir sjálfur!

Nú er hið ótrúlega að fara að gerast á mánudaginn-Ísak byrjar í skóla. Mömmuhjartað smá titrandi en vonandi fær hann góðan kennara og góðan bekk. Hann kannast við nokkra krakka sem byrja með honum, þau eru 4 í húsinu sem vonandi lenda í sama bekk. Hann er mátulega spenntur-stundum finnst honum þetta spennandi og stundum langar hann ekki í skóla. Ég byrja´i 90% hlutfalli í september og verður gaman að vera aftur á einum vinnustað en ekki 2-3 yfir vikuna.

Jakob er líka að stækka og þroskast. Hann á að byrja á eldri deild í vikunni. Það átti ekki að færa hann strax en besti vinurinn fór á aðra deild og hann var víst alveg vængbrotinn lítill maður. Og vinurinn harðneitaði að vera á nýju deildinni af því Jakob var ekki þar. Hugsa sér að vera 2 ára og búinn að finna besta vin, ótrúlegu krúttin. Jakob náði sér í þetta fína /r/ í fríinu og rrrrrúllar því vandlega í munninum á sér. Dálítið mikið fyrr en bróðir sinn að því. /s/ er hins vegar enn mjög smámælt og vantar í alla samhljóðaklasa. (gott að skrifa þetta hér fyrir mig sjálfa upp á seinni tíma ;-))

19. júlí 2011

Lausar tennur!

Nú er það LOKSINS að gerast. Ísak (sem er búinn að tilkynna með reglulegu millibili síðast liðið ár að hann sé með lausar tennur) er kominn með 2 lausar framtennur!!! Þær bifast aðeins ef maður ýtir vel á þær en samt; þær eru lausar!

Við fórum í útilegu um helgina. Eina nótt á Þingvelli. Það var geggjað veður en mér var ansi kalt um nóttina. Svo vaknaði maður auðvitað í svitabaði eins og það á að vera í tjaldi. Hmm ég er ekki mikill aðdáandi þess að sofa í tjaldi en læt mig hafa það. Hjalti og Vala og strákarnir voru með okkur og Frosti er greinilega ekki heldur aðdáandi þess að sofa í tjaldi... En þetta var skemmtilegt í alla staði fyrir utan nóttina. Nýja tjaldið okkar gerði sitt gagn og verður notað meira fljótlega.

Við Maggi réðumst í framkvæmdir í eldhúsinu fyrir viku. Tókum eldhússkápana í yfirhalningu og borðstofustólana í bólstrun. Við máluðum eldhúsið alveg hvítt og settum nýjar höldur og skiptum gömlu sessunum út fyrir leðurlíki (sem má sulla á!!!). Vala hjálpaði okkur með það svo þetta kostaði sama og ekki neitt. Nú er voða fínt hjá okkur, mikill munur á smá breytingum. Kannski verður íbúðin söluvænni fyrir vikið?

12. júlí 2011

Sumarfrí

Hér eru allir komnir í sumarfrí og í góðum gír. Maggi byrjaði á að fara í Skálholt í eina viku en við vorum bara heima á meðan. Við fórum reyndar og heimsóttum hann sl. föstudag og Ísak fékk að vera eftir og gista. Hann var ekkert smá montinn. Svo sótti ég hann á laugardaginn og við hlustuðum á tónleika Hljómeykis í Skálholtskirkju. Hann var alveg að drepast greyið úr leiðindum en var ekki með nein læti, bara allur á iði og stundi og stundi. Jakob fékk að vera hjá ömmu og afa í Fiskó á meðan og skemmti sér þvílíkt vel. Fór að skoða blómin í Grasagarðinum og datt í vatnið sem var voða skemmtilegt. Hann steig reyndar bara með annan fótinn en engu að síður hægt að ræða það fram og til baka. Svo erum við búin að fara og grilla í Heiðmörk sem var dásamlegt og eyddum hálfum sunnudeginum á Árbæjarsafni sem strákarnir elska. Þeim finnst svo gaman í "leikhúsinu" þar sem allt dótið er og búningarnir og brúðuleikhúsið.
Það er lítið á stefnuskránni hjá okkur næstu daga. Förum svo á ættarmót á Bíldudal og þaðan norður í Mývatnssveit seinna í mánuðinum. Ísak ætlar að vera í 2 vikur-tilkynnti það. Hann hlakkar svo til að fara í sveitina og fara í í búið. Ég óska þess svo bara að fá fleiri sólardaga á pallinum :-D

