föstudagur, ágúst 14, 2020

Hlaup

 Ég er búinn að vera frekar latur að hlaupa. Sumarfríið kom og fór með öllum sinum bjór. Ég gat þannig ekki annað en sagt takk þegar mér var boðið í hádegishlaup í dag. Og byrjað á 10 km. Ég skrapp síðan í sund með Krk, allt í C19 sátt og samlyndi með 2 metra á milli. Fínasta veður.

fimmtudagur, október 11, 2007

Franskbrauð

Ég bakaði franskbrauð í gær, skv. forskrift Nönnu Rögnvaldsdóttur. Þetta heppnaðist bara ansi vel þó að ég hafi aðeins klúðrað gerinu þá reddaðist þetta á lokum, en ég þurfti að hnoða helmingnum af því inn í deigið eftirá. Brauðið er ekki franskbrauð eins og maður man eftir sjálfur eða eins og hvítt brauð. Þetta er í raun ekki eins og neitt bakarísbrauð sem ég hef séð - en það bragðast bara fjandi vel og kostar sama sem ekki neitt...

Svefn og uppeldi

Tvíburagrúppan okkar kom saman í dag í fyrsta skipti síðan á hinu upphaflega tvíburanámskeiði. Tilgangurinn var tvíþættur; hittast og spjalla og síðan að fá til okkar svefn-og uppeldisráðgjafa með fyrirlestur. Hvoru tveggja heppnaðist mjög vel. Við Kristjana eigum reyndar enn það ung börn að þetta verður að geymast í minni í ca. 2 mánuði í viðbót.

þriðjudagur, október 09, 2007

Bílar

Ég er að vinna í því að útvega nýjan bíl fyrir stórfjölskylduna. Ég er heitur fyrir Hyundai starex. Nú er ég bara að bíða eftir sölumanninum - bíllinn var ekki kominn í hlað síðast þegar ég talaði við hann.

Annars lánaði bró' mér hjólastól í gær. Ekki samt svona hjólastól fyrir lamaða heldur stól á hjólið mitt svo ég geti nú hjólað með drenginn í leikskólann. Bró' lánaði mér líka hjálm þannig að drengurinn ætti að vera öruggur. Ég á svo hjálm líka eins og mig minnir að ég hafi einhvern tíman montað mig af hér. Að hjóla er umhverfisvænt, góð líkamsrækt (ca. 25-30km á dag) og sparar okkur líka pening. Hins vegar þurfum við að eiga bíl. Spurningin er samt alltaf með bíla hvort hægt sé að takmarka notkun þeirra.

Ég er búinn að takmarka notkun bíla í vetur enda hjólað eins og vitlaus maður í vinnuna síðan í maí. Ég ætti kannski að skrifa um það 15. október.

sunnudagur, september 30, 2007

Herbergisfélaginn enn og aftur...

Þetta er komið út fyrir allan þjófabálk. Í morgunn vaknaði herbergisfélaginn 10 mínútur í sex! Ég minni á að í gær vaknaði hann klukkan sex. Ef þetta heldur áfram svona þá vaknar hann klukkan 5 eftir 5 daga og þannig koll af kolli þangað til hann sofnar barasta ekki.

Hann heimtaði auðvitað að horfa á Lilla. Og þegar hann horfir á Lilla þá þýðir það að ég þarf að vera hjá honum. Ég get ekkert farið inn að sofa aftur sko - þannig að ég plantaði mér bara á gólfið og náði smá kríu í viðbót (kría eins og í svefn ekki fugl, fyrir bókstafsmennina).

Þegar ég vaknaði aftur náði ég í fartölvuna og hugsaði mér gott til glóðarinnar að lesa aðeins í blaði sannleikans meðan herbergisfélaginn horfði á barnatímann. Nei, þá er hann svona mikill tölvuáhugamaður. Þá sérstaklega liðlegur í að bleyta tölvuna.

laugardagur, september 29, 2007

T2

Gylfi Þór og Regína dafna vel og komu mjög vel útúr mælingum í gær.

Þau sofa mikið og drekka mikið. Á kvöldin fá þau að vera frammi með foreldrum sínum fyrir framan sjónvarpið. Það var ansi kostulegt að sjá börnin liggja svona eins og hráviði um alla stofu:-) Ja eða þannig (fyrir þá sem taka öllu bókstaflega þá láu þau ekki eins og hráviði um alla stofu.).

Lilli

Herbergisfélaginn vaknaði klukkan sex í morgunn og heimtaði að fara að horfa á Lilla. Lilli er greinilega aðalmaðurinn í lífinu hans því hann þreytist ekki á því að horfa á Brúðubílinn. Við eigum Brúðubílinn númer 1 en erum búin að vera að leita að númer 2 útum allt. Þetta er ófáanlegt greinilega. Reyndar á Kringlusafn borgarinnar eitt eintak og erum við með það í láni núna - þannig að það er smá-fjölbreytni hér í augnablikinu.

