Púkaskottið okkar sem skírð var Sigurveig Sóley fæddist föstudaginn 29. apríl að kvöldi til. Hún var 6 dögum á undan áætlun og kom hratt og fljótt í heiminn og allt gekk vel. Hún verður því 3 mánaða þann 29. júlí nk. Merkilegur áfangi enda segja allir fróðir menn og konur að magakveisa og almenn ungabarnaóværð snarlagist þegar þessum merka áfanga er náð!
Þar sem við höfum nú prófað svona barnastúss áður þó liðinn séu 17 ár síðan ungabarn var síðast á svæðinu þá tökum við þessu með passlegum fyrirvara en það verður spennandi að sjá hvað gerist við þennan áfanga ;)
Daman er yndisleg, brosir, hjalar, hefur haldið höfði "nánast frá fæðingu", sterk og kröftug og er auðvitað einstaklega falleg en hún lætur mikið hafa fyrir sér...ungabarnakveisa og óværð og vælinn sem fylgir því og vill helst vera í fangi allan daginn og sofa þar líka. Henni finnst algjör óþarfi að sofa einhverja ungabarnadúra í nokkrar klst á dag eins og eldri bróðir hennar gerði samviskusamlega og "flest" ungabörn gera. Þessi dama tekur bara svona smá kríu í nokkrar mínútur í senn og þá er hún góð! Sem þýðir auðvitað að það er enginn tími fyrir blogg eða maraþonsáhorf á Greys eða Dr Phil seríur í sjónvarpinu hvað þá eitthvað annað enda erum við ekki í orlofi heldur 200% vakavinnu með fáum pásum, litlum svefni en fáum svo fallegt púkabros að launum að þetta sleppur alveg ;)
Púkaskottið er því algjörlega við stjórnvölinn og hefur gaman af því.
Reyni mögulega að skella einhverju inn hér af og til en þessar fáu dýrmætu mínútur sem daman sefur á daginn eru notaðar til að reyna hvílast ( því hún sefur auðvitað líka illa á nóttunni, til hvers að gera þetta auðvelt ) eða lágmarkstiltekt eða bara sitja í nokkrar mínútur og gera ekki neitt...
Þangað til hafið það gott - lífið hefur svo sannarlega breyst hjá okkur en eftir ansi mörg ár af útsofelsi og nokkru frelsi með ljúfa prinsinn okkar þá var viðbúið að daman myndi nú minna vel á sig - :)









