14. maí 2010


Nú er Jakob búinn að vera 1 árs ansi lengi!

Hér gengur lífið sinn vanagang, ég er búinn að vera í sumarfríi síðan 11.maí þar sem ég átti allt sumarfríið síðan í fyrra inni. Gleymdi bara aðeins að taka sumarfrí í fæðingarorlofinu...úps! Maggi er líka kominn í frí og fórum við fjölskyldan í fyrstu útilegu aldarinnar og fyrstu útilegu strákanna núna um helgina. Við fórum á Arnarstapa á Snæfellsnesinu með tjald og allar græjur. Ísak fannst þetta æði og auðvitað Jakob líka, en hann er nú glaður sama hvar hann er. Ísak lék brúðubílinn allt föstudagskvöldið. Var inn og út úr bílnum og kynnti leikrit og brúður hægri vinstri. Maggi kom upp tjaldinu og kom þá í ljós að í því voru 2 "herbergi" og við bara með 3 dýnur. Leistum það m.þ.a. leyfa Ísak að sofa einum öðru megin og svo við hjónin með Jakob hinum megin. Það var afskaplega erfitt að koma Jakob niður, við reyndum að svæfa hann og láta hann einan og ekkert gekk. Þegar hann var einn renndi hann bara rennilásnum fram og stakk sínum krulluhaus út og sagði "hæ!"Endaði á að hann sofnaði ekki fyrr en hálf tólf undir mömmusöng. Á laugardaginn vaknaði hann samt auðvitað á sínum tíma eða upp úr 7 og dreif alla á fætur. Við skelltum okkur í bíltúr til Ólafsvíkur og á Grundarfjörð þar sem við prófuðum sundlaugina og veitingahús. Ísak langaði svo að fara í afmæli Samma vinar síns á sunnudeginum að við ákváðum að fara bara í bæinn um kvöldið. Sem var synd því það kom svo gott veður þá... En við verðum bara lengur næst.

Annars er það í fréttum af drengjunum að Jakob er aðeins farinn að stíga í fæturna enda orðinn 15 mánaða! Hann velur samt alltaf að skríða en ef maður segir honum að standa upp og labba hundskast hann til þess í smá stund. Helst vill hann samt láta leiða sig. Svo eru orðin "amma" og "nei" inni núna og eiginlega það eina sem hann segir þessa dagana fyrir utan þvílkt babl og bull sem kemur úr honum. Hann blaðrar nefninlega alveg út í eitt! Um helgina bætti hann "Ísak" í orðaforðann og það kemur mismunandi út úr honum en oftast /sída/. Hann er kominn með 6 tennur en 4 þeirra eru komnar niður. 1 framtönn uppi og 3 tennur niðri. Hin efri framtönnin kom í ljós 1.apríl og nú er 27.júní og hún er enn voðalega lítil! Mér finnst þetta skrýtið en ekkert hægt að gera nema bíða.
Ísak er á fullu að lifa lífinu. Hann fékk að hafa mig hjá sér heilan dag á leikskólanum um daginn þar sem ég kom í stað starfsmanns sem fékk frí (gjöf frá foreldrafélaginu til starfsmanna). Hann var ekkert smá sæll og glaður og sagði oft að hann óskaði þess að ég væri oftar á leikskólanum. Hann óskar sér margs þessa dagana. Hann óskaði sér t.d. í útilegunni að við ættum heima í brúðubíl því það væri miklu skemmtilegra. Svo óskar hann þess að hann væri 2ja ára aftur því hann var svo sætur þá! Hann leikur enn mest í ímynduðum leikjum og lítið með dótið sitt nema helst Jakobs dót! Og þegar hann verður stór ætlar hann að verða bakari, slökkviliðsmaður og eitthvað eitt enn...sem ég man ekki. Honum finnst voða gaman að atast í Jakob, vill mikið pota í hann og vera ofan í honum sem Jakob finnst ekki gaman. Jakob er búinn að læra fyrir löngu að góla hátt og öskra ef Ísak kemur nálægt honum, oft að ástæðulausu. En svo hlæja þeir líka oft saman ef Ísak er fyndinn.