Annars er herbergisfélaginn búinn að vera í afar erfiðu skapi í morgunn - hann róaðist reyndar við það að sjá Lilla.

föstudagur, september 28, 2007

...í orlofi

Ég er alger húsfreyr þessa daganna og er bara í því að þvo þvott og baka og svoleiðis. Mér finnst þetta ansi gaman bara. Í dag bakaði ég td rúnnstykki.

laugardagur, september 22, 2007

Tvíburarnir eru fæddir!

Og svona gerðist það:

Að hádegi þann 19. september fórum við Kristjana í viðtal og skoðun hjá fæðingarlækni til að úrskurða hvort gangsetja þyrfti okkur og athuga stöðuna á börnunum. Þetta leit allt vel út og tvíburi A í höfuðstöðu. Það var ákveðið að við kæmum í gangsetningu mánudaginn 24. september – gefið að ekkert gerðist áður. Læknirinn ýtti síðan aðeins við belgnum að kveðjuskyni.

Strax á leiðinni út var Kristjana byrjuð að finna að þetta væri á leiðinni. Ég keyrði hana heim en var svo í viðbragðsstöðu í vinnunni. Um fjögurleytið sendi hún mér boð á MSNinu að hún vildi að ég færi að koma heim. Ég keypti aðeins í matinn á leiðinni – en það var svo sem óþarfi því að við fórum nánast strax. Mamma kom að passa Kristjón en Kristjana hafði verið svo forsjál að koma Guðrúnu Rósu til mömmu sinnar.

Þegar á spítalann var komið voru samdrættirnir ekki alveg eins harðir og þeir höfðu verið en voru til staðar engu að síður. Þetta gekk síðan bara svona og svona og Kristjana fékk mænudeyfingu laust fyrir klukkan tíu. Það var alveg kapituli útaf fyrir sig.

Uppúr tíu var síðan rembingurinn að byrja fyrir alvöru. En ekkert gekk – sem við kenndum mænudeyfingunni um. Sama hvað Kristjana rembdist þá kom bara abarnið ekki – þó að augljóst væri að kollurinn var rétt fyrir innan. Á endanum eða klukkan tuttuguogfimm mínútur yfir ellefu kom drengurinn út – þá vorum við farin að halda að hann kæmi bara ekki og Kristjana orðin verulega þreytt. Okkur var sagt síðar að þetta hefði verið svokölluð ennis-eða andlitsfæðing sem gerir erfiðara að þrýsta barninu út. Hann var líka með nokkuð stórt enni fyrstu nóttina.

Skyndilega fylltist stofan af læknum og ljósmæðrum og ég var nánast kominn út í horn og á fósturritann. Læknirinn var á kafi í að ná bbarninu út og annar læknir reyndi að finna tvíburann með sónartæki meðan amk þrjár ljósmæður voru að reyna að stýra bbarninu út með því að þrýsta á bumbuna frá öllum hliðum. Þegar hér var komið var farið að gæta örvæntingar hjá mér og ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að vera þar sem að ljóst var að eitthvað var að. Kristjana var þegar hér var komið agndofa af sársauka. Ég sá að læknirinn var farinn að verða örvæntingarfullur og skildist að ekki finndist hjartsláttur hjá barninu. Skyndilega segir læknirinn: „Þetta er bjölluskurður! Út, út, út!” Síðan byrjaði öll hersinginn að drífa Kristjönu á rúminu út án þess að hirða um að taka af henni fósturritana eða nokkuð og endaði þetta allt á gólfinu. Eftir stóðum síðan ég og abarnið og biðum átekta.

Um korteri síðar kom til mín ein ljósmæðrana og sagði mér að þetta myndi allt fara vel og sesarinn væri að byrja. Mér létti stórum en var samt einhvern veginn á nálum.

Bbarnið fæddist þrettán mínútur í tólf og ég fékk að sjá hana stutta stund áður en farið var með hana upp í kassa og eftirlit. Hún var örþreytt greyið og er enn marin á öxl eftir þetta nokkrum dögum síðar. Hún hafði sem sagt legið þversum í leginu og engin leið að ná henni út eðlilega. Um eitt var drengurinn síðan tekinn af mér og ég fékk að fara niður og hitta Kristjönu á gjörgæslunni. Hún var ekki sjón að sjá með um tíu leiðslur í líkamanum og hálf ringluð eftir allt saman.

Við eyddum síðan nóttinni á fæðingardeild því ekki var pláss á sængurkvennadeildinni. Við fengum bæði börnin til okkar um klukkan þrjú um nóttina.

Dagarnir eftir þetta hafa síðan farið í að safna kröftum og takast á við nýtt líf – börn og foreldrar.

Tæknilegu atriðin eru þessi: Drengurinn sem við höfum nefnt Gylfa Þór var ellefu merkur og fjörutíuogátta sentimetrar. Stúlkan sem við höfum nefnt Regínu var níu merkur og fjörutíuogsjö sentimetrar.