21. nóv. 2002

JÆJA!


Viti menn, í morgun þá var bara einfaldur tími í Miðaldabókmenntum en ekki tvöfaldur eins og vanalega þannig að ég græddi heilan klukkutíma í að lufsast á netinu og skrifa nokkrar línur hér.

Þetta er í annað sinn á 2 vikum sem ég hef tíma til að kíkja aðeins í tölvurnar, hitt skiptið var núna á þriðjudaginn og þá fékk ég nett sjokk þegar ég opnaði pósthólfið mitt á háskólanetinu.
211 ólesin skilaboð!
Ég hugsaði bara: ,,ó mæ god" og skildi ekki alveg hvernig gat staðið á þessu þar til ég fór að skoða þetta nánar. Um 180 skilaboð í kringum einhvern vírus sem ég hef greinilega fengið og svo nokkrir brandarar og skilaboð frá vinum og vandamönnum.

Annars er nú ekkert sérlega markvert að frétta af mér. Hef gert lítið annað en að vinna og vera í skólanum undanfarnar vikur. Ég ákvað nefnilega að bæta við mig vinnu og er nú farin að vinna á sambýli fyrir fatlaða í Garðabæ og finnst það eiginlega bara ferlega gaman. Og það er ekki bara nýjabrumið sem gerir það. Ég varð eiginlega frekar hissa þegar ég uppgötvaði að mér finnst þetta gaman því ég lofaði sjálfri mér því að vinna aldrei svona vinnu aftur þegar ég hætti á Kópavogshæli. Sem starfsmaður, ekki heimilismaður. Þá var ég nefnilega komin með nett ógeð á svona vinnu en svo komst ég bara að því að þetta er ferlega gaman þegar maður hefur góðan yfirmann og það er líka allt annað andrúmsloft inni á sambýli heldur en heilli deild.
En þetta þýðir að það hefur verið mjög mikil vinna hjá mér undanfarið og verður það eitthvað áfram. Eiginlega alveg fram að próflestri.

Jú, eitt sem mér sjálfri finnst svolítið merkilegt og það er það að ég er farin að prjóna á fullu! Þarna sjáið þið hvað líf mitt er æsispennandi þessa dagana. Ef það er ekki vinnan eða skólinn, þá eru það prjónarnir eða nornabókin eftir Anne Rice sem ég er að lesa núna. (er með hana í góðfúslegu láni frá sambýlingi mínum sem ég hitti varla þessa dagana sökum anna. Hæ Guðrún!) Sko, sagan á bakvið prjónana er sú að ég fór í heimsókn til Maríu vinkonu um daginn og var eitthvað að dást að því hvað hún væri dugleg að prjóna og að ég gæti þetta sko ekki og þar fram eftir götunum. Alla vega, hún nennti ekki að hlusta á þetta raus í mér og lét mig fá prjóna og garn og lét mig prjóna. Og ég komst að því að ég get þetta sko alveg og er nú mas búin að kaupa garn og fá prjóna lánaða og er að prjóna trefil handa sjálfri mér. Mér finnst ég vera alveg svakalega dugleg!

Jæja, prófessor Helgi kallar - þarf að hlaupa í tíma...

7. nóv. 2002

er enn á lífi...


já, vildi bara láta vita að ég er enn á lífi en hef bara verið frekar tímabundin undanfarið. Er nefnilega komin í meiri vinnu og hef þar af leiðandi takmarkaðan tíma til að hanga yfir tölvunum uppí skóla... en það stendur til bóta því ég mun á næstunni fá tölvu heim til mín og þá get ég sko farið að blogga í tíma og ótíma og farið að læra meira á þetta blessað HTML.
skjáumst síðar!

24. okt. 2002

bílastæðasjóður


jæja, þá er ég loks búin að borga aukastöðugjaldið sem ég fékk um daginn þegar ég snæddi hádegismat með skólafélögum úr LSK. Ansi dýr hádegismatur það! og bílastæðasjóður er kr. 1.500,- ríkari.

