Wednesday, March 25, 2009
Monday, February 23, 2009
Febrúar
Við enduðum inni á þessum litla Jazz bar eitt föstudagskvöldið við Sigurrós. Báðum um sitthvorn bjórinn. Fastagesturinn vinstramegin brá á það ráð að stökkva út í búð eftir dósabjór.
Hér er Sigurrós með hinum fastagestunum.
Annað kvöld fórum við Hide San. Hann framreiðir klassískan japanskan mat. Þetta sem er borðstólum hér eru soðnir fiskiþarmar. Þeir eru eins vondir og þeir líta út fyrir að vera. Í fyrstu hélt ég reyndar að um einhvers konar heila væri að ræða.
Sigurrós, Mai og Yuriko.
Á leiðinni heim hlýddum við á mangalestur. Ég er alltaf að sjá þennan magalesara víðs vegar um borgina. Held meira að segja að ég hafi nefnt hann áður hér á blogginu. Í þetta skiptið settist ég niður og hlustaði. Hann valdi einhverja ljósbláa teiknimyndasögu fyrir okkur og lék fyrir okkur hvert atriði. Við Íslendingarnir gerðum okkur litla grein fyrir því sem fram fór þó myndirnar gefðu okkur einhverja mynd af því sem og hljóðin sem lesarinn gaf frá sér. Það var hins vegar ekki fyrr en ég leit í kringum mig og sá hversu vandræðalegir allir Japanarnir voru sem ég áttaði mig á hversu dónalegt þetta væri.Sunday, February 22, 2009
Bolludagur!
Þetta kom út úr ofninum:
Wednesday, February 18, 2009
Smá söknuður!

Steinar Gauti hefur átt marga gullmolana síðan ég kom hingað út. Um daginn þegar ég talaði við hann í síma var á hann á fullu að gera alls konar hluti meðan hann ræddi við mig. Þegar hvað mest gekk á sagði hann: “bíddu aðeins á borðinu”. Ég skildi til að byrja með ekkert hvað hann væri að meina þar til ég heyrði símann skella á borðinu. Þar lét hann “mig” liggja í smá tíma meðan hann náði í meira dót.
Annað dæmi um samtal við þriggja ára Steinar Gauta:
Ég: Steinar Gauti, er pabbi þinn þarna? Má ég tala við hann?
Steinar: Nei, hann er ekki hér. Hann er er á fundi.
Ég: Já er það? Ert þú ekkert á fundum Steinar Gauti?
Steinar: Nei, ég á ekkert fund. En ég á herbergi! Átt þú herbergi Vala?
Heiða er meira fyrir að löng samtöl milli heimsálfanna, enda ári eldri. Hún dregur sig gjarnan í hlé, skríður bak við stól uppi á lofti eða lokar sig inni í herbergi til að spjalla. Segir mér frá vinkonum sínum, þeim listaverkum sem hún hefur verið að gera og spyr mig mikið út í Japan og Tókýó. Síðast lagði hún gífurlega áherslu á að ég yrði komin heim fyrir afmæli hennar. Ekki síðar en 3. maí. Bætti þó við að ef ég myndi ekki ná því yrði ég alla vegana að vera komin heim fyrir 6 ára afmælið því þá myndi hún byrja fljótlega í skóla. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt!
Thursday, February 12, 2009
Tuesday, February 10, 2009
Óvænt afmæli, galleríhopp og mangaupplestur

