30. mars 2007

Þungu fargi


Ísak er einn af þeim útvöldu! Hann fékk Bréfið! Hann verður leikskóladrengur í haust:D Þvílíkur léttir smettir. Ekki búið að tala um annað í vikunni hjá dagmömmunni:"Ert þú búin að fá bréf? Nei en þið? Guð, þá fáum við ekki bréf..., þið VERÐIÐ að hringja uppá Þjónustumiðstöð og vera reið..." En Bréfið kom í dag og það lá við að ég valhoppaði eftir ganginum í skólanum þegar ég frétti það. Sjúkket bara

26. mars 2007

Hvernig væri...

...að SKELLA SÉR á tónleikana hans Magga (jú og söngsveitarinnar Fílharmóníu) 1. eða 3. apríl kl. 20:00 í Langholtskirkju. Flutt verða þrjú kórverk eftir meistarana Brahms, Mendelssohn og Schubert. Miðar seldir á midi.is og allar upplýsingar að finna þar. (Möguleiki á ódýrari miðum gegnum okkur *blink blink*)

Koma svo!!!! Sýna smá lit!!! Hafiði einhvern tíman séð hann stjórna??? Hann er geðveikt flottur skoh! Þetta gefur góða stemningu fyrir páskana. Sjálf ætla ég að fara 1. apríl ef e-r hefur áhuga á að vita það.

Annars er undrabarnið Ísak rosalega skemmtilegur þessa dagana (eins og alltaf). Hann er farinn að geta raðað mismunandi formum án hjálpar í rétt hólf, talar og talar og kann nokkur lög (sem hann getur fyllt í eyðurnar), hjálpar til að henda rusli, gengur á tánum og auðvitað rokna snillingur í sundinu. Aðal orðið núna er "meira"... mjög hagnýtt hahaha. Hann gefur Skrámi matinn sinn, matar sig sjálfur af skyri og jógúrt og og og...

SJÁUMST Á TÓNLEIKUNUM!

11. mars 2007

Enn ein helgin búin og enn ein vinnuvikan að hefjast. En það er nú stutt í páskaFRÍIÐ. Jú, jú það er rúm vika sem maður fær þar! Geggjað.
Mig er farið að langa að komast út og moldvarpast í beðunum mínum. Er ekki einmitt rétti tíminn til að sá núna? Held að næst setji ég stefnuna á hús með GARÐI takk fyrir túkall! Hef nefninlega alltaf haft gaman af svona brasi þó ég hafi ekki mikið staðið í því fyrir utan unglingavinnuna á Árbæjarsafni! Það var nú meira sumarið. Klippa grasþök, raka gras, setja gras í poka, flytja gras... eins gott að maður er ekki með grasofnæmi.

Rosalega er þetta andlaus færsla. Best að fara frekar í bælið og lesa eitthvað fallegt. Núna er ég að lesa Munkinn sem seldi sportbílinn sinn og líkar ágætlega. Næst bíður Flugdrekahlauparinn. Svo er mig farið að þyrsta í að læra eitthvað!!! Ótrúlegt en satt, ég er nýútskrifuð og finnst ég ekkert kunna og langar í endurmenntun og það strax! Sá dálítið spennandi nám fyrir norðan í haust... þarf að kynna mér það betur. Ætli ég panti mér ekki bara e-ð á Amazon og reyni vera gáfuð sjálf upp á mitt einsdæmi svona heima í stofu. Ég er alls ekki að tala um að skipta um starf heldur fríska upp á minnið, bæta við mig og svona.

Góða nótt

2. mars 2007





Evróvisíon er stórt í Svíþjóð. Þeir eru ekki búnir að velja sér fulltrúa ennþá og ég horfði á undankeppni 4 af 5!!! Reyndar er það þannig að 5. hlutinn eru þeir sem fá "andra chansen"/annan sjens, töpuðu í rauninni en fengu það góð stig að þeir eiga það skilið. Ég horfði í andakt á þessa 4. undankeppni með vinkonum mínum, þar af einni sem er alveg forfallin aðdáandi og veit allt. Hún tjáði mér það að það væru tvær generalprufur fyrir hverja undankeppni sem væri UPPSELT á, fyrir utan svo sjálfa undankeppnina sem er uppselt á mörgum vikum fyrir. Á lokakeppnina er svo uppsel á fyrir löööööööööngu!!!! Mörgum mánuðum altsvo.

Ég hugsaði með mér þegar ég horfði á þetta að ef svona atriði kæmi í keppninni hérna heima myndu Íslendingar pissa í sig af hlátri. Erfitt að útskýra en þeir eru bara eitthvað svo innilegir; hjarta og sál í þessu gjörsamlega.

Ég hafði það mjög gott í Gautaborginni minni. Fékk það sem ég vildi í H&M, fór á gömlu góðu Munspelsgötuna og Frölunda Torg og allt! Hitti vinkonurnar og borðaði gott og hvíldi mig vel. Bloggfærslan frá Arlanda-Stockholm var kannski eitthvað ruglingsleg, enda mín orðin þreytt þá. Ég sem sagt var rekin út úr vélinni hérna heima þegar við vorum að fara út úr stæðinu því það kom upp bilun. Svo sátum við og biðum í 2 tíma eftir nýrri vél og þá missti ég náttúrulega af tengifluginu til Gautaborgar. Reyndi svo að ná öðru á mettíma en rétt missti af því og kom því ekki til Gautaborgar fyrr en 19 í stað 15!

Ísak saknaði mín ekki baun í bala! Fattaði ekkert að ég var í burtu. Hann er algjör snillingur og foreldrarnir að rifna úr stolti. Nú er hann farinn að botna lög og gera smá hreyfingar. Hann syngur með í "Afi minn og ....", "Lilla snigel..." og gerir hreyfingar við "Vindum, vindum vefjum band..." Í gær sagði hann svo greinilega tveggja orða setningu "mamma dó" sem þýðir mamma skór og í morgun sagði hann "hæ mamma!" Loksins er líka bé-ið komið og ég held hann hafi sagt eitthvað í átt við "pabbi" í dag! Sem sagt; algjör snillingur á ferð eins og hans kyn á vanda til. Annars eru öll börn snillingar og á ekkert að vera að bera þau saman í getu í einu né neinu á þessum aldri. Varla hægt að segja hvað er eðlilegt og hvað ekki allavega hvað málþroska varðar. Yfirleitt bara miðað við að við 18 mánaða aldur "eiga" þau að hafa 10 orð í orðaforða sínum.

Nóg um það. Ætla að eiga góða helgi með uppáhalds strákunum mínum. Eigið það sömuleiðis:D