31. júlí 2004

Abbabbabb...bara gabb!

Eftir viku verð ég gift kona! Um þetta leyti eftir viku verður partýið að byrja og fólk farið að dansa uppá borðum... nei kannski ekki svona snemma?
Það er svo skrýtið veður að við Maggi fórum bara í sund. Drógum mömmu og pabba með!! Það er sko frásögu færandi þar sem mamma fer nú barasta helst ekki í sund. Enda sullaði hún bara í pottunum. Fengum okkur svo ís á eftir (skrýtið hvað ég verð oft svöng eftir sund) og kíktum svo á kökustatífið hjá honum Hlö. Svo erum við bara á leið upp í Skálholt í kvöld að hlusta á tónleika. Það verður fínt að komast aðeins út úr bænum, sjá þúfur og kindur og svona.

Skrýtið með þennan franska ferðahóp. Er fólk virkilega að skemmta sér við að gabba björgunarsveitina? Er þetta eitthvað fyndið? Situr einhver heima og skellihlær yfir því að fólk trúi þessu og sé uppum fjöll og fyrnindi að leita? Eða er þetta satt og hvar í ósköpunum er þá þetta fólk? Ég bara skil þetta ekki. Skil heldur ekki hann Helga Fässmo sem grætur örlög sín í Svíþjóð. Sænskur prestur (hvítasunnu held ég) sem skipulagði morð á konu sinni og nágranna en lét barnfóstruna framkvæma það. Þetta var í vor og hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð. Hann sendi henni um 1000 sms og hún sendi honum álíka mörg en samt segist hann ekki hafa neitt með þetta að gera. Hann sagði henni að sms-in væru frá Guði! Guð er farinn að nýta sér alla nútíma tækni auðvitað, sms-ar bara svona ef hann vill ná sambandi við einhvern. Barnfóstran bara misskildi þetta svona hrapallega og hélt að hún ætti að drepa konuna hans! Hún er reyndar veik á geði en var tekin trúanleg í rétti. Allt hið versta mál og gott að vera ekki viðloðinn neitt svona. Skil bara ekki þegar fólk heldur að það komist bara upp með að myrða mann og annan og geta svo bara haldið áfram að lifa lífinu eins og ekkert hafi í skorist. Hvað hélt eiginlega hann Hákon eða hvað hann heitir sem myrti Sri? Skilettabaraekki!!


29. júlí 2004

Fyrrverandi konan

Minn tilvonandi hélt þrusu orgeltónleika í hádeginu í dag í Hallgrímskirkju. Þeir voru ógeðslega flottir og ekki laust við að maður væri stoltur! Gaman að kirkjan var næstum full og það stóð um þetta á forsíðu Fréttablaðsins og kom viðtal í útvarpinu í gær. Þar sagðist Maggi reyndar hafa lofað fyrrverandi konu sinni....nei TILVONANDI heitir það víst.... híhíhí! Góður þessi!

Mátaði kjólinn í dag í síðast sinn fyrir daginn. Konan leitaði að honum í örugglega 10-15 mín. áður en hún fann hann. Sagði mér að vera ekki að hafa áhyggjur þetta væri þarna einhversstaðar. Eftir 10 mín stundi hún upp að hún væri nú bara sjálf orðin stressuð! En auðvitað fannst kjóllinn og það þarf lítið að breyta eða bæta. Svo er þessu pakkað niður í ferðatösku (!) svo minn tilvonandi sjái örugglega ekki neitt. En þar sem við erum svo skrýtin þá er hann búinn að sjá kjólinn svo það skiptir engu máli.

Jóhanna Margrét hjálpaði mér að gera kort fyrir sætaskipanina í gærkvöldi. Það var sko ekki leiðinlegt. Reyndar tókst mér að brenna álpappír fastan við eina helluna en það er sko mömmu að kenna því HÚN SAGÐI að það væri allt í lagi að setja álpappír yfir! Það var sko barasta ekkert í lagi og kannski hellan bara ónýt? Hellan var sem sagt (senst, fyrir Jóku) notuð til að hita upp stimpilinn.... æ þarf ekkert að vera að útskýra það. Nú er bara að setjast við og skrifa nöfnin á þessa miða. Ekki nema 108 svo það tekur örugglega enga stund...
Best að skella sér bara í það!

