JÆJA!
Viti menn, í morgun þá var bara einfaldur tími í Miðaldabókmenntum en ekki tvöfaldur eins og vanalega þannig að ég græddi heilan klukkutíma í að lufsast á netinu og skrifa nokkrar línur hér.
Þetta er í annað sinn á 2 vikum sem ég hef tíma til að kíkja aðeins í tölvurnar, hitt skiptið var núna á þriðjudaginn og þá fékk ég nett sjokk þegar ég opnaði pósthólfið mitt á háskólanetinu.
211 ólesin skilaboð!
Ég hugsaði bara: ,,ó mæ god" og skildi ekki alveg hvernig gat staðið á þessu þar til ég fór að skoða þetta nánar. Um 180 skilaboð í kringum einhvern vírus sem ég hef greinilega fengið og svo nokkrir brandarar og skilaboð frá vinum og vandamönnum.
Annars er nú ekkert sérlega markvert að frétta af mér. Hef gert lítið annað en að vinna og vera í skólanum undanfarnar vikur. Ég ákvað nefnilega að bæta við mig vinnu og er nú farin að vinna á sambýli fyrir fatlaða í Garðabæ og finnst það eiginlega bara ferlega gaman. Og það er ekki bara nýjabrumið sem gerir það. Ég varð eiginlega frekar hissa þegar ég uppgötvaði að mér finnst þetta gaman því ég lofaði sjálfri mér því að vinna aldrei svona vinnu aftur þegar ég hætti á Kópavogshæli. Sem starfsmaður, ekki heimilismaður. Þá var ég nefnilega komin með nett ógeð á svona vinnu en svo komst ég bara að því að þetta er ferlega gaman þegar maður hefur góðan yfirmann og það er líka allt annað andrúmsloft inni á sambýli heldur en heilli deild.
En þetta þýðir að það hefur verið mjög mikil vinna hjá mér undanfarið og verður það eitthvað áfram. Eiginlega alveg fram að próflestri.
Jú, eitt sem mér sjálfri finnst svolítið merkilegt og það er það að ég er farin að prjóna á fullu! Þarna sjáið þið hvað líf mitt er æsispennandi þessa dagana. Ef það er ekki vinnan eða skólinn, þá eru það prjónarnir eða nornabókin eftir Anne Rice sem ég er að lesa núna. (er með hana í góðfúslegu láni frá sambýlingi mínum sem ég hitti varla þessa dagana sökum anna. Hæ Guðrún!) Sko, sagan á bakvið prjónana er sú að ég fór í heimsókn til Maríu vinkonu um daginn og var eitthvað að dást að því hvað hún væri dugleg að prjóna og að ég gæti þetta sko ekki og þar fram eftir götunum. Alla vega, hún nennti ekki að hlusta á þetta raus í mér og lét mig fá prjóna og garn og lét mig prjóna. Og ég komst að því að ég get þetta sko alveg og er nú mas búin að kaupa garn og fá prjóna lánaða og er að prjóna trefil handa sjálfri mér. Mér finnst ég vera alveg svakalega dugleg!
Jæja, prófessor Helgi kallar - þarf að hlaupa í tíma...