15. maí 2008

Þetta liggur mér á hjarta


Við vorum viðstödd á opnun á sýningu í Þjóðminjasafninu síðdegis í dag. Sýningin er lokaverkefni nemanda í hagnýtri menningarmiðlun í HÍ og var umfjöllunarefni lífshlaup 6 mismunandi einstaklinga.

Sýningin er forvitnileg og gaman að sjá hvernig samskonar efniviður fær mismunandi framsetningu hjá þeim 6 hópum sem sjá um sýninguna. Undirrituð er svo sem ekki hlutlaus þar sem hún þekkir náið einn einstaklinginn sem er sýndur en fannst að sama skapi gaman að sjá hvernig upplýsingum um hann er komið á framfæri og hvað það er sem hefur fangað athygli framsetjaranna.

Eftir opnunina fórum við á Hereford steikhús. Sem er STEIKhús. Ég hef ekkert uppá steikina að klaga, hún var ljúffeng en bakaða kartaflan mín var rétt svo volg og sesar salatið var búið til úr jöklasalati, ekki „romain“ salati (veit ekki hvað það kallast á íslensku). Og svo var volga súkkulaðikakan köld, eða bara rétt svo við stofuhita þannig að djúsí súkkulaðigúmmelaðið í miðjunni var ekkert gúmmilaði.

Það pirrar mig oft við íslenska veitingastaði að þeir taka vinsæla og sígilda rétti og gera þá að sínum. Nei, þetta var ranglega orðað. Þeir taka heitin á þekktum réttum og skella á matseðilinn sinn og búa svo bara eitthvað til. Besta dæmið um það er „klúbbsamloka“ eða „Club sandwich“ sem ég hef vanist (erlendis) að sé samloka með kalkún/kjúkling og bacon/skinku, með mismunandi útfærslum að sjálfsögðu en í grunninn það sama. Hér á Íslandi fær maður allar útgáfur af þessu og helst skinka, ostur og grænmeti. Tékkið á þessu næst þegar ykkur er boðið upp á klúbbsamloku.

Kvöldið endaði svo á að skoða hlekkinn sem mér var sendur í gær. Ég fékk aulahroll og þetta minnti mig bara á Siggu og Grétar Örvars forðum daga. En það skal fúslega viðurkennast að ég er eflaust einn sísti evróvisíón-aðdáandinn...

29. apr. 2008

dramadama

Nei, ég er ekki dramadrottning og er sjálf ekkert mikið að dramatísera eða tja, kannski bara smá. En það er smá drama í gangi í vinnunni og stöðu minnar vegna fæ ég að vita smá en bara á need-to-know-basis og engin smáatriði. Ég hef engan sem ég get rætt við um þetta og er þar af leiðandi alveg að springa.
Ég vona að þessar gátur veiti mér smá fróun.

En það sem ég er að dramatísera með sjálf er ríkisborgararéttur fyrir eiginmanninn. Það hefur nú komið í ljós að þau 6 ár sem hann var hér á námsmannaleyfi veita honum engin söfnuð réttindi eða fyrirgreiðslu varðandi ríkisborgararéttinn. En á sama tíma og hann hafði í raun bara staðfestingu á löglegri dvöl mest 6 mánuði fram í tímann, þá gat hann steypt sér í stórar fjármálaskuldir 40 ár fram í tímann með kaupum á íbúð! Er þetta ekki brillíant?
Ég er líka alveg að springa yfir þessu.

Á svona stundum er gott að eiga kollega sem er lögfræðingur og það stefnir allt í það að þetta fari sömu leið og umtalaðasta tengdadóttir Íslands síðustu árin fór. Hér er alla vega einstaklingur sem hefur borgað sína íslensku skatta samviskusamlega undanfarin 8 ár og talar góða íslensku.

Annars er það helst að frétta að ég er ekki bara bíllaus og sjónvarpslaus, heldur er ég líka grasekkja því hann er að kenna fyrir norðan núna. Reyndar er allt í lagi að vera bíllaus og án sjónvarps en hitt er verra...

18. feb. 2008

í fríi...

Já, það hefur víst ekki farið framhjá neinum sem villist inn á þessa síðu að ég er bloggfríi og ég hef hugsað mér að vera það eitthvað áfram. A.m.k. á þessum velli en hins vegar detta stundum inn færslur á þessa síðu.

