28. september 2006

Afmæli


Jú jú maður er orðinn hrjátíu ára! Það gekk alveg ljómandi vel að komast á þann aldurinn og ég bara fann ekkert fyrir því! Maður fékk auðvitað pakka og morgunmat í rúmið og svo tók nú bara ósköp venjuleguar dagur við. Um kvöldið fórum við Ísak svo í mat í Fiskó þar sem voru meiri pakkar og góður matur. Ísak og Jökull skelltu sér í bað hjá afa og ömmu og komu uppúr vel olíubornir þar sem Hjalti hellti um 1dl af ólífuolíu út í! Ísak sem ekki getur setið í baði, heldur þarf að standa eða kasta sér um, var háll sem áll og rann til og frá í höndunum á mér hahaha.

Hann er svo orðinn 10 mánaða og af því tilefni stóð hann upp! Reyndar á afmælisdaginn minn. Myndir eru að hlaðast inn í albúmið. Við héldum smá uppá 10 mánuðina áðan með því að skella okkur í hjólatúr en systir Völu lánaði okkur stól og hlökkum við mikið til að nýta okkur þetta. Held að Ísak hafi fundist gaman allavega kvartaði hann ekki! Þó hann liti út eins og lúlli lúði í múnderingunni!

Um helgina ætla ég að fara í bústað með Önnu Dögg og Sunnevu. 'Eg hlaka svo til, bara að komast aðeins út úr húsi og bara vera ÉG og ekki mamma. Við ætlum þvílíkt að baða okkur í heita pottinum og auðvitað föndra eins og óðar. Veiiiii. Sjáumst síðar

24. september 2006

Helgin

Átti skemmtilegt kvöld á föstudaginn með vinum og fjölskyldu! Takk fyrir mig allir saman.
Skellti mér svo í Kringluna að REYNA að eyða peningum í gær en gat það ekki, þó ég hafi mátað öll stígvél í öllum skóbúðum. Nei, reyndar er það lygi, ég fíla ekki alveg támjóa skó þannig að það útilokar ansi marga. Lét svo taka ein frá, en man ekki einu sinni hvernig þau líta út og þurfti að hringja í mömmu til að spurja hvort hún myndi í hvaða búð það hefði verið hahaha. Þau fá bara að vera áfram í búðinni held ég.

Við Ísak erum svo búin að eiga alldeilis góðan dag í dag. Fórum í sund í morgun til hans Óla og Ísak æfði sig að kafa og sækja leikfangaöndina og sitja á bakkanum... reyndar vildi hann alls ekki sitja þar og kastaði sér bara beint út í laugina til að komast til mín. Alveg sama þó hann færi á bólakaf og hrykki ofaní hann. Alveg mömmusjúkur. Svo fórum við til Hjalta og Völu og Jökuls og erum bara nýkomin heim. Þar voru þær systur að gera mintu gelé.... eftir að vera búnar að gera rifsberjahlaup og appelsínumarmelaði.... alveg að fara yfirum í húsmæðrafíling! Segi nú bara ekki meira en það að mintu gelé er furðulegt á bragðið! Nú er von á Magga heim eftir næturdvöl fyrir austan og spennandi að heyra hvernig það gekk. Hvað ættum við að hafa í kvöldmatinn??

20. september 2006

Kátína

Ísak er svo glaður:D Fórum með Jónu Björk upp og niður Laugarveginn í dag og hann græddi sílafón og sandfötur. Þegar það svo var tekið upp heima spilaði hann lengi í sílafóninn með gleðibrosi. Áðan fór hann svo í bað með fötu og þegar hann fattaði að hann gæti drukkið úr henni ætlaði allt um koll að keyra og hann fékk algjört hláturskast. Hellti upp í sig aftur og aftur og fannst voða fyndið ef hrökk ofaní sig. Svo slysaðiast hann til að hella úr fötunni yfir mig og fannst það líka rosa fyndið. Hófst þá leikur nr 2 en það var að reyna að hella á mig og henda fötunni á gólfið!
Já, lífið er skemmtilegt hjá 9 mánaða!
Hann og Jökull bjuggu líka til leik á mánudaginn. Hann fólst í því að Ísak öskraði. Mjög hátt.
Þá öskraði Jökull í sömu tónhæð. Svo var hlegið og hlaupið um gólf.
Svo öskraði Ísak og þá öskraði Jökull. Aftur hlegið og hlaupið um.
Hahaha...
Þetta náðist á vídeó og líka að leikurinn endaði auðvitað með ósköpum, Jökull datt á nefið.
Oft kemur grátur á eftir hlátri.