26. júní 2011

Júní

Margt hefur á daga okkar drifið síðan síðast-enda langt um liðið. Sumt breytist þó lítið eins og að Nemó er enn í uppáhaldi og meðan ég skrifa þetta erum við Jakob að horfa á Nemó í örugglega 100.sinnSjáum til, hvað hefur nú gerst síðan í mars? Ég ákvað að hætta í Sæmó. Nú ætla ég að vera á einum vinnustað í fyrsta sinn frá því að ég vann áertälje sjukhus. Það verður þægilegt. Ég hugsa að ég fari í 80-90% hlutfall. Mig langar að geta verið styttra e-n dag svo Ísak þurfi ekki alltaf að vera lengi í skólaselinu. Já því frumburðurinn er að byrja í skóla í haust! Úff hvað mér fannst það erfið tilhugsun lengi vel en nú held ég að ég sé að mestu búin að jafna mig... samt finnst mér þetta ótrúlegt. Litla barnið! Hann er samt örugglega meira tilbúin en við foreldrarnir.Hann hefur þroskast svo mikið í vetur. Orðinn miklu öruggari með sig, svo mikið að vinir og fjölskylda taka eftir því. Hann t.d. þorir að tala við blá-ókunnugt fólk, bað um að fá að syngja fyrir alla í föstudagsmatnum síðast og bara almennt ótrúlega glaður. Skotinn í stelpu í leikskólanum og allt :-) Hann hefur fengið áhuga á að skrifa og situr stundum og "reiknar" (= skrifar stafi) í stílabókina sína, brýtur saman fötin sín á hverju kvöldi og er ótrúlega hjálplegur t.d. í matarinnkaupum. Eitt breytist þó hægt og það er samband þeirra bræðra. Jakob heldur áfram að lemja hann og Ísak heldur áfram að góla undan honum. Litla dýrið okkar! Hann er svo hræðilega mikið 2 ára þessa dagana eitthvað. Vill gera allt sjálfur og svo er hann hreinlega óþekkur oft á tíðum. Neitar að hlíða og öskrar og gargar ef eitthvað er ekki eftir hans höfði. Hann kastar sér hiklaust í gólfið í búðum og gargar. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að hann GARGAR heila bílferð af því eitthvað er ekki eins og hann vill. En svo er hann auðvitað bara dýrlegur. Segir "elsku litla mamma mín" og knúsar mann. Hann elskar að fikta í hárinu á mér og kúra með okkur í sófanum. Í gær sýndi ég honum mynd af Ragnari Steini í blaðinu ásamt leikskólanum sínum. Hann benti á leikskólakennarann og sagði "sjáðu, Indra! Oh hann er svo sæt!" Hann er náttúrulega farinn að tjá sig um allt og ekkert og oft segir hann bara eitthvað af því að allir eru að tala. Ég tékkaði á orðaforðanum í síðustu viku og skv Orðaskilum er hann með orðaforða á við 33 mánaða barn en hann er 27 mánaða. Mont mont. Framburðurinn er líka frekar skýr m.v. aldur og gaman að fylgjast með hvernig hann er að þróast. Hann er líka farinn að nota frekar flókna málfræði m.v. aldur svo ég er alveg steinhissa. Manni finnst hann auðvitað voða duglegur m.v. börnin sem ég er að hitta nánast daglega svo það er ekki skrýtið þó ég sé montin.
Þetta verður langur pistill ef ég ætla að fara að lýsa öllu sem hefur gerst og breyst. Við erum nú að fara í sumarfrí eftir viku svo þá kannski gef ég mér tíma til að skrifa oftar. Eða ekki... Vonandi verður veðrið gott svo maður verður bara úti. Maður þarf svo sannarlega sól og hita í kropinn eftir þetta kuldavor.