Ekki má gleyma því að Frosti Hjaltason er kominn í heiminn og orðinn 2ja mánaða! Jakob er voða hrifinn af honum og vill skoða hann og vera "aaa" og setur upp fallegan svip og hallar undir flatt. Verður sko gaman að sjá þá leika saman í framtíðinni.

Bless í bili.

24. mars 2010

Jakob 1 árs


Elsku fallegi brosmildi Jakob gleðigjafi er 1 árs í dag. Þvílíkt sem hann hefur veitt okkur mikla gleði enda alltaf glaður sjálfur. Mér var svo mikið hugsað til þriðjudagsin fyrir ári síðan í gær. Þá var eins og ég fengi eitthvað hugboð því ég var alltaf að spá hvort við yrðum nú kannski orðin 4 innan skamms og þetta færi nú örugglega alveg að gerast þó svo að ég fyndi ekkert fyrir samdráttum eða neinu slíku. Um nóttina vaknaði ég svo annað hvort hálf 3 eða hálf 4 (mundi það ekki einu sinni um morguninn) og fór á klósettið með e-n sting í maganum og vissi strax að þetta væri líkaminn að undirbúa sig. Klukkutíma síðar að ég held vaknaði ég við smá hríð og um kl 5 fór ég á fætur því þá voru um 10 mín á milli. Ég réði þó vel við hríðarnar, ekkert vont, bara samdrættir. Ísak vaknaði svo fljótlega og kl. 6 vorum við öll komin á fætur. Ég ákvað að hringja og láta vita af mér kl. 6 og segja þeim að ég vildi fara í baðið og svona. Um kl. 7 lét ég renna í bað en þá fóru hríðarnar að ágerast. Ég hringdi í Jónu Björk sem átti að vera viðstödd og þurfti að leggja frá mér símann í einni hríðinni. Maggi sá í hvað stefndi og hringdi í pabba um hálf 8 og hann kom að sækja Ísak sem var ekkert að spá í hvað væri í gangi heldur bara syngjandi glaður þó mamma hans væri stynjandi og rymjandi í baði. Hríðarnar urðu harðari og harðari og með 5 mín millibili í baðinu. Maggi sagði að nú biðum við ekki lengur og þurfti að drösla mér upp úr baðinu, þurrka mér og klæða og e-n vegin komumst við út í bíl. Við vorum ekki komin lengra en á Gullinbrúna þegar mér fannst ég þurfa að rembast og þarna vorum við í morgunumferðinni kl. 8!! Maggi trommaði í sífellu á stýrið í stressi og á Miklubrautinni tók hann bara taxi-akgreinina til að flýta fyrir. Hann hafði svo ekki fyrir því að finna stæði heldur stoppaði bara beint fyrir utan innganginn, tróð mér í lyftuna og svo í hjólastól og inn á deild. Ég var nú með lokuð augun þegar þarna var komið sögu en hrökk við þegar hann brunaði með stólinn beint á vegg í miðri hríð! Ég tók svo ekki í mál að fara í þetta h.... bað! Til að gera stutta sögu enn styttri var svo Jakob fæddur kl. 9:49 og ég gat ekki verið meira undrandi a hvað þetta gekk hratt og vel! Engin deifing því það var bara enginn tími. Og þrátt fyrir að Jakob hafi verið kveisugemsi fyrstu 3 mánuðina og hlustað á hrærivél, ryksugu og hárblásara, útvarpssuð og vatnsnið til skiptis var strax ljóst að hérna var á ferðinni hamingjusamur einstaklingur sem var ofsalega glaður að vera til.
Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa hann í lífi okkar. Til hamingju með afmælið elsku Jakob!

