28. maí 2004

Það er allt að gerast!

Ég vil byrja á að óska tveimur sérdeilis góðum frænkum til hamingju með stúdentinn í dag: TIL HAMINGJU HANNA RUT OG BERGLIND INGA!!! Þetta er einn af bestu dögum lífsins, svo njótið hans vel. Verst að geta ekki mætt í veisluna en það er nú bara kökusýkin í mér...nei, meira þráin eftir að sjá ættingjana kannski.

Naumast hvað hlutirnir gerast hratt stundum! Í morgun hrindi Daniella og sagði að hún mætti flytja. Sendir pappírana í dag og við ættum að fá þá á þriðjud. Reyndar á hún að byrja í vinnunni hér í Gautaborg 15.júní og ég sé ekki alveg að það gangi upp!!! Í fyrsta lagi erum við ennþá með gesti þá og aftur í fyrsta lagi þá tekur nokkrar vikur fyrir leigusalana að fara yfir pappírana. En hún sagði líka að leigusalinn hennar hefði áhyggjur af því að hvorugt okkar væri komið með vinnu...hmmmmmm

Talandi um vinnu þá var hrint í Magga í dag og hann boðaður í atvinnuviðtal!!!! Og auðvitað SAMA DAG og ég á að fara í mitt! Ótrúlegt alveg ótrúlegt! Égetsosvariðða. Þetta er kantorsstaða í bæ sem heitir Nacka og er eiginlega bara svona "Kópavogurinn" sem sagt inní Stokkhólmi nánast. Allir að krossleggja fingur og leggjast á bæn því nú erum við svooooooooooooooooooo nálægt að þetta takist.

Á morgun er tiltektardagur! Og svo partý um kvöldið. ÉG og Kristina erum annars búnar að eyða deginum í að æfa sporin við atriði bekkjarins í lokapartýinu. Sveittar með kústana og tuskurnar....híhíhí segi ekki meir. Hitti reyndar líka Söru og Pim og lék "tínd-bö" samfleytt í tvo tíma með Pim. Hún er agalega sæt og skemmtileg. Eru ekki annars öll börn sæt og skemmtileg þegar þau eru að verða eins árs??

Best að fara að borða. Góða helgi og heyrumst næst þegar ég hef tíma sem verður sennilega ekki á næstunni þegar allir gestirnir eru hérna og við erum að hafa það svo skemmtilegt.... Túdilú

27. maí 2004

Fyrsta, annað og...

þriðja? Nei, bara fyrsta atvinnuviðtalið mitt! Það mun eiga sér stað 8.júní og við plönum að fara bæði skötuhjúin. Ætli við leigjum ekki bara bíl og látuð Daða standa fyrir skemmtiatriðunum í aftursætinu. Það er ansi dýrt að taka lest núna, nánast ódýrara að fljúga! Ef Maggi fer sem sagt með er best að leigja bara bíl. Talaði við Fridu í dag og því miður verður hún ekki í bænum þá en við megum alveg vera í íbúðinni hennar. Aldeilis fínt maður.

Saumaði mér pils í dag. Eða réttara sagt, klippti sundur pils sem mamma saumaði á mig einu sinni sem ég kemst ekki í lengur og gerði mér bara stutt pils í staðin. Ég gerði þetta auðvitað ekki sjálf heldur undir dyggri handleiðslu Önnu Å. Enda á ég enga saumavél. Þetta gekk nú ekki áfallalaust og Anna gerði eiginlega það erfiðasta (rennilásinn sko). En nú á ég allavega fínt fínt pils fyrir útskriftarpartýið.

Bara 4 dagar í fyrstu gesti!!!! Veiii

26. maí 2004

Gömull vinna og ný vinna

Í dag var síðasti vinnudagurinn á dagdeild endurhæfingarsviðs Sahlgrenska Sjúkrahússins. Kristina, bekkjarsystir mín og vinnufélagi, var þarna líka að vinna sinn síðasta dag svo við mættum með franska súkkulaðiköku og konfekt! Við fengum svo pottablóm frá yfirmanninum henni GULLIS (hræðilegt nafn, gullig þýðir t.d. krúttlegur á sænsku) og allir óskuðu okkur góðs gengis og kröfðust brúðkaupsmyndar af mér. Það var pínu sorglegt að kveðja einn sjúklinginn sem við báðar höfum unnið mikið með og hefur unnið hjarta okkar beggja. Sniff sniff...

