5. janúar 2015

Dóttir mín

Ég hef heyrt því fleygt að sumum þyki gott að skrifa sig frá hlutunum og einhver slík þörf hefur blundað í mér undanfarnar vikur. Hvar ég ætti að skrifa hefur vafist fyrir mér en svo datt mér í hug þessi ágæti staður hér sem fáir ef nokkrir vita um núorðið.

Af hverju ætli maður þurfi/vilji skrifa sig frá hlutum? Kannski er um einhvers konar uppgjör að ræða og líklega er það svo í mínu tilviki. Ég læt því vaða.

Elsta dóttir mín villtist af brautinni fyrir 2-3 árum og kannaði heima sem ég hef litla sem enga þekkingu á né reynslu af. Eins og margir framhaldsskólanemar kynntist hún áfengi og slíkri neyslu þegar sú skólaganga var nýlega hafin. Til að byrja með er slík neysla oft "saklaus" ef hægt er að orða það þannig en mín dama staldraði afar stutt við þar. Hún fór hratt af stað og virtist litla sem enga stjórn hafa á þessari neyslu. Í kjölfarið bættust svo við fleiri vímuefni og áður en nokkur gerði sér grein fyrir var allt komið í óefni. Ég áttaði mig engan veginn á alvarleika málsins og alls ekki á því að um eiturlyfjaneyslu væri að ræða fyrr en hún tilkynnti mér það sjálf. Þá hafði hún þegar geymt og neytt slíkra efna á heimilinu. 

Þegar ég loksins gerði mér grein fyrir stöðunni fylltist ég gríðarlegri reiði innra með mér. Ég ásakaði sjálfa mig, eiginmanninn, stelpuna sjálfa, umhverfið og bara allt og alla sem mér datt í hug. Ég var sjálfri mér reið fyrir að hafa ekki staðið mig í uppeldinu, brugðist stelpunni minni o.s.frv. Eiginmanninum var ég reið fyrir að hafa ekki áttað sig á stöðunni, stelpunni fyrir að hafa valið þessa hræðilegu braut, umhverfinu fyrir að hafa yfir slíkum hættum að bjóða, fólki úti í bæ fyrir að útvega ungu fólki umrædd efni og svo mætti lengi telja. 

Hræðsla og áhyggjur tóku yfir, ég vissi sjaldnast hvar stelpan var eða hvað hún væri að gera, hafði áhyggjur af því með hvers konar fólki hún væri að þvælast. Síminn var alltaf við höndina og ég tilbúin að svara ef hún hefði samband, Þegar hún var heima voru samskiptin okkar á milli erfið sem og annarra fjölskyldumeðlima.

Á ákveðnum tímapunkti ræddi ég þann möguleika við hana að fara í meðferð. Sú umræða átti sér stað um miðja nótt eftir að hún hafði hringt, í vandræðum og ég farið og sótt hana. Til allrar hamingju tók hún vel í það og daginn eftir skoðuðum við það frekar og 3 dögum síðar var hún farin í sína fyrstu meðferð. Hún kom úr þeirri meðferð 10 dögum síðar staðráðin í að standa sig vel. Því miður gekk það ekki eftir og fyrr en varði var hún komin aftur á sömu brautina. Henni voru sett mörk heimafyrir og sagt að ef hún ætlaði sér að halda sig á þessum villigötum gæti hún hreinlega ekki búið hjá okkur. Það er þyngra en tárum taki að setja barni sínu slíka afarkosti en skv. ráðleggingum frá góðu fagfólki var þetta lendingin. Það kom því að því að hún fór aftur í meðferð og í kjölfar stuttrar meðferðar á Vogi fór hún áfram í svokallaða kvennameðferð og dvaldi á meðferðarheimilinu Vík í 4 vikur. Á meðan á þessari dvöl stóð slaknaði heldur betur á heimilisfólkinu en þegar leið að lokum dvalarinnar fóru áhyggjur og streita að gera vart við sig á nýjan leik. Stelpan kom heim, sótti AA-fundi og gekk sæmilega að fóta sig. Hún átti þó eftir að misstíga sig og fór því í enn eina meðferðina og var í henni yfir áramótin 2013-2014. 

Árið 2013 var erfiðasta ár sem ég hef upplifað. Þessi lífsreynsla sem ég hefði svo gjarnan viljað vera laus við hefur mótað mig og þroskað, hrukkunum hefur sjálfsagt fjölgað sem og gráu hárunum. 