22. okt. 2002

námið


ég var að koma úr tíma hjá prófessor Helga Guðmundssyni og er full af metnaði í að gera einhverja stórkostlega hluti innan íslenskunnar! Maðurinn er alveg stórskemmtilegur. Hann nálgast efnið á allt annan hátt en maður er vanur frá öðrum kennurum og það vekur mann til umhugsunar. Það brennur svolítið við hérna í Árnagarði að maður sé talsvert mataður á efni. En ekki hjá Helga. Reyndar veit maður ekki alltaf hvað hann er að fara eða hvað maður á að vera að læra hjá honum í íslenskri málsögu því tímarnir snúast mikið um sögur sem hann segir okkur af hinum og þessum stóru köllum innan norrænnar fílólógíu. Og einhvern veginn tengir hann þessar frásagnir saman þannig að smám saman kemur einhver heildarmynd. Hann fær mann til að hugsa um hlutina og fyllir mann metnaði um að gera einhverjar flottar uppgötvanir. Amk mig.
Eins og ég sagði um daginn, þá ætlaði ég bara að byrja námið aftur í rólegheitum og láta þetta bara rúlla fram að BA-prófinu og hafði í sjálfu sér engan stórkostlegan metnað um að lesa íslensku næstu 10 eða 20 árin. Hugsunin var aðallega að klára prófið til að geta haldið áfram að mennta mig og/eða lifa lífinu. Það er bara svo gaman að vera kominn aftur hingað og á fullu í að læra nýja hluti og það skemmtilegasta við þetta allt saman er að íslenskan kveikir virkilega í mér.
Ég var eiginlega búin að gleyma því hvað mér finnst þetta gaman!
Skemmtilegast er þó líklega að ég finn að ég hef áhuga á að halda áfram innan íslenskunnar en þegar ég byrjaði hér í haust þá hafði ég enga hugmynd um hvar ég myndi enda eða hvaða leið ég myndi velja. Reyndar veit ég það ekki alveg ennþá en íslenskan er í efsta sæti. Reyndar dauðlangar mig að taka einhverja aukagrein en tími því eiginlega ekki. Að taka aukagrein og missa af 30 einingum í íslensku!
En ég á alveg ótrúlega mikið eftir ólært.

20. okt. 2002

tilgangur lífsins...?


vááá... maður er viðstaddur eina giftingur og fyrr en varir er maður farin að hugsa um framtíðina, tengsl vinanna, tilgang lífsins og allt það! Er þetta eitthvað sem gerist með aldrinum eða hvað?

Alla vega, um daginn fékk ég sent á netinu svona spurningalista sem maður að sjálfsögðu átti að senda áfram á alla sem maður þekkti. Venjulega hef ég ekki gaman af svona hlutum og þetta endar beint í ruslinu hjá mér án þess að ég líti tvisvar á það en þetta snérist sem sagt um að ég átti að svara spurningum um vini mína en ekki sjálfa mig og senda svo til þeirra mín svör um þá. Þetta fannst mér svolítið sniðugt og iðaði í skinninu af forvitni því ég gat varla beðið eftir því að sjá hverju vinir mínir svöruðu um mig, spurningum eins og 'hver er mesti ótti minn?' 'hvað var það fyrsta sem ég sagði við þig?' '´Trúi ég á guð?' og þar fram eftir götunum.
Skemmtilegast fannst mér þó að fá svar við spurningunni 'Er ég fyndin?' því allar (3 vinkonur sem svöruðu) sögðu að ég væri fyndin. Ég hef aldrei upplifað sjálfa mig sem fyndna manneskju og var alveg ægilega upp með mér! Ég er fyndin! Þetta var sko alveg frábært fyrir mitt litla egó.
Ég er fyndin!

