28. janúar 2007

Banani, ánamaðkur og kanína


Ísak búinn að vera pirrí pirrí síðustu daga og ólíkur sér. Slefar mikið svo við ályktuðum að það væri tanntaka. Enda 4. framtönnin uppi að koma sér almennilega fyrir. Í dag var hann svo með hita og mér datt í hug í rælni að stinga puttanum upp í hann áðan og VITI MENN!!! Það eru að koma jaxlar niðri og það vel! Annar kominn svo sést greinilega. Ekki skrýtið þó barnið finni fyrir því aðeins. Nýtt orð sem er komið sterkt inn er "anana" sem þýðir allt í senn; banani, kanína og ánamaðkur. En ekki segir hann pabbi! Hann segir bara mamma við hann og kallar líka Barbapapa "mamma" svo þetta er mjög lógískt allt saman.


Nýja rúmið kom loks á laugardeginum en seinna en við vorum búin að panta það og orðin of sein á ættarmót. Bílstjórinn hafði ekki heyrt neitt um það. Við vorum nokkrar nætur að venjast því og erum búin að skipta nokkrum sinnum um pláss, fundum ekki út hvort væri mjúkt og hvort harðara! En nú er það ljóst og við sofum bara ágætlega. Nema ég sem á við svefnvanda að stríða. Ég vakna í tíma og ótíma, er lengi að sofna og finnst ég vera meira vakandi en sofandi. Og eftir að Ísak kemur uppí um 6 sef ég ekki meir. Þetta hefur reyndar batnað eftir að ég fór að hlusta á slökunardisk fyrir svefninn og reyna að hætta að líta á klukkuna á nóttunni. Og!!! Ég finn ekki lengur fyrir því þegar Maggi hreyfir sig! Svo gott rúm sko. Og á morgun byrja ég í yoga sem verður örugglega gott fyrir svefninn...


Góða nótt

20. janúar 2007

Góðuuur!



Íþróttakennarinn í skólanum mínum spurði nokkra 6 ára hvort þau hefðu ekki fengið jólasteik?
"Nei! Baða sona kjúttling með dðullu í ðassinum"! Svaraði einn guttinn.

Pabbi sagði svo einn góðan og sannan í gær. Nokkrir Íslendingar hittust óvænt í flugvellinum í Osló og spurt var um ferðir fólksins. Nokkrir voru að koma af lesblinduráðstefnu. Nú, hvar var hún haldin? var spurt. ! "Í Stavangri"

HAHAHA!!!

Annars er ekkert fyndið við síðustu nótt hjá okkur hjónum. Keyptum okkur nýtt rúm á miðvikudaginn fyrir marga peninga. Það átti að koma með þetta í gær en leið og beið og ekkert kom og endaði á því að við sváfum illa á beddunum okkar. Fórum auðvitað og kvörtuðum áðan og strákgreyið sagði að rúmið væri bara ennþá niðrá lager. Enginn veit svo sem af hverju, það náðist ekki í bílstjórann. Við bíðum nú eftir að þetta komi í dag og að við fáum e-r sárabætur!! Alveg glatað. Búin að hlakka svo til að fá nýtt rúm og auðvitað henda gamla því hver hefur pláss fyrir 2 hjónarúm í 3ja herberga íbúð?