3. nóv. 2007

snörl, snörl

Það snörlar í mér í dag en ekki eins mikið og í gær og enn minna en í fyrradag. Ég er alveg að verða búin með að vera veik. Enda nóg komið, búin að liggja fyrir síðan á þriðjudagskvöld. Þannig að fínu graskerin okkar eru enn óútskorin en ég held, svei mér þá, að ég hafi séð glotti bregða fyrir á þeim þrátt fyrir það.
Sjáum til hvort við náum útskurði á morgun, þ.e.a.s. ef eiginmaðurinn verður ekki of þunnur. Hann er nefnilega á árshátíð með vinnunni í kvöld en ég sit heima með auman háls, hor í nös og hellu fyrir eyrunum.
En það er allt í lagi, ég ætla að njóta þess líka. Alltaf gott að vera einn heima af og til.

29. okt. 2007

Æðislegt veður í dag!

og alveg jafnæðislega súrt að þurfa að sitja innilokuð á loftlausri skrifstofunni í allan dag...

Ég hlakka til að vera búin í vinnunni í dag og fara heim og útbúa kvöldmatinn úr afgöngunum af lærinu sem við elduðum í gær, namminamm!
Ég hlakka líka til að fara að skera út grasker í tilefni af Halloween sem nálgast einsog óð fluga, spurningin er hvort ég spreyti mig á kettinum aftur eða prófa nýtt mótíf...

Síðar:
Meiri snjó
Meiri snjó
Meiri snjó

25. okt. 2007

Metrosexual = Natural selection

David sá ljósið í gær varðandi skilgreininguna „metrosexual“.

Eins og þið vitið sem hafið hitt David, þá er hann allt annað en metro og þið sem þekkið hann vitið að hann hefur ákveðnar skoðanir, nokkuð gamaldags, á hlutverkum karla og kvenna, þó án allrar karlrembu. En hann hefur velt þessu fyrir sér, hvernig er metrómaðurinn? og spurt mig nokkuð reglulega.

Ég hef gert mitt besta til að útskýra þetta fyrir honum en með takmörkuðum árangri. Það skal tekið fram að ég er enginn sérfræðingur um þessa skilgreiningu en þykist skilja hana en þó greinilega ekki nógu vel til að ég geti útskýrt þetta fyrir öðrum. Og hann hefur skilið mig á þann veg að metrómaður sé maður sem vill vera eins hommalegur og hann getur án þess að vera hommi, sem er ekki alls kostar rétt og ég hef bent honum á „über“-metrómanninn David Beckham, en það virkar ekki heldur.

En svo kom hann heim úr vinnunni í gær og sagði: „Hallur útskýrði metrómanninn fyrir mér!“ alveg hæstánægður að hafa loksins skilið þetta. Ég varð náttúrulega forvitin og vildi heyra skilgreininguna og hún er einhvern veginn svona (í stikkorðum):

„Þetta snýst um „Natural selection“, eins og í dýraríkinu - það eru konurnar sem velja sér karlana og þeir þurfa að skera sig úr hópnum til að ná athyglinni - í stórborginni er það erfitt - karlarnir þurfa að hafa sig alla við til að skera sig úr hópnum - valmöguleikar kvenna - það sem er tilbúið er betra en það sem þarf að breyta - fljótlegt og einfalt.“

Minn skilningur eftir þetta er sá að þetta er eins og að fara út í búð að kaupa í matinn, ef þú velur þér tilbúna rétti sem er nóg að skella í örbylgjuna, þá fellurðu fyrir metrómanninum (hann er tilbúinn og þú þarft ekki að kenna honum að klæða sig, snyrta sig eða að loka klósettinu eftir notkun) en ef þú velur þér þér kjötbita og meðlæti og eyðir svo tíma í að undirbúa og elda matinn, þá fellurðu fyrir hellisbúanum og mótar hann að vild. Eða strögglar við það.

20. okt. 2007

„Ég er lukkunar pamfíll, svei mér þá“

hvað er það sem gerir það að verkum að ég vakna klukkan 5 að morgni með þessa laglínu í hausnum? Mér finnst þetta ekki skemmtilegt lag og ef út í það er farið, þá er ég svo sem ekki hrifin af Ðe lónlí blú bojs.
Já, margt er skrítið í ký... ellumajuhausnum.