26. júlí 2004

Jæja, búið að redda kökustatífi, nokkrum kökugerðarmeisturum, skreytigarnar eru að verða klárar, búið að redda dúkum, blómavösum, kampavínsglösum og já hvað er þá eftir?
Það er ekkert smá sem maður á yndislega fjölskyldu og vini sem vilja allt fyrir mann gera! Get bara varla þakkað þeim nóg og þið sem ég á eftir að "bögga"- bíðiði bara ég gef ykkur líka verkefni!! hahaha!

Maggi var steggjaður á laugardaginn var og fórum við og öll fjölskylda hans í "paintball". Það var voða gaman en djö.... vont að fá þessar kúlur í sig! Ég fékk eina í ennið sem skildi eftir ljóta kúlu sem er eins gott að verði farin fyrir STÓRA daginn! Hinir marblettirnir sjást ekkert svo það er í lagi! Það var ekkert smá súrrealískt að sjá alla í svona hermannabúning (sem var ekkert smá ógeðslegur, sveittur og klístraður eftir alla aðra) og með grímur fyrir andlitinu. Krístín Waage breyttist í stríðsvél og eina markmið hennar var að drepa sem flesta... við skemmtum okkur allavega mjög vel og tókum þessu mátulega hátíðlega. Flissuðum bara að stráknum sem var að kenna okkur á þetta þegar hann var með sem mesta stæla. Maggi var svo settur í kanínubúning undir lokin og allir fengu að skjóta á hann. Pínu ljótt fannst mér og mér fannst erfitt að miða á hann byssu! Bað fólk vinsamlegast að skjóta ekki fast!

Jamm og jæja, best að hringja nokkur símtöl.
Tilvonandi brúðurin

20. júlí 2004

Kraftaverk

Já þau gerast enn! Skórnir eru fundnir! Hvítu skórnir sem ég ætlaði að gifta mig í voru bara í e-m kassa niðrí bílskúr merktur "Medalíur Hjalti, skór Hrafnhildur". Það voru auðvitað miklu fleiri skór en medalíur í þessum kassa sem var troðið uppí efstu hillu og útí horn. Ég kenni mömmu um þetta allt saman, en fyrst þeir eru fundnir er ég ekkert að erfa þetta við hana. Nú er bara að fara að æfa sig að ganga í þeim! Æ æ æ...
 
Heimsóttum Laugarneskirku í gær og það var gott að sjá að hún stóð uppi þótt hún væri í sumarfríi, heimsóttum líka salinn og hann var í fínu formi. Skreytingarnefndin efldist um allan helming við að mæta viðskiptavini sínum og nú fer allt að fara á fullt í þeim efnum. Verst hvað þessi limegræni litur er út um allt! Það pirrar mig að vera eins og allir aðrir. Við nennum því ekkert og ætlum t.d. ekki að láta skrifa á glös eða serviettur, ekki að láta Bergþór Páls syngja "Ó Þú...",  Maggi er búinn að sjá mig í kjólnum og svona mætti lengi telja! Vinkonur mínar ónefndar ná ekki uppí hárið á sér af hneikslun yfir þessu öllu, sérstaklega að Maggi sé búinn að sjá mig í kjólnum. Hihihi mér finnst þær bara fyndnar. Hvaða máli skiptir það? Einhver hefð sem enginn veit afhverju er og er bara skrýtin. Líka að brúðhjónin sofi í sitthvoru lagi nóttina fyrir brúðkaup! Hvaða rugl er það? Reyndar höldum við í eina svona gamaldags og úrelta hefð og það er að pabbi ætlar að leiða mig inn gólfið. Mér finnst það notalegt og vil hafa það þannig en Svíunum finnst það voða skrýtið; eins og hann sé að gefa mig, sem er auðvitað merking hefðarinnar og merking orðsins brúðkaup. En mig langaði að láta pabba fylgja mér.
 
Ég er með munnangur! Verð að hætta að borða svona mikið af íslensku sælgæti... (þó ég haldi reyndar að angrið sé útaf hálsbólgunni...)
 
