30. ágúst 2006

og þá byrjar ballið!

Hann er kominn af stað drengurinn. Fór ca "tvö skrið" í gærkvöldi og svo kannski svona "4 skrið" án pásu í dag! Hann fer sem sagt á rassinum og togar sig áfram með höndunum, stoppar svo og baðar út öllum öngum og heldur svo áfram!

Eins gott að fara að taka burt allt Ó-Ó!

29. ágúst 2006

9 mánaða

er hann orðinn drengurinn! Ekki hélt hann upp á það með því að byrja að skríða, en hann kemst nú ótrúlega langt þótt hægt fari á einhvers konar ómeðvituðu sprikli. Þá er voða gaman að rekast á borð-eða stólfót og reyna að hífa sig upp! Svo er maður sko búinn að fá 3. tönnina og búinn að fara í fyrstu klippinguna hahaha. Það var sko ekki baráttulaust, ætlaði sko ekki að láta fikta svona í sér. Það var hún amma Dísa sem hélt á vopninu og ég, Maggi og pabbi öll að reyna að halda honum og hlæja að honum og taka myndir. Þetta tókst nú að lokum, í tveimur atrennum enda ekki mikið sem var klippt. Svo er hann aftur farinn að klappa sem hann var búinn að gleyma... eða ekki gera í nokkrar vikur. Hins vegar veit hann ekki ennþá hvað hann er stór. Nema honum bara misbjóði svona svakalega að svara þannig spurningum.

Nú er aldreilis að koma haust! Þá á ég ekki við veðrabreytingar heldur er allt að fara á fullt; Maggi í sínum vinnum og ég byrjaði að vinna í gær. Tók á móti einum skjólstæðing. Svo byrja ég á fullu á mánudaginn kemur og vinn 2 daga í viku fyrir hádegi. Mér líst mjög vel á þetta, þó það sé alltaf púl að byrja á nýjum stað og finna ekki neitt og vita ekki neitt. Alveg eins og að koma til útlanda og kunna ekki siðareglurnar og vera hálf-áttavilltur. Nú þarf ég svo að vera dugleg að koma mér upp eigin efni; ráðleggingum, meðferðarefni og þess háttar sem tekur auðvitað mikinn tíma. Sem betur fer kom samstarfskona mín inn til mín í gær og lét mig hafa dálítið af pappír og sagðist muna hvernig það var að byrja! Góð kona það. Ég á auðvitað alveg ógrynni af pappírum EN ALLT Á SÆNSKU. JÄVLAR.

Maggi tók sig til í gær og hreinsaði tölvuna. Nú eigum við auka harðan disk og ekkert rusl hér inni. Enda tók bara 2 mín að starta henni áðan og ekki 15! Glæsilegt.

24. ágúst 2006

Stundum...

er bara allt voine voine sko! Það á ekki af okkur að ganga í samskiptum við símafyrirtæki. Við fengum svo dularfullan símreikning fyrir júlí. Báðum þess vegna um sundurliðun. Þá kemur bara í ljós fullt af símtölum í 118 sem mig rekur minni til að hafa hringt 1x í, og svo bara hin undarlegustu númer; kannast einhver við hann Bernótus skipstjóra í Kópavoginum? Eða Elísabetu í Fannafold? Eða bara alls konar fyrirtæki; Toyota, Blómaval, Aseta (what?), Össur....
Mörg símtalanna eru hringd meðan við vorum fyrir norðan!!!

Sko, ætli pípið sem ég heyri á morgnanna sé nágranninn að stilla sig inn á símann okkar og hringja svo út um borg og bí? Við erum alveg bit og símafyrirtækið líka sem segir það ómögulegt að við höfum ekki hringt þessi símtöl! Kerfið þeirra á að vera það öruggt.

Annað voine: Ég pantaði mér fullt af fötum á heimasíðu HM. Afar gleðilegt og skemmtilegt og tilhlökkunin mikil. Svo var þetta sent á Önnu vinkonu í Svíþjóð. Nema hvað, hún getur ekki sótt pakkann! Bara ÉG get sótt hann. Ég get ekki 1x sent afrit af skilríkum, það er ekki tekið gilt! Svo pakkinn var bara sendur aftur til HM búhúuuu. Ég hrindi þangað áðan og þurfti auðvitað að bíða og bíða. Það er ekkert hægt að gera, nema taka til baka allt og leggja peningana inn á reikn minn (sem betur fer er það allav hægt). Þeir senda bara alls ekki til Íslands! Samt senda þeir til Finnlands og Danmerkur en hún sagði að það væri nánast innan landamæra! Huh, asnalegt. Svo Bryndís, þú getur pantað til Danmerkur... Skil ekki svona óliðlegheit. Bara einhver stefna fyrirtækisins. Þarna missti HM stóran kúnna skal ég segja ykkur.