Í hádegi sagði Gullis mér svo að mjög skemmtilegur yfirlæknir frá Södertälje hefði hringt í hana út af meðmælum með mér!!! Víiiiiiiiiiii!!! Hann hringdi svo í mig áðan og við komumst að samkomulagi um að ég mundi koma í heimsókn í júní og ef ekkert mikið kemur uppá, eða ef mér líst ekkert á þetta þá, þá er nokkuð öruggt að hann vill ráða mig!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Auglýsingin kemur samt ekki út fyrr en 15.júní og síðasti umsóknarfrestur er 30.júní og þá höfðu þau mig í huga!! Hehehe, það hljómaði eins og hann vildi helst ráða mig strax, en allt verður auðvitað að fara eftir kúnstarinnar reglum. Hann sagði að það væri einn íslenskur barnalæknir hjá þeim; Ásta eitthvað... svo þau höfðu "reynslu af Íslendingum" hvað sem það átti að þýða. Nú er bara að bíða eftir dagsetningu fyrir viðtalið, ég stakk uppá 8.eða 9.júní og datt í hug að draga Daða bróður með mér svo hann fái að sjá Stokkhólm líka. Þá heimsækir hann Köben, Osló, Stokkhólm og auðvitað Gautaborg á bara nokkrum dögum. Sjáum til hvað setur.

Það var partý fyrir Magga og þá sem eru að útskrifast með honum í gærkvöldi. Langborð og sönghefti og blöðrur og snakk....allt á sínum stað. Þetta voru sko engar snapsvísur sem var verið að gaula heldur heilu kórverkin bara!!! Ég tók nú bara undir ef ég þekkti lagið, sumt var fólk bara að lesa beint af blaðinu! Vildi að ég gæti það. Ég var nú öll stífluð og alltaf að fara á klósettið að snýta mér. Í einni svoleiðis ferð hallaði ég mér óvart upp að neyðartakkanum og allt fór að pípa!! Híhíhí Fólk vissi ekki hvað það átti að halda, kannski að ég hafi dottið í klósettið! Ég fór svo heim um ellefu en Maggi kom ekki heim fyrr en um miðja nótt held ég! Ég fór svo snemma í morgun að ég náði ekki að spurja hann. Á stoppustöðinni í gærkvöldi hitt ég gamla ruglaða konu sem skildi ekkert í hvað var dimmt því hún hélt að það væri morgunn! Greyið konan.

Jæja, ætla að athuga hvað er langt til Södertälje.

24. maí 2004

Það er sá sjúkasti raunveruleikaþáttur í sjónvarpinu núna sem ég hef heyrt um! Gullfalleg kona með fullt af gæjum á sólaströnd, og þeir eiga að reyna að vinna hjarta hennar. Nema hvað. Þessi Miriam er karlmaður, kynskiptingur sem bara er búinn að gera aðgerð á brjóstunum. Og mennirnir vita ekki neitt!!! Hversu langt er hægt að ganga í yfirganginum. Ég hef nota bene bara séð auglýsinguna fyrir þetta, dettur ekki hug að gjóa augunum í átt að svona óþverra. Horfi bara á óþverran á Bráðavaktinni hehe.

Einn dagur eftir í vinnunni. Við Kristina ætlum að baka ógó góða sjúkkulaðiköku fyrir þann hátíðardag sem er á miðvikudaginn. Annað kvöld er svo "utsparksfest" fyrir Magga og þá sem eru að útskrifast úr deildinni hans. Partý partý.

Töluðum við Daniellu í Stokkhólmi áðan. Hún fær úrskurð frá dómstólunum á fimmtud. en ætlaði að senda pappírana á morgun. Hver veit, kannski leysist þetta þrátt fyrir allt....

22. maí 2004

Það er naumast að maður er duglegur! Ég reif niður heila bókahillu í dag og pakkaði öllu úr henni niður í bréfpoka og svo bárum við þetta niður í geymslu. Reyndar byrjaði ég daginn á að sortera föt sem ég ætla með í gám. Ég sé pínu eftir sumum buxum sem ég barasta kemst ekki í lengur en það er samt hið besta mál. Vonandi passa ég aldrei í svona lítil númer aftur.

Nú er allavega heilmikið pláss í litla herberginu fyrir gesti og gangandi. Gaman gaman.

Þetta eru nú ekki öll afrek dagsins þar sem ég bakaði líka rabbarbarapæ!Búin að eiga rabbarbara í frysti í næstum ár. Það lítur nú ekkert sérlega vel út, en er þeim mun betra á braggðið. Nammi namm.