 

16. júlí 2004

Reykjavík í sólinni

Þetta er búinn að vera alldeilis sérdeilis fínn dagur í sólinni. Vantaði bara sundið svo hann væri fullkominn. Kolbrún Védís var mætt hérna strax uppúr átta í morgun og þá byrjaði bara prógrammið! Fyrst fórum við í barbie í Hjaltaherbergi, svo fórum við í apótekið (nema hún sagði alltaf bakaríið) og á leiðinni stoppuðum við á tveimur róluvöllum í meira en klukkutíma! Bjuggum til Voga og Gautaborgina og Kjalarnesið í sandkassanum og borðuðum ostakökur og súkkulaðikökur með sykri og kaffi og ég veit ekki hvað og hvað. Hún vildi endilega fara í stígvélum í þetta ferðalag og þurfti alltaf að vera að losa sandinn úr. Ég á engin stígvéli! "Nei, þau eru hjá köttnum þínum" -sagði sú stutta.
 
Svo keyptum við ís og borðuðum hann á grasinu hjá endurvinnslugámunum, voða kósý! Á leiðinni heim (þetta var sko ekkert smá langur göngutúr) rifjaði ég upp leikskólalögin en blessað barnið kunni ekkert að meta nema "Tívolí, tívolí, tívolí lí lí..." og ég átti bara annars að þegja! Hún ætlar sko í tívolí með mömmu sinni og hún þorir sko alveg í hringekjuna og Hrabbildur þér verður ekkert illt í maganum á morgun ef þú ferð! Híhíhí
 
Heima fengum við okkur svo gott í gogginn, hengdum upp þvottinn úti auðvitað og Kolbrún Védís vökvaði ÖLL blómin, mikið! Og líka pínu sjálfa sig og mig! Svo í allan dag var hún alltaf búin að gleyma einu blómi og þurfti að vökva meira. Ég man sjálf hvað var gaman að sulla með vatn þegar ég var lítil. Sérstaklega í sól og hita! Við vorum fljótlega farnar að striplast þarna í hitanum, barbiedúkkurnar komnar út og svo allar dúkkurnar líka. Kolbrún Védís þurfti aðeins að máta dúkkufötin og tróð sér í einhvern útigalla á svona 1 árs og sveimérþáallamínadaga hún gat rennt upp. Í þessu sat hún svo í örugglega hálftíma. Skálmarnar voru uppfyrir hné og ermarnar skárust inn í upphandleggina en þetta voru "náttfötin" hennar og hún varð að vera í þeim því það var að koma kvöld!!!
 
Ég held ég hafi tekið smá lit! Ég bara þoli ekki að það er ekki hægt að leggjast endilangur á svalirnar því mamma er svo mikið að rækta í pottum og kerjum og svo skyggir handriðið á hálfar svalirnar! En ég hef nú oftar en ekki brunnið í sólbaði á þessum svölum, svona þegar maður var að "læra" undir próf í vorsólinni!
 
Út að borða með gellum í kvöld. Best að fara að snyrta sig aðeins. Já, Berglind; ég keypti mér skóna!! Skammast mín bara ekkert fyrir það að herma eftir þér! Haha!! Talandi um skó þá eru skórnir sem ég ætla að gifta mig í algjörlega HORFNIR! Lýsi hér með eftir hvítum skóm með spennu! Hef ég lánað einhverjum þá???

15. júlí 2004

Laaaangt síðan síðast

Enda er maður kominn heim í Fiskakvíslina og þá er nú ekki tími fyrir tölvuna. Líka svona stationary sko, ekki svona flott eins og við eigum sem er hægt að bera með sér um alla íbúð. Hvað heitir það aftur á íslensku? Bärbar á sænsku.... vá maður! Ekki alveg kominn inn í íslenskuna aftur.

Skrýtið að vera komin heim.

8. júlí 2004

Heimferðardagur

Upp er runninn fimmtudagur, ákaflega skýr og fagur...