Svo minntist ég eitthvað á þetta við Maríu vinkonu mína (ein af þeim sem svaraði) og sagði henni að ég hefði aldrei upplifað sjálfa mig sem fyndna.
Þá svaraði hún: ,,Þú ert ekki svona brandarakerling-fyndin"
,,Nú?" (ég soldið sár)
,,Nei, heldur er svo gaman að hlæja að þér. Það er svo auðvelt. Þú ert þannig fyndin."
,,Óóó..."

Þannig að þar hvarf nýfengin fyndni mín eins og dögg fyrir sólu.
Og málið er að ég veit alveg hvað hún er að tala um. Ég sé bara fyrir mér ferðina okkar Ernu til London fyrir nokkrum árum. Þegar við lentum á flugvellinum fékk ég afhenta lyklana (plastkort) að hótelherberginu okkar. Í rúllustiganum á leiðinni niður þá sveiflaði ég höndunum eitthvað með þeim árangri að annar lykillinn sveif í gegnum loftið og lenti á milli rúllustiganna tveggja og lá þar fastur, svona um það bil mitt á milli þessara tveggja hæða. Ég þurfti nú að reyna að bjarga málunum og ég held að ég hafi sjaldan séð nokkra manneskju hlæja eins mikið og hana Ernu þar sem hún stóð á neðri hæðinni og fylgdist með mér. Ég fór aftur upp með 'upp-rúllustiganum' og í 'niðurrúllustigann' og þegar ég var komin á móts við þann stað sem lykillinn okkar var fastur á milli stiganna þá snéri ég mér við og labbaði (hljóp) á móti stiganum og reyndi um leið að teygja mig yfir handriðið og ná bölv... lyklinum. Þetta gekk ekki alveg upp þannig að ég fór niður og upp aftur í aðra umferð af 'Björgum lyklinum'. Erna skemmti sér alveg konunglega og að lokum þá varð ég að gefast upp því ég var hreinlega ekki með nógu langa handleggi til þess að geta teygt mig yfir handriðið og ná lyklinum.
Ég held að Erna geti hlegið að þessu enn í dag.
Ég eiginlega líka en ég hefði nú frekar viljað vera áhorfandi...

19. okt. 2002

with this ring, I thee wed


nei, ég er nú ekkert að fara að gifta mig en ég var að koma úr brúðkaupi. Ótrúlega falleg athöfn í Kristskirkju og brúðurin að sjálfsögðu alveg stórglæsileg.
Til hamingju með daginn Íris og Sæþór.

Eiginlega má segja að ég hafi farið í tvö brúðkaup í dag. Eða svona næstum því. Hádegishittingurinn með genginu í dag, var ekki bara til að heilsa upp á LadyMary heldur líka til að heiðra fólkið sem snuðaði okkur í sumar... þeas Önnu Lilju og Benna, þau giftu sig nefnilega án þess að láta okkur, eða nokkurn annan, vita. Laumuðu sér bara til borgardómara og komu svo öllum á óvart og við, Gengið, fengum sem sagt ekki að vera með og syngja lag um þau (eins og við gerðum þegar Gunnar og Helma giftu sig). Við gátum nú samt ekki litið framhjá þessari giftingu og keyptum gjöf handa þeim sem við létum þau fá í dag. Og komum þeim sko algjörlega á óvart.
Til hamingju Anna Lilja og Benni.