5. apríl 2011

Tveggja ára


Elskulegi Jakob okkar er orðinn 2 ára! Ótrúlegt, ég veit, maður segir þetta á hverju afmæli barna sinna en það er alltaf jafn ótrúlegt. Þessi litli maður er náttúrulega bara draumabarn. Fullkominn eins og við fengum staðfest í foreldraviðtalinu í leikskólanum í dag.

Afmælisdagurinn var haldinn hátíðlegur með pökkum og afmælissöng í morgunssárið. Jakob vaknaði nú ekki við tilraunir fjölskyldunnar til að syngja svona snemma morguns. Hann var enn hálf sofandi þegar hann opnaði pakkann frá Ísak (-sem hafði valið plastbollastell og hlakkaði sjálfur mikið til að fá þetta í leikfangasafnið-)en hann glaðvaknaði við Latabæjargallann sem hann fékk frá foreldrum sínum. "Klæða í" sagði hann bara og var alsæll :-D Svo kom fjölskyldan eftir vinnu og ég sver það hann hefði getað lifað á kortinu sem fylgdi pakkanum frá Daða og Önnu. Sjálfur Íþróttaálfurinn! En hann var ægilega glaður og spenntur yfir öllu, hljóp á milli fólks og sagði "sjáðu sjáðu...". Jakob er ekki enn farinn að borða kökur, hefur bara engan áhuga á þeim og mamman hefði kannski átt að missa aðeins færri hárstrá yfir afmæliskökunni einmitt þess vegna. Ég bakaði köku upp úr Disney-matreiðlsubókinni sem er með 2 villum í og ekki skrýtið þó hún væri handónýt...gerði 3 tilraunir! En það varð kaka og Jakob borðaði pastasallat og fetaost (uppáhaldið) og tróð sig út af vínberjum.

Annars er lítið búið að drífa á daga okkar fyrir utan afmælisstúss. Ísak fékk streptókokka helgina sem ég fór norður á aðalfund talmeinafræðinga. Síðan þá er hann búinn að vera meira og minna með hita. Var hitalaus sl föstudag og fór í leikskólann. Sló niður á sunnudaginn og var hitalaus í dag. Aftur hiti núna í kvöld :-( Ferlega pirrandi og leiðinlegt. Hann er samt ekkert svo óhress. Bara hósti og hor en hoppaði um öll gólf með Jakob hér rétt áðan. Við nýttum heimadaginn í dag í heimsókn í Rimaskóla. Hann fékk að koma með hinum leikskólunum í hverfinu og það var lítill drengur sem þrýsti sér fast upp að mömmu sinni á leiðinni. "Ég vil ekki vera hér" var það fyrsta sem hann sagði þegar við nálguðumst skólann! Litli karlinn minn. En svo fórum við inn í bekk, hittum nokkra krakka úr húsinu sem hann þekkir og hann gerði verkefni og fór á bókasafn og hlustaði á sögu og fannst bara gaman þegar upp var staðið. En kannski hefðum við betur verið heima þar sem hann er orðinn lasinn enn einu sinni. Þetta er alveg ferlegt þar sem við erum ekki vön þessu. Þeir hafa alltaf verið svo frískir.

Talandi um veikindi. Jakob er að fara í endurkomu til hjartalæknis á morgun. Þegar hann var um 6 mán uppgötvaðist að það var enn op milli tveggja hólfa hjá honum en engin hætta og endurkoma um 2 ára. Við ætlum að spyrja lækninn líka hvað við eigum að gera varðandi fæturna á honum. Hann gengur stundum svo undarlega-eins og hann geti ekki lyft fótunum eða noti ekki lærvöðvana. Þær tóku þetta upp við okkur á leikskólanum um daginn og sögðu að hann væri frekar linur m.v. hina krakkana. Síðan þá tökum við mikið eftir þessu og best að vera viss um að allt sé í lagi frekar en að bíða.


