31. maí 2007

Þrenna

Í fyrradag braut ég lampa og tölvan datt í gólfið svo skjárinn brotnaði. Í gær bilaði bíllinn. Það kalla ég ágæta þrennu. Þetta með bílinn er dálítið duló. Ég varð bensínlaus á Gullinbrúnni án þess að ljósið væri búið að loga nema í nokkrar mínútur. Sem betur fer var ég alveg við bensínstöð og keypti nokkra lítra og komst heim og með Ísak til dagmömmunnar í morgun. Svo varð hann bara aftur bensínlaus rétt við skólann! Aftur var bensínstöð alveg við hliðina á svo ég keypti aftur nokkra lítra, föndraði "rennu" úr pappír skólans og keyrði á bensínstöðina. Þá bilaði sjálfsalinn þar svo ég þurfti að fara á næstu stöð, alveg í stressi um að ná því. Þar fyllti ég bílinn, brunaði ánægð aftur í skólann....og hann drap á sér Á SAMA STAÐ og um morguninn!!! Svo reyndar rauk hann í gang nokkrum klst síðar þegar ég var búin að biðja pabba um að sækja mig en hann fylgdi mér bara til dagmömmunnar í staðinn! Það verður nú eitthvað að athuga þetta...

Það var síðasti dagurinn hjá dagmömmunni í dag. Svo er haustið óráðið þar sem ekki er næg mönnun á leikskólanum sem Ísak er kominn á. Þetta er nú alveg glatað; ekki hægt að tryggja börnunum pláss vegna manneklu sem er auðvitað bara tilkomin vegna lélegra launa! Þetta er nú mömmunni pínu áhyggjuefni. Auðvitað hefði þetta ekki verið neitt mál ef Kristjana hefði ekki hætt sem dagmamma, en við sjáum til. Kannski leysist þetta eins og allt annað. Ég meina; auðvitað leysist þetta eins og allt annað. Við Maggi þurfum að skiptast á að vera heima núna næstu daga þar til vinnan er búin hjá mér.
Ísak fattaði auðvitað ekki að það væri nokkuð sérstakt við þennan dag. Hann fékk samt pakka frá Kristjönu og rosa sætar myndir af þeim saman. Hann vildi svo varla knúsa hana í kveðjuskini.

Hann fór svo til Írisar í klippingu áðan! Það var nú mjög lítið en hún lagaði bara tjásurnar aðeins. Svo erum við bara hérna heima að hlusta á Lilla Klifurmús í 2. sinn í dag! Það rúllar yfirleitt svona þrjár umferðir á góðum degi:D Sem betur fer er þetta gott leikrit.

20. maí 2007

Fullt af nýjum myndum


Sem tók sko tíma þar sem ég þarf að hlaða einni inn í einu af e-m ástæðum. Þarna er allavega sönnunin fyrir fjallgöngunni miklu.

Þessi helgi hefur verið rosa fín. Eftir kvíðvænlegan fund á föstudaginn, sem tók sem betur fer stuttan tíma, brunuðum við í bústað til Hjalta og Völu í Miðhúsaskógi. Þar var mikið fjör enda voru Eirný og Gæi þar líka með Kötlu og fannst Ísak það ekkert slor! Þeir frændur æstu hvor annan upp í eltingarleikjum og hurðarleikjum og skiptust á að skæla og hlæja. Við fórum í heitan pott og spiluðum og heimsóttum Slakka, dýragarðinn í Laugalandi og Sólheima í Grímsnesi. Þar var svo heitt inni á kaffihúsinu að lá við yfirliði! Manni fannst maður bara kominn til útlanda.

Svo var loksins komið að jólagjöfinni frá Magga í gærkvöldi; San Francisco ballettinn! Mæ God það var geggjað! Rosalega var það flott og gaman. Enda stóðu allir upp um leið og Helgi birtist að lokinni sýningu.

Nú sefur litli kútur sætt og rótt og við á leið í kaffi til Gunnars og Jónu á eftir svo þetta verður góður dagur. Kíkið nú endilega á myndirnar sem ég hafði svo mikið fyrir! Góða skemmtun

17. maí 2007

Ég fór í fjallgöngu í gær!!! Við fórum sérkennararnir og ég úr Ingunnarskóla upp Helgafell í Hafnarfirði. Þetta var alveg þokkalega erfitt fyrir mig í byrjun en telst nú ekki erfitt fjall og allir geta rölt þetta! Það var allavega mjög gaman og fallegt og ég er ekki með harðsperrur í dag:). Á niðurleið mættum við konu í skósíðum gulum regnjakka, með sjóhatt og í stígvélum!!! Já, margt getur skemmtilegt skeð.

