köflóttur kraftur

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

trúboð í skólum?

Ég get ekki sagt að ég væri sátt við það ef prestar væru að koma inn í leikskólann hjá dóttur minni og reyna að kristna hana. Mér finnst þetta í hæsta máta siðlaust. Biskupinn getur talað eins og hann vill um það að hávær minnihluti sé að eyðileggja þetta fyrir hinum. Foreldrar eiga rétt á að velja þetta fyrir börnin sín þar til börnin eru nógu þroskuð til að velja sjálf.
Mér finnst persónulega of langt gengið hjá Siðmennt að vilja banna litlu jólin og annað þess háttar úr skólunum. Fyrir það fyrsta eru jólin ekki einungis trúarleg hátíð heldur fyrst og fremst fjölskylduhátíð, og allir sem þekkja mig vita hversu mikið jólabarn ég er og ég er jafn ótrúuð og hægt er að vera, án þess þó að vera komin yfir í hina öfgana, en sumir trúleysingjar eru jú eins og allir vita öfgatrúar.
Ég er samt á því að farið sé öfuga leið núna með fermingarfræðslu í skólanum og ferðir því tengdar á skólatíma. Eftir því sem mér skilst er það þannig núna að foreldrar þurfa að láta vita sérstaklega ef þeir vilja að börnin þeirra taki ekki þátt í þessu. Þetta ætti auðvitað að vera á hinn veginn, samþykki fyrir trúarbragðafræðslu ætti ekki að vera sjálfgefið.

Foreldrar sem skíra börnin sín eru þar með að gangast undir sáttmála þess efnis að þau ali barnið upp í kristni, þau ættu að vera fullfær um að uppfræða barnið sitt. Ef meiri fræðslu er þörf þá er víst ennþá skipulagt barnastarf í flestum ef ekki öllum kirkjum.

laugardagur, nóvember 24, 2007

Brunabjallan...

... fór í gang áðan. Þvílíkur dómsdags hávaði. Þar sem ég er vön því að brunabjallan sé sífellt að fara í gang úr Eggertsgötunni var ég ekkert að kippa mér upp við þetta. Þá var barið á dyrnar og úti stóð slökkviliðsmaður í fullum skrúða. Við náttúrulega rifum stelpurnar upp úr rúminu, gripum sængurnar þeirra kuldagalla, veski og lykla og hlupum út. Með börnin ennþá á náttfötunum. Okkur var vísað inn í lögreglubíl fyrir utan þar sem fólkið við hliðina var fyrir með sín þrjú börn vafin í sængur, heimilisfaðirinn þar að auki á náttsloppnum. Okkur til mikillar furðu virtist enginn annar vera á leiðinni út úr blokkinni. Loks kom þó fjölskyldan hinum megin við okkur röltandi út í rólegheitum. Búin að dúða sitt barn upp, með barnavagninn með sér og skólatöskuna líka. Fyndið hvernig fólk bregst misjafnlega við vá. :)
Við vorum nú samt sem betur fer ekki í neinni hættu, innan skamms var búið að slökkva eldinn og reykræsting hafin. Okkur var hleypt aftur inn og það tók ekkert of langan tíma að koma stelpunum aftur í ró eftir þetta ævintýri.

fimmtudagur, september 28, 2006

MYNDIR


af nýja fjölskyldumeðlimnum eru komnar inn hér

svo eru líka komnar inn nokkrar myndir af stóru systur

mánudagur, september 11, 2006

Tímasetning dauðans

Hvað er besti tíminn til að ná sér í kvefpest með hita og hálsbólgu?
Þegar maður er komin 40 vikur og einn dag á leið :(

fimmtudagur, september 07, 2006

jæja vildi bara láta vita að maður er ekki dauður, þrátt fyrir að hafa ekki látið sjá sig í bloggheimum í nokkra mánuði. Það er bara allt of mikið að gera og allt of lítil orka eftir til að eyða henni í blogg.
En allavega fréttir. Ég er sem sagt byrjuð í stjórnmálafræði, og náði því strax á þriðja degi að sofna í tíma. Ekki samt vegna þess að þetta hafi verið leiðinlegur tími, heldur var ég varla nokkuð búin að sofa um nóttina vegna láta í bumbubúanum. Sem meðal annars á að líta dagsins ljós næsta sunnudag, það er að segja ef hún ákveður að koma á réttum tíma í heiminn, en ekki láta bíða eftir sér í tvær vikur eins og stóra systir. Alla vega ég læt ykkur vita þegar hún lætur sjá sig en þangað til ætla ég bara að reyna að slappa af og halda áfram að horfa á Magna á skjánum.