21. maí 2004

Hreinsun

Byrjaði að hreinsa í pappírum í dag! Það er slatti sem maður er búinn að sanka að sér á 6 ára námsferli! Já, ég sagði 6 ára, og m.a.s. 6 1/2 því ég las þriðju önnina tvisvar. Sumu hendi ég alveg án þess að hugsa eins og lífeðlisfræðinni og Freudglósum, en annað er erfitt að láta frá sér. Maður gæti þurft að nota það þó ég hafi ekki kíkt á það í mörg ár... Þetta gefur sömu tilfinningar og á vorin í Kvennó þegar ég settist á gólfið og reif í sundur glósubækurnar og henti öllu sem ég bara gat. Það fannst mér gaman.

Það er búið að vera hálfkalt hérna, bara alveg irribirri en á nú að fara að rætast úr því. Þegar ég segi kalt þá meina ég 10-13 stiga hiti en það er líka búið að vera svo hvasst að það er engu lagi líkt. Ég vona bara að það verði sumarhiti þegar fólkið okkar kemur. Það er allt svo miklu skemmtilegra þá.

20. maí 2004

Meðvindur og mótvindur

Í fyrrakvöld hringdi talmeinafræðingur í mig frá Södertälje sem er rétt hjá Stokkhólmi. Hún kynnti sig sem Evu Sandström og sagði að það væri laus staða hjá þeim frá og með haustinu!!! Hún fékk nafnið mitt í gegnum bekkjarsystur mína sem er tengiliður fyrir vinnuveitendur í leit að starfsfólki. Svo þetta var allt hið besta mál og þetta er sem sagt afleysingarstaða í minnst eitt ár á barnadeildinni á sjúkrahúsinu. Auðvitað er ekki eins og það sé búið að ráða mig, en ég sendi inn umsókn í gær. Svo verður staðan að auglýsast svo allt sé nú eftir kúnstarinnar reglum. Eva hljómaði voða næs og starfið er nákvæmlega það sem ég óska mér. Spennandi...

Svo hringdi Anna Johansson, vinkona mín sem var með mér í bekk þegar ég var hérna fyrst. Hún býr í Stokkhólmi og kom að heimsækja mig einu sinni á Íslandi. Ég sagði henni voða spennt frá því að það hefði verið hringt í mig frá Södertälje. -Þú kannski fattaðir það ekki en það var systir mín- sagði hún þá!!!!! Dísúss hvað heimurinn er skrýtinn stundum. Eva vissi þetta auðvitað því það eru ekki margir sem heita Hrafnhildur í Svíþjóð en hún sagði ekki neitt, sem er mjög skiljanlegt. Ég fattaði ekki neitt þar sem ég vissi ekki eftirnafn Evu systir Önnu, þó ég vissi að hún væri talmeinafr. og ynni í S. Hún hafði svo hringt í Önnu og sagt henni frá þessu samtali og spurt hvernig ég væri....´híhíhí. Anna sagði að ég væri "rekordabel"!!! Ekki slæmt og vonandi leiðir þetta til einhvers.

Í dag hjólaði ég um borgina þvera og endilanga. Hvert sem ég fór var geðveikur mótvindur!!! Ég beygði til hægri=mótvindur. Ég beygði til vinstri=mótvindur.. ég SNÉRI VIÐ OG ÞAÐ VAR MÓTVINDUR! Hvað er eiginlega málið??? Ég þoli ekki mótvind.

Hey, ég þreif báða ísskápana áðan. Já, við erum með tvo (var þannig þegar við fluttum inn). Maður er svona að fara að undirbúa flutninga ef af því verður einhvern tíman. Ágætt að vera búinn að gera eitthvað því ekki ætla ég að skúra gólf meðan gestirnir okkar eru hérna. Nema ég fái alla í allsherjar hreingerningar?! Nei, bara grín.

Veit einhver hvað getur verið að hjá okkur ef hvorugt okkar kemst inn á MSN eða Hotmail úr þessari tölvu?? Það gengur alls staðar annars staðar. Svar óskast því ég sakna MSN...

Bless í bili.

18. maí 2004

Bilað

Ég kemst hvorki inn á MSN eða Hotmail! Fer rosalega í taugarnar á mér. Er orðin háð því að spjalla smá við ykkur.

Í dag sat ég fyrsta fyrirlesturinn í marga mánuði. Það var hræðilega erfitt. Kannski var svona erfitt að fókusera þegar maður hafði ekki tölvuskjá fyrir framan sig, en allavega sigu augnalokin neðar og neðar og ég átti í mestu vandræðum að halda athyglinni. Enda var þetta frekar óspennandi til að byrja með; bara verið að reikna upp fullt af lögum og reglugerðum. Gott ég fór ekki í lögfræði...hihihi Ætli hluti af þessari þreytu sé ekki frá því um helgina og svo er spennufallið að koma eftir allt stress síðustu mánuði.