Maður þarf samt að setja sig í ákveðnar stellingar, aðrar stellingar en maður er vanur að vera í á Íslandi. Á Íslandi er til dæmis ólíklegt að maður lendi í afmælisboði þar sem maður þekkir engan og þegar kvöldið er á enda sé maður búinn að mæla sér mót við nýja vinkonu og kærasta hennar á gallerísopnun tveimur dögum síðar. En það varð raunin og á laugardag rölti ég á milli gallería með þessum nýju vinum mínum.
Húsnæðisverð er með því dýrasta í heimi hér í Tokyo og af tiltölulega skornum skammti. Það er því ekki allt morandi í galleríum líkt og í mörgum öðrum stórborum. Sýningarnar sem við fórum á voru í hráu verksmiðju húsnæði úr alfaraleið. Á þremur efstu hæðum byggingarinnar eru starfrækt þrjú gallerí, öll nokkuð stór. Ég skemmtileg mér konunglega og ekki var verra að kvöldið endaði á frábærum japönskum stað, ódýrum og góðum.
Um næstu helgi hef ég síðan mælt mér mót við vin parsins á annarri opnun. Sú sýning er helguð ljósmyndum frá Íslandi. Sá vinur er hins vegar sjálfur að undirbúa sýningu um tengsl Íslands og Japans... segi meira frá því síðar þegar hann er búinn að kynna verkefnið fyrir mér!
Þegar ég fer héðan er fjölbreytileiki borgarinnar líklegast það sem ég á eftir að sakna mest. Það er erfitt að útskýra Tokyo en borgin er einhvern vegin allt öðruvísi en allar borgir sem ég hef komið til. New York er stórborg en Tokyo er svo miklu, miklu stærri. New York hefur upp á allt að bjóða, en það er svo miklu meira af öllu hér. Samt er Tokyo ekki yfirþyrmandi, hún kæfir mann ekki.
--------
Myndin sem fylgir með tengist þessu svo sem lítið en er af “uppáhalds” mangaupplesaranum mínum. Ég hef rekist á hann þrisvar sinnum síðan ég kom hingað. Í hvert eina skipti heyri ég hann lesa upp úr mangabókum með ótrúlegustu innlifun sem ég hef séð og heyrt!
Ein af óvæntu afmælisveislum síðustu viku sem var haldin fyrir Yuki.Wednesday, February 04, 2009
Kirsuberjablómanna beðið...

Ég hlakka því mikið til vorsins og hlýjunnar sem því fylgir. Fallegasti tími ársins hér í Japan er að margra mati einmitt vormánuðirnir. Kirsuberjatréin eru þá í blóma en fegurð þeirra er algjörlega ólýsanleg. Ég var svo heppin að vera í Washington þegar japönsku tréin blómstruðu eitt árið, upplifunin er líklegast þó allt önnur og meiri hér í Japan.
Eitt af því sem ég er að reyna að venjast er að sitja á gólfinu. Iðulega þegar maður fer í heimahús, matboð eða veislur er ávalt setið á gólfinu. Ég átti mjög erfitt með þetta til að byrja með en er aðeins að venjast þessu núna. Ég hef meðal annars lært að þegar maður fer í svona heimboð er ekki æskilegt að vera í þröngum gallabuxum, stuttum kjól eða pilsi. Víður, nokkuð síður kjóll og þykkar sokkabuxur eru málið.
Annað sem ég hef líka lært er að fara alltaf og þá meina ég ALLTAF úr skónum. Ef þú ætlar að máta föt þá skaltu fara úr skónum fyrir utan mátunarklefann, á japönskum veitingastöðum áttu iðulega að fara úr skónum og svo ég tala nú ekki um ef þú ert gestkomandi í heimahúsi. Til að byrja með æddi ég í nokkur skipti inn í mátunarklefa á skítugum sandölunum. Ég geri það ekki aftur. Þessi “faraúrskónum siður” hefur meðal annars leitt til þess að þegar maður fylgist með litlum börnum í lestum, sem er reyndar ekki mikið af í Tokyo (þ.e. börnum), þá tekur maður eftir því að foreldrar þeirra taka þau iðulega úr skónum þegar þau setjast niður. Ástæðan; jú börn eiga það til að príla og krjúpa í sætunum og þá er ómögulegt að hafa þau í skítugum skóm. Svo rótgróinn er þessi siður að þegar maður gengur fram hjá hrörlegum tjöldum heimilslausra Tokyobúa þá sér maður skónum snyrtilega stillt upp utan við tjaldið.
Monday, February 02, 2009
Göngutúrar og annað skemmtilegt í janúar kuldanum!
Þessi mynd er tekin á japönskum bar. Hver fastagestur á sína flösku. Allar eru þær með sérstökum töppum, flestir skarta annað hvort Star Wars hetjum eða fótboltakörlum.