16. september 2006

Óm

Í gær fór ég í ómskoðun af höfði og hálsi. *hrollur*

Maður er lagður á bekk, höfuðið skorðað niður. Svo er sett e-s konar stálgrind yfir hálsinn og önnur yfir höfuðið og svo allt njörfað niður. Ég spurði sakleysislega hversu langan tíma þetta mundi taka.
-Ja, þetta er nú svolítið mikið hjá þér. Kannski svona 50 mín!! Mundu bara að þú mátt ekki hreyfa þig!

Svo fær maður heyrnartól og má velja sér geisladisk. Ég valdi eitthvað sem hét "blönduð tónlist", en ef það væri ekki til vildi ég Garðar Cortes. Svo byrjaði Garðar en ekki voru gæðin góð og það var svo geðveikur hávaði í tækinu sjálfu að það heyrðist lítið í honum. Þetta er eins og að vera með eyrað upp við vegg sem er verið að bora í! Á tímabili var eins og að vera inní hrærilvél sem var á hæsta snúning, með hárblásarann í gangi og höggborinn á fullu! Ég fékk m.a.s. illt í eyrað þá!

Þegar sá hávaði var yfirstaðinn og sá "venjulegi" tók við var Garðar allt í einu hættur að syngja og komið Ríó Trío!!!! Mein Gott, ég var ekki að meika það! Það hélt svo bara áfram í örugglega 20 mín eða meira. Var alvarlega að spá í hvort ég ætti að ýta á neiðarhnappinn sem ég var með í hendinni! Kom svo í ljós að þetta var þessi "blandaða tónlist". Uss, er það nú rangnefni. Ætti að vara mann við þegar maður er svo vitlaus að velja það.

Það var ekkert smá erfitt að liggja kyrr. Maður fær svo rosalega þörf fyrir að hreyfa EITTHVAÐ. Á endanum var ég farin að vingsa einni og einni tá bara til að reyna að sefa mig. Ég gleymdi alveg að stinga uppá að það væri komið fyrir klukku þar sem maður gæti séð hana, eða settur lítill sjónvarpsskjár í þetta bévítans tæki!

Allavega, ég lifði það af, og án þess að fá panik líka! 18.000 krónum fátækari vona ég næstum að það komi eitthvað af viti út úr þessu svo það hafi verið þess virði!

15. september 2006

Skipulag

Þetta með líkamsrækt, heimilishald og vinnu: Þetta er þaulskipulagt! Við getum bara ákveðna 3 daga í viku, en þá er líka eins gott að allt passi! Hjalti þarf að passa 2 daga, og það þarf að flýta sér bæði þangað og aftur heim.

Stundum finnst mér við vera 5 manna fjölskylda að skipuleggja, þetta er líklegast bara forsmekkur af því sem koma skal EF maður eignast fleiri börn. Sækja og keyra og ferja á milli svo allt passi. Við höfum m.a.s. látið okkur dreyma um annan bíl og við erum ekki einu sinni með barnið á leikskóla eða hjá dagmömmu. Reyndar finnst mér það alveg agaleg tilhugsun. Þá erum við alveg sokkin ofaní íslenska normið og lífsgæðakapphlaupið!

Einmitt það sem við vildum ekki! Við erum nú komin ansi langt samt: íbúð í úthverfi, gasgrillið á pallinum... reyndar engin uppþvottavél og bara einn bíll ENNÞÁ!

13. september 2006

Aftur og nýbúin!

Nú var litli lingur sko duglegur! Elsku karlinn var aftur með blóð í bleiunni í morgun og því fórum við uppá Barnaspítala. Það var ekkert lítið sem hann brosti og hló og fannst gaman. Hjúkkunum varð á orði að hann yrði nú ekki svona ánægður með þær eftir að þær væri búnar að "afgreiða hann". Svo var hann lagður niður og þvaglegg komið fyrir. Það þurfti að halda fótleggjunum en hann var svo duglegur og grét bara smá! Eftir mínútu var hann svo aftur farinn að hlægja. Krúttið. Svo var skriðið bara æft um alla ganga meðan við dokuðum eftir niðurstöðunum. Aðalskemmtunin fólst í að sveifla hurðum fram og aftur og skæla svo ef þær lokuðust!

Þetta er sennilega ekki neitt, bara sár í þvagrásinni. Við eigum bara að fylgjast með þessu.

Við Vala lifðum spinning af (greinilega). Þetta var hörku erfitt og um miðbik tímans varð mér aftur flökurt af áreinslu! Hjólin fóru líka eitthvað í taugarnar á okkur, sérstaklega Völu sem er vön öðru. En við mætum galvaskar aftur! Svo er það bara aftur í Body Pump á morgun!

12. september 2006

Söfnunarárátta


Hún móðir mín er ótrúleg! Það er alveg sama hvort það eru föt eða leikföng, það er allt til síðan við krakkarnir vorum lítil. Ísak er í prjónuðum peysum af mér sem eru eins og nýjar og í Fiskó eru til leikföng fyrir börn á öllum aldri. Í fyrradag datt mér í hug að kíkja hvort ég fyndi ekki e-r dýr til að taka í vinnuna, og viti menn. Allt á vísum stað. Og í sama kassa fundust líka ALLIR Barbapapa-karlarnir mínir. Sem eru sko síðan ég var pínulítil! Allir með tölu.