Við erum búnar að fara á fund með handleiðurunum okkar eftir kynninguna til að ákveða hverju við eigum að breyta og svona. Þá komu þær með þá uppástungu að við mundum gefa þetta út! Alltsvo skrifa grein og birta í blaði sem heitir eitthvað Journal of Cleft Lip and Palate og er mest fyrir Skandinavíumarkaðinn og England held ég. Við erum voða upp með okkur en ekki alveg til í tuskið í bili. Maður er FREKAR þreyttur á þessu verkefni núna og það er ekki bara að segja það að breyta þessu í grein, skrifa hana á ensku og fá birta. Jafnvel þó maður sendi hana svo inn er nefninlega alls ekkert víst að hún verði birt.

17. maí 2004

Falun

Þá er maður kominn heim eftir vel heppnaða helgi í Dölunum. Við lögðum snemma af stað á föstud.morgun eða fyrir klukkan átta héðan. Það var búið að gera mikið grín að mér fyrir að þykja það ansi snemmt, en mér tókst að halda mér vakandi alla leiðina! Við skiptumst auðvitað á að keyra enda tók 7 tíma að komast á leiðarenda. Þar var sko vel tekið á móti okkur af mömmu Önnu sem var búin að kaupa litla nammipoka með gúmmí-dalahestu, Falunsápu og póstkort handa hverri okkar. Svo fór helgin í að skoða Falun og nánasta umhverfi. Meðal annars auðvitað hina frægu Falugruvan, eða námu þar sem unninn var kopar strax á miðöldum. Maður fer niður í jörðina u.þ.b. 70m með gulan hjálp og regnskykkju og svo er bara að passa sig að fá ekki innilokunarkennd! Guidinn var ógeðslega fyndinn og skemmtilegur og sagði frá á mjög lifandi hátt og spurði gjarnan spurninga. Þegar ég strandaði á e-i spurningu um sænskann prins ljóstruðu vinkonur mínar upp að ég væri Íslendingur (þurfa nú alltaf að koma því að allasstaðar, mætti halda að þeim þætti það eitthvað merkilegt) og þá fór nú maðurinn fyrst í gang. Hann hafði sko aldrei hitt betra fólk en Íslendinga og Ísland er fallegast í heimi og bla bla bla og hann var sko í Villingaholti og bjó hjá þessum og hinum og þau voru alkóhólistar... aumingja fólkið í hópnum hafði náttúrulega engan áhuga á þessu og stundi og tvísteig. En hann sleppti okkur á endanum og gátum við hlegið vel og lengi að þessu! Svo heimsóttum við Carl Larsson og hans frú Karin og börnin þeirra sjö! Eða þannig. Hann var frægur málari og það er skylda að heimsækja húsið sem hann bjó í ef maður er í Dölunum. Það er mjög fallegt þar í kring og gaman að skoða öll húsgögin og málverkin. Hann málaði t.d. mynd af konunni sinni á eina hurðina með einhverri sérstakri tækni sem gerir að hvar sem maður stendur í herberginu er eins og hún sé að horfa á mann! Kúl. Þetta er hún:

Þeir sem hafa verið í Fiskó hafa kannski tekið eftir að mamma og pabbi eiga fullt af myndum eftir hann upp um alla veggi. Hann málaði mikið börnin sín og húsið og það er gaman að vera svona "inní" málerkunum hans.

Aðalmálið var auðvitað Júróvisíon!!! Anna var með spurningakeppni til að hita okkur upp um ártöl og hver vann hvar og svona og svo sátum við með tacos og rauðvín og gáfum stig fyrir föt, lag, heildarmynd og arrrrrrrrrrrg get ekki munað íslenskt orð fyrir "framträdande"!!!!!! Maður er orðinn illa skemmdur. Ég var nokkuð sátt við úrslitin. Hafði bara heyrt Jónsa einu sinni áður en fannst honum ganga vel. Lagið er bara ekkert spes þannig. Svíar voru ósáttir við að Lena Ph var ekki alveg í formi...hún var allavega úr fötunum... Svo ég tjái mig nú meira um þetta þar sem Júróvisíón er eitt af því besta sem ég veit, þá skil ég ekki af hverju Belgía fékk svona fá stig og skil ekki hvað Þýskaland var að fá stig fyrir! En Úkraína átti skilið að vinna, nema ég hef ekki getað komið laginu fyrir mig síðan! Það er ekki alveg hægt að raula það svona einn og fyrir sjálfan sig. En ég hélt með Macedóníu og Belgíu. Og þar með líkur þessum pistli.

