21. september 2009
Ísak er sami snillingurinn en líka skapmikill heima hjá sér og vill stjórna með hótunum og öllum illum látum. Uppnefnir foreldrana og allt. Kallaði mömmu sína kind hérna um daginn því lífið var ekki eftir hans höfði. Svo hótar hann með "þá geri ég bara X" og stundum skýtur hann sig dáltið í fótinn því hann hótar með refsingu; "þá fæ ég bara engan mat" eða "þá má ég bara ekkert leika mér!" Foreldrarnir eru að hugsa um að fara að lesa um "1-2-3" aðferðina! Sakar ekki að fara að beita hörðu á móti hörðu hehe
Mamman er að reyna að vera dugleg í leikfimi. Við Jakob förum tvisvar í viku. Hann hefur nú ekkert verið allt of hress með að eiga bara að vera afskiptarlaus í 40 mín en gengur betur og betur. Fær stundum að hanga dálítið í göngugrind og svo fær hann að vera með síðustu 10 mín. Ég endurnýjaði kynnin við tvær skólasystur sem eru líka að sprikla þarna og við erum þegar búnar að borða saman einu sinni eftir tímann og stefnum á fleiri svoleiðis daga. Það ótrúlega er að þó ég sé búin að vera hálft ár í fæðingarorlofi finnst mér það vera eins og mánuður og ég er ekki búin að gera helminginn af því sem ég ætlaði mér! En ég vil samt frekar njóta þess að vera með Jakob en að finnast ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Þessi tími kemur ekki aftur svo eins gott að bara njóta hans.
20. ágúst 2009
Stubburinn stækkar

Jæja, kominn aldeilis tími á nýja færslu... þýðir ekkert að pirrast yfir því að aðrir nenni ekki að blogga og gera svo ekkert sjálfur!
Sumarið hefur liðið rosalega hratt. Við erum búin að fara tvisvar sinnum norður Í Mývatnssveit (já, ekki Á Mývatn eins og ég hef iðulega sagt), fyrst í byrjun júní og svo aftur í byrjun ágúst í næstum 2 vikur. Þá voru mamma og pabbi með og Solla, Hákon og Kolbrún Védís og svo auðvitað Óli og Hugi og Soffía þannig að það var nóg að gera að telja hverjir væru í mat og raða í herbergi og svoleiðis. Bara gaman og alltaf yndislegt í Sveitinni. Stóri strákurinn Ísak unir sér ofboðslega vel þarna, elskar að fara í búið og elda og leika við Skugga. Mér stóð nú ekki alltaf á sama að hafa hann einan úti með þessum stóra hundi og í eitt skipti grét hann undan honum en þá hafði hann tekið spýtuna hans og Skuggi sennilega hoppað upp á hann í æsingi. Allavega hræddi þetta hann ekki frá því að halda áfram að leika við hann. Svo komst Ísak líka upp á að borða íspinna og vildi það helst í öll mál! Hann sem aldrei hefur borðað ís! Við vorum líka rosalega dugleg og gengum á nokkur fjöll. Tja... ekki ég kannski en Maggi og hitt heimilisfólkið. Ég gekk samt á Hverfjall og yfir í Dimmuborgir með Ísak í taumi og Maggi með Jakob í sjalinu. Það blés ansi hressilega uppi á toppnum og Ísak þurfti aðeins að láta toga sig áfram og þá var nú aldeilis gott að eiga afa sem nennti að taka mann á háhest.
Maggi og fleiri gengu svo á Reykjahlíðarfjall og Belgjarfjall en ég og strákarnir hvíldum okkur heima á meðan.
Jakob hefur stækkað og stækkað enda farinn að fá graut! Hann byrjaði með 1 skeið daginn fyrir 4 mánaða afmælið svo þetta er kominn mánuður núna og stundum borðar hann alveg góða skál! Svo smakkar hann smá mauk og finnst gulrótarmauk langbest. Hann fór í 5 mánaða skoðun fyrir viku og mældist 71cm og 7,6 kg. Langi mangi! Fólk heldur stundum að hann sé eldri en hann er því hann er svo stór. Kannski ræður hann ekki við stærðina því hann vill ekkert velta sér. Eftir mikla þjálfun velti hann sér samt sjálfur af baki yfir á maga 2x á sama deginum, en hefur ekki gert það síðan. Hann er ekkert sérlega hrifinn af því að vera skilinn eftir einn á leikteppinu og finnst lang skemmtilegast að hafa félagsskap. Hann er samt ofsalega brosmildur og kátur og auðvelt að fá hann til að hlæja. Og fyrir viku fór hann aðeins að totta snuð!! Nú tekur hann snuð þegar hann fer að sofa fyrir nóttina og stundum á nóttunni líka. Við erum aðeins að reyna að fá hann til að sofa betur á nóttunni. stundum gengur það vel og þá drekkur hann 1x en stundum vaknar hann á klst fresti og vælir eitthvað. Það gengur samt ágætlega að hækka í suðinu í útvarpinu og þá dettur hann oftast út!
