
Síðustu dagar og kannski bara vikur hafa verið dálítið erfiðar. Elsku besta amman mín Erna dó í síðustu viku. Það var auðvitað viðbúið og gott að hún loksins fékk að fara. Nú sé ég hana fyrir mér með afa, að rifja upp allt sem hefur gerst, horfa á okkur og hlæja. Örugglega ánægð með að geta talað og hugsað aftur! Já, svona vil ég ímynda mér það. Það var svo gaman að við frændsystkinin hittumst öll og rifjuðum upp minningar sl sunnudag og það var svo skemmtilegt! Við hlógum alveg ógó mikið. Amma var nefninlega svo skemmtileg:D
Svo hefur ákveðið mál í vinnunni vofað yfir í sumar og enn meira nú í ágúst og september. Því er ekki lokið og mikið álag sem fylgir því. Held að allt þetta og aðrar smávægilegri áhyggjur valdi auknum höfuðverk og verður það mitt fyrsta verk á morgun að panta mér nudd! Veit einhver um góðan "harðhentan" nuddara? Fór í yoga áðan sem var æðislegt. Byrjaði reyndar á að skella mér á hlaupabretti, sem þekkti mig ekki aftur ,því síðast fór ég á svoleiðis tryllitæki fyrir nánast ári síðan!!! Úps! Enda var ég lafmóð eftir 5 mínútur og ákvað að best væri að byrja rólega, píndi mig svo í 5 í viðbót. Nú er bara að standa sig í hreyfingunni sem bætir, hressir og kætir. Hmmfp...
Ísak byrjaði í suzuki aftur í dag. Pabbi hans fór með hann eins og hann mun gera framvegis. Ákváðum að það væri betra að hann færi í morguntímann. Ég fer þá bara með honum í sundið í staðinn. Mér skilst að það hafi bara verið gaman og hann hafi aðeins tekið undir.
Þeir frændur hann og Jökull eru þvílíkt að færa sig upp á skaptið saman; öskur og hlaup um leið og þeir hittast! Finnst þeir rosa sniðugir og reyna mikið á geðheilsu foreldra sinna... eða ég skal bara tala fyrir sjálfa mig. Fer pínu í mig svona öskur og læti bara til að gera hávaða! En þeir skemmta sér þvílíkt og hlæja mikið saman. Sem og Ísak og Ragnar Steinn sem einmitt líka eru að leika sér í hlaupuleikjum þó hávaðastuðullinn sé mun lægri þegar þeir eru saman.
Eitt gullkorn sem Ísak segir er þegar hann biður um "eplaglas". Eins og mjólkurglas þið skiljið, nema epladjús hahaha! Svo kom hann til mín í gær með Mjallhvíti á DVD og horfði galopnum augum á mig, kinkaði ákaft kolli og sagði; mamma, hlusta Mjallhvíti, takk! Það gaman"
(mamma, dutta maddili, datt. Ha bama) og brosti svo og hallaði undir flatt. Þegar hann segir gaman (bama) gerir hann alltaf táknið með, nema notar vísifingur í stað þumalsins sem er hrikalega krúttlegt. Lemur honum í brjóstið á sér og segir "hetta bama". Notar það óspart núna þegar við erum t.d. að koma úr heimsókn eða af róló.