Drengurinn sem ekki vildi sjá snuð fyrir mánuði síðan er orðinn algjör duddulingur. Og tekur m.a.s. fleiri en eina tegund! Ég á bara ekki orð. Fyrir vikið vaknar hann oftar á nóttunni held ég, því hann vantar eitthvað í munninn. Við höfum reyndar líka verið að venja hann af næturdrykkju og gæti verið að hann væri að vakna til að athuga hvort komið væri að henni... Þess vegna á nú að taka næsta skref og fara á FÆTUR þegar hann fær að drekka á morgnanna...úff verður spennandi. Svo bara henda honum inn til Ísaks hið snarasta. Annars verður snáðinn 6 mánaða eftir 3 daga!!! ÓTRÚLEGT! Hann er farinn að velta sér yfir á magann en enn sem komið er gerist það svona frekar spari. Hann er orðinn frekar styrkur að sitja ef haldið er vel við. Veltur strax ef maður sleppir. Svo er hann farinn að segja mamama og bababa og setja tunguna út og frussa! Og það nýjasta er að GARGA af öllum lífs og sálar kröftum. Það er notað við hin ýmsustu tækifæri, þegar hann er glaður, reiður, svangur, pirraður, frekur...já ég sagði frekur því hann öskrar mjög hátt ef t.d. uppáhaldsleikfangið er tekið af honum (stútkönnur) eða ef mamman gengur framhjá án þess að taka hann upp. Skapmikill maður. Og stefnir í tætarann...alveg handóður ef hann kemst í spennandi dót.
Ísak er sami snillingurinn en líka skapmikill heima hjá sér og vill stjórna með hótunum og öllum illum látum. Uppnefnir foreldrana og allt. Kallaði mömmu sína kind hérna um daginn því lífið var ekki eftir hans höfði. Svo hótar hann með "þá geri ég bara X" og stundum skýtur hann sig dáltið í fótinn því hann hótar með refsingu; "þá fæ ég bara engan mat" eða "þá má ég bara ekkert leika mér!" Foreldrarnir eru að hugsa um að fara að lesa um "1-2-3" aðferðina! Sakar ekki að fara að beita hörðu á móti hörðu hehe
Mamman er að reyna að vera dugleg í leikfimi. Við Jakob förum tvisvar í viku. Hann hefur nú ekkert verið allt of hress með að eiga bara að vera afskiptarlaus í 40 mín en gengur betur og betur. Fær stundum að hanga dálítið í göngugrind og svo fær hann að vera með síðustu 10 mín. Ég endurnýjaði kynnin við tvær skólasystur sem eru líka að sprikla þarna og við erum þegar búnar að borða saman einu sinni eftir tímann og stefnum á fleiri svoleiðis daga. Það ótrúlega er að þó ég sé búin að vera hálft ár í fæðingarorlofi finnst mér það vera eins og mánuður og ég er ekki búin að gera helminginn af því sem ég ætlaði mér! En ég vil samt frekar njóta þess að vera með Jakob en að finnast ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Þessi tími kemur ekki aftur svo eins gott að bara njóta hans.