Áðan fór ég að hitta litlu Jóhönnu og Maggadóttur. Ohhh hún er alveg yndisleg og svo lítil!!! Var Ísak e-n tíman svona lítill? Auðvitað var hann það og m.a.s. miklu minni en hún er. Það er samt erfitt að ímynda sér það þó svo að ég muni það mjög vel. Hugsa sér hvað þetta er stórkostlegt!

12. maí 2007

Látum það vera lokaorðin

Mogginn í dag:

Ekki varð annað heyrt en að Hljómeyki og stjórnandi þess væru í toppformi, eins og gleggst mátti greina á veikustu stöðum – þrátt fyrir kornabarnsbabl utan úr sal sem gerði hlustendum og hljóðupptökumönnum lífið leitt. Slíkt er því miður ekki einsdæmi, og væri óskandi að tónelskir foreldrar þekktu betur sinn vitjunartíma.

Ríkarður Ö. Pálsson


Þar fengum við aldeilis....

Gleðilegt Eurovision og kosningarkvöld. Gangið hægt um gleðinnar dyr en skemmtið ykkur ógeðslega vel!


9. maí 2007

Mér er farið að líða eins og glæpamanni. En samt skil ég ekki í hverju glæpurinn fólst!

Ég hef samt ákveðið að hætta að hugsa um þetta og eyða orkunni í annað. Svo margt skemmtilegra um að hugsa.

Við hjónin fórum á síðustu sýninguna á áskriftarkortinu í Þjóðleikhúsinu um helgina. Það var Hjónabandsglæpir með þeim Hilmi Snæ og Elvu Ósk. Við erum ekki frá því að þetta hafi bjargað leikárinu bara! Mjög gott stykki og mjög vel leikið. Sá einmitt Eddu Heiðrúnu á tónleikunum hjá Hljómeyki og sé eftir að hafa ekki þakkað henni fyrir.

Er einhver búinn að kynna sér dagskrá Listahátíðar? Mig langar dálítið að sjá þessu Risessu sem á að ganga um borgina á fös og laug. Svo förum við Maggi á San Fransisco-ballettinn en meira veit ég ekki. Auðvitað hlítur að vera hægt að fara inn á einhvern vef og skoða þetta nánar.

Hey! Svo er bara Eiríkur á morgun og partý á laugardaginn er það ekki??!!! Ohhh ég elska Eurovisión!

8. maí 2007

Um daginn stefndi Ísak hraðbyr vitlausa leið út í bíl. Ég sagði þá: "Nei, beygja, beygja, beygja". Hvað haldiði að hann geri nema beygir sig í hnjánum og stingur höfðinu í stéttina til að fara í kollhnís!!! Hahaha.

Í dag gátum við verið heillengi úti á palli og þeir frændur; Knoll og Tott, léku sér dálítið saman. Ýttu hvor öðrum á bílnum og hlógu mikið. Annars er Jökull á "é-á-edda"-stigi sem er ferlega fyndið því hann á bókstaflega ALLT. Allt frá mat og dóti til moldarinnar á jörðinni. Ísak reynir sitt besta og segir:"Nei, Ía á" en lætur sér svo bara lynda að stóri frændi taki af honum dótið.

Nú er líka hlutverkaleikur aðeins að byrja og í gær lét hann Barbapabba kyssast og hoppa og ganga um.

Svo er líka gaman að fylgjast með að Skrámur er miklu sáttari við hann núna en þegar hann var yngri og Ísak er voða hrifinn af kisa. Leitaði að honum lengi lengi í morgun; kallaði "Bumma, Bumma!" og fer svo og reynir að gefa honum að drekka úr stútkönnunni og er alltaf mættur þegar þarf að fylla á matardallinn hans og vill hjálpa.

Þetta er sem sagt pistill um Ísak, kannski ég ætti frekar að vera með síðu á Barnalandi! Og vel á minnst þá eignuðust Jóhanna og Maggi 18 marka stúlku fyrir viku! Er ekki enn búin að sjá hana en bíð svo spennt að við Íris hringjumst á á hverjum degi til að spekúlera hvenær við getum farið og hvort hin sé búin að heyra eitthvað o.s.frv.