Ég man ekki til þess að það hafi verið e-r heragi á okkur að ganga frá dótinu og taka til. En hún segir sjálf að þegar hún var lítil var náttúrulega ekki til mikið dót og hennar dót hafi að mestu verið eiðilagt af öðrum börnum. Þess vegna lét hún okkur finna það sem týndist og hjálpaði okkur að ganga frá. Sko, m.a.s. pússluspilin eru flest heil!

Ég vona að ég geti hjálpað Ísak að passa svona upp á sitt dót. Mér finnst svo gaman að skoða gamla dótið mitt. Ætli ég hafi ekki erft e-ð að þessari áráttu því mér finnst voða erfitt að henda hlutum og vil helst geyma allt. Það fær sko allt tilfinningalegt gildi hjá mér; gamlir blýantsstubbar og skítug strokleður eru bestu vinir mínir. Og ég læt mér ekki detta í hug að henda hárfléttunni minni, eða illa lyktandi hárskrauti frá því að ég var 5! En hvar ætli dúkkulísurnar mínar séu?

9. september 2006

Breytingar



Alltaf gaman að breyta til. Reynar bæta við í þessu tilfelli, bætti bara við nokkrum krækjum og myndum. Veit ekki hvort þetta fær að vera eða hvort ég hendi þessu út. Sjáum til.

Maggi er í partýi og ég sit með sælgætispoka fyrir framan tölvuna, á eftir að vaska upp og tína upp dótið, Fraiser í tækinu og ekki búið að kveikja ljósin. Skýtið að það skuli EKKERT vera í sjónvarpinu á laugardagskvöldi! Eða er ég ekki með smekk fyrir því sem er í boði?

Við Vala komust loksins í líkamsrækt í morgun. Hjalti passaði drengina á meðan. Við vorum voða spenntar og spurðum afgreiðsludömuna spjörunum úr til að gera nú ekkert vitlaust. Mig var búið að dreyma allavega tvo drauma (martraðir) um komandi hreyfingu, en þetta gekk nú allt saman ljómandi. Bara smá ógleði um miðbik tímans. Svo stóð ég varla í lappirnar eftir tímann, þurfti að halla mér upp að veggnum á leiðinni niður stigann úr tímanum og í hvert skipti sem ég stend upp þarf ég að styðja mig við e-ð, slíkur er skjálftinn í lærunum. Einu sinni var ég nú nokkuð sterk í fótunum!! En ekki meir Geir á þeim bæ! Svo er það bara spinning næst.... scheisse!

8. september 2006

Höfuðbein


Mikið er þetta ljómandi fallegt veður í dag! Rok og rigning er það besta sem ég veit.

Góð helgi framundan sem byrjar eins og vanalega á föstudagsmat hjá mömmu og pabba. Svo er stefnan að fara í líkamsrækt á morgun þar sem við fórum aldrei á þriðjudaginn vegna óhjákvæmilegra atburða. Vonandi fær Ísak að vera í barnapössuninni, en það þarf að ath það betur. Svo langar mig voðalega á heilsusýninguna í Egilshöll. Þó ég sé ekki dugleg að hreifa mig eða hugsa að öðru leiti um heilsuna, þá hef ég samt áhuga á málefninu. Ég er allavega nokkuð dugleg að borða hafragrautinn minn á morgnanna og reyni að borða reglulega og hollt, þó ég sé alls ekki sykurlaus.... ég og sykur erum bara allt of góðir vinir.

Ég hef verið að fara í höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun undanfarið. Það er ekkert smá undarleg upplifun. Maður liggur bara og slakar á og meðferðaraðilinn leggur hendurnar á líkamann. Í 1. tímanum fór höfuðið á mér að hreyfast í allar áttir þegar hún lagði hendurnar þar. Svo í-öðrum tímanum fannst mér hún hreyfa það, en ekki að þetta væri ósjálfrátt. Í 3. tímanum var hún með hendurnar yfir og undir maganum og allt í einu fór höfuðið á mér bara á fulla ferð! Það var frekar scary og mér fannst bara eins og það væri draugagangur! Reyndi samt að fylgja bara eftir og slaka á. Úff. Hún segir að ég sé voða "opin" og gott að meðhöndla mig, en við ákváðum samt í sameiningu í gær, e 4.tímann að taka pásu. Þetta hefur engin áhrif haft á höfuðverkinn svo best að spara sér bara þennan pening. Verð að segja að þetta er samt alveg magnað, ég var alveg viss um að hún ýtti höfðinu á mér til, en ég upplifi mjög sterkt að ég ráði ekki við þetta sjálf. Samkv. kenningunni er líkaminn að losa sig við óþarfa orku og rétta sig af. Maður á að geta losnað við alls konar kvilla með þessu og án efa hjálpar þetta mörgum. Gæti t.d. hafa hjálpað Ísak þegar hann var með magakveisuna...