Ísak hefur stækkað og þroskast alveg svakalega í sumar. Hann er náttúrulega algjör snillingur og skemmtilegheitin sem hann segir eru engu lík. Hann hefur mikinn áhuga á að lesið sé fyrir hann og leikur sér mikið í ímynduðum leikjum og vill þá að pabbi og mamma taki líka þátt. Playmo er að koma sterkt inn núna. Svo hefur hann fengið meiri og meiri áhuga á bróður sínum og finnst gaman að fá hann til að hlæja og leika að dótinu hans. Hann vill oft fá að knúsa hann og sjá hvað Jakob er að gera. Það er yndislegt að fylgjast með sambandi þeirra bræðra þróast.
Svo hefur mamman nóg að gera í fæðingarorlofinu! Maður er bara alltaf í heimsóknum eða með skemmtilegt fólk í heimsókn! Held að ég sé bara sjaldnast að sinna heimilinu hérna... sem er bara skemmtilegt. Ég er líka að reyna að myndast við að prjóna, byrjaði á peysu á Ísak síðasta sumar og kláraði bakstykkið núna í ágúst! Hahaha, hún er náttúrulega orðin allt of lítil á hann en þá hef ég líka 3 ár til að klára svo hún passi á 3 ára Jakob;-)
Best að reyna að halda sér í blogggírnum, Facebook stelur allt of miklum tölvutíma af manni. Þangað til næst...
26. júní 2009
Snuð o.fl.
Í Ísaks herbergi liggja svo frændur tveir í alveg eins náttfötum og reyna að sofna við undirleik Skilaboðaskjóðunnar (annar heldur fyrir eyrun af hræðslu við Nátttröllið og það er ekki frændinn)
Af mér er svo allt gott að frétta. Er aðeins að byrja að hreyfa mig aftur eftir árs hlé! Hreyfði mig nánast ekkert á meðgöngunni nema e-a 4 sundtíma sem ég svo hætti sökum sársauka...En nú er grindin nánast alveg hætt að kvarta svo ég prófaði að synda smá um daginn og gekk vel og gekk svo alveg í klukkutíma í dag og ekkert mál:-)
Verð samt að segja að ég var ekki að fíla sundbolinn sem ég keypti mér. Þegar ég spyrnti frá bakkanum fór bara hellings vatn inn á bringuna og alveg niður á maga fannst mér, þannig að ég var með sundlaugina ofaní sundbolnum og fannst auðvitað að allir sem ég mætti gætu séð á mér brjóstin! Held ég verði að finna nýjan, ég get ekki synt með aðra höndina fasta við bringuna til að halda við!
Helgin er lítið plönuð hjá mér. Maggi verður fyrir austan fjall að stjórnast í Kammerkór Suðurlands á morgun svo ætli ég taki því ekki bara rólega og vonast eftir góðu veðri á pallinum. Spurning hvort maður hitti svo á Guðrúnu og grísina hennar á sunnudaginn... GÓÐA HELGI OG GJÖRA SVO VEL AÐ KVITTA;-)
23. júní 2009

Þá er kópurinn búinn í 3ja mánaða sprautu og skoðun og er laaaaang flottastur. Nýjustu tölur langa manga eru 67,5 cm og 6,4 kíló! Bara bolti sko. Hann er rosalega duglegur og sterkur og athugull og langt síðan jafn frítt barn hefur litið dagsins ljós.. híhí. Á daginn er komin smá rútína með svefni fyrir og eftir hádegi en svo erum við svona að reyna að laga kvöldin. Hann hefur ekki viljað fara að sofa fyrir nóttina fyrr en í kringum miðnætti en ég hef aðeins verið að reyna að segja honum að fara fyrr að sofa, þó hann skilji auðvitað ekkert í því og orgaði svo á mömmu sína í gær að hann svitnaði alveg á nebbanum! En ég vann HAHA! Þá svaf hann frá 21-9 með drykkju kl. 23 og 2 drekkutímum um nóttina og einni kl 8 í morgun. Vonandi gengur þetta upp í kvöld líka því það er svo gott að fá smáááá tíma fyrir sjálfan sig svona án blessaðra barnanna sinna;-) Bara til að gera "ekki neitt", horfa á sjónvarpið eða hanga í tölvunni eða eitthvað...