Í dag gagnrýndum við lokaverkefni Lenu og Linu. Það gekk vel og ekkert smá gott að þetta er búið. Nú er bara eftir að laga aðeins okkar verkefni, senda aftur til prófdómara og svo SLUT!!!!!! Á morgun og hinn er hins vegar FYRIRLESTUR í lögfræði og siðfræði (kjánalegt að fá það svona seint) og það verður æðislegt að heyra eitthvað nýtt, gera eitthvað annað en hugsa um lokaverkefnið!!! Hef ekki setið á alvöru fyrirlestri síðan fyrir jól!

Ekkert nýtt með vinnu eða íbúð. Jú, ég fékk ekki vinnuna við leikskólann fyrir börn með seinkaðan málþroska og ekki heldur þessa hjá einkareknu talm.fr. Of margir reyndir sem sóttu um. En ég kom vel til greina í aðra stöðuna, bara að maður verður að hafa unnið í 5 ár til að fá að vinna prívat. Ég er svo þreytt núna eftir þessa törn sem er búin að vera að ég bara get ekki rekist í að leita að vinnu og íbúð í nokkra daga. Ætla að reyna að láta það liggja undir ís eða gá hvort minn betri helmingur hefur meiri orku.

12. maí 2004

Lokið!

Í dag kynntum við verkefnið okkar. 12. maí kom sem sagt, dagurinn sem maður var búinn að stefna að síðan í haust! Ótrúlegt, en satt og nú erum við bara búnar. Við vorum báðar frekar stressaðar í morgun og áttum ekki að byrja fyrr en eitt, sem gerði það að verkum að maður hafði nógan tíma til að stressa sig. Klukkan eitt var salurinn troðfullur af fólki og það þurfti að sitja meðfram veggjunum það var svo mikið af fólki!! Það segir nú ekki allan sannleikan því salurinn var frekar lítill. En það var gaman að fólki þótti þetta áhugavert. Svo byrjuðum við og kynningin gekk mjög vel. Ég var eins og allaf mjög meðvituð um hvernig ég talaði og hreiminn en ég bögglaði þessu áfallalaust út úr mér. "Það var létt stemnig, fólk brosti og svona". Maggi sat þarna og það var gott að vita af því. Eftir að maður er búinn að kynna fá gagnrýnendur orðið. Þær voru ekkert smá smámunasamar og fóru alveg í punkta og kommur liggur við. Frekar leiðinleg opposition ef ég er hreinskilin. Svo sögðu leiðbeinendurnir að það hefði verið afar ánægjulegt að vinna með okkur (hvað annað?) og við hefðum verið sjálfstæðar bla bla bla. Síðan var orðið laust og við fengum nokkrar spurningar sem var mjög áhugavert. Síðast tók prófdómarinn orðið og sem betur fer var það ekkert alvarlegt, bara nokkrir hlutir eins og að við hefðum ekki alltaf verið samkvæmar sjálfum okkur í skrifunum og svo fannst mér nú pínu fyndið að henni fannst lýsing okkar á "material og metod" algjört kaos, en málið var að við höfðum haft allt aðra röð á hlutunum fyrst en leiðbeinandi okkar lét okkur breyta því! Sem sagt ekki okkur að kenna...

Eftir allt saman var ég auðvitað komin með mígreni en við Maggi fórum samt á kaffihús og héldum uppá daginn. Nú er bara eftir að breyta því sem við viljum/þurfum og svo er náminu lokið. HÚRRA!!!

Þegar ég kom heim sá ég að það hafði verið hringt frá språkförskolan sem ég sótti um á! Voða spennó og ég hrindi auðvitað strax en þá voru allir farnir svo það verður að bíða til morguns. Svo þegar ég opnaði mailinn minn hafði ég fengið svar frá einkareknu talm.fr.stofunni sem ég sótti um á fyrir nokkru. Hún skrifar að því miður hafi hún ekki vitað að maður verður að hafa unnið í 5 ár ef maður vill vinna privat, en ég hafi komið mjög vel til greina í stöðuna og hún ætli að athuga hvort það sé hægt að fara í kringum þessar reglur!!! Þannig að hún lætur kannski heyra frá sér aftur! Svona gerist stundum allt á einum og sama deginum. Það væri nú best ef Daniella mundi hringja og segja að það væri engin vandamál með íbúðarskiptin og allt væri í gúddí. Hva! Það er ekkert að því að láta sig dreyma eins og amma Erna sagði alltaf.

Sá Jónsa (ekki frænda) í TV áðan, kom bara vel fyrir. Það virðist vera töluvert gert til að efla frændskapinn milli Noruðurlandanna. Nú er ég allsvo farin að tala um söngvakeppnina... fylgjast með! Nú er allavega undankeppnin að byrja svo ég verð að hætta. Spurning um að missa ekki af neinu sko.