Þeir voru sætir frændur hérna í fyrrakvöld, Jökull og Ísak. Sátu í sitthvoru mömmufangi og horfðu á Stubbana. Jökull var með sæluglott á vör og Ísak klappaði og klappaði. Hann er voða duglegur að klappa og gerir það um leið og e-r klappar í sjónvarpinu eða útvarpinu. Svo klár *ahhh*

6. september 2006

Scary

Það var ekki gaman í gær:( Eyddum 3 klst upp á Barnaspítala og þar af voru sko bara 2½ í bið eins og lög gera ráð fyrir. Sem betur fer var allt í lagi, en hjartslátturinn var ansi hraður hjá mér á tímabili, enda hræddu hjúkkurnar mig á heilsugæslunni svo! Ég kom sem sagt með Ísak af því að hann pissaði blóði, þær komu tvær fram til að segja mér að þvagprufan væri full af blóði og að við mundum sennilega vera send niður á bráðamóttöku. Voru eitthvað svo alvarlegar og horfðu á mig með mikilli samúð. Ég varð satt best að segja skíthrædd og bara grenjaði í símann þegar Hjalti hringdi. En allt fór vel, lilleput bara eiturhress og skemmti sér konunglega á biðstofunni.

Núna vill hann alls ekki fara að sofa. Vagninn hefur bara 3 hjól sem stendur þannig að ég get víst ekki "labbað" hann í svefn... og ekki vill hann sofa inni! Svo nú skríður hann um allt með húfuna og í jakkanum voða gaman. Dadada

Það er rosa fínt í vinnunni. Mikið stress en ég hef engu gleymt hehe. Undirbúningstíminn er svona helst til mikill miðað við í Svíþjóð en það breytist fljótt.

Jæja, sól á pallinum!

3. september 2006

Í berjamó

Skelltum okkur í berjamó í gær með m & p. Ætluðum fyrst "þangað" en þar var svo mikið rok, ákváðum þá að fara "þangað", en þar voru engin ber, brunuðum þá "þangað" og þar var engin sól og bara krækiber, en klukkan orðin meira en berjamór, þannig að það varð að hafa það.

Sem sagt, lentum í geggjuðu veðri fyrir botni Hvalfjarðar, hreiðruðum um okkur í rjóðri og átum nestið. Ísak var auðvitað aðalmaðurinn, fékk að vera í poka framan á mér og skríkti og hló í hverju spori. Svo þegar við komum á áfangastað var bara kalt og skýjað og lillemann bara látinn í 2 húfur og með trefil móður sinnar um hálsinn. Honum fannst það nú ekkert verra, aðallega foreldrarnir sem nenntu ekki meir og hálf drógu afann og ömmuna úr brekkunum. Ísak smakkaði báðar teg af berjum og báðar komu bara strax út aftur. Ekki berjamaður. Ekki ennþá.

Nú er sko geggjuð steik á pallinu, sit úti og skrifa! Var að reyna að undirbúa mig fyrir vinnuna, en það verður bara bíða. Enda get ég varla undirbúið eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Best að hitta fólkið fyrst.

Á þriðjudaginn ætlum við Vala að byrja að púla. Ætlum í Body Pump í Orkuverinu. Hún viðurkenndi að hún væri dauðstressuð fyrir það, og hjúkket, því ég er það líka! Maður er svo gjörsamlega úr formi og slakur eitthvað að það nær engri átt. Ég var alveg rennandi blaut af svita eftir að labba nokkra metra með Ísak í gær. Og eins gott að lífbeinið haldi!!

Set inn fullt af nýjum myndum

1. september 2006

Fór til taugalæknis í morgun út af höfuðverknum sem er búinn að standa núna stanslaust í e-r 7 vikur. Hún ætlar að senda mig í blóðprufu og MRI af heila, æðum í höfði og sömuleiðis mynda hálsinn. Hjúkket bara, loksins fæ ég úr því skorið hvort þetta er eitthvað eða bara samblanda af svefnleysi, streitu, mataræði.... sem sagt hvort það er eitthvað hægt að gera eða ekki. Þetta er að gera mig frekar geðveika! Allavega geðstirða.

Annars ætti ég að vera að klippa og líma fyrir vinnuna á mánudaginn. Ég ákvað allavega að panta mér sænskt próf sem ég er vön að nota og annað smotterí, svo ég geti allavega notað eitthvað sem ég þekki vel. Það verður spennandi að taka á móti fullt af skjólstæðingum á mánudaginn!