15. mars 2010

Halló! Nú er ég búin að eyða hálfu kvöldinu í að koma strákunum í rúmið. Ísak þarf tímann sinn með allar sínar seremóníur og Jakob eyddi dágóðum tíma í að æfa sig að standa upp í rimlarúminu. Jafnóðum og ég lagði hann niður og sagði höstug "sofa" velti hann sér og stóð upp aftur. Mér fannst hann svo sætur að ég gat ekki almennilega verið reið en eftir hálftíma var þetta samt hætt að vera fyndið!
Ég fór með þá báða í klippingu áðan. Ísak kominn með sumarklippingu og Jakob mun snyrtilegri en áður. Krullurnar ekkert farnar en ekki lengur eins og Tobbi trúður. Fínt að vera orðinn eins og stór strákur þegar 1 árs afmælið nálgast.

5. mars 2010

3. mars 2010

Ég elska að hafa þennan snjó! Loksins kom veturinn:-D Ég hef hins vegar ekkert heldur haft á móti því að hafa sólina og góða veðrið sem hefur ríkt en langað mikið að komast í snjóinn í Svíþjóð og finna 20 stiga frost bíta í tær og kinnar. Og nefhárin frjósa við innöndun haha!

Ég er búin að vera í svefnprógrammi eins og sumir vita. Til að bæta lélegan svefn. Ég hef lengi lengi átt mjög erfitt með að sofna og sofið illa, var alltaf að vakna og var þá kannski aftur lengi að sofna. En ég byrjaði í atferlismeðferð í janúar og hefur gengið nokkuð vel svona miðað við að vera líka með ungabarn sem þarf stundum smá umönnun og mann sem hrýtur. Allavega er ég oftast fljót að sofna núna. Ég er hins vegar ennþá að vakna aðeins of oft en það er oftast út af truflun. Þó ekki alltaf og það er frekar pirrandi að vera glaðvakandi um miðja nótt meðan allir hinir sofa! Ég get ekki skilið t.d. að fólk missi bara af mörgum klukkustundum og viti bara ekki af sér! Þegar það gerist hjá mér, að ég sef "eins og steinn" þá verð ég svo hissa þegar ég vakna að ég get ekki sofnað aftur haha! En ég er mjög fegin að ég ákvað að fara í þessa meðferð í stað þess að biðja um svefntöflur þó tími hjá sálfræðingi sé vissulega ekki gefins þessa dagana!

Allt ágætt að frétta af litlum mönnunum Ísak og Jakob. Ég fór reyndar með kobbann á vakt heilsugæslunnar í gær og beið í næstum 2 tíma! Dísúss!!! Hann er með vökva og roða í eyrum og á að koma aftur í tékk á föstudaginn. Hefur verið að fá hita og pirraður dálítið lengi. Ísak var að veikjast í dag með hita og kvef. Ætli við höldum honum ekki heima á morgun en þá missir hann samt af sellótímanum sínum sem er miður. Vonandi gengur þetta hratt yfir.

Í fréttum var þetta helst. Endilega kvitta

22. febrúar 2010

Myndaskúndur

Ísak þurfti aðeins að æfa karótí áður en hann fór að sofa:-D. Sýndi mér svo nokkur "múv" sem Guðmundur Ísak kenndi honum í leikskólanum. En svo tilkynnti hann mér að maður þyrfti að vera 8 ára til að æfa karótí.
Þeir voru svo hrikalega sætir bræðurnir í gær að ég tók alveg helling af myndum, Ísak var í alveg sérstöku fyrirsætustuði og stillti sér upp og setti upp svakalega krúttlegan svip. Ég hef ekkert hlaðið inn af myndum á myndasíðuna hér því það tekur svo langan tíma alltaf. Set nokkrar hérna fyrir neðan. Jakob er farinn að fatta myndavélina og setur upp alveg dýrlegan svip. Minnti mig pínu á Bjössa bollu hérna á nokkrum myndum hahaha