Við fórum út í eina af skerjagarðseyjunum í gær. Það var mjög notalegt en ekki svo hlýtt. Við gátum kúldrast þarna á milli nokkurra þúfna í tæpa tvo tíma en þá var kominn tími heimferð þar sem ég ætlaði að yfirgefa Magga og fara í grillpartý. Svíum finnst sú staðreynd að flestir Íslendingar eiga gasgrill mjög fyndin! Hér eru allir bara með sín kol og kvarta ekki. Maturinn var æðislegur og auðvitað félagsskapurinn líka.

Skrámur var í "aðlögun" allan tímann sem við vorum í burtu og hélt áfram að heilla þá gömlu uppúr skónum. Hann verður sko algjör prins þarna, örugglega orðinn 40 kíló þegar við komum aftur! Og ef hann kúkar á gólfið þá verða allir að lofa að þykjast ekkert kannast neitt við neitt! O.K.?

Erum eiginlega búin að pakka. Ég á bara eftir að fara aðeins í apótek og svo ætlum við að þurrka af og gera fínt svona ef ske kynni að vinkona Indru muni búa hérna í nokkra daga. Eða ef leigusalinn þarf að sýna íbúðina. Talandi um íbúðina þá brann 45 ára gamall maður inni í einni af íbúðunum í blokkinni á móti í fyrradag. Hræðilegt. Blöðin segja að ekki sé vitað um ástæðu brunans né hver maðurinn er. Sem betur fer breiddi eldurin ekki úr sér, en þetta er nú nógu hræðilegt samt.

Jæja, rassispassi vill leika, hann mjálmar og mjálmar og mænir á mig með stórum brúnum glirnum. Ég kveð og þakka áheyrnina, sjáumst fljótlega

6. júlí 2004

Undirbúningur

Skrámur fór í "aðlögun" í dag. Fór upp til Ingrid (pössunin) og eftir að við Maggi vorum búin að halda uppi kurteisishjali í um hálftíma fórum við bara og skildum köttinn eftir í klukkutíma. Það hafði gengið rosa vel sagði hún. Þau voru bara að kela allan tíman held ég!!! Hann fer aftur í heimsókn á morgun. Á morgun erum við Maggi líka búin að vera saman í 6 ár! SEX ÁR!!! Ótrúlegt en satt, tíminn hefur liðið svo hratt. Erum að spá í að fara eitthvað út úr húsi að því tilefni. Reyndar ætla ég að vera svo leiðinleg að fara að hitta stelpurnar og grilla um kvöldið....skamm skamm!

Ég er farin að plana hvað ég ætla að gera þegar við komum heim. Ætlum í "gjafalistaleiðangur" á föstudaginn (ég veit ég veit, pínu halló...) og svo ætla ég sko þvílíkt í sund um helgina. Hlakka mikið til enda ekki farið í almennilega sundlaug síðan í september held ég. Fór ég kannski eitthvað um jólin?

Tjolahopp

5. júlí 2004

Það fór þó aldrei svo að maður færi ekki niður í kafbát! Við nenntum ekki að hanga hérna heima í dag heldur skelltum okkur á hjólin og niður í bæ á Göteborgs Maritima Centrum, en það er safn sem samanstendur af x mörgum bátum, sem sagt fljótandi safn. Maður röltir á milli bátanna og þetta var bara dágóð skemmtun. Reyndar hef ég sjaldan fengið jafn lélegan guide; hann hafði nú ekki sterka rödd maðurinn en hann talaði alltaf uppí vindinn og byrjaði að tala löngu áður en allir í hópnum voru samankomnir. Þetta gerði hann trekk í trekk. Var örugglega að verða of seinn á stefnumót eða eitthvað.

Það tekur um hálftíma að hjóla niður í bæ, þannig að þetta var fín hreyfing. Maggi hjólar líka svo hratt að ég þarf að taka á til að halda í við hann. Þetta verður örugglega hreyfing vikunnar, en ég er orðin afskaplega léleg við að hreyfa mig eitthvað. Hef ekki stundað líkamsrækt síðan Jóna Björk var hérna og við fórum í Body Pump reglulega. Það var nú gaman, those were the days....ahhhhhh.

3 dagar í heimferð (eða 2 eftir því hvernig er talið).