Tjolahopp og til hamingju með daginn ég!!! Híhíhí

10. maí 2004

Lofa skal dag að kveldi

Hef ég sagt þetta áður? Þetta er allavega aldrei of oft sagt, enda fyrirtaks orðatiltæki (málsháttur?). Jahérna, ég er svo þreytt á öllu núna að ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta. Í morgun kom i ljós að það verkefni sem við Anna eigum að gagnrýna verður frestað. Maður verður að gagnrýna eitt verkefni, annars fær maður ekki skýrteinið. Það voru tvær lausnir; annað hvort að gagnrýna í haust og fá þá ekki skýrteinið fyrr en þá, eða gagnrýna EFTIR VIKU, á mánudaginn. Það kemur ekki til greina fyrir mig að bíða þar til í haust svo við völdum seinni kostinn. Það þýddi að við kynnum verkefnið okkar á miðvikudaginn og höfum svo bara þar til á mánudaginn að undirbúa gagnrýnina. OG VIÐ SEM ÆTLUM TIL FALUN!!!! Fyrst sögðumst við ekki geta farið. Það er ömurlegt, svo við sögðumst bara víst fara og vera duglegar á fimmtudaginn. Svo reiknuðum við aftur í huganum hvað við höfum lítinn tíma og hættum aftur við. Svo tókum við á okkur rögg og ákváðum að fara! Við verðum bara að vinna strax eftir kynninguna, sleppa partýinu á fimmtudaginn og taka svo nokkra tíma í Falun... púff!!!

Ég er allavega nokkuð tilbúin fyrir kynninguna, og er hálfnuð að lesa í gegnum verkefni Linu og Lenu. Það sem ekki bætir úr skák er að verkefnið þeirra er skrifað á ensku. Það vildi enginn gagnrýna það vegna þessa og nú lendir það á okkur allt út af Sofiu sem ekki getur verið tilbúin með sitt tímanlega. Grrrrrrrrrrrr!!

Hey! Það er Dr.Phil í sjónvarpinu og fólk með fimmbura!!! Náttúrulega getnir (ekki "nottla" eins og villingarnir skrifa heldur náttúrulega as in ekki glasafrjóvgun). Hvað segirðu um það Anna Dögg?;)

Svíar töpuðu úrslitaleiknum í íshokkí í gær! Silfur annað árið í röð. Þetta veit ég, enda ekki annað hægt. Það sem er allsráðandi í fréttum hér er hitinn sem nú reyndar fer minnkandi, Knutby-morðið (barnfóstra sem myrti konu prests og reyndi að myrða nágrannann, því presturinn vildi lifa með henni og lét hana gera þetta), og svo auðvitað Írak...

Jæja, ekki þýðir að láta hendur fallast eða fá endagarnatitring, bara halda áfram. Tjolahej!

9. maí 2004

Blíða og blóm

Eyddum deginum úti á grasi í sólskininu með blöð og bækur. Ég varð fyrir smá vonbrigðum með afraksturinn, sést varla litamunur nema rétt í kinnunum. En eins og Maggi segir, það koma aðrir sólardagar. Maggi var svo að spila undir á tónleikum hjá íslenska barnakórnum og ég skellti mér enda von á kökum á eftir. Það brást ekki og var þetta eins og besta íslenska barnaafmæli með nokkrum ólíkum tegundum af súkkulaðikökum, hinni sívinsælu peruköku og svo ÖMMUKLEINUM! Tónleikarnir tóku varla hálftíma og voru voða krúttlegir. Þetta eru ekki nema um 8 stelpur og sumar svo litlar að þær voru bara að klóra sér og horfa út í loftið. Allir foreldrar voru auðvitað með myndavélarnar á lofti og videovélarna. Prestur íslendinga var þarna og heilsaði með kurt og pí. Hann býr víst bara hérna í húsinu við hliðina á okkur! Yndælis maður. Þarna var líka fólk sem sagði okkur að setja inn auglýsingu á síðu íslendingafélagsins um íbúð. Ætli við endum ekki á því.
Í gær eyddum við mestum hluta dagsins í að skoða hringa. Já, giftingarhringa. Lentum í því að þurfa nánast að útskýra að við vildum tvo eins hringa, því hérna er þetta þannig að fólk trúlofar sig með eins hringa og svo fær konan nýjan fyrir brúðkaupið. Við erum ekki búin að ákveða neitt en hvort um sig fallin fyrir svipuðum týpum, bara smáatriði sem munar á þeim. Við leysum það nú án slagsmála eins og við erum vön.

Ég er að vonast til að heyra frá leikskólanum sem ég talaði við varðandi vinnu núna í vikunni og bóka viðtal. Vona bara að þær hafi ekki gleymt mér, en umsóknarfresturinn er allavega útrunninn.