Það var gott í bústað. Gott veður og notalegt. Nú þarf hins vegar að pakka upp úr þessum 3 töskum sem við fórum með! Hvernig getur maður alltaf farið með svona mikið dót?

21. ágúst 2006

21.ágúst

er góður dagur. Indra mása og Sólveig og Soffía eiga afmæli í dag. Til hamingju!!! Og svo fékk Maggi organistastöðuna við Breiðholtskirkju í dag líka! Veiiii. Það þýðir að við Ísak ætlum að "flytja heim" haha. Loksins, enda hefur mér alltaf þótt óþægilegt að búa svona á tveimur stöðum hehemm...

Nú er ég sem sagt orðin organistafrú á ný:D

16. ágúst 2006

sandur og sól


Tveir dagar í sól og yl á pallinum. Tveir dagar með róló og sandkassa. Gaman hjá okkur. Lítur út fyrir að það verði meira gaman næstu daga; matarboð, menningarnótt, afmæli og svo sumó! Bráðum kemur vetrardagskráin svo það er eins gott að nýta tímann vel. Ég er farin að hlakka til að fara að vinna sem er auðvitað miklu betra en að finnast það kvíðvænlegt.

Mér sýnist 3. tönnin vera að brjótast fram hjá sjaka litla. Enda var hann óvenju stúrinn seinnipartinn. Tók "þykjustugrát" og allt! Kannski leiðist honum bara sama gamla dótið sitt, vantar meiri örvun? Hann var alveg heillaður í sandkassanum, bara að koma við sandinn og láta hann renna úr lófunum. Við verðum sko dugleg á róló, mömmunni finnst sko ekkert leiðinlegt að moka hehe!

13. ágúst 2006

Skrúðganga


Þá er allt orðið eins og vanalega aftur, Maggi kominn eftir vel heppnaða ferð. Í gær skelltum við okkur AUÐVITAÐ á gay pride enda gott veður og við höfum aldrei farið. Það var mjög gaman, æðislegt að sjá gönguna þó að tónlistin hafi verið allt allt of hátt stillt. Aumingja Jökull varð bara skelkaður og ég hélt fyrir eyrun. Ísak svaf nú bara í gegnum hávaðann en vaknaði í skrúðgöngunni enda hans fyrsta skrúðganga og ekki mátti hann missa af því. Hann varð líka að njóta þess að hafa báðar ömmurnar með sér og litli munnurinn var alveg í stút hann var svo hissa.

Enn gengur illa að losna við höfuðverk en það er e-n veginn bara orðið svo daglegt brauð að ég held að ég mundi bara hrökkva við ef ég væri ekki með höfuðverk. Ég er samt miklu duglegri að láta verkjalyfin vera og harka af mér! Hah ég læt sko ekki höfuðverkinn ráða yfir mér múahahahaha.

Jæja, sunnudagurinn bíður eftir að við erum eitthvað skemmtilegt. Set inn nokkrar myndir m.a. af gay pride!

10. ágúst 2006

Af grasamæðginum

Það gengur bara vel að vera bara tvö heima, eða náttúrulega þrjú með Skrámi. Maður finnur samt hvað munar um extra hendur þegar er verið að fara eitthvað með fullt af drasli, eða eins og núna þegar Ísak er þreyttur og pirraður og mamman þreytt og pirruð og vantar e-n til að "skiptast á við". En okkur leiðist sko alls ekki.

Ég er að fara yfirum á þessu "#$%&/(&%$# pípi á morgnanna! Á ég að fara og ath málið, ganga á nágrannana? Ég ligg alveg glaðvakandi yfir þessu. Annars erum við Ísak búin að "svindla" pínu og hann hefur fengið að sofna eftir að hann drekkur hjá mér á morgnanna... úps. Þá sefur hann ekki nema 1x yfir daginn og væntanlega þess vegna sem hann er pirrípirrí núna. Annars öskrar hann svo mikið núna að ég hef áhyggjur af nágrönnunum... kannski heldur fólk að honum líði illa eða eitthvað! En hann er bara svona glaður að hann öskrar og galar og gólar. Fyndið barn.