Það gengur lítið að troða snuði uppí Jakob. Hann tyggur það bara eins og fingurna á sér eða kúgast! Eigum allar tegurndir, stærðir og gerðir...en ég er nú kannski ekkert með þetta uppí honum 3 tíma á dag heldur bara aðeins af og til... þannig að það er kannski ekki von.
Ísak er voða duglegur en hefur lítið verið að kássast utan í bróður sínum. Hann er bara að leika sér í sínum leikjum, er aðeins farinn að fara út sjálfur og leika við krakkana í kring, fara sjálfur á leikvöllinn hérna í næsta húsi og svona. Jökull frændi á einmitt 4 ára afmæli í dag og mér finnst svo ótrúúúúlegt að þeir séu orðnir svona stórir! Þeir eru nú voða fyndnir frændurnir, dálítið um árekstra og svona og þá koma þeir til skiptis og klaga og Ísak segir alltaf "ég sagði út af þér!" Hann fór í 3 og hálfs árs skoðun um daginn og kom auðvitað mjög vel út. Fékk held ég 27 af 30 stigum í málþroskaprófinu en ég hefði nú sjálf verið strangari í stigagjöfinni en hjúkkan okkar var! En ég veit alveg hvað hann skilur og skilur ekki og að hann er með mjög góðan málskilning og málfræðigetu. Enn vantar samt nokkur hljóð, mjúka g-ið í "saga" og "sög" verður alltaf /ð/ og svo getur hann ekki sagt -lt- saman eins og í bolti og fleiri orðum. En maður þarf alveg að fara að passa sig hvað maður talar um held ég því hann er algjör fréttaveita og tilkynnir öllum um allt sem honum finnst merkilegt!
16. júní 2009
Komin aftur
Hið sorglega er að tölvan varð svo lasin að það tókst ekki að bjarga NEINU af harða disknum! Öll mín gögn úr vinnunni t.d. og allar myndir síðan e-n tíman síðasta haust eru horfnar. Sem betur fer hef ég margar á myndasíðunni og facebook en öll vídeó eru horfin og manni finnst e-n vegin svo mikilvægar þessar fyrstu myndir af Jakob... sniff sniff. En þetta kennir manni bara lexíu og nú ætla ég að reyna að flytja allt jafnóðum yfir á auka-diskinn.
Helstu fréttir eru að við skírðum 2.júní á afmælisdegi tengdó. Það var yndislegur dagur. Við þökkum öllum kærlega sem deildu honum með okkur og fyrir allar fallegu skírnargjafirnar! Jakob lét auðvitað í sér heyra eins og honum einum er lagið svo mikið að presturinn missti röddina og ég heyrði því miður lítið í pabba þegar hann söng Unu! En svo skemmti hann sér bara vel það sem eftir var. Fílaði kannski ekki að vera í kjól með nælu sem stakk?
Svo brunuðum við norður daginn eftir en meira um það síðar, nú er kominn háttatími fyrir mig.
21. maí 2009
Myndaflóð












Nú er ég búin að reyna að hlaða inn hérna videói af Ísak að spila á tónleikum í næstum 2 sólarhringa en ekkert gerist! Hann stóð sig auðvitað rosalega vel, spilaði 2 lög með öllum hinum fiðlukrökkunum og þau stóðu fremst þessi minnstu! Rosalega sæt og flott. Jökull sló taktinn á ásláttarhljóðfæri rosalega flottur líka og ég var bara með tárin í augunum allan tímann! Það eru myndir í nýju maíalbúmi.
Svo hittir Ísak Pavel sellókennara fljótlega og fær að skila smáfiðlunni og fá selló í staðinn. Alvöru, með strengjum og boga með hárum!!! Verður spennó
Hér á undan er sería þar sem hann fékk að leika lausum hala með myndavélina. Nokkrar bara ansi góðar:-)
11. maí 2009
6. maí 2009
Nýjar myndir í aprílalbúminu
(Nei Guðrún auðvitað virkuðu töflurnar ekki þar sem Jakob fékk þær ekki líka. Brjóstaráðgjafinn var bara þvílíkt hneyksluð á þessum læknum...hnuss!)