Annars er brúðkaup/gifting eitthvað sem er ótrúlega fjarri mér. Kannski ekkert skrítið þar sem maður er ekki í föstu sambandi og ekki á leiðinni í eitt slíkt. Annars veit maður aldrei, þetta getur breyst á augnabliki. Við hittumst sem sagt 11 í hádeginu og borðuðum saman - og öll börnin (þau eru orðin 4 í hópnum) líka. Þetta er alveg frábær hópur og hefur haldið saman í 11 ár og hefur lítið breyst á þeim tíma. Og ég vona að hann breytist lítið á næstu 11, 22 eða 33 árum.
Á meðan við vorum að borða sat ég og hugsaði um framtíðina, þeas hvernig þessi hópur á eftir að stækka og breytast. Við erum enn 4 einhleypar þannig að einhverjir makar eiga eftir að bætast í hópinn og svo fleiri börn. Það er svo skrítið til þess að hugsa því það er einhvern veginn svo gott jafnvægi eins og er. Það er líka gaman að sjá hvernig þetta fólk sem maður er búinn að þekkja í allt að 18 ár hefur vaxið og þroskast og heldur enn saman. Við höfum líka verið ótrúlega dugleg að gera alls konar hluti saman og vorum einmitt í dag að rifja ýmislegt upp, ma. Náttfatapartýið sem hún Bestaskinn hélt, einmitt í sama húsi og við hittumst í í dag, fyrir 11 árum. Þar sem ég var á kvöldvakt í sjoppunni sem ég var að vinna í og komst ekki fyrr en um miðnættið til þeirra, þá komu þau öll til mín. Í náttfötum. Á föstudagskvöldi. Í sjoppuna beint á móti Bíóborginni.
Það væri gaman að sjá þau endurtaka þetta, þeas halda náttfatapartý þegar ég er að vinna og sjá þau koma á náttfötunum í búðina til mín í Kringluna... he he he
Bestaskinn, hvenær ætlarðu að halda náttfatapartý aftur?

16. okt. 2002

framhaldsnám


já, ég var á kynningarfundi um framhaldsnám sem er í boði við íslenskuskorina í HÍ og nú langar mig bara að vera í skóla næstu 10 árin! það er svo allt öðruvísi að vera í háskólanámi en í framhaldsskóla, það eru svo margar ákvarðanir sem maður þarf að taka sjálfur og margt sem maður þarf að hugsa um og gera ráð fyrir. Og helst allt mjög tímanlega. Ég er komin í HÍ aftur eftir smá hlé og hafði einhvern veginn hugsað mér að láta þetta bara líða áreynslulaust áfram og vera svo útskrifuð með BA-gráðu eftir 2 vetur og síðan ekki söguna meir... en nú eru farnar að vakna upp í mér alls kyns hugmyndir og langanir sem gera það að verkum að ég þarf að fara að hugsa, spá og skipuleggja fyrir framtíðina!
Ég er ekki ennþá búin að ákveða hvort ég eigi að taka aukagrein eða ekki. Augljóslega þyrfti ég að gera það sem fyrst þar sem að ég á ekki eftir nema 40 ein. eftir þetta misseri.
Mig dauðlangar að fara út sem skiptinemi en ég veit ekki hvert eða hvort ég ætti að gera það núna eða þegar ég er komin í MA-nám.
Ég veit ekki hvort ég ætti að útskrifast úr íslenskri málfræði, íslenskum bókmenntum eða íslenskum fræðum. Mig langar eiginlega í allt!
En eitt veit ég þó og það er að ég ætla ekki í framhaldsnám í kennslu-og uppeldisfræði. Ég ætla ekki að kenna! Þá má ekki misskilja mig og halda að mér finnist ekki nógu fínt að vera kennari, alls ekki. Mér finnst frábært að það er til fólk sem virkilega vill leggja þetta á sig og gera þetta að lífsstarfi sínu að kenna börnum og unglingum og hefur gaman af því. Ég er bara ekki þannig og væri eflaust ekki góður kennari og amk alls ekki vinsæll kennari!
Reyndar sagði einn af kennurum mínum í framhaldsskóla við mig einu sinni: ,,Ég held að þú verðir annað hvort kennslukona, viðskiptakona eða blaðakona!'' Kennslukona er ég ekki og verð aldrei, viðskiptakona er ég ekki heldur og verð seint og þá er bara eitt eftir... Sjáum hvað setur.
Annars veit ég minnst sjálf hvað ég vil verða.
Annað veit ég þó og það er að ég er yfir mig ánægð yfir að hafa drifið mig í að hætta í vinnunni og drífa mig aftur í HÍ. Alveg örugglega réttasta ákvörðunin sem ég hef tekið á ævi minni og langt síðan ég hef verið svona sátt við það sem ég er að gera. Húrra fyrir því!!!

