15. júní 2007

Attílæ

Tölvan er komin í viðgerð sem betur fer. En ég hef reyndar alltaf notað gömlu í sambandi við vinnuna og er því að skrifa skýrslur á hana hérna heima núna. Hún getur nú alveg gert mann galinn! Í gær var hún 12 mínútur (já ég tók tímann) að opna eitt Word-skjal!!! TÓLF MÍNÚTUR!!! Það er eins gott að hafa nógan tíma og anda inn og út og telja rólega upp í 10 og svona. Og vera með tölvuna hennar tengdó til að vera á netinu á meðan maður bíður...

Ísak er að læra stjórnun núna. Heldur hann. Hann reynir að ráða og stjórna foreldrum sínum eins og hann getur en allt í góðu samt. Segir bara "toddu mamma/babbi" og vinkar okkur að koma eða reynir að taka utan um okkur og toga okkur á fætur. Svo segir hann Skrámi að koma og reynir sömuleiðis að lyfta honum upp. Sem hann ekki getur eða gerir einu sinni um millimetra. Skrámur þokast sko ekki nema hann sjálfur vilji. Svo er spurning hvað hann vill alltaf að við séum að koma og gera, það er ekki alltaf alveg ákveðið fyrirfram.
Lilli klifurmús og Mikki refur eru enn jafn vinsælir og rúlla stundum þrisvar á dag hérna. "Mahhna wuawa" er lang skemmtilegastur og reynir Ísak að herma eftir honum þegar hann hlær. Það er sko Mikki...

Við fórum aðeins að renna okkur á stóra róluvellinum hérna rétt hjá. Mér tókst að lokka Ísak í sandkassann eftir 15 ferðir í rennibrautinni og þar kenndi ég honum að búa til sandkökur nema hann skemmdi þær alltaf um leið. Ég þóttist verða voða leið og þá segir hann bara "attílæ" og horfir á mig stórum samúðaraugum!

Í kvöld ætlum við Maggi á Mr. Skallagrímsson með Indru og Ingólfi. Höfum eiginlega stefnt að því síðan síðasta sumar svo það er kominn tími til! Sýningin hefur fengið voða góða dóma og spurning hvort Benedikt Erlingsson fær Edduverðlaun seinna í kvöld? Maður brunar bara í bæinn til að sjá það. Edda-pedda segi ég nú samt.

9. júní 2007

Næstum sumarfrí

Það er sko búið að vera fjör í gær og dag! Ég hef ekki gert svona mikið á 2 dögum síðan ég veit ekki hvenær og ekki drukkið svona mikið magn af áfengi samanlagt allt árið! Ekki misskilja, það var alls ekki mikið. Segir frekar hvað ég er mikil bindindismanneskja;)

Allavega var Vorhátíð hjá Talþjálfun Reykjavíkur í gær og óvissuferð. Við vorum auðvitað bara flottar á því og byrjuðum í mat á kaffihúsinu í Grasagarðinum. Þar fengu allar voða flott krem og svo var farið í Laugar Spa í marga klst og legið í bleyti og slökun. Maður var bara eins og ofsoðið kjöt á eftir maður var svo linur! Eftir þetta dugði ekkert minna en matur í Perlunni. Ég hef aldrei borðað þar eða komið upp í þennan "snúning" en það var sko bara hið besta mál. Reyndar fékk ég ljótasta og versta kokteil sem ég hef smakkað; svona drullubláan og svooooo áfengan að ég fann á mér eftir fyrsta sopann! En maturinn var góður og mikið hlegið.

Í dag var svo óvissuferð Ingunnarskóla! Það var sko með allt öðru sniði og meira í ætt við það sem orðabókin segir um óvissuferðir: hópur fólks í rútu, með bland í pela, misgóða brandara, samkvæmisleiki og sund! Segi svona. Okkur var skipt í nokkur lið og ég var liðsstjóri í Bláa liðinu. Auðvitað leiddi ég liðið til sigurs, hvað annað?? Híhí. Og er það í annað skiptið sem ég vinn eitthvað á 2 dögum því í gær fékk ég tölvupóst þar sem mér var tilkynnt að ég hefði unnið kvöldverð fyrir tvo á Grillinu að verðmæti 28þús!!! Fyrir að taka þátt í ógeðslega leiðinlegri könnun fyrir LÍN. Eins gott að ég vann! En aftur að óvissuferðinni. Við fórum sem sagt á Stokkseyri með viðkomu í fjörunni, og skoðuðum Álfasafnið og Draugasafnið og borðuðum á Við Fjöruborðið. Allt saman mjöööööööög skettilett. Líka svo gott veður. Allir voru í náttfötum því það var þemað. Ég er svo meðvirk að ég var alveg að farast yfir að vera að skemma fyrir hinum matargestunum með látum og fíflagangi! Greinilegt að staupin 4 dugðu ekki til að slá á meðvirknina!

Á morgun á svo pabbi labbi afmæli og ætlum við að hafa það notalegt með fjölskyldunni í sumarblíðunni. Til hamingju pabbi.

Þetta er orðinn svo langur pistill að ég ætla að hætta og fara að sofa! Nú er ég komin í frí frá skólanum og bara 2 mánudagar eftir á stofunni svo ég segi bara GLEÐILEGT SUMARFRÍ:D

6. júní 2007

Maður er bara að kafna í kommentum!!!

3. júní 2007

Ef ykkur langar að hlæja...

horfið þá á þetta

Og svo þetta á eftir!!