26. september 2007

Takk


...fyrir afmæliskveðjurnar í dag allir!!! Alltaf svo æðislegt að fá svona margar kveðjur! Ég er nefninlega pínu ömurleg að muna svona sjálf og skila yfirleitt kveðju daginn eftir... kannski ekki alveg innan fjölskyldunnar en svona utan hennar.
Ég fékk geggjað flotta myndavél frá strákunum mínum. Fyrst opnaði ég pakka frá Ísak; það var lítil og frekar ljót taska! Hvað átti ég að gera við svoleiðis? Svo opnaði ég pakka frá Skrámi; það var föndurdót!Nei, bíddu! Eitthvað svona til að merkja blaðsíður? Ekki að fatta... svo kom myndavélin frá Magganum og þá small hitt náttúrulega í rétt hólf í heilabúinu. Mændjú þetta var kl rúmlega 7 í morgun með augun hálfopin. Föndurdótið var sem sagt minniskort í vélina. Hef svo verið að kynna mér hana í kvöld og sýnist hún ansi geggjuð. Þetta er sko Canon Iscus 950 IS!!! 8 mega pixels, 4x linsusúmm og já eitthvað rosa töff!

Annars er horið ekkert að minnka og litatilbrigðin ansi flott;) Þar sem Maggi þurfti að vinna seinnipart og allt kvöld fór ég bara í Fiskó og lét dekra við mig þar. Og nú ætla ég snemma í háttinn, svo ég geti vaknað snemma í fyrramálið eins og amma mús segir einmitt!

23. september 2007

Haust

Þá er haustkuldinn mættur brrrr... Það er svona blanda af notalegheitum með kertaljósi á kvöldin, og söknuði eftir sumrinu. Fyrsta haustkvefið komið í mig með tilheyrandi kinnholubólgum og sársauka ojbara. En það besta við akkúrat þetta haust er ferðin til Minneapolis í lok október með Ingunnarskóla. Ég sem hef aldrei komið til USA er bara að fara í Mall of America og læti! Til að byrja með fannst mér vika allt of langt þar sem aðeins þrír dagar eru sjálf námsferðin. Hvað átti ég að gera restina af tímanum? Svo held ég svei mér þá að það verði bara alveg nóg að versl... ég meina gera! Reyndar er eitthvað erfitt að finna menningarviðburði finnst mér en eitthvað hlýtur að vera um að vera. Og svei mér þá ef ég get ekki verslað eitthvað lítilræði... sokkapar og spilastokk kannski? Ísak á nú afmæli í lok nóv og m.v. að ég verð að passa mig í Hagkaupum að kaupa ekki eitthvað handa honum í hverri ferð þá er eins gott að vera búin að skrifa lista yfir NAUÐSYNJAR. Reyndar hef ég aldrei verið þekkt fyrir mikla eyðslu en síðan Ísak fæddist á ég bágt með mig þegar kemur að e-u fyrir prinsinn!

Litli prinsinn fær loksins af fara aftur til dagmömmunnar eftir viku fjarveru. Það verður vonandi allt í lagi. Svo bara ákveðum við það að hann komist inn á leikskóla fyrir jól! Hann er búinn að vera duglegur í pössun hjá bæði uppáhaldinu afa Halldóri og Jónu Björk frænku og svo auðvitað foreldrum sínum sem nú fá vonandi að vinna fulla vinnuviku:D

Og að lokum óska ég Guðrúnu frænku til hamingju með 4. prinsessuna sem fæddist á föstudaginn, á afmælisdegi systur sinnar!!!!

19. september 2007


OK. Thats it. Við eigum greinilega ekki að eiga grænan IKEA-lampa í gluggakistunni! Sá þriðji brotnaði í dag. Ísak sat undir gluggakistunni og togaði í snúruna og hann bara splundraðist og skvettist út um alla stofu. Sem betur fer meiddist Ísak ekki. En við verðum að vera án lampans góða:S

12. september 2007

Álag



Síðustu dagar og kannski bara vikur hafa verið dálítið erfiðar. Elsku besta amman mín Erna dó í síðustu viku. Það var auðvitað viðbúið og gott að hún loksins fékk að fara. Nú sé ég hana fyrir mér með afa, að rifja upp allt sem hefur gerst, horfa á okkur og hlæja. Örugglega ánægð með að geta talað og hugsað aftur! Já, svona vil ég ímynda mér það. Það var svo gaman að við frændsystkinin hittumst öll og rifjuðum upp minningar sl sunnudag og það var svo skemmtilegt! Við hlógum alveg ógó mikið. Amma var nefninlega svo skemmtileg:D

