Tuesday, July 26, 2016

Púkaskottið Sigurveig Sóley


Púkaskottið okkar sem skírð var Sigurveig Sóley fæddist föstudaginn 29. apríl að kvöldi til. Hún var 6 dögum á undan áætlun og kom hratt og fljótt í heiminn og allt gekk vel. Hún verður því 3 mánaða þann 29. júlí nk. Merkilegur áfangi enda segja allir fróðir menn og konur að magakveisa og almenn ungabarnaóværð snarlagist þegar þessum merka áfanga er náð!

Þar sem við höfum nú prófað svona barnastúss áður þó liðinn séu 17 ár síðan ungabarn var síðast á svæðinu þá tökum við þessu með passlegum fyrirvara en það verður spennandi að sjá hvað gerist við þennan áfanga ;)

Daman er yndisleg, brosir, hjalar, hefur haldið höfði "nánast frá fæðingu", sterk og kröftug og er auðvitað einstaklega falleg en hún lætur mikið hafa fyrir sér...ungabarnakveisa og óværð og vælinn sem fylgir því og vill helst vera í fangi allan daginn og sofa þar líka. Henni finnst algjör óþarfi að sofa einhverja ungabarnadúra í nokkrar klst á dag eins og eldri bróðir hennar gerði samviskusamlega og "flest" ungabörn gera. Þessi dama tekur bara svona smá kríu í nokkrar mínútur í senn og þá er hún góð! Sem þýðir auðvitað að það er enginn tími fyrir blogg eða maraþonsáhorf á Greys eða Dr Phil seríur í sjónvarpinu hvað þá eitthvað annað enda erum við ekki í orlofi heldur 200% vakavinnu með fáum pásum, litlum svefni en fáum svo fallegt púkabros að launum að þetta sleppur alveg ;)

Púkaskottið er því algjörlega við stjórnvölinn og hefur gaman af því.

Reyni mögulega að skella einhverju inn hér af og til en þessar fáu dýrmætu mínútur sem daman sefur á daginn eru notaðar til að reyna hvílast ( því hún sefur auðvitað líka illa á nóttunni, til hvers að gera þetta auðvelt ) eða lágmarkstiltekt eða bara sitja í nokkrar mínútur og gera ekki neitt...

Þangað til hafið það gott - lífið hefur svo sannarlega breyst hjá okkur en eftir ansi mörg ár af útsofelsi og nokkru frelsi með ljúfa prinsinn okkar þá var viðbúið að daman myndi nú minna vel á sig - :)

Saturday, April 23, 2016

Á laugardegi

Flensa með öllu tilheyrandi lagði undirritaða í rúmið fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Kvefið og hóstinn eru nýlega farin á brott og líka eitthvað af sleni sem fylgir svona veikindum en allt að koma. Mikið óskaplega sem hægt er að verða "lítil" aftur þegar heilsan  fer frá manni þó ekki sé nema í nokkra daga. Bráðum 9 mánaða ólétta bætir svo ekki ástandið. Heilsan skiptir okkur svo miklu máli og finnum aldrei meira fyrir því en akkúrat þegar hún er ekki til staðar.

Fann fyrir þessu í borginni um daginn. Er vön að fara um eins og þeytivinda alltaf þegar ég er stödd í Reykjavík og gat það ekki í þetta skiptið þökk sé barni í bumbu sem ýtir á grindina og gerir göngu í besta falli kómíska og líka sársaukafulla.

Þannig passið upp á heilsuna ykkar kæra fólk og það er víst ekkert í heimi hér sjálfgefið. Að þessu sögðu þá fara að detta inn fleiri póstar og myndir næstu daga. Prinsessuherbergið góða er nánast tilbúið, undirbúningur á lokastigi og styttist í borgarferð til að bíða eftir því að daman mæti á svæðið.

Í millitíð veikinda var nú samt ekki hægt að sitja eða liggja alveg auðum höndum - þetta snýr nú aðallega að bóndanum þar sem frúin var nú til lítilla afreka. Það "vantaði" og já eiginlega í alvöru og gæsalappir óþarfar, einhverja mublu yfir vegginn í borðstofurýminu. Mikið búin að spá og spögglera, kaupa nýja skápa, smíða sjálf, horfa til snillinga eins og Soffíu hjá skreytumhus.is sem umbreytti Ikea hillu í ofsalega flotta hillueiningu sem þverar heilan vegg eða hvað?