17. febrúar 2010

Öskudagur

Afar skemmtilegur öskudagur að baki. Það var starfsdagur í vinnunni og því engin börn. Ég held svei mér að ég hafi unnið af viti í svona 2 tíma! Reyndar var fundur á GRR í klukkutíma þannig að það telst nú kannski líka vitrænt en hitt fór í blaður við samstarfsfólk, matartíma, sjoppuferð, árshátiðarskipulagningu og hlaup inn og út úr húsinu -það kom til af því að ég var að föndra inni í ljósritunarherbergi sem er alveg í HINUM endanum á húsinu og það var ráðstefna með 500 gestum í salnum. Ég gleymdi 3x e-u sem ég þurfti að nota og fór því ansi margar ferðir inn og út og gekk langan hring kringum húsið til að koma að því HINUMEGIN (eins og Lilli Klifurmús sagði). Rugl.
Og nú er það vetrarfrí sem fer nú bara í kósýheit og ekkert sérstakt hér á bæ. Á laugardagskvöldið ætla ég samt að hitta gamla óperugengið sem ég vann með þegar ég var sætaskvísa þar. Mjög spennandi.

Við fórum í hefðbundið öskudagspartý með föðurfjölskyldunni í kvöld. Allir koma í búningum og svo er pöntuð pítsa. Ég var kind, Ísak var í náttfötunum sínum en hann vill afar sjaldan vera í e-m búningum og leikskólinn er með náttfatapartý svo það hentaði vel. Jakob var pabbi sinn...hann var í kjólfatagalla með krullurnar alveg út í loftið. Ekki að það sé líkt Magga að vera með krullurnar út í loftið en hann var sem sagt stjórnandi haha. Ég var að drepast að vera í þessum kindabúningi og var mjög fljótlega búin að losa mig við höfuðið. Var svo farin að hugsa um rúningu þegar leið á... hefði kannski verið ósanngjarnt að skila búningnum í tætlum samt...

Hér eru nokkrar myndir frá sl. viku...Fórum að sjálfsögðu í ungbarnasund.

Ísak fannst í fyrstu alveg skelfilegt á skautum...Þarna er hann að baka bolludagsbollurnarBræður tveir skemmtu sér gríðarlega vel í baðiÖskudagsbræðurLitla lambið með móður sinni

7. febrúar 2010

Þetta líf

Mamma, skilurðu lífið? sagði Ísak við mig áðan. Sko Jakob var inní bumbunni þinni og kom svo bara út. En hvernig kom hann út? spurði ég. Mallinn bara sprakk! var svarið. Ég reyndi að malda í móinn, hvernig það hefði getað gerst þar sem ekkert sæist á mér og það væri nú eiginlega bara eins og í ævintýri. Nú þannig er bara lífið! sagði snillingurinn. Þannig var þetta í gamla daga, þannig var þetta líf!

6. febrúar 2010

Laugardagur

Laugardagarnir hjá okkur eru ekki hvíldardagar. Og ættu kannski ekkert að vera það... Ísak þarf að mæta í hóptíma í selló kl.9 og svo er sund hjá Jakobi kl. 10:10 (sko ég er æ oftar farin að beygja Jakob-i!). Þetta er alltaf pínu stress að koma sér út úr húsi með allt dótið. Sérstaklega ef maður er einn með báða strákana, sellóstólinn, sellómottuna, bleyjutöskuna, sellóið og sjálfan sig. Iðulega missi ég húslyklana eða bíllyklana í götuna og þarf að beygja mig með fangið fullt af börnum og dóti. En þetta hefst.
Ísak er alltaf fús að fara í sellótíma og hóptímana líka. Hann fer með Magga í einkatímana en ég hef svo komið með í hóptímana og þá er þetta bara fjölskyldustund:-). Þar er hann ekkert sérstaklega virkur, situr frekar bara og horfir á Pawel eða hina krakkana og spilar kannski einstaka sinnum með. Samt alltaf í uppáhaldslaginu sínu; Rússneski kóngurinn! Enda kann hann ekki fleiri... Og svo er hann líka bara 4 ára! Á vídeóinu er hann að spila tónstiga, og að okkar mati ótrúlega flottur. Ekki langt síðan hann átti mjög erfitt með þetta og lifti alltaf boganum á milli. En það er augljóst að það þarf fimmta útliminn í svona æfingar; tunguna!