Hvernig er aftur þarna lagið: "blágresið blíða...." Datt það í hug þegar ég sá blágresi í Botaniska trjágarðinum áðan.

7. maí 2004

Það mætti halda...

- að vorið væri á leiðinni til Íslands því það er svo hvasst að ég held að öll blómin hljóti að vera á leið til ykkar!
- að sumarið væri komið! 23°C núna kl. 18! :)
- að maðurinn í næsta húsi sé geðveikur, kallandi konuna sína hóru úti á miðjum velli! Oj barasta
- að enginn lesi þetta því ég fæ svo sjaldan komment ;) (smá vísbending sko).

...og svo framvegis (finn ekki uppá neinu fleiru en fannst þetta svo sniðugur titill! Svo bara er ég alveg tóm í hausnum, sennilega sólin ÞVÍ ÉG VAR Í SÓLBAÐI Í DAG HA HA).

Anette sem er búinn að vera leiðbeinandi okkar Önnu var prófdómari í dag hjá Linu. Hún var nú ansi hörð og ég er ekkert smá fegin að við höfðum hana sem leiðbeinenda og ekki prófdómara. Hún er alveg svakalega smámunasöm og við höfum alltaf fengið verkefnið okkar útkrotað til baka. Svona týpa sem veigrar sér ekki við að finna að kommu- og punktavillum, eða setja út á orðalag og svona. Við fáum Ewu gömlu, eða Palmen eins og hún kallast, sem prófdómara. Kona sem er komin á eftirlaun síðan í mars, og er búin að vera viðloðin stofnuna síðan kúrs I byrjaði (ég er í kúrs XIII, og það var tekið inn 2.hvert ár þar til í fyrra svo...). Hún er alveg yndisleg og var mikil stoð þegar ég var að hugsa um að hætta eða taka pásu. Hún sagði mér að "maður þarf ekkert að verða talmeinafræðingur. En það er rosalega skemmtilegt!". Nákvæmlega það sem ég þurfti að heyra þá.

Við erum enn í sjokki út af íbúðarmálunum og hálf ráðvillt. Ætli við bíðum ekki aðeins og sjáum hvort Daniella lætur heyra í sér. Hún ætlaði að tala við lögfræðinginn sinn og ath. hvort hún mætti senda pappírana. Púff...

Ble ble

6. maí 2004

Skjótt skipast veður í lofti

Þó ekki í bókstaflegri merkingu því það er 21°C úti,en aftur á móti í lífi okkar hjónaleysanna. Þeir sem hafa lesið bloggið hans Magga vita ástæðuna. Jú, að Daniella fær kannski ekki að flytja hingað því hún er í deilum við fyrrverandi manninn sinn því hann vill ekki að hún flytji með börnin. Allt í biðstöðu og veseni. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að bregðast við, ég er bara næ þessu ekki! Eigum við þá að byrja uppá nýtt að leita, eða bíða eftir að hún fái úrskurð í málinu eða hvað? Ég get bara ekki einu sinni hugsað um þetta núna. Fer bara út í blíðuna að lesa bók...

5. maí 2004

Stelpur!

Í dag var ég aftur svona lengi í vinnunni; frá 8-18! Orðin hálf blind eins og vanalega af hungri og vosbúð. Reyndar borðaði ég hádegismat úti í dag því það er svo gott veður. Klukkan er hálf níu að kvöldi og það er 18°C, yndislegt. Samt er búið að vera skýjað í allan dag. Þið eigið mína fyllstu samúð þarna á landi ísa.

Ég er alveg að missa mig yfir þessu ferðalagi okkar vinkvennanna til Falun e. tvær vikur. Það er sem sagt Anna, Anna og ég sem ætlum en svo var ég að segja Kristinu frá þessu (þið þurfið ekkert að vita hvaða fólk þetta er, bara bekkjarsystur) og datt út úr mér að auðvitað ætti hún að koma með! Ekkert sjálfsagðara, og Anna var ekki þarna svo hún varð pínu vandræðaleg en vildi auðvitað endilega koma með. Þetta var nú kannski ekki mitt mál að bjóða henni með þar sem Anna er svona "aðalmanneskjan" í ferðalagsskipulagningunni. Allavega; Anna hafði ætlað að bjóða Jenny með ef við hinar mundum samþykkja það og nú var það allt í einu vandamál þar sem við ætluðum að keyra á litlum Yaris og 5 geta ekki setið í svoleiðis bíl í 6 tíma! En þar sem ég var nú búin að bjóða Kristinu varð auðvitað að bjóða Jenny líka. Við vonuðumst allar til að hún mundi ekki vilja eða geta því hún er pínu erfið. En hún varð hyperglöð og auðvitað vildi hún koma með. Suck!!! Þetta er svo týpískt stelpur að það hálfa væri nóg og ég ÞOLI ÞAÐ EKKI! Hvað er eiginlega vandamálið??? Nú er allavega Kristina hætt við til að gera pláss í Yarisnum fyrir Jenny sem enginn vill eiginlega að komi með. Ég verð gráhærð! Anna sagði í gær að við ættum kannski bara að segja Jenny að við mundum bara fara þrjár eins og ætlunin var frá byrjun og bjóða svo Kristinu í laumi......... sko mundu strákar einhverntíman standa í svona? Grrrrrrrrrrrrr......