13. mars 2011

Ég spurði Jakob í gær hvort ég ætti ekki að taka kúkinn.
"Nei! Ég vil sita á honum" var svarið


28. febrúar 2011

Bíó

Við Ísak og Jökull fórum í bíó í gær. Sáum Jóga Björn í þvívídd. Það var bara hin besta skemmtun en elsku kúturinn minn var ekki mjög spenntur. Hann veit hvað hann er hræddur við hávaðann. Held hann hafi síðast farið á Algjör Sveppi með Hjalta og Jökli og Hjalti hélt á tímabili að hann yrði að fara með hann út. Núna voru auðvitað auglýsingarnar á hæstu stillingu og hann hrökk í kút við allan óvæntan hávaða. Var orðinn skíthræddur þegar stuttmynd um Road Runner var sýnd og þegar mér varð litið á hann við hliðina á mér sá ég að barnið hristist bókstaflega og skalf! Allur líkaminn titraði og hann var ískaldur. Litla skinnið mitt, hann var svoooo hræddur! Sem betur fer jafnaði hann sig þegar lækkað var í mesta hávaðanum og myndin byrjaði. Jökull veltist um af hlátri við hliðina á honum.

Alveg ótrúlegur óþarfi þessi hávaði í bíó! Mér finnst oft að þetta sé allt of hátt stillt, hvað þá viðkvæm barnaeyru. En Ísak er óvenju viðkvæmur og maður verður kannski bara að muna eftir eyrnatöppum fyrir hann eins og á Gamlárs og Menningarnótt.

Við fengum konu til að sölumeta íbúðina um daginn. Hún hringdi í dag og lét vita með áætlað verð. Það var svipað og við héldum. Við erum alltaf að skoða á netinu en algjörlega óvíst hvort við getum nokkuð hreyft okkur. Verðum eiginlega bara að bíða og sjá til.

23. febrúar 2011

fjórar óskir

Ísak á fjórar óskir
Númer eitt: Eignast litla systur (!!!???)
Númer tvö: Giftast Ragnheiði (en sko Ívan er svo skotinn í henni líka-sagt með miklum mæðutón)
Númer þrjú: Eignast nýja rennibraut
Númer fjögur: Eignast nýja vini

22. febrúar 2011

Bangsímon Púi


Við erum búin að vera að lesa Bangsímon fyrir Ísak sem kvöldsögu. Hann er bara OF dásamlegur hann Bangsímon. Þessar línur voru í kafla kvöldsins:
"Halló Gríslingur," sagði hann. "Ég hélt að þú værir úti."
"Nei," sagði Gríslingurinn, "það varst þú sem varst úti, Bangsímon."
"Já, einmitt já," sagði Bangsímon. "Ég vissi að annar okkar hefði verið þar."


21. febrúar 2011

Gaman að lifa

Ísak fór í selló-hóptíma á laugardaginn og ég fékk að fara með. Hann stóð sig ofsalega vel, spilaði nýtt lag aleinn við undirspil Örnólfs en þau eru einmitt að æfa sig að koma ein fram krakkarnir. Þetta eru krakkar milli líklega 5 og 6 ára og eru ótrúlega dugleg og ófeimin. Á leiðinni heim sagði Ísak að sér þætti gaman að spila á selló og ég sagði að það væri gaman að heyra því mér þætti svo gaman að fylgjast með honum taka framförum. Þá sagði hann "mér finnst gaman að lifa!" Gjörsamlega bræddi mig þessi elska.