Jakob fékk "gönguþjálfakerru" í gær. Svona týpísk tré-leikfangakerra nema hægt að herða hjólin svo hún rennur ekki áfram nema krafti sé beitt. Svo hann getur staðið og "keyrt" hana á sínum lúsarhraða. Hann sest nú reyndar bara niður um leið og maður sleppir honum þvi hann veit að þetta fer af stað! En hann er hins vegar óður að standa upp við allt annað núna og farinn að geta sest upp úr liggjandi stöðu líka.

Í kvöld kemur fjölskyldan í smá júróvisíonhitting. Mér finnst nú ekkert af þessum lögum endilega sérlega frambærilegt en held með Hvanndalsbræðrum. Verður bara gaman að horfa með góðu fólki og borða tacos og snakk!
Góða skemmtun

2. febrúar 2010

Svei mér þá

Mamma á ég að segja þér einu sinni var? Sko, einu sinni var barn sem var í baði. Og svo fór það úr baðinu og grenjaði og grenjaði og grenjaði (eða öskraði og öskraði og öskraði,man ekki alveg) og þá bara hætti mamman að vera mamma og pabbinn hætti að vera pabbi! Og þau bara fluttu burt í annað hús! Og barnið bara sofnaði á gólfinu aleitt.

Já, svona getur farið ef börnin eru óþekk! Allavega samkvæmt þessari dæmisögu herra Ísaks. Foreldrarnir bara yfirgefa börnin sín.

Annars er ég að drepast yfir vídeóinu af Ísak frá því fimmtudeginum 26.febrúar 2009 hérna á blogginu þegar hann var að koma með r-ið. Get horft á það aftur og aftur og finnst það alltaf jafn fyndið!

1. febrúar 2010

Aftur af stað...?


í bloggið? Veit ekki. Allavega langaði mig að byrja aftur þegar ég fór að lesa það sem ég hef skrifað hérna. Sjáum til hvort ég endist. Nú er ég byrjuð að vinna og nóg að gera að halda sér upplýstri á netinu með Fésbókarvafri og bloggrúnti. Allavega...

Lífið er að komast í skorður eftir fæðingarorlof. Jakob er orðinn 10 mánaða og stór og duglegur strákur sem þroskast á hverjum degi. Hann er nánast alltaf í góðu skapi og sýnir mikið jafnaðargeð (örugglega frá pabba sínum). Hann stendur nú upp sjálfur upp við eitthvað, segir "datt" og sýnir tákn fyrir "róla", vinkar bless og bendir úr um allt og babblar.
Ísak er líka orðinn stór strákur og mjög duglegur. Hann elskar að leika sér hérna heima og finnur upp á alls kyns þykjustuleikjum sem við foreldrarnir eigum yfirleitt að taka þátt í þó hann geti líka leikið sér einn. Stundum lokar hann sig inní herbergi til að vera "í friði". Hann er mikið að spekúlera í lífinu og tilverunni og farinn að nota "stórustráka" mál! Orð eins og "magnað", "plíííís", geðveikt og fl svoleiðis heyrast æ oftar. Í gær sagði hann: "Magnað! Jakob getur labbið!" Hann æfir sig á sellóið og fer í tíma með pabba sínum 1x í viku og hóptíma 2.hvora viku. Hann er nokkuð duglegur, en það þarf að passa að gera þetta skemmtilegt annars nennir hann ekki. Annars vill hann líka oft gera hlutina eftir sínu höfði og getur verið ansi þver.

Jakob byrjar hjá "dagmömmunni" á morgun haha! Hann ætlar að vera hjá ömmu sinni meðan foreldrarnir eru í vinnunni. Amman er voða spennt og Jakob veit ekki neitt um þetta ennþá. Á örugglega bara eftir að verða dásamlegt hjá þeim saman.

Þetta eru bara svona smá fréttir, kannski kemur meira fljótlega hvur veit!?