Í árslok 2013 hét ég sjálfri mér því að næsta ár yrði betra og ég myndi sinna sjálfri mér og reyna að byggja mig upp. Það er skemmst frá því að segja að stelpan mín stóð sig mjög vel á árinu 2014, hefur náð heilmiklum bata, er orðin miklu öruggari með sig, byrjuð í sambúð með góðum dreng, á góð samskipti við mömmu sína og síðast en ekki síst er hún orðin mamma sjálf.
Ég átti gott ár sem leið hratt og vel, hef náð heilmiklum bata, reiðin hefur minnkað til muna, ég á góð samskipti við stelpuna mína, hef sinnt sjálfri mér ágætlega, ferðast talsvert og síðast en ekki síst er ég orðin amma!

Dóttir mín er mér afar kær. Hún er dásamlegur persónuleiki, gleðigjafi, hlý og kærleiksrík. Ég nýt þess að vera með henni, spjalla við hana, hlæja með henni og vona að þær stundir verði sem flestar í framtíðinni. 

Ég er stolt af dóttur minni. Hún er sterk og dugleg. 

Ég er svo glöð yfir því að hafa endurheimt hana. Án hennar væri líf mitt svipur hjá sjón.

9. nóvember 2011

Update

Ellen búin að commenta á síðustu færslu og þá er mér ekkert að vanbúnaði að koma með þá næstu :o)

Life is good hjá oss og allir glaðir ennþá.


New York var snilld, virkilega gaman að koma þangað. Margt skemmtilegt að sjá í skólunum sem við sóttum heim, borgin iðandi af lífi, nægt úrval í búðunum og skemmtilegt fólk með í för. Gott að kynnast samstarfsfólkinu á þennan hátt og nú get ég talað um fyrir og eftir NY í skólanum.

Feðgarnir eru á leið til Kanada eftir rétt rúma viku, ætla að vera í burtu frá okkur stelpunum í 9 daga og við hlökkum gríðarlega mikið til .... jú, jú, líka til að fá þá aftur heim :o)

Læt þetta duga í bili.

15. september 2011

Reykjavík, ó Reykjavík ...



... þú yndislega borg!

Já, ég er enn í skýjunum yfir þessum flutningum okkar. Mér líður svo vel, líkar vel í vinnunni, nýt þess að sjá börnin blómstra í þéttbýlinu að ég tali ekki um nálægðina við vinina okkar, sem við reyndar hittum allt of sjaldan :o)

Ég tók upp á því að drífa mig í raddprufu hjá kórstjóra Kvennakórs Reykjavíkur og viti menn ... kellan komst inn :o) Nú mæti ég alsæl á kóræfingar á hverju miðvikudagskvöldi auk annars hvers mánudags og skemmti mér konunglega þessi kvöld.

Annars á karlinn minn afmæli í dag, fjörutíu og eitthvað ára ... það reynir greinilega á hann því hann er búinn að geyspa og leggja sig til skiptis síðan hann kom heim. Setti reyndar upp eitt ljós ... best að taka það ekki af honum.

Until next time ...

15. ágúst 2011

Játs ....

Þá er fjölskyldan lent í Grafarholtinu og bara nokkurn veginn búin að koma sér fyrir.
Við erum alsæl með breytingarnar og líður vel með þetta allt saman.

Ég er farin að vinna í Sæmundarskóla og líst rosa vel á skólann og samstarfsfólkið. Stefnan er svo sett á náms- og kynnisferð starfsfólks til New York í október og ég ætla að sjálfsögðu með :o)

Stelpurnar eru þessa stundina "heima á Eyjó" eins og Katrín sagði svo skemmtilega, á VISBO, en það er unglingavika á vegum kirkjunnar okkar. Við heyrum náttúrulega ekkert frá þeim, það er svo gaman og enginn tími til að heyra í foreldrum :o)

Árna Jökli er aðeins farið að leiðast og hlakkar óstjórnlega til að byrja í Ingunnarskóla eftir rétta viku. Hann ætlar að eignast nýja vini og leika við þá eftir skóla, að eigin sögn.
Kristjana hlakkar ekki alveg jafn mikið til, kvíðir svolítið fyrir (eðlilega) en er líka spennt. Hún ætlar í Sæmundarskóla og er að fara á lokaárið sitt í grunnskóla. Merkilegt hvað þessi börn stækka og eldast hratt.
Katrín fer í MH, búin að fá stundatöflu og líst vel á. Bækur komnar í hús og alvara lífsins tekur við í næstu viku.

Eins og þið sjáið er gleðin við völd og tilhlökkun fyrir vetrinum.

Þar til næst ...

29. maí 2011

Maí - blogg

Já, það rétt sleppur en maí er að renna sitt skeið. Alltaf jafn merkilegt hvað tíminn líður hratt og jafnvel hraðar eftir því sem árin líða.