Ég held að það besta sem gat gerst var að sellóið brotnaði um daginn og hann fékk 3 vikna pásu. Hann hefur tekið þvílíkum framförum síðan og lærir sí flóknari lög. Nú er hann að spila lag sem krefst þess að fingurnir færi sig milli strengja OG boginn líka! Rosa flókið sko fyrir 5 ára. Hann situr með tunguna út og útskýrir þetta allt fyrir mér. Hann spilaði fyrir krakkana á deildinni sinni í síðustu viku og tók svo sellóið með í föstudagsmat í Fiskó sl. föstudag og spilaði fyrir ömmu og afa og svo spiluðu þeir frændur í fyrsta sinn saman; Jökull á píanó og hann á sellóið. Þeir gátu spilað "gulur, rauður.." og "Góða mamma". Algjörir snillingar enda ekkert slor í tónlistaruppeldinu hjá þessum drengjum. Svo ekki sé nú minnst á þegar þeir fóru á ballettnámsekiðið sl. vor. Aumingja Frosti og Jakob verða bara látnir éta sand, öll menningin fer í elstu synina.

13. febrúar 2011

Ekki fréttir

Þá er maður búinn að skella í fyrsta kransakökudeigið um ævina. Verður spennandi að smakka. Strákarnir liggja í sófanum og horfa á Latabæ. Meira hvað þetta er vinsælt. Jakob hefur verið með Latabæ meira og minna á heilanum síðan fyrir jól. Ísak var nú aldrei svona húkkt-sem betur fer því þetta er ekki beint það skemmtilegasta sem ég veit. Samt skárra en margt annað eins og Bubbi Byggir sem ég fékk alveg ofnæmi fyrir!

Jakob er búinn að vera lasinn síðan á þriðjudag. Hiti og hor og nú mikill ógeðslegur hósti. Hann hóstaði svo mikið í gærmorgun að hann kastaði upp yfir mig! Gaman að byrja morguninn þannig ;-) En hann er hitalaus og hóstar ekkert á nóttunni lengur svo ég er að vona að þetta sé búið. Hins vegar er Ísak að kvarta um höfuðverk og magapínu núna svo ætli hann sé ekki að taka við... Annars var hann ansi skondinn í fyrrakvöld. Lýsti því yfir að hann ætlaði að verða afi sem væri bara heima, ekkert að vinna, þegar hann yrði stór. Hann ætlaði að búa í sveit því þá þarf maður aldrei að fara í vinnuna! En hann ætlaði samt að vera læknir því hann myndi passa barnabörnin þegar þau væru veik og þá væru þau örugg. Hehe hann er að óska sé sama hlutverks og amma Dísa hefur fengið. Hún hætt að vinna og búin að vera að passa Jakob sl. viku í veikindunum. Ísak hefur áður sagt að hann óski þess að hann sé ekki í leikskóla svo hann geti alltaf verið hjá ömmu Dísu. M.a.s. stundum stunið að honum sé svoooo illt í maganum að hann bara verði að vera hjá ömmu sinni. Klókur

Amma Kristín var að passa drengina á miðvikud.kvöldið. Hún var að lesa fyrir Jakob og spyrja hann út úr "hvað er þetta?" Þegar hún benti á nornina svaraði hann; "amma". Hann var örugglega með óráði af hita blessað barnið hahaha. En fyndinn er hann. Hann er líka ALJGÖR bókaormur. Kemur með hverja bókina á fætur annarri hérna fram og lætur okkur lesa til skiptis. Í uppáhaldi núna eru Max á leikvellinum og Max í feluleik, Bóbó bangsi og Tuma bækurnar. Eða "Tumi læknir" eins og hann kallar hann. Kom að honum undir hjónarúmi í gær (var að elta Mahler) tautandi við sjálfan sig "Bóbó bangsi rólar og rólar, það er ákaflega gaman.." upphafssetningin í bókinni um Bóbó. Það er mjög lítið sem Jakob leikur sér með dót, hann skoðar bækur og eltir köttinn inn á milli. Reyndar þegar hann sest niður við kubbana eða playmoið þá þykist hann aðeins; lætur kallana hoppa eða labba í smá stund.

Jæja, drengir heimta epladjús. Skal gert

4. febrúar 2011

Svona er þetta á hverju kvöldi

Jakob "reynir" að sofna...
Svona getur þetta haldið áfram út í það óendanlega þar til hann sofnar í miðri setningu.