Annars gengur allt sinn vanagang, maður er bara farinn að hlakka til að sjá sólina og að það verði "pallhæft". Á meðan horfum við á Friends eða Frasier og ekki má gleyma að undirbúa sig fyrir Júróvision!!! Ég hugsa að við komumst ekki upp úr undankeppninni! Höldum bara með Norge í staðin....
30. apríl 2009
Stubbur er orðinn stór

22. apríl 2009
Litli maðurinn
Nú er hann orðinn 4 vikna og auðvitað algjör sjarmör þegar hann er vel upplagður. Spurning hvort hann er farinn að splæsa brosum en stundum hefur hann brosað þegar hann er vakandi og horfir á okkur en það er samt eitthvað svo óljóst hvort það er magagretta eða alvöru! Skælbrosti samt framan í mig áðan en sama hvað ég reyndi þá kom ekki annað. Alveg spari spari greinilega.
Nú situr hann í stólnum sínum og fær rassanudd. Hann er samt farinn að glenna sig aðeins enda eru komnir 2 tímar síðan hann fékk síðast að súpa svo ætli þetta verði ekki allt í dag.
14. apríl 2009
Smá fréttir
Hér gengur allt eins og í sögu. Eða allavega eins og við er að búast á þessu "moldvörputímabili" eins og vinkona mín orðaði það. Jakob er reyndar farinn að krefjast meiri athygli - sko ekki alltaf hægt að vera eins og dúkka! Við höfum verið að ganga dálítið um gólf undanfarið. Sérstaklega á kvöldin... og næturnar ganga svona misjafnlega. Hann er reyndar ekkert að skæla þá en vaknar stundum fulloft fyrir mig... minnir mikið á stóra bróður þá! Og svo þegar hann er búinn að drekka liggur hann í vöggunni sinni og rembist og rembist þessi elska og þá getur mamman ekki sofnað. Honum finnst líka svo gaman að kúka í hverja einustu bleyju svo maður er svona dáltíð að brölta á nóttunni. En Maggi hefur verið rosalega duglegur að fara með hann fram svo ég geti sofnað. Þá sofa þeir í stofunni feðgar! Og þá hefur litliputtinn hans pabba stundum þurft að duga og gerir það bara mjög vel! Þvílíkur sogkraftur í mínum. Hann er líka farinn að taka snuðið enda byrjuðum við með það þegar hann var bara um 5 daga gamall. Stundum sefur hann góða dúra á nóttunni og þá í alveg 2 1/2 - 3 tíma á milli gjafa og það er bara lúxus! Vonandi það sem koma skal! Svo fara þeir feðgar Maggi og Jakob í daglega göngutúra í vagninum. Eða sko Maggi er ekki í vagninum heldur bara Jakob. Veðrið hefur verið svo gott að þeir rölta um hverfið í góðan klukkutíma. Ísak spurði einmitt um daginn hvert pabbi sinn væri að fara. "Bara í göngutúr um hverfið" Þá gall í Ísak "Mamma! Þeir ætla að hverfa!" Gullkornin bara vella út úr honum þessa dagana svo maður hefur ekki undan.
Páskarnir voru mjög fínir hjá okkur. Vorum í mestu rólegheitunum hérna heima á milli matarboða. Ísak er voða duglegur að passa litla bróður og vottar ekki fyrir afbrýðissemi. Hann vill fá að kyssa hann og halda á honum og ef hann grætur fer hann og leggur vangann að hans vanga og segir "þetta verður allt í lagi". Algjört krútt.
Minnir að ég hafi verið að setja inn nýjar myndir um daginn... best að tékka á því og ef ekki þá geri ég það bara núna!
1. apríl 2009
Prinsinn kominn með nafn

Já eins og dyggir áhangendur Fésbókarinnar hafa séð er nafnið komið.
Svo er bara spurning hvenær við skírum, sennilega bara fljótlega.
Jakob fór svo í sitt fyrsta bað áðan og líkaði harla illa! En hann fékk sopann sinn á eftir og sofnaði sáttur í mömmuholu. Annars gengur allt eins og í sögu. Hann er voða lúfur og góður, sefur og drekkur og grætur sjaldan. Mamman er að jafna sig og líður betur með hverjum deginum. Gat labbað út í apótek áðan sem var voða gott, gott að komast út. Vonandi er frostið svo bara farið og vorið á næsta leiti. Kannski maður fari að komast í göngutúr með snúlla í vagninum!