laugardagur, júní 10, 2006

Jæja þá er maður fluttur. Að vísu ekki langt, bara um einn stigagang og eina hæð. Tók nú samt nógu helvíti langan tíma að flytja, maður gerir sér aldrei grein fyrir hversu mikið að drasli maður á fyrr en maður þarf að fara að flytja það. En sem betur fer fengum við heilmikla hjálp. Mamma og pabbi gerðu sér meira að segja sér ferð alla leið frá Ísafirði til að hjálpa okkur, (þau komu reyndar líka til að vera viðstödd útskriftina hjá henni Sædísi en hitt hljómar bara betur ;) ). Ef við hefðum ekki fengið allt þetta fólk til að hjálpa okkur hefðum við aldrei klárað á réttum tíma, höfðum eina helgi til að flytja og skila gömlu íbúðinni af okkur hreinni og fínni. Nýja íbúðin okkar er nánast eins, nema hún er með öðru svefnherbergi og mjög stórri og góðri geymslu innan íbúðarinnar, (sem þýðir náttúrulega að við getum farið að safna að okkur enn meira drasli). Svo er hún undir súð og mikilli lofthæð öðru megin í íbúðinni sem lætur hana virðast mun rýmri. Já og svo er ekki búið að gera þessa íbúð upp, allar hurðir og skápahurðir eru í sama litnum og af því að þetta er nú ég þá eru þær auðvitað bleikar :). Sem er nú ekki jafn slæmt og það hljómar því þetta er svona dumb-bleikur, (ég veit að þetta er ekki orð en liturinn er eins og bleikur litur séð í gegnum dumbungs veður, get ekki útskýrt það betur), en þetta vandist ótrúlega fljótt og ég tek varla eftir þessu lengur. Sigyn er búin að vera voða dugleg að sofa í sínu eigin herbergi, það virðist taka mun meira á foreldrana *hóstGautahóst* heldur en hana að vera án okkar á nóttunni. Hún er bara ánægð með að vera með meira pláss til að leika sér. Hún fær reyndar ekki að vera lengi með sér herbergi greyið, við erum alla vega búin að ákveða að færa litlu systur hennar yfir þegar hún verður orðin hálfsárs eða svo. Svo kemur bara í ljós hvort við getum staðið við það eða ekki, ætli manni eigi ekki eftir að finnast hún vera enn of lítil.

Það fer að styttast í síðustu vaktina mína fyrir sumarfrí og fæðingarorlof, ég var að telja þetta saman og ég á bara níu vaktir eftir. Þetta er stórskrýtin tilfinning... eftir níu vaktir verð ég komin í 13 mánaða "frí" frá vinnunni hérna. Get ekki sagt að ég sé leið yfir því :)

föstudagur, maí 19, 2006

það er stutt á milli sorgar og gleði...

aðeins tveimur dögum eftir að vonir um að hampa meistaratitlinum urðu að engu tilkynnir Thierry Henry að hann ætli að ljúka ferlinum hjá Arsenal. :)

rock n' roll angel ....

ómar af fullum krafti í hausnum á mér... greinilega að komast í stuð fyrir Eurovision annað kvöld. Nú er bara að Lordi sjálfur detti ekki á þessum rosalegu platform stígvélum sem hann er í, held nú bara að það séu helmingi þykkara sólar á þeim heldur en þeim sem Gene Simmons var í á sínum tíma. Það er fleira sem er á dagskránni á morgun heldur en bara Eurovision, við Gauti ætlum að skella okkur á fjögur bíó á Da Vinci Code. Það verður gaman að sjá hvernig tekist hefur til að koma bókinni upp á hvíta tjaldið. En fyrsta mál á dagskrá er að lifa af þessa næturvakt, sem verður eitthvað mál þar sem ég er búin að vera vakandi frá því níu í morgun og vaktin mín er ekki búinn fyrr en átta í fyrramálið. Það sem gerir manni samt kleift að þreyja þorrann er sú tilhugsun að þetta er næstseinasta næturvaktin mín. Eftir laugardaginn í næstu viku verð ég bara á kvöldvöktum þar til ég fer í sumarfrí um miðjan júlí og svo er ég farin í árslangt fæðingarorlof. jibbbíííííiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!