Daniella í Stokkhólmi er ekki enn búin að senda pappírana sína og svarar ekki tölvupósti! Manni stendur nú ekki alveg á sama, og Maggi ætlar að hringja í kvöld. Höldum að það sé kannski betra því við erum svo kammó hvor við aðra og að það setji hana kannski í gang ef Maggi hringir og er ákveðinn.

Er eitthvað yndislegra en kirsuberjatré í blóma?
.
Talaði við Torfa frænda um daginn og við vorum alveg sammála að alltaf á vorin langar mann svo að festa á filmu hvað allt er fallegt og yndislegt og svo safnast upp lélegar myndir af vorblómanum...ekkert á við raunveruleikann. Svona bytheway þá hjálpaði Torfi okkur vel með enskuna í ritgerðinni okkar og skal hann hafa þökk fyrir. Ekki amalegt að geta leitað til frændgarðsins þegar þannig stendur á.

Sló mig í dag að eftir nokkrar vikur er lífi mínu sem nemi lokið! Aldrei meir frídagar í miðri viku, hætta um hádegi, próflestur í sólskini og ritgerðarskrif! Býst nú reyndar fastlega við að maður eigi eftir að ná sér í aukamenntun, en ekki í sama formi og núna. Herregud! Nú er bara vinna vinna vinna það sem eftir er ævinnar. Fangi í 8-16 forminu....

Nei, nú er best að hætta þessum skrifum og fara að lesa eða glápa á TV.

4. maí 2004

Trúi því varla...

en við erum búnar að skila ritgerðinni!!! Auðvitað er sagan þar með ekki öll, við eigum eftir að fá athugasemdir og leiðréttingar frá prófdómara, leiðbeinendum og andmælendum (Maggi segir að það sé þýðingin á "opponent" = tvær bekkjarsystur sem fara yfir og gagnrýna þegar við verjum ritgerðina). Það er sem sagt á miðv.daginn eftir viku. Þangað til þá þurfum við að undirbúa kynninguna, gera powerpoint og svoleiðis. En JAHÉRNAHÉR, við erum barasta búnar að skila!!! Og við þurftum ekki að slást, fá panik, tölvan klikkaði ekki svo þetta er alveg makalaust.

Hef annars ekkert að segja, því þetta er aðalmálið. Lifið heil þar til næst!

2. maí 2004

Stjörnuhúsin

Fyrst ég kann núna að setja inn myndir ætla ég að setja inn eina af hverfinu okkar, eða þessum "frábæru" Stjörnuhúsum sem við búum í.


Þetta er nú frekar villandi svona. Það er eins og húsin séu svooooo hvít og fín, en í raun og veru eru þau orðin gulgrá eða meira svona grábrún! Þegar ég flutti hingað fyrst var frekar erfitt á stundum að finna húsið okkar því þetta er svo mikill hrærigrautur. En úr lofti séð er þetta kannski eitthvað munstur. Ég held að húsið okkar sjáist ekki, en það ætti að vera þarna efst fyrir miðju einhvers staðar... ekki alveg gott að segja. Það er allavega bara hálft!

Mjög viðburðarlítil helgi. Ekkert hægt að fara í sólbað. Fór bara í smá göngutúr í gær og keypti ís og settist í grasið. Það var voða notalegt, en ekki sólbaðsveður. Ég sem var með svo stór plön um sólbruna og flugnabit. Það verður bara að bíða.

2 dagar í skil. Allt tekur enda, sem betur fer.

1. maí 2004

Og...

Daði er sem sagt búinn að taka upp hætti mína eins og góðum bróðir sæmir, og er farinn að blogga. Nú er komið að þér Hjalti!!! Daði er í krækjunum hér til hliðar.

Er ekki allt í heilu þarna hjá hermönnunum í Írak? Hljóta að vera orðin illa skaðaðir.

Mynd

Daði var að kenna mér að setja mynd. Það var ekki lítið mál að reyna að finna uppá einhverju til að setja mynd af! Og þetta datt mér í hug: