<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 10, 2006

Sykurhúðuðu íshlaup nær og fjær. Það er með hreinum ólíkindum hversu langt hefur liðið milli skrifa hjá mér undanfarið og óhætt að fullyrða að margsinnis hafi fólk litið við í þeirri einu von að doddinn þeirra hafi hent inn nokkrum orðum. Vonbrigðin hafa jafnan orðið mikil og eftirsjáin sömuleiðis. Það er því með töluverðum trega sem ég tilkynni ykkur, kæru vinir, að ég hef frá og með deginum í dag ákveðið að verja dýrmætum tíma mínum í mannúðarmál af öðrum toga en að létta fólki lundina með orðaleikjum. Mér finnst frami minn innan bloggheimsins ekki hafa verið nægjanlega mikill til að halda áfram og þó að það hafi verið vitnað í mig tvisvar í ónefndu blaði uppfyllir það í engu kröfur mínar um árangur á þessu sviði. Því hef ég ákveðið að draga mig í hlé og vil af því tilefni þakka aðdáendum mínum viðsvegar um jarðarkringluna samfylgdina í gegnum súrt og sætt um leið og ég bendi á að framtíðin er björt og skyndilegt fráfall mitt úr netheimum breytir þar engu um.

Hvað frekari útlistunum orsaka þeirra sem liggja ákvörðun minni til grundvallar áhrærir, vil ég árétta að ég er bundinn trúnaði og get aðeins gefið upp lítið brot af sannleikanum. Vil ég af þessu tilefni biðja háttvirta lesendur um að virða þagnarskyldu mína og leitast við að stíga gætilega til jarðar á sundurtættum vígvelli staðreyndanna.

Að endingu langar mig svo að lýsa yfir ánægju með að við Haukamenn náðum að tryggja sæti okkar í úrvalsdeild og þakka þeim sem heiðruðu mig með nærveru sinni í útskriftarveislu minni 25. febrúar síðastliðinn. Lifið heil.

Virðingarfyllst, Hr. Þórður Þ. Gunnþórsson

laugardagur, febrúar 18, 2006

Nú styttist óðum í að ég útskrifist úr Háskóla Íslands. Útskriftin fer fram þann 25. febrúar næstkomandi og er óhætt að fullyrða að ekki er um neinn merkisviðburð er að ræða. Ég er ekkert að fara útskrifast úr tannlæknadeildinni eins og Dr. Ottó gerði síðasta vor og ætti ekkert að vera að hreykja mér. Milljónir manna um allan heim útskrifast á hverju ári og engin ástæða til að kippa sér upp við eins hversdagslegan hlut. Menn fæðast og deyja og öllum er skítsama hvort þú ert BA eða Cand Mag þegar þú ert hvort eð er steindauður og í moldu lagður. Þess vegna nenni ég ekkert að gera mér neina rellu yfir þessu enda tók þetta bara 3 ár og kostaði mig ekki nema hvert einasta laugardagskvöld í allan vetur á meðan ég sat sveittur yfir lokaverkefninu.

Hver heilvita maður hlýtur að sjá að það tekur því varla að tala um þetta. Ef manni hefði verið hleypt fram fyrir í röðinni á Oliver eða ef einhver hefði tekið viðtal við mann í Hér og nú myndi málið kannski horfa öðruvísi við en staðreyndin er sú að ég er að fara útskrifast eins og svo margir nauðaómerkilegir og sauðsvartir almúgamenn á undan mér. Það hvarlar ekki að mér að minnast á þetta við nokkurn mann enda viðbúið að fólk yppi bara öxlum og láti sér fátt um finnast. Svo sem engin ástæða til annars heldur....

Jæja, ekki orð um það meir.

Speki dagsins: "Viljiru í lífinu peninga telja, menntaveginn skaltu velja". (Spurjið bara Dr. Ottó)

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Jú komið þið sæl enn á ný. Það er óhætt að segja að ég hafi verið latur undanfarið við vefskrif. Ýmsar ástæður eru fyrir því og er sú helsta að ég er byrjaður að vinna og hef haft lítinn tíma fyrir annað en vinnuna og blessaðar körfuboltaæfingarnar. Svo fékk ég líka smá leið á þessu á tímabili og ákvað að taka hlé til að fylla á ferskleikann. Það er líka engin vanþörf á enda nóg af fólki þarna úti sem hikar ekki við að stela úr frumleikasjóðum doddans síns og eins gott að ég sé avant garde og orginal til að fólk geti með góðri samvisku haldið áfram að vitna í mig. Nóg um það, ég ætla að vera duglegur við að skrifa það sem eftir lifir vetrar og enginn hætta á öðru en fólk verði skælbrosandi dægrin löng eftir að hafa lesið einhverja vitleysuna sem vellur uppúr manni. Það verður samt ekki í dag því það er leikur á móti Keflavík eftir tæpa tvo tíma og ég ætla að henda mér í innhverfu íhugunina til að gíra mig upp fyrir leikinn.

Speki dagsins: "Í sigri er mikill fengur þegar illa gengur"

föstudagur, janúar 20, 2006

Það var aldeilis frábær leikurinn hjá okkur eðalpenslurunum og sykurhúðuðu súkkulaðistrákunum í liðinu í gærkvöldi. Við gerðum okkur lítið fyrir og hoppuðum upp um tvö sæti og erum ekki lengur í fallsætinu. Það er engin lygi að við vorum betri allan tímann og þó að við höfum hleypt örlítilli spennu í leikinn á lokamínútunum var sigurinn ekki í hættu. Kristinn hinn snarklikkaði staðfesti enn á ný að hann er kolgeðveikur þegar hann kallaði dómarann tík og einnig þegar hann tók coast2coast troðslu eins og hann væri í NBA. Kiddinn heldur kannski að hann sé svartur og geti leyft sér að troða yfir mann og annan en það er nú öðru nær því að hann er hvítur Íslendingur og ætti að taka sniðskot í spjaldið og láta af þessari vitleysu. Reyndar má alveg koma fram að ég er bara svo fjandi bitur að geta þetta ekki sjálfur en það breytir engu um staðreyndir málsins. Kiddi var annars ekki sá eini sem stóð fyrir sínu, Morten og JP voru mjög góðir og það var Sæsinn líka. Sjálfur var ég ekkert sérstakur, mátti sætta mig við ýmislegt misjafnt frá dómurunum og en lét mig hafa það úr því að við vorum að vinna. Ég nýt greinilega lítillar virðingar hjá dómararstéttinni á Íslandi og hef því ákveðið að þróa nýja sóknaráætlun til að koma í veg fyrir að menn haldi að þeir komist upp með að brjóta á mér þegar þeim langar. Ég ætla nefnilega að hætta að taka þessi stuttu skot og troða yfir alla sem reyna að stoppa mig. Bubbi tók nefnilega hatur á mig eftir leikinn og spurði með sinni rólegu röddu "Doddi, hvað ertu eiginlega að gera þarna inná? Þú verður að klára skotin þín!" Já, meira að segja Bubbi er farinn að láta þetta fara í taugarnar á sér og þó að kappinn sá sé hvorki meira né minna en staurblindur og ætti að fá sér þykkari gleraugu tók ég samt mark á honum og gerði aukasett af hnébeygju í Hressaranum í morgun.

Jæja, það er langt síðan maður hefur verið svona bitur enda er ég ennþá atvinnulaus og þó að ég hafi fengið 9 fyrir BA ritgerðina mína og sé klárari en Stephen Hawking vita allir að ef maður stendur sig ekki inni á vellinunum skiptir ekkert annað máli. Það er samt gott að við erum farnir að vinna aftur og engin spurning að ég vil frekar vera lélegur og vinna heldur en mjög góður og tapa.

Speki dagsins ekkert slor í þetta skiptið: "Ef þú vilt verða betri, æfðu vel það sem eftir lifir af vetri"

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Ég er að verða einn latasti vefpistlahöfundur landsins. Geri ekki annað allan liðlangan daginn en að gera ekki neitt og ætti að sjálfsögðu að vera búinn að vera mun iðnari á lyklaborðinu. Hef það mér samt til málsbóta að ég er að upplagi hinn mesti letidurgur og þykir best að sötra próteinsjeik og bryðja bola. Nóg um það, ég lofa bót og betrun og hér eftir sem endranær munu hjörtu allra landsmanna slá í takt og taka kipp þegar Doddi Tremendous skeiðar fram á ritvöllinn í krafti hugsjóna og horbjóðs. Í fréttum er helst að hveitidrengirnir í Hetti frá Ísafirði austursins e.þ.s. hinum útnára Íslands, unnu sykurhúðuðu sveitaljómanna í Hamar/Selfoss sem þýðir að ef við Haukarnir hugprúðu vinnum næsta leik á móti fögrum Fjölnismönnum komumst við af botni deildarinnar og úr fallsæti. Ætla ég rétt að vona að við mætum sem öskrandi ljón í leikinn því að sigur er allt sem þarf. Mig langar líka að benda mönnum á að við vorum skelfilegir í síðasta leik og ættum ekki að vera í vandræðum með að bæta þá frammistöðu.

Jæja, ég hef ekki áhyggjur af þessu. Við erum með miklu betra lið núna en þá, nýi Kaninn er hinn svarti Leifur Leifs og Ingvar ass-shaker par excellence er mættur á bekkinn til að hendast inná þegar mikið liggur við og skora eina eða tvær flautukörfur. Það er líka nóg eftir af tímabilinu og ég má hundur heita ef við komumst ekki í úrslitakeppnina.

Ekki má heldur gleyma að kynþokkinn í liðinu heldur áfram að vaxa og nýjustu fréttir herma að Böddi, stundum kallaður Bjössi, sé byrjaður að henda upp stáli í Sporthúsinu. Ég var að skoða bibbann á kallinum í gær og er ekki frá því að hann hafi stækkað aðeins. Bjössi vildi reyndar meina að hann væri ekki enn byrjaður að lyfta þó að hann hefði undir höndum skothelt prógramm en það er bölvað kjaftæði því eins og allir vita er gott prógramm gulls ígildi og um leið og maður hefur tryggt sér eitt slíkt kemur afgangurinn svo gott sem af sjálfum sér. Bjöddi má því búast við að vera orðinn útúrsteraður og grjótharður með vorinu og aldrei að vita nema við Kiddinn skorum á hann réttstöðunni. GB hefur líka sjaldan verið jafn löðrandi enda lét hann sér prótínskortin á móti Þór að kenningu verða og hefur mætt samviskusamlega að refsa lóðunum síðan. Svo vita auðvitað allir að Dr. Ottó er eini maðurinn í liðinu sem heldur alltaf þokkalegum kynþokka án þess að mæta í ræktina og skil ég ekkert í hinum pjökkunum mínum að láta sig koðna niður langt fram á sumar án þess að fá rönd við reist.

Nóg um það, þó ég sé að tauta yfir þessu vita allir og sjá að enginn körfuboltamaður á Íslandi kemst með tærnar þar sem Haukamenn hafa hælana í fagurri framkomu og glæsileika.

Speki dagsins er af dýrari gerðinni í þetta skiptið: "Það ætti að vera mottó að verða flottur eins og Dr. Ottó"

mánudagur, janúar 09, 2006

Prótínskortur gerir vart við sig á Ásvöllum
Mikill prótínskortur gerði vart við sig í íþróttahúsi kattspyrnufélags Hauka hjá leikmönnum félagsins í leik sínum við Þór frá Akureyri í 16 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ. Telja menn að prótínskortur þessi leiði til ófullnægandi pungstærðar leikmanna Haukaliðsins því að svo virðist sem pungur liðsmanna skreppi saman síðustu tvær mínútur hvers leiks. Þetta hefur oft haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og ef Haukaliðið hefur ekki byggt upp góða forystu á lokamínútunum má í raun búast við tapi. Dr. Filippe Gezer við rannsóknarháskólann í Colorado hefur gert rannsóknir á fyrirbærinu og leitt að því líkum að minnkandi pungur á lokamínútum eigi upptök sín í bráðaprótínskorti sem lýsir sér í skertu vöðvaþreki og útlimaskjálfta. Í grein sinni "Emergency protine decrease and ball schrinking of the Hawks of Hafnarfjordur" sem birtist í hinu virta læknablaði World´s médicin dregur hann þá ályktun að vegna ófullnægjandi prótínbyrgða í líkömum leikmanna minnki pungur þeirra vegna ruglings í taugaboðum sem rekja má til aukinnar spennu á lokamínútunum. Leikmenn byrji þá fljótlega að skjálfa og eigi uppfrá því skerta möguleika á því að halda fullri einbeitingu. Fyrir þessar rannsóknir sínar hefur Dr. Filippe Gezer hlotið fjölda viðurkenningu, bæði í heimalandi sínu og erlendis. Þessi virti fræðimaður var sjálfur staddur á leiknum í gærkvöldi og sagðist aðspurður vera himinlifandi að sjá að rannsóknir sínar væru á rökum reistar því greinilegt hafi verið að pungur leikmanna Haukaliðsins hafi skroppið saman um allt að 50 % um leið og tvær mínútur voru eftir. Hann vildi þó árétta að tiltölulega auðvelt væri að ráða bót á þessum leiða kvilla en til þess þyrfti að lyfta lóðum 3-4 sinnum í viku og fjárfesta í prótíndufti.
Frétt þessi birtist áður í Times Magazine undir titilinum "Lack of protine at Asvller"
Speki dagsins í dag er ekki af verra taginu: "Til að halda líkamanum góðum er ekkert eins gott og að lyfta lóðum"

föstudagur, janúar 06, 2006

Gleðilegt ár kæru vinir nær og fjær! Það er ekki ónýtt að hafa lifað af enn eitt árið í þessum heimi óréttlætis og örbirgðar og vil ég endilega óska fólki til hamingju með það. Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að dugnaðurinn við skrifin hefur verið skorinn við nögl undanfarið og fátt getað iljað döprum hjörtum í skammdeginu. Nú lengist dagurinn og við hæfi að ég leggi mitt af mörkum við að lýsa upp þetta myrkur daganna.

Annars er helst að frétta að við kynbomburnar í Haukum unnum sigur í gærkvöldi á geysisterku liði Grindavíkur í úrvalsdeildinni. Grindjánarnir skipa eitt reyndasta lið landsins og eru alltaf harðir í horn að taka, að þessu sinni vorum við bara einfaldlega betri. Klikkaði Kiddi e.þ.s. Stúdent Jónasson var án vafa maður leiksins og skoraði 29 stig auk þess að spila frábæra vörn allan leikinn. Jason Pryor bættist í þéttskipaðan hóp þeldökkra manna liðsins daginn fyrir leik (í þeim hópi má m.a. finna títtnefndan Kristinn, Morten Pálínuxxxxxara, Lúðvík Lava og Villa naut) og stóð sig vel og það gerði hinn smái en knái Sævar Haraldsson líka. Sigurður Einarsson e.þ.s. hvíti Carter átti stóran þátt í sigrinum því hann spilaði hreint út sagt stórkostlega vörn á Kanann í Grindavík og sýndi líka góð tilþrif í sókninni. Sjálfur var ég á rólegu nótunum, hitti skelfilega og skoraði ekki nema 7 stig. Hinsvegar á ég tvímælalaust hrós skilið fyrir að hafa reynt hina víðfrægu "around the back and bumb on the ass move" sem vinsæl var í ghettóunum á öndverðum 8. áratugnum. Skemmst er frá því að segja að téð hreyfing tóks fullkomlega og uppskar mikinn fögnuð áhorfenda. Eitthvað hefur borið á misskilningu hjá ófróðum í körfuboltafræðum og fólk verið að halda því fram að þarna hafi verið á ferðinni misheppnuð tilraun til að gera eitthvað flott. Vil ég nota tækifærið og vísa þeim fullyrðingum alfarið á bug um leið og ég tjái furðu mína á viðlíka staðhæfingum. Það er alkunna að þessi hreyfing er ein sú erfiðasta sem fyrirfinnst og aðeins örsjaldan sem hún tekst. Þeir sem urðu þess láns aðnjótandi að verða vitni að þessum viðburði ættu því að reyna njóta þess til fullnustu í stað þess að vera með getgátur um hugsanleg tæknimistök.

En nóg um það kæru vinir, það eru fáir sem skilja sanna list þegar þeir sjá hana og lítið við því að gera annað en að láta sér fátt um finnast. Helstu tíðindin undan körfuboltans eru svo þau að nú er ég loksins búinn með lokaverkefnið mitt í HÍ og verð brátt rísandi stjarna á himni hinna vel menntuðu.

Jæja gott fólk, speki dagsins er þessi: "Ef þriðja heiminn klæðir, þú að lokum græðir"

This page is powered by Blogger. Isn't yours?