Ísak er rosalega góður við litla bróður, vill halda á honum og klappar voða fast, helst í augað! Svo hleypur hann í burtu æpandi þegar hann grætur og hrópar "ég þoli ekki svona gól". En hann er nú bara að leika... er alls ekkert pirraður eða afbrýðissamur. Ljósan sem kom í heimaþjónustu var svo dugleg að hrósa honum og láta hann hjálpa sér. Við fengum sömu og ég var hjá í mæðraeftirlitinu, við kölluðum hana "litla krúttið" því hún talaði alltaf um barnið sem litla krúttið með voða krúttulegri röddu...dáltið fyndið! En hún reyndist alveg frábærlega og ég á ekki orð yfir hvað þetta er frábær þjónusta! Þurfti þvílíkt á henni að halda verð ég að segja.
En nú er best að fá sér blund, maður sefur nú ekkert allt of mikið þessa dagana...
26. mars 2009
23. mars 2009
Tveir gullmolar

- "Mamma, ég er að sjá til" (var búinn að segja langa sögu um úlf sem var búin en eftir langa þögn langaði hann eitthvað að bæta við...)
- "Ég meiddi mér í eftirlöppinni" (rak fótinn í! Var nýbúinn að biðja um útskýringu á orðinu afturlöpp sem kom fyrir í e-i bók)
20. mars 2009
39 vikur

Jebb, nú er sko stutt eftir! Fórum til ljósunnar í dag og bumban hefur sigið um ca 2cm þó svo að ég finni það ekki sjálf og finnist ég vera með barnið alveg uppí koki! Kannski mældi hún e-ð öðruvísi, ég get ekki alveg legið almennilega á bakinu út af grindinni svo þetta er alltaf bara svona sirka hjá okkur. En það væri snilld ef hann er kominn vel ofan í grindina, og ég er líka meira á snyrtingunni verð ég að segja... og ekki bara til að snýta mér!! Og allt annað er í góðu lagi nema kannski að ég hef þyngst of lítið sl 3 vikur...enda hef ég verið svo lystarlaus í þessum veikindum. Allavega ekki borðað fyrir TVO eins og ég gerði áður hehe.
Já, nú er bara að fara að pakka í töskuna og gera sig klára. Ég er samt ekki alveg nógu afslöppuð fyrir þessa fæðingu eins og ég vildi vera. Hefði viljað vera alveg frísk ef ég færi nú af stað fljótlega. En ég fékk sýklalyf við kinnholubólgunni sl þriðjudag og það virkar nú eitthvað hægt... En ég er nú eitthvað betri af verknum en kvefið er allt fast oní mér og uppí mér og allt um kring. Bleeee...
En nú erum við komin með vögguna, fáum bara lánaðan vagn og baðborðið bíður betri tíma! Allt reddí og sjáum nú til hvort hann kemur þegar pabbinn er að stjórna tónleikunum sínum.... Ætla að biðja pabbann að taka bumbumynd í dag og setja inn. Mældi í morgun og hún er 107cm allan hringinn! Það er assk...gott bara enda ekkert grín að snúa sér í rúminu! Eða koma sér upp úr sófanum!
16. mars 2009
Óhefðbundnar lækningar
Það varð aldreilis uppi fótur og fit hérna á laugardaginn. Þá kom í ljós að baðborðið sem við ætluðum að nota er ónýtt og að ekki var hægt að gera við skerminn á vagninum! Móðirin fór nánast á taugum og fór í fýlu. En auðvitað reddast þetta eins og annað. Ætlum að athuga hvort e-r annar getur gert við vagninn annars eru 2 í boði til láns og baðborðið er ekki heilagt! Þetta reddast... EN ÞETTA VAR BARA EKKI EINS OG ÉG HAFÐI HUGSAÐ MÉR ÞAÐ!
Þannig að nú ætla ég að eyða deginum í að athuga hvað hægt er að gera í þessu. Og hvíla mig. Með hvítlauk í nefinu. (Væri vís til að fara út með þetta....)