Og að lokum; leið nokkuð yfir einhvern af ykkur lesendur góðir á Metallicatónleikunum?

4. júlí 2004

YEEEEEEEEEESSSSSSS!!!!!

Sko! Fór og dinglaði á öllum hurðum þar sem var sænskt eftirnafn (getur maður dinglað á hurðum?). Enginn svaraði. Svo seinna í dag sá ég þá gömlu útí blómabeði. Ég þaut út til að ná henni og hún tók voða vel í þetta. Þurfti heilmikið annað að tala líka; um blóm og ketti og dætur sínar og ég veit ekki hvað og hvað. Svo sagðist hún bara ætla að ræða þetta við dóttur sína því þær væru að fara út á land saman og hvort að dótturinni fyndist að Skrámur gæti komið með og hitt kött dótturinnar og svona. Svo leið smá tími þar til hún hringdi dyrabjöllunni (hljómar betur en að dingla á hurðum) og sagði því miður!. Við erum að fara að mála og setja veggfóður og bla bla bla og eitthvað. Ég varð ótrúlega leið eitthvað. Náttúrulega búin að sjá fyrir mér hvað Skrámur mundi hafa það notalegt þarna.

Þetta var hins vegar bara til að ergja mig aðeins því þegar við komum til baka úr ísgöngutúrnum okkar áðan var miði á hurðinni þar sem stóð að hún mundi geta þetta! Við upp og dingluðum og þar stóð hún tilbúin með myndaalbúm frá húsinu sínu í sveitinni og fór í gegnum allt albúmið með okkur og útskýrði hvar kettirnir mundu vera meðan væri verið að mála og þarna væri hún Stina og þetta væri Isabell og kýrnar og nágrannarnir og kirsuberjatrén og hér er ég..... Algjört krútt þessi kona. Þannig að Skrámur verður hjá henni hérna uppi á 5. hæðinni en fer svo í smá ferðalag í sveitina með henni í nokkra daga.

Held að aumingja Anna G hafi orðið smá leið. Hún var farin að hlakka til að fá okkur í heimsókn til Öland. Við ætluðum m.a.s. að gista og hún var búin að fá sér frí.... en nú get ég ekki verið að hafa áhyggjur af því! Nú er Skrámur kominn í pass, og við getum komið heim og hætt að hafa áhyggjur nema af brúðkaupsmálum. Og það eru miklu skemmtilegri áhyggjur en af íbúðum og kattarpössun.

Sjáumst á fimmtudaginn (eða ekki en allavega fljótlega),

Duga eða drepast

"Du kan inte alltid stanna i ditt eget hörn av skogen och vänta på att andra ska komma till dig du måste gå till dem ibland." : Bangsímon

Nei maður getur ekki alltaf verið í sínu eigin horni í skóginum og beðið eftir að aðrir komi til manns, maður verður stundum að fara til þeirra! Svo nú er ég farin að banka á allar hurðirnar hérna í húsinu og leita að gömlu konunni sem gæti mögulega kannski vonandi passað Skrámsa. Wich me luck!

3. júlí 2004

Ekkert að segja

Nú lítur út fyrir að Skrámur þurfi að fara alla leið á eyju fyrir utan austurströndina, Öland! Hún Anna G. sem átti Nanette er búin að vera eins og herforingi með höfuðstöðvar þar að reyna að hjálpa okkur. Held hún sé búin að hringja í hálfa Svíþjóð! Nú er sem sagt möguleiki að hann verði hjá krökkum sem vinna á skemmtistað pabba hennar og fari svo með einhverjum af þeim krökkum heim í byrjun ágúst þegar skemmtistaðurinn lokar! Þetta hljómar ekkert sérlega spennandi fyrir hann, en eini möguleikinn í dag. Anna ætlaði samt að halda áfram að reyna að finna eitthvað annað, átti enn tvö kort uppí erminni og ég á eftir að fara og banka á allar hurðir í blokkinni. Þvílíkt og Anna Sveins! Held það sé svei mér þá erfiðara að fá pössun fyrir dýr en börn! Þórdís er allavega búin að segja að við gætum fengið bílinn þeirra lánaðan ef við þurfum að keyra til Öland. Herregud, þvílík hringavitleysa.

