20. ágúst 2009

Stubburinn stækkar


Jæja, kominn aldeilis tími á nýja færslu... þýðir ekkert að pirrast yfir því að aðrir nenni ekki að blogga og gera svo ekkert sjálfur!

Sumarið hefur liðið rosalega hratt. Við erum búin að fara tvisvar sinnum norður Í Mývatnssveit (já, ekki Á Mývatn eins og ég hef iðulega sagt), fyrst í byrjun júní og svo aftur í byrjun ágúst í næstum 2 vikur. Þá voru mamma og pabbi með og Solla, Hákon og Kolbrún Védís og svo auðvitað Óli og Hugi og Soffía þannig að það var nóg að gera að telja hverjir væru í mat og raða í herbergi og svoleiðis. Bara gaman og alltaf yndislegt í Sveitinni. Stóri strákurinn Ísak unir sér ofboðslega vel þarna, elskar að fara í búið og elda og leika við Skugga. Mér stóð nú ekki alltaf á sama að hafa hann einan úti með þessum stóra hundi og í eitt skipti grét hann undan honum en þá hafði hann tekið spýtuna hans og Skuggi sennilega hoppað upp á hann í æsingi. Allavega hræddi þetta hann ekki frá því að halda áfram að leika við hann. Svo komst Ísak líka upp á að borða íspinna og vildi það helst í öll mál! Hann sem aldrei hefur borðað ís! Við vorum líka rosalega dugleg og gengum á nokkur fjöll. Tja... ekki ég kannski en Maggi og hitt heimilisfólkið. Ég gekk samt á Hverfjall og yfir í Dimmuborgir með Ísak í taumi og Maggi með Jakob í sjalinu. Það blés ansi hressilega uppi á toppnum og Ísak þurfti aðeins að láta toga sig áfram og þá var nú aldeilis gott að eiga afa sem nennti að taka mann á háhest.
Maggi og fleiri gengu svo á Reykjahlíðarfjall og Belgjarfjall en ég og strákarnir hvíldum okkur heima á meðan.

Jakob hefur stækkað og stækkað enda farinn að fá graut! Hann byrjaði með 1 skeið daginn fyrir 4 mánaða afmælið svo þetta er kominn mánuður núna og stundum borðar hann alveg góða skál! Svo smakkar hann smá mauk og finnst gulrótarmauk langbest. Hann fór í 5 mánaða skoðun fyrir viku og mældist 71cm og 7,6 kg. Langi mangi! Fólk heldur stundum að hann sé eldri en hann er því hann er svo stór. Kannski ræður hann ekki við stærðina því hann vill ekkert velta sér. Eftir mikla þjálfun velti hann sér samt sjálfur af baki yfir á maga 2x á sama deginum, en hefur ekki gert það síðan. Hann er ekkert sérlega hrifinn af því að vera skilinn eftir einn á leikteppinu og finnst lang skemmtilegast að hafa félagsskap. Hann er samt ofsalega brosmildur og kátur og auðvelt að fá hann til að hlæja. Og fyrir viku fór hann aðeins að totta snuð!! Nú tekur hann snuð þegar hann fer að sofa fyrir nóttina og stundum á nóttunni líka. Við erum aðeins að reyna að fá hann til að sofa betur á nóttunni. stundum gengur það vel og þá drekkur hann 1x en stundum vaknar hann á klst fresti og vælir eitthvað. Það gengur samt ágætlega að hækka í suðinu í útvarpinu og þá dettur hann oftast út!

Ísak hefur stækkað og þroskast alveg svakalega í sumar. Hann er náttúrulega algjör snillingur og skemmtilegheitin sem hann segir eru engu lík. Hann hefur mikinn áhuga á að lesið sé fyrir hann og leikur sér mikið í ímynduðum leikjum og vill þá að pabbi og mamma taki líka þátt. Playmo er að koma sterkt inn núna. Svo hefur hann fengið meiri og meiri áhuga á bróður sínum og finnst gaman að fá hann til að hlæja og leika að dótinu hans. Hann vill oft fá að knúsa hann og sjá hvað Jakob er að gera. Það er yndislegt að fylgjast með sambandi þeirra bræðra þróast.

Svo hefur mamman nóg að gera í fæðingarorlofinu! Maður er bara alltaf í heimsóknum eða með skemmtilegt fólk í heimsókn! Held að ég sé bara sjaldnast að sinna heimilinu hérna... sem er bara skemmtilegt. Ég er líka að reyna að myndast við að prjóna, byrjaði á peysu á Ísak síðasta sumar og kláraði bakstykkið núna í ágúst! Hahaha, hún er náttúrulega orðin allt of lítil á hann en þá hef ég líka 3 ár til að klára svo hún passi á 3 ára Jakob;-)

Best að reyna að halda sér í blogggírnum, Facebook stelur allt of miklum tölvutíma af manni. Þangað til næst...