Stórleikarar á borð við Brad Pitt setja það ekki fyrir sig að sitja fyrir í Softbank farsímaauglýsingum...
Strákarnir dönsku, Thomas og Jakob, tóku þátt í japönsku tískuvikunni og sýndu þar skólínu sína (mæli með henni). Ég leit við á básnum þeirra sem var hinn glæsilegasti.
Einhverra hluta vegna enduðum við Sigurrós og Steinn inni á þessum mjög svo fámenna kjallarakaraokestað. Ég og maðurinn í rúllukragabolnum tókum auðvitað dúett! Maðurinn í jakkafötunum átti hins vegar staðinn. Fyrir utan okkur var einn annar gestur.
Stanslaus mótmæli hafa verð fyrir framan þetta gamla hótel við lestarstöðina mína. Þau náðu hámarki um miðjan janúar. En áður höfðu starfsmenn hótelsins tekið það yfir þegar loka átti því í byrjun nóvember. Starfsfólkið sá um að reka hótelið með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar. Nú þótti hinsvegar einhverjum nóg komið og ráðist var til atlögu.
Gæjarnir í gulufötunum með hjálmana gerðu heiðarlega tilraun til að troðast inn á staðinn í gegnum keðju verkalýðshreyfingarinnar. Það tókst ekki. Réðu eigendur í kjölfar ráðum sínum inni á McDonaldsstað með tugi myndatökuvéla á glugganum.Friday, January 09, 2009
Nú árið er liðið
Þrátt fyrir að fjarbúðin hafi verið nokkuð erfið þá hefur tíminn hér í Japan verið alveg ótrúlegur. Sérstaklega mikilvægt fannst mér að hafa Grétar hjá mér fyrstu vikurnar, þær vikur sem yenið var enn ódýrt og ekkert tiltöku mál að fara út að borða flest kvöld. Nú er allt orðið helmingi dýrari en þó auðvitað alveg jafn frábært. Tokyo er komin til að vera í fyrsta sæti á uppáhaldsborgar listanum mínum.
Í stað þess að halda heim til Íslands yfir jólin hittumst við Grétar í Bandaríkjunum 19. desember. Fyrir löngu hafði verið ákveðið að eyða sextugsafmæli pabba í útlöndum en hann átti afmæli 2. janúar síðastliðinn. Mexíkó varð fyrir valinu og flatmöguðum við í 30°c hita yfir hátíðarnar við Karabískahafið. Ég hef aldrei notið þess jafnvel að slaka á í sólinni. Kannski er hluti skýringarinnar kuldinn sem var í New York er við tókum flugið til Mexikó. Snjóstormur og frost, í bland við mikila þreytu. Á tímabili héldum við Grétar að við myndum ekki hafa það í leigubílinn. Við börðumst á móti storminum með farangur og nefrennsli. Áttum mjög erfitt með að trúa því að aðeins 7 klukkustundum seinna yrðum við komin í sundföt og sól.
Frábært ár enduðum við síðan í dýrindis matarboði hjá Óskari og Öglu í New York þar sem gæs var á borðum. Þau eru ótrúleg heima að sækja. Elda fyrir mann dýrindis mat og bjóða upp á uppáhelt krukkukaffi og huggulegar stundir við eldhúsborðið.
En hér kemur árið í myndum:
Grétar tók við skírteini sínu í febrúar í Háskólabíói... Ég tók síðan við annars konar skírteini í sal Lögmannafélagsins í apríl.
Á uppstigningadag sem bar upp á 1. maí trúlofuðumst við Grétar. Ótrúlega fallegur dagur við Tjörnina í Reykjavík, glampandi sól og spegilslétt tjörn. Steinar Gauti og Heiða voru viðstödd trúlofunina en gerðu sér líklegast litla grein fyrir því hvað væri að fara fram. Heiða lét hins vegar rétt fyrir bónorðið þessi orð falla: "Grétar, hann er ekki með bleikt hár". Líklegast einhver mjög djúp merking falin í þessum orðum...

Í lok maí fór ég ásamt tengdafjölskyldunni í hina árlegu Spánarferð. Líkt og fyrri ár var hún dásamleg. Langþráð ferð okkar vinanna var síðan farin til Kaupmannahafnar og heppnaðist ótrúlega vel. Helga og Þórir eru hér á rölti í steikjandi hita fyrsta daginn.
Nú höfum við Jóhanna ekki hist í hálft ár. Nokkuð mikil viðbrigði enda vanar að tala saman nokkrum sinnum á dag.

Kveðjumyndin sem við Heiða tókum af okkur áður en ég hélt til Japans.
Grétar var hjá mér fyrstu vikurnar í Japan. Dásamlegur tími.....


Ótrúlegt en satt þá hitti ég Gunna í fyrsta skipti í desember. Algjörlega fáránlegt! Við áttum góðar stundir saman á ströndinni. 




