26. janúar 2011

Miðvikudagur

Jesús minn hvað strákarnir eru lengi að sofna! Sérstaklega kobbinn sem fór upp í rúm fyrir einum og hálfum tíma og er enn glaðvakandi. Hann hefur mikið yndi af að henda öllu sem lauslegt er úr rúminu og galar svo og gólar. Ég prófa að vera reið og blíð og ákveðin og hundsa og bara allt sem mér dettur í hug en ekkert virkar. Nú liggur hann og syngur "lítt'inn í Latabæ, ævintýi da ehti da...enginn latu í Latabæ..." voðalega krúttlegt en hann á samt sem áður að vera sofandi á þessum tíma!

Í fyrradag vaknaði hann eins og vanalega um 7 og fór inn til pabba síns að kúra þar sem ég var að fara út úr dyrunum. Þá segir hann "pabbi er að sofa". Þar með er nafnháttur kominn og hann tönglast á alls kyns setningum með "er að" eins og hann sé að æfa sig! Ekki benda á mig, ekki var ég að kenna honum neitt! En hann prófar sig áfram og m.a.s. sagði hann "Ísak er að sofandi". Svo svarar hann oft ef ég segi honum að passa sig eða bara eitthvað "geri það!" Svo ægilega fullorðins eitthvað.

Ísak er alltaf að æfa sig að mála núna. Nær í pensilinn sinn og vatnslitina og málar þær myndir sem hann var búinn að teikna af vinum sínum fyrir 5 ára afmælið. Þær voru örugglega 15 og nú eru þær allar komnar upp á vegg. Það er eiginlega alveg fáránlegt hvað mér finnst þetta gaman og ég reyni að vera rosalega hvetjandi svo hann haldi nú sem lengst á penslinum. Um helgina hringdi Jökull frændi og spurði eftir Ísak. Það sem ég heyrði var eftirfarandi:
-hæ
-nei því miður, við erum að fara í mat hjá Önnu Daggar
-já, það væri gaman að koma á morgun

Hi hi, mætti halda að hann væri fimmtugur en ekki 5 ára. Með þetta allt á hreinu sko. Aumingja Frosti litli þurfti að láta taka aðra framtönnina úr neðri góm í gær. Hafði fengið dót yfir sig og það hreinlega tók nánast tönnina með rót! Þegar ég sagði Ísak þetta spurði hann "er hann dáinn?" Skilningurinn á þessu sviði ekki alveg kominn.

Annars er alltaf jafn brjálað í vinnunni. Nú er ég með nema einu sinni í viku og hún þarf að hitta 4 skjólstæðinga á 4 tímum sem er mjög þétt. Hún er fram til 12 á hádegi og kl. 13 á ég að vera kominn út í bæ á leikskóla. Fimmtudagar eru dálítið "töff". En á morgun fer ég snemma úr vinnunni því ég er að fara að láta taka helv...blöðruna/bóluna innan úr vörinni sem ég hef haft síðan á Þorláksmessu. LOKSINS! Hjúkk hvað það verður gott, búið að vera óþolandi að hafa þetta upp í sér. Það þarf eitthvað að sauma en ég vona að ég geti talað og borðað. Og að ég komist í BALLETT!!! Ætla að prófa að hlaða inn smá krúttvídeói af bræðrum

22. janúar 2011

Fyrst ég byrjaði þá held ég bara áfram!

