26. ágúst 2007

Óvænt uppákoma


Elsku Jóhanna, Maggi og Berglind Eva; innilega til hamingju með yndislegan dag! Þið kunnið að koma manni á óvart!

23. ágúst 2007


Kommon! 27 heimsóknir á síðuna og ENGINN kvittar! Ég hlýt að skrifa um svona óáhugaverða hluti...

Það var gott að syngja í dag með öllu þessu góða fólki. Finn að ég er byrjuð að sakna þess. Samt er ég ekki alveg tilbúin að láta Ísak í pössun 2 kvöld í viku... þó það hafi nú ekki skaðað okkur systkinin nema síður sé.

22. ágúst 2007

Sambandsleysi

Jæja, nú er hlaupabóluveikin liðin. Reyndar náttúrulega ekki sjón að sjá lilleput en hann er hættur að smita. Sem er aðalmálið því þá gat hann farið í heimsókn til nýju dagmömmunnar í dag. Það gekk víst vel, þeir feðgar fóru. Þá er hann allavega byrjaður í aðlögun.

Voða skrýtinn dagur í vinnunni. Fór einhver ljósleiðari sem sleit Grafarholtið frá umheiminum. Þetta sýndi bara hversu háður maður er tölvum því það var "ekkert" hægt að gera! Allar skýrslur dottnar út, netið og prentarinn og síminn...Ég fór bara að sortera pappíra, sumir voru bara að ydda blýantana sína og aðrir bara svona standa vaktina hehe. Það var náttúrulega skólasetning og því allt fullt af nemendum og foreldrum og systkinum og allir fengu súkkulaðiköku og popp! Ég fór tvær ferðir því það var bara allt of mikið til og ég varð að hjálpa þeim að klára hana!

Ég skil ekki alveg hvernig ég á að sinna öllum þeim börnum sem þurfa aðstoð en maður verður bara að finna út úr því. Alltaf samt smá klemma að forgangsraða og hvort vill maður sinna öllum eitthvað eða nokkrum vel?

Á morgun á svo að jarða mætann mann, Sr Sigurð Hauk, fyrrverandi prest í Langholti. Hann gifti okkur Magga og ég óska þess oft að ræðan sem hann flutti þá væri til e-s staðar. Hún varðveitist vonandi bara vel í minningunni. Hann var yndislegur maður og alltaf svo hlýr. Mér fannst hann alltaf SJÁ mig. Ekki einn af þeim sem heilsaði með hálfum hug, heldur heilshugar.

17. ágúst 2007

Ómenning

Hlaupabólan sennilega í hámarki núna. Litla skinninu leið ekki vel í nótt og er ekki alveg sjálfum sér líkur! Hann er samt ekkert svo lasinn þannig lagað, bara pirraður. Skiljanlega

Þá er ein vinnuvika búin. Rosalega fer mikill tími í kaffi og mat þegar allir eru svona "vinnumyglaðir"! Maður er nýkominn þegar það er komið kaffi, svo þarf að fara í mat og sitja allavega 40 mín og svo aðeins inn á kaffistofu á eftir. Ekki hef ég á móti þessu, enda finnst mér afskaplega erfitt að koma mér í gang. Veit ekki hvort ég á að vera hér eða þar og gera þetta eða hitt! En bæði í Sæmó og Ingó dúkkuðu gamalkunnug andlit upp sem ég ekki hafði séð í mörg ár. Kannski ekkert skrýtið þar sem maður býr á Íslandi!

Ætli það verði nokkur menning á okkur á morgun, bara ómenning! Veit ekki hvort maður á að vera að fara með hlaupabóluna niður í bæ og eiga á hættu að smita hálfa Reykjavík?! Synd, en ekkert í því að gera. Er svo sem lítið búin að kynna mér dagskrána kannski einmitt út af þessu.

En gleðiliga menningu þið sem farið:D

14. ágúst 2007

Hlaupabóla

Bobb bobb bobb! Fyrsti í hlaupabólu kominn! Ísak samt sprækur sem lækur.

Vonandi verður það ekki slæmt, aumingja Jökull frændi var AGAlegur.

Við heimsóttum nýju dagmömmuna í dag. Hún á þrjá fiskitanka og tvo páfagauka. Já, ég sagði tanka, þetta kallast varla fiskabúr þegar þetta er komið upp í þessa stærð!

Heimsótti ömmu Ernu í dag. Hún fer sennilega ekki fram úr rúminu sínu framar. Hún brosti heilmikið og smellti m.a.s. kossi á Ástu. Vonandi tekur þetta ekki langan tíma þó manni finnist ljótt að hugsa svona en hún á bara ekki skilið að vera svona mikið lengur, þetta er búið að taka nógu langan tíma. Og auðvitað langt síðan amman mín hvarf og eftir varð bara þessi líkami í hennar mynd. Óréttlæti heimsins er stundum óskiljanlegt.

Best að koma hlaupabólunni í rúmið. Hann er afar upptekinn reyndar, er að marsera og skamma Græna bananann (Ávaxtakarfan). "Hep tú hep tú" hljómar allan liðlangan daginn.

Hægri snú!

4. ágúst 2007

Dugnaður

Vá hvað við erum búin að vera dugleg í dag:) Ég er búin að bera olíu á borðstofuborðið og skenkinn og mænd jú tvær umferðir auðvitað á borðið. Ekki veitti af. Svo fórum við á Árbæjarsafn. Það var voða gaman og ekki er það nú dýrt! 600kr á mann og maður fær að koma aftur á sama miðanum! Stubbur skemmti sér vel, gaf hestunum gras úr lófa sínum, klappaði fyrir kálfinum og keyrði kassabíl. Þannig að við förum pottþétt aftur.
Svo tókum við Maggi geymsluna í gegn meðan stubbur svaf, þrifum eldhús og ryksuguðum allt hátt og lágt. Svo var hægt að fara að raða í skenkinn og tæmdist þá hvítu skúffurnar sem stóðu í eldhúsinu! Veiiii þá er hægt að losa sig við þær:D Fékk þær held ég í 12 ára afmælisgjöf! Eru búnar að fylgja okkur til Sverige og standast örugglega 5 flutninga í gegnum árin. Eðal skúffur alveg en alveg kominn tími á þær að kveðja. Salut!