15. okt. 2002

Jómfrúin og stöðumælirinn...


ég var að koma af ,,hádegisfundi'' með bekkjarfélögum mínum frá því í fyrra úr Leiðsöguskólanum, þetta var örugglega metmæting á hádegishitting hjá okkur en við vorum 15 úr 35 manna bekk. Reyndar í fyrsta skipti sem ég kemst í hádeginu. Þetta var alla vega mjög gaman að hitta alla aftur yfir ekta dönsku 'smørrebrød' á Jómfrúnni. Ekki var nú leiðinlegt að fá loksins að sjá bekkjarbarnið - hann er algjör dúlla, ekki nema 6 vikna. Hins vegar var ekki eins skemmtilegt að horfa á stöðuvörðinn ganga í burtu frá bílnum mínum þegar ég kom út. Ég var nefnilega svo lengi að kveðja fólkið að það kostaði mig kr. 1.500,- í stöðumælasekt. Aldrei aftur að vera kærulaus með að borga í stöðumælinn!!! Ekki það að ég hafi ekki borgað, heldur var ég bara aðeins of lengi að koma mér út.

13. okt. 2002

geeeiiiisssp!!!


jæja, BK & frú komin heim, með þvílíka happdrættisvinninga af árshátíðinni að annað eins hefur ekki sést langalengi, þannig að ég er farin heim til mín að lúlla - Góða nótt!

I did it!!!


LadyMary, kerfisfræðingur of ..., eat this!
Mér tókst það, mér tókst það - ég er algjör hetja, liggaliggalái!!! og það mas um hánótt, ég á eftir að sofa svo vel!

og ykkur, kæru lesendur, er velkomið að skilja eftir athugasemdir við skrifum mínum ever after!

ps. LadyMary, þetta getur maður gert ef maður kann að lesa smá útlensku og getur bjargað sér sjálfur!!!

??? taka 3


... er ég enn að gera eitthvað vitlaust?

??? taka 2


þetta virkar ekki ennþá þannig að það er best að geyma stóru orðin um snilligáfu mína aðeins lengur en ég er amk búin að læra að gera flottar fyrirsagnir!!!

???


ég er greinilega enginn snillingur í þessu... en best að halda áfram að reyna! það væri nú gaman að geta böstað kerfisfræðinginn í UK og gera þetta á undan henni!!! þeas að koma upp athugasemdakassa

athugasemdir?


virkar þetta eitthvað?
ég er nebblega enn að passa og er að reyna að læra einhverja skemmtilega fídusa í þessu kerfi - eins og t.d. að setja inn athugsemdakassa og fleira skemmtilegt...

hin útvalda...


ójá, á meðan ég man... Þeir nýttu auðvitað tækifærið í gær (fös), viku of seint, þegar ég var hálfrænulaus eftir átökin við matareitrunina, og hringdu í mig og sögðu mér að ég væri því miður ekki hin útvalda til að vera fyrirmynd Íslendinga og útlendinga í útlöndum!!! en eiginlega kom það ekki fram fyrr en ég var búin að leggja fram kröfur mínar um að klára námið líka - ég er svo gráðug, vil gera allt í einu! - og þá kom allt í einu í ljós, þrátt fyrir að mér hefði verið tjáð um daginn að ég væri betri en 85 aðrir, að það væru 40 aðrir jafngóðir og ég (sem ekki væru með persónulegar kröfur...)
Þetta er bara þeirra missir!

Þeir geta ekki kúgað mig! MÚÚAHAHAHAHA...

