30. júlí 2007

Ýmislegt

Nú hefur ýmislegt á daga okkar drifið eins og vanalega. Við erum nýkomin heim úr sveitasælunni í Vogum. Maggi og Ingibjörg héldu hvorki meira né minna en þrenna tónleika sem allir tókust rosa vel. Svo náðum við líka að slappa heilmikið af. Fórum tvisvar í lónið sem ég verð nú að segja að ég tek fram yfir það Bláa á Reykjanesinu! Ísak fannst það geggjað og lét sig detta og renna ofaní trekk í trekk. Það er reyndar e-r árátta núna að láta sig detta! Hann hleypur um allt eins og hann sé á spítti og lætur sig svo hrynja í gólfið! Svona leikur getur gengið í hálftíma með tilheyrandi söngli og góli.
Allavega, svo fórum við á circus á Húsavík. Þetta hét "nútíma circus frá Barcelona" og var ferlega skemmtilegt. Þarna var joggler, loftfimleikakona og svona "alltmugligtman" og Ísak sat stjarfur allan tíman. Það var alltaf verið að klappa og hlæja og svo þegar allt var hljótt og lítið að gerast klappaði hann trekk í trekk aleinn og kallaði "veiiiii". Alveg grafalvarlegur samt! Algjört krútt.
Svo fórum við í göngutúr frá Stóru gjá að Hverfjalli sem er um 3ja tíma ganga, allavega með barn á bakinu og eina 6 ára með. Ekki má gleyma ferðinni okkar að Dettifossi, inn í Hólmatungur og í Ásbyrgi. Þetta fórum við á fjallajeppanum hans Jónsa frænda sem endilega vildi lána okkur bílinn til að komast vestari leiðina í Jökulsárgljúfur. Vegurinn var svo sem ekki slæmur og þegar heim var komið kom í ljós að Jónsi hefði þurft jeppann í veiðitúrinn sinn þvi sá vegur var víst vegleysa. Að lokum fórum við svo á minjasafnið á Grenjaðarstað og þar sá ég skrifpúlt langa-langa afa, Þorgils Gjallanda, sem mér fannst afar merkilegt. Enduðum þann túr á að skoða Litluströnd þar sem amma Jóna ólst upp. Bærinn er reyndar horfinn en einn útveggurinn stendur eftir.

Þetta var hin besta vika og gott að komast í Vogana mína, sem reyndar eru að niðurlotum komnir og verður að ráðast í aðgerðir fljótlega til að þakið fari ekki bara á hausinn á e-m eða að veggirnir láti undan bara.

Smá pistill um Ísak bestaskinn: (mest til að skrifa niður meðan maður man) Nú er hann orðinn 20 mánaða prinsinn og algjör sólargeisli. Eins og ég sagði áðan er mikið stuð að hlaupa og láta sig detta en annars er aðal æðið núna að horfa/hlusta á Ávaxtakörfuna. Hann var fljótur að pikka upp marseringu banananna og gengur um gólf sönglandi "he-tú-he-tú hæ nú!" sem á að vera hep-tú, staðar nem og hægri snú! Svo sveiflar hann höfðinu dramatískt til VINSTRI og skammar svo Guffa banana hástöfum! Hann er farinn að herma enn meira eftir tali okkar og endurtekur mikið. Í gærmorgun lagðist hann niður og sagði "Ía leiju, nei! Attílæ" (Ísak leiður, nei allt í lagi). Hann notar enn ekki /k/ og /g/ en er farinn að nota /s/ í lok orða og stundum í miðjunni. Það er ekki alltaf rökrétt þar sem hann t.d. segir "nahs" fyrir snakk og "vahs" fyrir vatn. Hann vill endilega leiðast um allt núna og held ég að það sé komið frá Jökli frænda sem leiðir Ísak út um allt. Nú tekur Ísak í hendina á manni og segir "leija".
Auðvitað er hann aðeins farinn að testa mörkin og lemur stundum (laust) í okkur eða dúkkuna. Ef hann er skammaður reynir hann flótlega aftur sama trikk. Svo er hann alltaf að elta Skrám núna með miklum látum og gauragangi og skammast sín ekkert þegar ég segi honum að Skrámur verði hræddur! Það var dálítið fyndið atvik fyrir norðan, þar eru nefninlega margir og hættulegir stigar og alltaf verið að passa að litlu börnin fari ekki í þá. Ísak stóð á stigaskörinni og Hjalti kom að og tók í hann og sagði alvarlega (en í gríni sem þeir sem skilja kaldhæðni náðu auðvitað) "Ísak Magnússon...og svo kom smá ræða..." Ísak varð svo yfir sig skelkaður og hræddur að hann fékk ekka um leið og gat varla grátið af hræðslu! Þetta var sem sagt fyndið að horfa uppá en aumingja barnið var lengi að jafna sig. Held hann sé nú samt alveg búinn að fyrirgefa frænda sem fór alveg í kerfi
Það krúttlegasta af öllu er svo þegar hann tekur hástöfum undir kvöldlögin okkar og syngur þá Sofðu unga ástin mín alveg eins og herforingi, nema það mundi ekki skiljast af nokkrum öðrum en okkur. Önnur lög sem hann kann eru Bíum bíum bambaló, Tunglið tunglið taktu mig, Allir krakkar, Dvel ég í draumahöll, Gulur rauður, og eitthvað fleira auðvitað. Þetta var Ísakspistill

Nú ætla ég að fara að sofa fyrir framan nýja myndavegginn okkar, með nýja skenkinn og nýja skóskápinn í íbúðinni:) Svo á eftir að sauma nýtt utan um púðana... alltaf gaman að breyta og versla fyrir heimilið.

9. júlí 2007

Ahhh

Við erum komin heim eftir vel heppnað frí í Svíþjóð. Það væri allt of langt að fara að segja frá því hér en mikið var gaman að hitta alla vini og frændfólk!!! Mér fannst ég bara komin heim um leið og við stigum fæti út úr flugvélinni í Gautaborg. Aftur á móti var ég ekki alveg með heimatilfinninguna í Stokkhólmi sem segir kannski eitthvað um hvernig maður upplifði þetta á sínum tíma. Allavega mjög góð ferð, ágætlega bætt á sig af fötum og öðru skemmtilegu og Ísak eins og ljós allan tíman. Kallaði allar sænskar konur "Anna" enda 50% líkur á að hann hefði rétt fyrir sér...
Svo vorum við Ísak að koma heim eftir alveg yndislegan dag í bústað afa Hlö við Laugarvatn. Við skutluðum Magga og Gunnari fyrst í Skálholt þar sem þeir verða með Hljómeyki að æfa í viku og fórum svo í geggjuðu veðri í bústaðinn. Þar var sko bara farið berró út í vatn með ömmu og kastað steinum út í vatn í örugglega góðan hálftíma. Ísak sagði bara "annan dein" við afa sinn og hann hlýddi því auðvitað! Svo enduðum við á að fá dýrindis grillmáltíð og keyra svo í bæinn gegnum Þingvelli í þessari rosalega fallegu birtu að ég bölvaði í hljóði yfir að vera ekki með myndavélina. Hún hefði nú sennilega samt ekki náð allri dýrðinni.

Íslenskt sumar ahhhh

Setti inn myndir úr Svíþjóðarför og eitthvað fleira!