11. mars 2009
Annars er svo sem ekkert nýtt. Jú, r-ið hjá Ísak er alveg komið og alveg hætt að vera fyndið! Bara mjög flott! Hann er að fara að leika veiðimann á samveru í leikskólanum á morgun. Og ekki hvaða veiðimann sem er heldur sko veiðimanninn í Rauðhettu! Gleymdi að spyrja hvort við gætum komið og horft á... Ég fór og horfði á hann á danssýningu í fyrradag, voða gaman. Hann hreyfði sig nú ekki mikið en reyndi eitthvað að dilla sér með. Tók svo virkan þátt í Fugladansinum og Superman-laginu! Allt voða krúttlegt. Ég hins vegar sat og svitnaði og svitnaði, var enn dáltið lasin nefninlega. Já, ég náði mér í kvefpestina hans Ísaks og var bara rétt að jafna mig almennilega í gær. Og þá hafði mér tekist að koma þessu á mömmu! Oh það er svo leiðinlegt að vera lasinn.
Hey! Og ég er byrjuð að prjóna litlar hosur fyrir litlar fætur... ætli ég klári?
Nokkrar nýjar myndir komnar inn, m.a. í bumbualbúmið
6. mars 2009
37 vikur
JÆJA! Nú er barnið fullburða. Hann má samt ekki koma alveg strax þar sem ég tók við af Ísak í kvefpest og geri nú ekki annað en að snýta mér og bryðja hálstöflur. Ísak er búinn að vera heima síðan á þriðjudag, þá var hann með 40 stiga hita sem er mesti hiti sem hann hefur fengið litla skinnið. En hann klárar þetta vonandi um helgina og kemst í leikskólann í næstu viku. Ég ætla mér líka að klára þetta á stuttum tíma. Eins gott að drekka dáltið af engiferdrykk og spurning að borða bara hvítlauk?26. febrúar 2009
Nýja errið hans Ísaks
Það má hlægja að þessu....
Og nýjar myndir m.a. frá öskudeginum í myndaalbúminu eru að hlaðast inn
23. febrúar 2009
Helgið
Við áttum annars snilldarhelgi. Fögnuðum 60 ára afmæli Ólu á föstudaginn, reyndar sitt í hvoru lagi; við Ísak vorum milli átta og níu og Maggi kom svo upp úr hálf tíu. Afi Halldór var veislustjóri og Ísak fannst hann standa sig rosa vel og klappaði fyrir öllu sem hann sagði. Ég gerði gloríu og tók GÚLSOPA af hvítvíni. Hélt ég væri að taka vatnsglasið mitt og mér brá svo að mér hitnaði allri í framan og fannst hálsinn vera að brenna! Já, langt síðan maður hefur smakkað'a! Við hlógum ægilega mikið en ennþá meira þegar konan sem átti glasið kom og spurði um það og við réttum henni það bara si svona!
Á laugardaginn var svo fiðlutími hjá Ísak og rosa gaman að fylgjast með hvað hann er sperrtur og tekur vel eftir. Honum finnst reynar ekkert spes þegar Þórdís kennari er að setja fiðluna undir hökuna á honum en annars rosalega duglegur og glaður í tímunum. Hann er nefninlega ekki vanur að vera svona frjáls í hóp, er yfirleitt allur í kerfi. Svo fór hann í heimsókn til Tómasar bestavinar og naut þess í botn. Mamman byrjaði að þvo föt á bumbu-ungann um kvöldið og er enn að! Við eigum allt of mikið af fötum í ungastærð, það er nokkuð ljóst. Svo í gær tókum við því bara rólega, Ísak fór aðeins út á pall og hoppaði í sandkassanum sínum sem er fullur af vatni. Ég hjálpaði Jóhönnu að sauma eitt stykki kjól og bakaði bollur...já bíddu tók ég því ekki rólega?? Svo fórum við í mat til tengdó um kvöldið og ræddum brúðkaupsplön Gunnars og Jónu. Gaman gaman.
Ooooooog eftir klukkutíma fer ég í strípur og klippingu og ég GET EKKI BEÐIÐ! Er búin að vera með "ljótuna" allt of lengi og finnst ég bara hræðileg um hausinn..... en ekki meir Geir, nú skal það lagað.