Ohh hvað ég hlakka til að komast í sturtu í kvöld! Aðaliðja mín þegar Ísak er sofnaður er að skoða H&M síðuna og setja fullt af fötum á óskalistann! Endaði á því um daginn að ég dró Hjalta og Jökul í H&M hérna og það læknaði kaupþörfina þann daginn. Ekkert þar að fá hnuss. ÉG SAKNA HENNES OG MAURITS GRENJ. En óskalistinn er nú ennþá til í tölvunni... og ég gæti beðið Önnu J að senda þetta.... hmf púkinn á öxlinni veit ekki hvernig hann á að vera.

Kannski læknar 6. kúkableia dagsins þetta....

7. ágúst 2006

Til hamingju við


Á þessum tíma fyrir tveimur árum vorum við að skemmta okkur í bestu og skemmtilegustu brúðkaupsveislu (að öðrum ólöstuðum) allra tíma! Fórum út að borða áðan á Við Tjörnina og svo auðvitað eftirréttur í Álfheimaísbúð nammi. Sykurbindindið aðeins að hvíla sig svona á hátíðarstundum.

Annars held ég, med tanke på síðasta blogg mitt, að það geti ekki verið hollt að vera svona dramatískur og búinn að drepa alla í bílslysi lon og don. Best að hætta því, búast frekar við hinu besta í stað hins versta. Ákveða að fólk hafi bara farið að kaupa sér ís eða rúnta Laugaveginn... Sem Maggi er einmitt að fara að gera. Ganga Laugarveginn altsvo, með Gunnari mági. Ég verð grasekkja í 4 daga en það ætti ekki að væsa um okkur Ísak. Hægt að gera svo margt skemmtilegt.

Við höldum að Ísak sé að myndast við að segja datt! Hann endurtekur alltaf það sama þegar hann missir eitthvað en það hljómar samt "ba!" með svona hissaröddu. Þetta segir hann reyndar líka á svipaðann hátt þegar hann sér Skrám... hmmm. Annars finnst honum skemmtilegast að gala og góla og öskrar stundum alveg svakalega sér til skemmtunar. Finnst svo gaman að gera hljóð. Hann er alveg að gera talmeinafræðinginn vitlausann með svona hósta/ræskingarhljóði sem hann myndar og heldur alveg lengi lengi. Ætli hann sé kannski að leika kráku?

Jæja, vakna snemma að keyra bræður í rútuna. Góða nótt í alla nótt.

2. ágúst 2006

Munaðarlaus

Ég vaknaði í nótt við rosalegan barnsgrát, eins og eitthvað skelfilegt væri að. Þetta virtist koma að utan og mjög nálægt. Ímyndunaraflið fór á flug og eins og ég sá það var þetta barn mjög veikt og mamman með það í fanginu að bíða eftir sjúkrabíl. Það var alveg eins og það gæti ekki andað! En svo hætti það bara, ætli þetta hafi ekki verið gaurinn í íbúðinni við hliðiná og bara borist svona vel um opna gluggana. En þetta var óþægilegt. Týpískt ég að búa til svona slæma sögu. Einu sinni þegar Ísak var bara ponsulítill og ég var að gefa honum um miðnætti uppí rúmi hrökk ég upp við að ég fattaði að það var allt hljótt í húsinu. Við vorum í Fiskó og Maggi hafði farið að sækja m & p í e-a veislu um kl. 23 og nú var kl. orðin hálf-eitt og þau ekki komin! Það kom ekki annað til greina en að þau hefðu öll látist í bílslysi, því ekki gat ég hafa misst af því þegar þau kæmu! En auðvitað var það svoleiðis, en ég bara trúði því ekki að ég hefði sofnað! Týpískt.

Ég gleymi heldur aldrei þegar m & p fóru í brúðkaup um kvöld, kannski um 18. Ég hef verið svona 14 eða 15 ára. Ég var auðvitað að passa strákana og tíminn leið og beið og allt í einu átta ég mig á að það er komið miðnætti og þau ekki komin. Til að gera langa sögu stutta þá komu þau ekki fyrr en um þrjú um nóttina! Þá var ég búin að gráta úr mér augun, enda orðin munaðarlaus fyrir löngu. Hrindi í ömmu Ernu e-n tíman um eitt og þá var hún bara á fótum að baka! Haha alltaf eitthvað að bauka hún amma á þessum tíma. Þetta var sko fyrir tíma gsm og ég veit að mamma er enn með samviskubit yfir þessu.

Ekkert nýtt af höfuðverkjum. Enn á hverjum degi en ég fékk fyrirbyggjandi á mánudaginn sem vonandi fer að virka.