Duttum svo niður á rúmlega 30 ára gamlan skenk sem var til sölu. Eflaust yfir 100 kílóin að þyngd úr massívri eik og viti menn...hann er bara komin hingað í Southfork með aðstoð kraftajötna og bara smellpassar :)


Meira um skenkinn góða fljótlega - njótið annars laugardagsins kæru vinir.
Hér er setið við lærdóm :)

Monday, April 4, 2016

Niðurtalning er hafin - 4 vikur til stefnu

 
Það styttist og styttist...fjórar vikur í settan dag og batteríin eru að tæmast. Frágangur í vinnu og skrifstofutiltekt eins langt og það nær. Magnað hvað maður telur sér trú um að geta farið frá tómu borði og "klárað" allt, það er víst aldrei svoleiðis. Svo rúllar skipið alveg áfram og siglir þó mann vanti um borð en það er stundum ágætt að halda að maður sé ómissandi ;)
 
Undirrituð og bóndinn voru í borginn um nýliðna helgi. Tíminn var auðvitað notaður í gæða samveru með einkasyninum sem var hér um páskana og hafði því ekki tíma til að sakna foreldranna í þetta skiptið, svo stutt á milli hittinga :) En einnig þurfti að koma við í Ikea og Rúmfó og jújú blessaða Bauhaus sem var okkar annað lögheimili þegar mestu framkvæmdirnir voru hér fyrir 2 - 3 árum.
 
Bleika prinessuherbergið er allt að smella. Fyrir utan gardínur þá vantar í raun bara bleiur og barn og þá er þetta komið! Daman mun þó sofa fyrst um sinn inni í svefnherbergi í fallegri vöggu sem er á leiðinni hingað austur frá dásemdar frænku. En þar sem hér er nægt pláss er gaman að dúllast í þessu herbergi og hafa líka rúmið tilbúið þegar þar að kemur.
 
 
Vona þið eigið gott kvöld framundan hvar sem þið eruð stödd og látið ekki ástand þjóðmálanna hér skemma fyrir ykkur innri frið, skreytinga- og framkvæmdagleði...þið munið að það þarf ekki að kosta miklu til. Bara einn spreybrúsi og hægt er að umbreyta gömlu í nýtt :)


Friday, March 25, 2016

Demantahöldurnar


Nú eru komnar höldur á kommóðuna góðuna og eins á fataskápinn. Voru settar á fyrir nokkru síðan en gleymdist bara að taka myndir. Er einnig búin að "poppa" upp náttborðin okkar með þessum höldum þannig það er hægt að nota þær víða.

 
 
 
 
Þessar höldur voru pantaðar af Ebay og voru 10 stk. á tæplega 1.100 kr. má sjá hérna. Voru rúmlega 1,5 viku á leiðinni og settu því hraðamet samanborið við að panta frá Mister Ikea á höfuðborgarsvæðinu...það er víst svo agalega langt hingað austur;)
 
Bara mjög ánægð með þessar höldur og koma vel út. Eigið annars ljúft kvöld framundan á þessum langa föstudegi.
 
 
 
Takk fyrir innlitið :)

Thursday, March 24, 2016

Páskafrí...bara súkkulaði og einfaldleiki

Það verður lítið páskaskreytt í ár. Búið að kaupa gula túlipana og nóg er til af súkkulaði og það verður að duga. Páskreytingar ársins fela í sér áframhaldandi barnaundirbúning og að njóta þess að fá að hafa einkasoninn í heimsókn yfir páskana en hann er í útlegð fyrir sunnan í framhaldsskóla og fótbolta, alveg að verða 17 ára en samt alltaf litli prinsinn sem fær brátt bílpróf. Það sem tíminn líður og því er mikilvægt að njóta litlu hlutanna, þeir skipta mestu máli þegar uppi er staðið.

Þegar það vill svo heppilega til að undirrituð og viðhengi búa í gulu húsi þá verður það bara páskaskrautið í ár :)

 
Skelli inn myndum á morgun af demantahöldunum góðu sem prýða nú kommóðu og skápa. Pantaðir frá Ebay og voru svei mér þá fljótari hingað austur á land frá Kína en sending fá Ikea í borginni um daginn, gaman að þessu;)
 
Njótið skírdagsins hvar sem þið eruð stödd.