Svo hefur ákveðið mál í vinnunni vofað yfir í sumar og enn meira nú í ágúst og september. Því er ekki lokið og mikið álag sem fylgir því. Held að allt þetta og aðrar smávægilegri áhyggjur valdi auknum höfuðverk og verður það mitt fyrsta verk á morgun að panta mér nudd! Veit einhver um góðan "harðhentan" nuddara? Fór í yoga áðan sem var æðislegt. Byrjaði reyndar á að skella mér á hlaupabretti, sem þekkti mig ekki aftur ,því síðast fór ég á svoleiðis tryllitæki fyrir nánast ári síðan!!! Úps! Enda var ég lafmóð eftir 5 mínútur og ákvað að best væri að byrja rólega, píndi mig svo í 5 í viðbót. Nú er bara að standa sig í hreyfingunni sem bætir, hressir og kætir. Hmmfp...

Ísak byrjaði í suzuki aftur í dag. Pabbi hans fór með hann eins og hann mun gera framvegis. Ákváðum að það væri betra að hann færi í morguntímann. Ég fer þá bara með honum í sundið í staðinn. Mér skilst að það hafi bara verið gaman og hann hafi aðeins tekið undir.

Þeir frændur hann og Jökull eru þvílíkt að færa sig upp á skaptið saman; öskur og hlaup um leið og þeir hittast! Finnst þeir rosa sniðugir og reyna mikið á geðheilsu foreldra sinna... eða ég skal bara tala fyrir sjálfa mig. Fer pínu í mig svona öskur og læti bara til að gera hávaða! En þeir skemmta sér þvílíkt og hlæja mikið saman. Sem og Ísak og Ragnar Steinn sem einmitt líka eru að leika sér í hlaupuleikjum þó hávaðastuðullinn sé mun lægri þegar þeir eru saman.

Eitt gullkorn sem Ísak segir er þegar hann biður um "eplaglas". Eins og mjólkurglas þið skiljið, nema epladjús hahaha! Svo kom hann til mín í gær með Mjallhvíti á DVD og horfði galopnum augum á mig, kinkaði ákaft kolli og sagði; mamma, hlusta Mjallhvíti, takk! Það gaman" (mamma, dutta maddili, datt. Ha bama) og brosti svo og hallaði undir flatt. Þegar hann segir gaman (bama) gerir hann alltaf táknið með, nema notar vísifingur í stað þumalsins sem er hrikalega krúttlegt. Lemur honum í brjóstið á sér og segir "hetta bama". Notar það óspart núna þegar við erum t.d. að koma úr heimsókn eða af róló.

3. september 2007

Válerast

Ég á marga skemmtilega kollega, en ein er þó alveg sérstök. Hún virðist njóta þess að nota skemmtileg orðatiltæki og er þá jafnan með eitthvað eitt "á heilanum". En besta framlag hennar í íslenska orðbankann er sögnin að válerast. Hún gæti þýtt eitthvað í líkingu við "að væflast", "vesenast", "reika um", "geta ekki tekið ákvarðanir..." svona mætti í raun lengi telja. Dæmi um notkun: "Við getum ekki verið að válerast svona með þetta", "Ég var bara að válerast þarna um gangana alein",

Svo þá getiði farið að nota þetta!

Annað dæmi um skemmtilega málnotkun er þegar Ísak syngur "Gulur, rauður..." (aleinn:D) og endar svo á löngu AAAAAAAAAAAAAAAAatjú! eins og í piparkökusöngnum. Dýrin í Hálsaskógi eru gjörsamlega búin að taka yfir Ávaxtakörfuna eins og er og bara fínt að fá hvíld frá annars þeim ágæta söngleik.
Svo er barnið búið að fatta eignarfornöfn og kallar nú "mamma mín"/"pabbi minn" sem er náttúrulega BARA krúttlegt! Hann kann samt ekki "mitt" og enn er því allt dót rifið af honum ef önnur börn girnast það. Hann lætur það oftast yfir sig ganga, nema ef það er Jökull frændi, þá kvartar hann hástöfum svo enginn missi nú af því ranglæti. Þeir eru samt alltaf að verða duglegri og duglegri að skiptast á og leika saman.

Hvernig stendur á því að allir mínir pistlar enda á því að snúast um Ísak?