Grasekkjuhelgi framundan, Maggi er í Skálholti. Ég ætla svo miiiikið að taka því rólega. Þó er ýmislegt sem liggur fyrir; almenn heimilisstörf, skrifa eina fundargerð, kaupa eina gjöf... Það er dálítið meira að gera í heilanum á mér eftir að ég byrjaði hjá Heyrnar og talmeinastöðinni í október. Mikið sem ég er að pæla og hugsa um vinnuna utan vinnutíma. Sem er ekkert neikvætt, finn bara fyrir því að ég losna ekki undan skjólstæðingunum þegar heim er komið. Þetta þýðir bara að ég er að leggja meira á mig. Hin vinnan var orðin svo þægileg og ég kannski aðeins farin að tapa metnaði. Það er líka eitthvað svo vonlaus stemning í skólakerfinu núna. Þessi niðurskurður er náttúrulega hörmulegur og ég heyri það frá skólanum sem ég hætti í að þeir fáu stuðningsfulltrúar sem eftir eru séu að gefast upp og farnir að tilkynna veikindi vegna álags. Þetta er náttúrulega ekki í lagi því hverjum bitnar þetta á nema börnunum? Las í Fréttablaðinu í dag að ein tillaga til sparnaðar væri að kennarar fylgdu ekki 3. og 4. bekkjarnemendum í matartíma! Enn einn staðurinn þar sem stríðni og einelti getur blómstrað óáreitt! Manni hrís hugur við því að senda barnið sitt í skóla sem er með of stórum bekkjum og ofurþreyttum kennurum undir allt of miklu álagi.

Nóg um það. Við fórum með strákan í klippingu sl. fimmtudag til Daddýar. Jakob var EKKI hrifinn og sérstaklega ekki þegar hárið fór að detta ofan á buxurnar hans! Hvað var þessi kona að gera??? En svo tókst nú að róa hann og hann fékk þessa fínu klippingu og var ekkert lítið stoltur á eftir. Rigsaði um eins og hann ætti staðinn. Daddý spurði hann hvað hann væri gamall. Hann svaraði "eins árs, hvað ertu stór?" HAHAHAHA við sprungum úr hlátri. En ekkert nema eðlilegt framhald, alltaf verið að yfirheyra hann að þessu sama: hvað heitirðu, hvað ertu stór, hvað ertu gamall...." Hann kemur sífellt á óvart í orðaforða þessi elska. Sagði "fiðrildi" hérna áðan. Hver kenndi honum orðið fiðrildi ég bara spyr? Magnað hvernig börn tileinka sér tungumálið. Meiri fróðleikur um það síðar;-)

13. janúar 2011

Og þá var komið nýtt ár!

Gleðilegt ár! Alveg hreint ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og ég veit að maður er alltaf að hugsa þetta og segja þetta en það verður bara aldrei of oft sagt! Við eru nýbúin að ganga frá jólaskrautinu síðan í fyrra þegar við tókum það upp aftur og nú erum við strax búin að ganga frá því! Jólin í ár voru náttúrulega einstaklega snubbótt upp á frí og fannst mér ansi undarlegt að þurfa að vinna á milli jóla og nýárs. Maður er orðinn mjög góðu vanur að vinna í skóla verður að segjast. Mikil fríðindi sem fylgja því.

Lífið gengur sinn vanagang hér í Mosarimanum. Haustið leið hratt. Ísak var á sundnámskeiði frá því í september að mig minnir, hjá sunddeild Fjölnis. Fyrst 2 í viku og svo 3 í viku þegar hann færði sig upp um hóp. Hann tók þvílíkum framförum og er efnilegur sundkappi. Seinna námskeiðið var hann einn í lauginni því þetta var fyrir "stóra krakka":-) Hann vildi hins vegar alls ekki halda áfram og er það líka allt í lagi þar sem þetta var ansi stressandi oft að ná þessu inn í dagskránna. Hann hefur verið að æfa sig á sellóið líka og byrjaði hjá Örnólfi í haust. Það hefur gengið ágætlega, hann er ekkert æstur í að æfa sig en hefur farið mikið fram undanfarið og er þessa dagana að æfa "Góða mamma" og "Parísarhjólið". Hann er voða ánægður með leikskólann sinn eins og alltaf. Elstu börnin voru sameinuð í eina deild í nýju húsnæði í haust sem heitir Uglugarður. Þau fengu stílabækur og komu með pennaveski og hann hefur voðalega gaman af þessu blessaða veski! En að fá hann til að krota í bók eða blað hefur verið eins og að biðja hann að éta sand! Hefur bara ekki áhuga! Það hefur reyndar breyst síðustu 3-4 vikurnar. Allt í einu er hann aðeins farinn að lita í bók og gengur betur að halda á skriffæri. Það er samt enn langt í land í þeim þroska hjá honum. Við verðum kannski dugleg að æfa okkur nú þegar áhuginn er aðeins að vakna. Hann er tvisvar búinn að biðja um að skrifa á litla minnismiða og tókst þá að skrifa marga stafi ef ég bara sagði honum hvaða stafur kæmi næst. Um daginn skrifaði hann umsögn um daginn: "allir voru fyrir. Ég borðaði bjúgu". Góð súmmering á þeim degi! Hann er líka með mjög góða hljóðkerfisvitund og farinn að geta sagt til um á hvaða staf orð byrja og enda og hefur mikinn áhuga á orðum og rími. Enda orðinn FIMM! Vá, hvað hann var spenntur fyrir 5 ára afmælið, hann varð m.a.s. svo spenntur fyrir strákaafmælið að hann hreinlega lagðist í rúmið í miðri veislu og var orðinn lasinn! Skreið bara undir sæng meðan strákarnir voru hérna. Litla skinnið en það rjátlaði af honum eftir smá meðal frá henni Ameríku.