Scotsmen & Kilts



jæja, ég held að almættið sé með eitthvað plott í gangi á móti mér... þetta er önnur helgin í röð sem ég hef ekki komist á djammið vegna veikinda!!! Og þetta eru sko ekki sömu veikindin 2 helgar í röð, ónei, heldur 2 mismunandi pestar! Ef þetta gerist aftur næstu helgi, þegar það er lunch með LadyMary (hún er að koma í skottúr til föðurlandsins til að berja nöfnu sína/systurdóttur sína augum) þá verð ég sko reið og sker upp herör gagnvart þessum pestum! og HANANÚ!!!
Um síðustu helgi var það bara ósköp venjuleg flensa eða svona týpískt haustkvef sem hélt mér innan veggja heimilisins en núna var það matareitrun. Ég kýs að kalla það matareitrun þótt hann faðir minn kalli þetta Hrafnistuveikina. Ég meina, hvað fer fólk að halda um mann ef maður segist vera með Hrafnistuveikina? Að maður sé orðið örvasa gamalmenni með útivistarleyfi frá Hrafnistu?!?! Ónei, ég fékk sko barasta matareitrun! Og það var ekki gaman en núna er ég loksins að hressast en helgin að verða búin og Skotarnir í pilsunum sínum halda sigurreifir heim á leið!!!

og ég sem ætlaði í bæinn og hitta kall(a) í pilsi og tala smá útlensku!

ég sit reyndar núna heima hjá bróður mínum og geri skyldu mína sem föðursystir og passa grislingana hans og kem þeim í bælið á meðan hann og frúin skemmta sér á einhverri árshátíð útí bæ. Það er fátt betra en lítið 8 mánaða kríli sem er orðið svo þreytt og grætur bara og neitar að sofna en gefst svo upp í fanginu á manni og leggur litla höfuðið sitt á öxlina á manni og sofnar... ahhh...

Neibb, það er alls ekkert farið að klingja í eggjastokkunum mínum!!!

það besta við þessi kríli er nefnilega það að eftir 1-2 tíma koma foreldrarnir heim, ég fer heim til mín og það eru þau sem vakna í fyrramálið og þurfa að sinna skæruliðunum sínum á meðan ég sef á mínu græna! I am sooo blessed!

10. okt. 2002

haustpróf

próftaflan, sem ávallt er beðið með mikilli eftirvæntingu, var birt í dag. Ég tek 2 próf og auðvitað tókst Þeim að raða þessum prófum 2 daga í röð þannig að ég tek próf 17. og 18. desember! Sem er eiginlega ekkert sniðugt fyrir mig og mitt óskipulag. Þetta þýðir nefnilega það, að ég byrja ekki að læra fyrr en 15. desember og næ þar af leiðandi bara að læra fyrir annað prófið og fell þá í hinu... Auðvitað ætti maður að geta skipulagt sig betur, maður fær jú langan fyrirvara á þessu en það dugar ekkert fyrir mig. Minn góði ásetningur hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar nær dregur og ég ,,ætla að gera allt á morgun"... En maður verður víst bara að taka sig á og hætta þessu væli.
Þetta er nú samt ekki alslæmt og einstaklega ánægjulegt að vera ekki í prófum fram á síðasta prófdag. Og svo get ég mætt eldhress og úthvíld í hið árlega jólahlaðborð með Genginu, sem nú verður haldið þann 21. des, því LadyMary hefur valið þann dag með að heiðra okkur með nærveru sinni og kemur þá heim í sitt jólafrí. Og við fáum sko að rífa hana úr faðmi fjölskyldunnar strax fyrsta kvöldið!!!

Bestaskinn hefur játað fyrir mér að hún hefur eigi karlmann tjóðraðan í fataskápnum sínum eða í haldi á nokkrum öðrum stað og ég kýs að trúa henni ;o) Og henni líkaði líka skjallið, henni finnst kúl að vera ,,vonda löggan". En ég skil samt ekki ennþá hvað hún var að huxa, ég meina, gaurinn er púlari!!!

leiðrétting

Marý skildi þetta með "my health condition" þannig að væntanlega eru fleiri sem skilja það líka... ;o)

9. okt. 2002

...the chosen one?