Bolla bolla
16. febrúar 2009
Börn og bura
Nú eru bara 8 vinnudagar eftir áður en ég fer að taka því alvarlega rólega! Enda
komin með fullt af samdráttum (þó engir verkir hjúkket) og bara lúin og þreytt. Held að krílið hafi nú eitthvað misskilið þetta með að fara að skorða sig því nú finnst mér hann liggja þversum síðan í gær og það er aaaaaansi spes tilfinning! En ég er farin að undirbúa mig í huganum fyrir væntanlega fæðingu, hugsa mikið um hvernig eigi eftir að ganga og er að æfa mig að temja mér jákvæðar hugsanir, fékk lánaðan geisladisk frá Bryndísi frænku sem kallast "HypnoBirthing" og ætla að hlusta á hann til að vera afslöppuð og fín. Allavega í huganum, svo sjáum við hvað setur. Ég er allavega viss um að þetta gengur hraðar en síðast og stefni á að eiga í vatni ef við eigum kost á herbergi með potti. Sko tæknilega séð gæti þetta gerst eftir mánuð!!! Sæll!Sl föstudag hvarf ég nánast 13 ár aftur í tímann og hitti gamla bekkinn úr Kvennó. Það var svo hryllilega gaman! Yndislegt að sjá þessar stelpur aftur og sumar hef ég bara ekki séð í 13 ár! Þetta er svo furðulegt, við vorum hreinn stelpubekkur og það myndaðist ekki EINN saumaklúbbur! Enda mjög ólíkar týpur og þess vegna svo rosalega gaman að sjá allar aftur, allar eitthvað svo eins en samt náttúrlega mikið gerst! Vonandi líður ekki svona langt þar til við hittumst aftur.
Setti inn myndir...endilega kvitta það er svo gaman
7. febrúar 2009
33 vikur....7 eftir

Vika 33
Þú ert örugglega komin með mjög myndarlega kúlu og naflinn stendur eflaust út. Ef til vill ertu núna að hugsa um hvort mögulega komist bara meira fyrir þarna inni! [ertu að grínast? Var ég orðin svona stór með Ísak? Óléttubuxurnar passa ekki einu sinni!]
Maginn er nú orðinn mjög þungur. [hlunkur]
Blóðmagnið hefur aukist mikið til að uppfylla blóðþörf legsins, fylgjunnar og barnsins.
Barnið hefur nú minna pláss til að hreyfa sig því það er búið að stækka. Þrátt fyrir þetta er það jafn virkt og áður, þó svo að þú finnir ekki eins mikið fyrir því. [Ég finn jafn mikið fyrir því, þetta er svona svipað eins og það sé grafa þarna inni að færa innyflin til og þess á milli kastast keilukúla hægri vinstir...keilukúla með útlimi sem reyna að gera gat....]
Allt sem barnið þarfnast núna er meira af efninu „surfactant“ sem þarf að þekja lungun svo og meiri fitu. Það á mjög mikla möguleika á að lifa af ef það myndi fæðast núna. Barnið er nú farið að blikka augunum og byrjað að fókusera á hluti nálægt sér s.s. eigin útlimi og naflastreng. Barnið vegur nú um 1,9 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 29 sm.
Fótur, hönd eða olnbogi barnsins getur stundum myndað kúlu á maganum á þér. [sem ég segji, reynir að brjóta gat...veit hann ekki að hann á að fara aðra leið út?] Ef barnið er með hiksta (sem er alveg eðlilegt) er hægt að greina það sem reglulegar, taktfastar hreyfingar. [alltaf um kvöldmatarleytið]
31. janúar 2009
Spennandi tímar í vændum?
Hrúturinn
21. mars – 19. apríl
Rambó leikfélaganna er mættur á svæðið. Með barn í hrútsmerkinu mega foreldrar búast við miklu fjöri á heimilinu því það ríkir engin lognmolla í kringum hrútinn. Ekki ætlast til þess að barnið sitji kyrrt með hringlu. Þetta er barnið sem veifar þér ofan af hæsta tré, alls óhrætt við að taka áhættu. Hrútsbarnið er allt annað en hljóðlátt og lætur oft vel í sér heyra. Sem eldsmerki er hrúturinn orkumikill og hefur ávallt eitthvað fyrir stafni. Verður erfitt að ráða við litla hrúta? Það er líklegra en ekki. Foreldrar ættu eins fljótt og hægt er að kenna þessu barni að vinna með öðrum börnum. Að deila einhverju með öðrum er eitthvað sem kemur ekki af sjálfu sér – það þarf að kenna litlum hrútum. Þeir eru einnig ákaflega tapsárir. Þeir þrá athygli og eiga mjög auðvelt með að verða sér úti um hana með ýmsum aðferðum. Hrútar eru fæddir leiðtogar og ef þú ætlar að hafa eitthvað að segja er betra að láta þá vita með afgerandi hætti hver er við stjórnvölinn því annars er eins líklegt að stjórnin verði tekin úr þínum höndum. Lítill hrútur er oft eins og ótemja, lítið gefinn fyrir að hlýða reglum og vera þægur nema þegar honum hentar. Vegna þess hve hann er orkumikill er nauðsynlegt að hann fái mikla hreyfingu. Hann verður að fá að hlaupa um og róta til heima hjá sér. Ef hann fær ekki útrás fyrir orkuna verður hann pirraður og ergilegur. Honum líður best í lifandi og fjörugu umhverfi. Þar sem fljótfærni og óþolinmæði eru meðal veikleika hans þarf að kenna honum að hægja á sér og telja upp að tíu áður en hann rýkur af stað. Einnig þarf að venja hann á að ljúka því sem hann byrjar á.