Þá er að koma að fréttum að skæruliðanum!!! Jakob er ofsalega kröftugur og hress og yfirleitt alltaf glaður. Hann byrjaði í leikskólanum Laufskálum í ágúst og fór í gegnum þátttökuaðlögun með okkur foreldrunum. Það gekk rosalega vel og hann var ekkert smá glaður að leika við alla krakkana og vera úti. Hann lærði nöfn hinna mjög fljótt og þroskaðist mikið á stuttum tíma. Svo komst hann inn á Vinagarð okkur algjörlega að óvörum og byrjaði þar 1.desember. Aðlögunin þar gekk líka vel, þó hann hefði grátið aðeins fyrst en nú er hann voða glaður þar líka. Málþroskinn er mjög góður, samkvæmt ákv málþroskaprófi sem ég hef verið að nota er hann eins og 23-24 mánaða í orðaforða en er 21 mánaða :-). Enda blaðrar hann og blaðrar allan daginn. Hann er farinn að tala í 3 orða setningum og ELSKAR að syngja! Hann var svo fyndinn þegar hann byrjaði í leikskóla, um leið og þær sögðu orðið "syngja" hljóp hann inn í litla samveruherbergið og settist upp við vegg, tilbúinn að syngja! Hann lærði fljótt fullt af lögum og nú kann hann svo mörg að maður hefur ekki tölu á því. Uppáhaldið var lengi vel "liggaliggalá" en nú tröllríður Latibær öllu svo það er komið langt fram úr því að vera einu sinni fyndið! Hann er gjörsamlega með Latabæ á heilanum og talar varla um annað. Gerir svo íþróttaæfingar á gólfinu eins og íþróttaálfurinn og segir "sjáðu mamma!" "sjáðu pabbi"! Hann er mikil kelirófa og biður oft um að kúra en getur svo verið algjört skass og hikar ekki við að lemja stóra bróður sinn ef Ísak er eitthvað fyrir honum! Það hefur nefninlega verið meira á þann veginn að Jakob er að slá og pirra Ísak af ásettu ráði en að Ísak geri svoleiðis við Jakob. Að lokum verð ég að skrifa að hann er ótrúlega fyndinn oft þegar hann er að reyna að sofna inni í rúmi. Þá galar hann og syngur hástöfum og talar við sjálfan sig lon og don. Ef þeir eru að fara að sofa á sama tíma þá er það hann sem stendur fyrir skemmtiatriðunum og Ísak liggur og hlær þar til hann sofnar löngu á undan bróður sínum.

Ætli ég fari ekki að segja þetta gott. Þurfti eiginlega bara að skrifa þetta til að geta lesið seinna :-) Ef einhver rekst á þetta má sá hinn sami gjarnan kvitta.