Þetta liggur mér á hjarta
Við vorum viðstödd á opnun á sýningu í Þjóðminjasafninu síðdegis í dag. Sýningin er lokaverkefni nemanda í hagnýtri menningarmiðlun í HÍ og var umfjöllunarefni lífshlaup 6 mismunandi einstaklinga.Sýningin er forvitnileg og gaman að sjá hvernig samskonar efniviður fær mismunandi framsetningu hjá þeim 6 hópum sem sjá um sýninguna. Undirrituð er svo sem ekki hlutlaus þar sem hún þekkir náið einn einstaklinginn sem er sýndur en fannst að sama skapi gaman að sjá hvernig upplýsingum um hann er komið á framfæri og hvað það er sem hefur fangað athygli framsetjaranna.
Eftir opnunina fórum við á Hereford steikhús. Sem er STEIKhús. Ég hef ekkert uppá steikina að klaga, hún var ljúffeng en bakaða kartaflan mín var rétt svo volg og sesar salatið var búið til úr jöklasalati, ekki „romain“ salati (veit ekki hvað það kallast á íslensku). Og svo var volga súkkulaðikakan köld, eða bara rétt svo við stofuhita þannig að djúsí súkkulaðigúmmelaðið í miðjunni var ekkert gúmmilaði.
Það pirrar mig oft við íslenska veitingastaði að þeir taka vinsæla og sígilda rétti og gera þá að sínum. Nei, þetta var ranglega orðað. Þeir taka heitin á þekktum réttum og skella á matseðilinn sinn og búa svo bara eitthvað til. Besta dæmið um það er „klúbbsamloka“ eða „Club sandwich“ sem ég hef vanist (erlendis) að sé samloka með kalkún/kjúkling og bacon/skinku, með mismunandi útfærslum að sjálfsögðu en í grunninn það sama. Hér á Íslandi fær maður allar útgáfur af þessu og helst skinka, ostur og grænmeti. Tékkið á þessu næst þegar ykkur er boðið upp á klúbbsamloku.
Kvöldið endaði svo á að skoða hlekkinn sem mér var sendur í gær. Ég fékk aulahroll og þetta minnti mig bara á Siggu og Grétar Örvars forðum daga. En það skal fúslega viðurkennast að ég er eflaust einn sísti evróvisíón-aðdáandinn...