þetta með djobbið er allt á reiki ennþá but I'll keep you posted... on my healt condition! (sorrí, þetta er gamall brandari sem að Brynkan ein skilur, held ég)

hinn útvaldi, já, það er eitthvað sem vinkona mín, Bestaskinn, hugsar mikið um. Við erum eiginlega með samkomulag í gangi um að við megum ekki finna okkur gæja nema á akkúrat sama tíma. Við erum nefnilega bara 2 eftir í vinkonuhópnum sem eru án maka - jæja, okeiþá, við erum 4 en hver nennir að telja með fólk sem stingur af norður á land eins og Brynkan eða eins og LadyMary, alla leið til Englands!!! Það er sko engan stuðning að sækja þangað þegar maður er einn og einmana í henni Reykjavík!!! Alla vega, ég og Bestaskinn erum með okkar samkomulag en samt er hún að reyna að pota mér saman við einhvern strák sem ég hef aldrei séð eða heyrt af fyrr en hún sendir mér mynd af honum í tölvupósti! og svo biður hún mig um mynd af mér til að senda honum, ég sagði henni bara að senda mynd af Marilyn Monroe til hans!
Ég veit bara ekki alveg hvernig ég á að túlka þetta, er hún sjálf komin með gæja sem hún þorir ekki að segja mér frá af því að þá brýtur hún samkomulagið okkar... eða liggur eitthvað annað á bakvið? Ég þarf greinilega að vera duglegri að pumpa hana en það er bara svo erfitt því hún er yfirleitt "the bad cop" á meðan ég er "the good cop"...

er hætt núna svo ég hafi tíma til að taka mig til fyrir Dvergana 7 sem ég er að fara að hitta á eftir...

8. okt. 2002

the chosen one...

jæja, I'm back! eftir smá pest sem hefur haldið mér í bælinu síðan um helgi... þannig að ekki hef ég upplifað mikið markvert undanfarna daga, hvorki andinn né líkaminn...
og fyrir ykkur sem biðuð spennt með mér að heyra hvernig ég stóð mig í viðtalinu á fimmtudaginn, þá heyrði ég ekkert á föstudaginn... og missti af símtali í gær vegna veikindasljóleika en í dag hef ég það óstaðfest að ég geti byrjað eftir áramótin!!! dojojojongs!!! en ætli það sé ekki best að bíða þar til að maður hefur fengið þetta staðfest! so please, don't tell anyone... ;o)

og svo þarf ég að vinna í því að koma síðunni almennilega í gang!

3. okt. 2002

hvernig er klukkan núna?

ég þarf greinilega að laga þessa klukku og koma inn athugasemdaboxi og fleira í þeim dúr en Róm var víst ekki byggð á einum degi þannig að það er varla hægt að ætlast til að þetta sé bara allt tilbúið einn, tveir og sautján hjá mér. Þetta kemur! Já, og svo þarf ég líka að hlekkja uppáhaldsbloggin mín við bloggið mitt, mmm, hvað þetta er allt spennandi. Nú er ég alveg að verða eins og allir hinir... nördarnir, eins og ónefnd stúlka kemst að orði.

Hey, þetta er gaman!

jæja, hefst þá vígslan!
þeas mun ég nú vígja þessa dagbók með minni fyrstu alvöru færslu - sem að öllum líkindum verður í styttra lagi þar sem ég verð ótrúlega andlaus um leið og ég sest niður við tölvuna til að ausa úr brunni hugsanna minna...

var í viðtali í morgun, vegna starfs sem mig dauðlangar í og sem mig dauðlangar ekki í. Og það er vert að taka það fram að þetta var viðtal númer 2. En ég fæ víst símtal í fyrramálið sem sker úr um kvöl mína og sem segir mér hvort ég eigi einhverja framtíð fyrir mér sem fyrirmynd Íslendinga og útlendinga í útlöndum. Hvort sem af því verður eða ekki, þá get ég amk lifað með þá vitneskju að ég var betri en ca 85 aðrir - JIBBÍÍÍ!!!

þetta er svona það helsta í mínu lífi þessa stundina.

I'll keep you posted on my health condition...

30. sep. 2002