Eitthvað voða óspennandi að vera hérna núna. Svo leiðinlegt veður og ekkert að gera þannig lagað. Ef ég ætti pening mundi ég vera á útsölunum en í staðin er bara að hanga í tölvunni eða lesa. Ég er búin að snúa sólarhringnum við og fer ekki að sofa fyrr en um 1 og vakna ekki fyrr en 11 á morgnanna. Alveg agalegt enda er ég með hausverk alla daga. Kannski smá stresshausverkur líka?

Mig langar að koma heim og fara að velja matarstell, skoða dúka og fara í sundlaugarnar! En það eru nú bara 5 dagar þangað til:)Hlakka ekkert smá til að sjá alla. Er samt stundum að spá í hvort ég hafi nokkuð frekar að gera þar en hér? Við eigum ekkert eftir að gera svo mikið finnst mér. Kannski er manni það bara ekki ljóst þar sem maður er enn í smá afneitun og fjarlægt frá þessu öllu saman. ÉG? Gifta mig? Er það? Sjitmar!!!

1. júlí 2004

Bangsímon

Eða Puh eins og ég er farin að kalla hann á máli heimamanna (enda heitir hann Pooh á frummmálinu en ég er alfarið á móti að það sé verið að þýða NÖFN eins og hinn alræmda Mikjál Jónsson sem Æskan þráaðist við að kynna fyrir manni).
Loksins er hann búinn að fá uppreysn æru hérna á síðunni hjá mér. Þeir sem þekkja mig ágætlega vita að ég lít á þennan heimspeking sem mikinn viskubrunn þar sem hægt er að sækja svör við nánast öllu! Ég get lesið sögurnar um Puh og vini hans endalaust við hvaða tækifæri sem er. Ég kannast nú reyndar ekkert við þennan Disneybangsa sem er í barnatímanum heldur er ég að tala um alvöru Puh, Bangsímoninn hans A.A. Milne, allsberan og brúnan. Ekki appelsínugulann í rauðri peysu!

Ég mun í framtíðinni reyna að birta tilvitnanir í þennan lífsspeking af og til. Reyndar hef ég ekki aðgang að frummálsritum, heldur á ég þetta bara á sænsku (og reyndar færeysku líka sem er frekar fyndið, þar kallast hann Palli Pumm). Hér eru orð dagsins:"Om man vänder sig om och får se en Mycket Farlig Heffaklump som stirrar på en, glömmer man ibland vad det var som man hade tänkt säga".
Í lauslegri þýðingu " Ef maður snýr sér við og sér Mjög Hættulegan Heffaklump sem starin á mann, þá gleymir maður stundum hvað það var sem maður ætlaði að segja".
Getur ekki verið sannara þó ég hefði sagt þetta sjálf.

Við erum að verða alveg ráðþrota með kattarpössun. Ég er búin að hringja í alla sem mér dettur í hug. Síðast í eina í stjórn Íslendingafélagsins hérna sem sendi út tölvupóst áðan með hjálparbeiðini-á alla Íslendinga í Gautaborg held ég bara! Ef ekkert gerist á morgun verðum við að fara að hringja á svona kattarhótel og athuga hvort er laust pláss. Náttúrlega allt of seint í rassinn gripið með þetta, og ég hef bara áhyggjur af þessu ég verð að segja það.

Í dag fór ég niður í geymslu og náði í eins og tvær kennslubækur í málþroska barna. Maður þarf nú aðeins að hressa uppá minnið fyrir vinnuna. Það er einhvern vegin svo langt síðan ég var í þessu verknámi og er bara búin að vinna með fullorðnum síðan þá. Þ.e.a.s. í tvö ár! En allt snýst þetta samt meira og minna um að ná sambandi við barnið og foreldra þess. Maður getur alltaf flett uppí bókunum.

Sjö dagar í heimferð.

Heim

Nú erum við búin að taka áhættu og bóka miða heim án þess að vera komin með kattarpössun. Komum fimmtudaginn 8. um kvöldið og förum aftur 20. ágúst.

SJÁUMST:)