Bogmaðurinn
22. nóvember - 21. desember
Veit nú ekki hvað er til í þessu... Hann er svo svakalega rólegur og feiminn ennþá... En getur auðvitað verið rosalega fjörugur ef hann er að leika við Ragnar Stein eða Jökul og er öruggur. Og þrjóskur er hann....jæks! En það hefur nú lítið reynt á íþróttaiðkun nema auðvitað sundið sem hann stundaði af miklu kappi hehehe
Hvernig er annars nafnið Rambó?
28. janúar 2009
Ísak gekk um gólf í fyrrakvöld sönglandi: "vana ídisjón! Vana ídisjón....! Hmmmm.... held það sé reyndar að því það var spilað svo oft í Spaugstofunni á laugardaginn. Við vorum í bústað um helgina í Húsafelli, alveg frábært að komast út úr bænum. Hjalti og Vala og Daði og Anna gistu eina nótt og ma og pa komu í kaffi og mat. Við gerðum nú ekki mikið nema hafa það gott, fórum í pottinn, sund í Borgarnesi, átum og átum og átum og rétt skruppum út í míní göngutúr en það var líka svo svakaleg hálka að það var alveg verjandi! Þessi janúarbústaðarferð okkar er orðinn árviss og voða gott að komast eitthvað saman. Ísak finnst auðvitað æðislegt að vera svona í fríi með foreldrum sínum þó hann tilkynni okkur líka á hverjum degi að það hafi verið gaman í leikskólanum! Nú er málþroskinn alveg á trilljón og hann samkjaftar ekki og segir okkur sögur og ævintýri á hverjum degi. Allt í einu fór hann að nota hljóðin Þ og Ð sem líka leiddi af sér að R-ið breyttist úr að vera e-s konar Z-hljóð inní og aftast í orðum yfir í að verða Ð. Svo æfum við okkur reglulega með K-ið og G-ið og nú í morgun heyrði ég hann nota það af sjálfsdáðum svo ætli það sé ekki að koma líka bara!
Ætla að setja nokkra myndir inn, endilega skoðið þær! Nú er kominn tími til að hugsa sér til hreyfings, fara að sækja Ísak og í kvöld ætla Torfi og Júlía að koma og borða með okkur. Tilgangur þeirrar heimsóknar (fyrir utan að hitta þau og Unu Ragnheiði) er að fá óléttuföt hjá Júlíu....skil ekki alveg hvernig ég var klædd með hann Ísak þar sem báðar óléttubuxurnar mínar eru komnar í síðasta gat.....
19. janúar 2009
4. janúar 2009
Kominn janúar!
Nú er Ísak kominn með e-a flensu, búinn að vera með hita síðan í fyrradag og í nótt var hann sífellt að vakna og heimta að fara á fætur. Gubbaði svo um 6 í morgun og hefur verið hinn hressasti síðan! Ótrúlegt; allt það dót sem hann fékk í afmælisgjöf og jólagjöf liggur nú óhreyft inni í herbergi en hann hefur undanfarna daga bara leikið með dót sem ég var búin að taka og setja í poka inní geymslu því ég taldi það orðið of "barnalegt". Þetta er hús sem maður setur mismunandi formaða kubba í, plastdollur til að raða upp í turn og leikfangasími sem spilar eitthvað lag sem hann segir uppáhalds lagið sitt! Jæja, hann dundar sér allavega á meðan:D
Úff, bara 2 dagar eftir af fríinu:( Spennandi að vita hvernig gengur að vakna á morgnanna núna. Ísak vill bara vera í fríi og spyr okkur til öryggis á hverjum morgni hvort það sé ekki jólafrí og hann þurfi ekki að fara í leikskólann. En það verður nú gott að komast aftur í fastar skorður og ég er m.a.s. farin að týna niður jólaskrautið. Fyrirgefðu mamma.
Búin að bæta við helling af myndum, endilega kvittið fyrir innlitið:D