14. janúar 2007

Vetur konungur

Frábær helgi að baki í sumarbústað við Flúðir. Það var nú pínu óþægilegt að keyra á föstudagskvöldið í myrkrinu og skafrenningnum en við fórum bara rólega. Bústaðurinn var rosa fínn en við vorum nú ekkert að moka okkur út í pott í frostinu... brrrr! Mamma og pabbi litu við og komu með snjóþotur. Ísak finnst sko ekki leiðinlegt að "inna"(renna) en grenjaði reyndar heil ósköp þegar hann datt beint á andlitið í skafl! Skrýtið... er það ekki voða notalegt? Hann vildi samt alltaf strax uppí þotuna aftur. Við renndum okkur nokkrar ferðir og sendum hann líka bara einan niður brekkuna! Hann naut þessa að hlaupa um bústaðinn og í dag var aðalorðið "amma" sem hann galaði og gólaði um allt. Stóð lengi í forstofunni og kallaði á ömmu! Þegar hann segir amma tekur hann alltaf um leið í peysuna sína framanverða og togar!!! Veit ekki alveg... Kannski af því að mamma leggur alltaf hendina á bringuna þegar hún segir "amma". Nú kann hann alveg heilmikið af orðum: mamma, amma, afi (spariorð), Daði, nei, ó-ó, namm, renna ,róla, alltbúið, opna, loka, dudda, takk, datt, bless/bæ, halló, detta, súpa (því miður.... mamman vildi kenna honum drekka!), og táknið fyrir "borða", en þrátt fyrir þrotlausar æfingar segir hann ekki ennþá PABBI!!! Aumingja Maggi bíður og bíður en þegar við segjum pabbi svarar hann bara "mamma". Stundum segir hann reyndar mamba sem gæti þýtt pabbi...? Allavega, þetta átti að vera pistill um bústaðarferð...

Okkur tókst næstum að pússla einu Jigsaw-pússli og lágum svo bara dálítið í sófanum og ég lagði mig m.a.s. í dag! Verst að geta ekki verið í viku bara!

Framundan er dagur á skrifstofunni með öllu tilheyrandi og svo vinnuvikan í skólunum mínum. Loksins er ég komi í gang að þjálfa nokkra krakka, finnst ég vera farin að vinna af alvöru. Best að fara að hvíla sig fyrir átök vikunnar.

7. janúar 2007

Gleðilegt ár

Mikið er maður nú búinn að hafa það gott. Jólin voru mjög hefðbundin og ánægjuleg. Við skiptumst bara á að sofa út og höfðum það huggulegt hér heima og hjá vinum og fjölskyldu. Áramótin voru rosa skemmtileg og sena ársins átti sér stað þar þegar við komum heim e miðnætti, öll hersingin sem var hjá Indru og það fyrsta sem við heyrum innan úr stofu er:"viltu meira snakk, Ragnar Steinn?" Þá voru báðir strákarnir vaknaðir og afi Hlö og amman ekkert smá sátt með strákana sína í fanginu hehehe!
Við fórum upp á Skólavörðuholtið og þetta er í fyrsta skipti sem ég varð smeik við allar sprengjurnar, þær voru gjörsamlega á milli fótanna á manni! Ótrúlegt líka hvað er búið að sprengja mikið undanfarna daga! Biluð þjóð.

Við erum lögst í "rúmleit". Tókum 3 daga og erum búin að skoða í allar rúmbúðir í borginni. Held við séum búin að finna rétta rúmið en ætlum samt að tékka aftur ef minnið er að bregðast okkur. Ohh ég hlakka svo til að fá nýtt rúm. Í einni búðinni fengum við "legugreiningu" og þar sagði maðurinn að ég væri nánast ómöguleg! Ekki til dýna sem hentar mér og ef ég væri 10cm styttri hefði hann sagt að þetta væri ekki hægt! Ok.... gott að vita!

Við fórum á 2. sýninguna á Þjóðleikhúskortinu okkar; Bakkynjur. Segi ekki annað en við fórum í hléi. Þá var hálfur salurinn búinn að sofa á e-m tímapunkti og maður búinn að telja allt sem hægt var í salnum. Pasta basta.

Ísak er farinn að ganga. Gengur núna alveg innan úr svefnherbergi og fram í stofu og ef hann dettur þá fer hann bara restina á hnjánum. Ferlega fyndinn. Honum finnst hann alveg vera að gera jafn merkilegan hlut á hnjánum. Hann dýrkar pabba og vill frekar vera hjá honum en okkur ef hann er nálægur. Grenjar svo þegar hann fer frá honum. Það er nú bara sætt og pabbi segir "er á meðan er" og lætur allt eftir honum. Svo er Jökull farinn að faðma hann í bak og fyrir þegar þeir hittast! Ísak fékk rólu frá Jökli í jólagjöf og er búinn að flytja lögheimilið sitt í hana. Getur setið tímunum saman og daginn sem hún var sett upp sat hann í heilan klukkutíma. Hann lærði strax að segja róla og nú hljómar það í eyrum okkar liðlangan daginn; "illa, illa!"