Helstu tíðindi af fjölskyldunni eru þau að húsbóndinn er flúinn til höfuðborgarinnar, byrjaður að vinna á hóteli þar sem sölu- og markaðsstjóri. Við hin sitjum eftir og njótum þess að klára veturinn hér eystra, snjórinn á undanhaldi og skólinn að klárast í vikunni (a.m.k. hjá börnunum). Ég mun svo hefja störf við Sæmundarskóla í ágúst. Afar spennandi.

Íbúðamál eru í höfn, fáum til leigu afbragðsíbúð við Kirkjustétt í Grafarholtinu og tökum við henni 1. júlí nk. Niðurpökkun er hafin fyrir þó nokkru, hefur þó farið lítið fyrir henni undanfarið en nú um helgina tókum við Kristjana okkur til og pökkuðum talsverðu af bókum og öðru prentmáli í kassa og hættum ekki fyrr en límbandið þraut.

Annars eru dömurnar báðar komnar með sumarvinnu, Katrín er byrjuð á kassa í Bónus og Kristjana byrjar væntanlega í unglingavinnunni og fer svo að vinna í Vaski - þvottahúsi í júlí og ágúst. Þær ætla ekki að flytja suður fyrr en eftir miðjan ágúst en fá að vera hjá ömmu sinni og afa eftir að við Árni Jökull förum í lok júní.

Já, ætli þetta sé ekki það helsta ... framundan er viðburðarríkt og spennandi sumar sem einkennist helst af flutningum en auk þess ætlum við Árni Jökull í sumarbúðir við Eiðavatn í viku í júní, Kristjana ætlar í tónlistarsumarbúðir í júní og síðast en ekki síst fáum við að hitta góða vini sem búsettir eru í Afríku (þau koma til Íslands, ekki séns að ég fari þangað). Snilldarsumar framundan.

Með gleði í hjarta kveð ég í bili ... þar til síðar!

12. apríl 2011

Vorið nálgast óðum ...

... en þó ekki alveg strax. Ég verð að bíða þolinmóð svolítið lengur. Þess í stað vorar bara og birtir til hér á þessari síðu ... allavega umhverfið.

En talandi um þolinmæði þá reynir heldur betur á hana þessa dagana. Fyrst og fremst að því leyti að ég bíð spennt eftir lokasvari frá skóla einum í Reykjavíkurborg varðandi kennarastöðu þar næsta vetur. Það er eiginlega með ólíkindum hvað ég hef náð að halda ró minni yfir þessari bið ... líklega er þar um þroskamerki að ræða!

Annars gengur lífið sinn vanagang, skólastarfið í fullum gangi, Katrín að skríða inn í sínar síðustu vikur sem grunnskólanemi og ég játa það að mér finnst það stórfurðuleg tilfinning. En tíminn líður og það m.a.s. nokkuð hratt. Kristjana heldur sínu striki, stendur sig afbragðsvel í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur og Árni Jökull stækkar og stækkar, duglegi strákurinn minn.
Við Bjartur stækkum helst til lítið, kannski mest á þverveginn!

Páskafríið er að detta í hús, langþráð, og skal nýtt til hvíldar og fjölskyldusamveru. Við höfum ekki eytt páskunum heima hjá okkur síðastliðin 4 ár líklega ... eða eru þau 5? Skiptir ekki öllu máli ... við verðum heima núna. Dásamlegt!

Hafið það gott þið sem enn "droppið" hér við. Ég ætla ekki að lofa neinu um dugnað hér ... það er víst auðvelt að svíkja slík loforð.

Í lokin set ég hér inn mynd af uppáhaldsstaðnum mínum og ég SKAL fara þangað í sumar.


... over and out!

6. mars 2011

Update!

Já, og kominn tími til ... tíminn líður hratt og það er kominn 6. mars. Gerist þetta með árunum? Fer tíminn að fljúga hraðar eftir því sem maður eldist? Þið gamla fólk segið mér kannski hvort ykkar reynsla er þannig!

Annars er lífið bara ágætt í sveitinni ... þó er aðeins komin þreyta í mannskapinn á þessari fjarlægð frá þéttbýlinu og stefnum við því á flutninga í sumar. Erum farin að leita fyrir okkur með atvinnu á höfuðborgarsvæðinu ... en ekki er nú um auðugan garð að gresja. Það er af sem áður var þegar kennari gat nánast gengið að því sem vísu að fá stöðu hvar sem var og hvenær sem var. En ég gef ekki upp vonina fyrr en í fulla hnefana. Sjáum hvað setur og spyrjum að leikslokum. Við erum hóflega bjartsýn og jákvæð. En í sveitinni verðum við tæplega annan vetur. Um það erum við sammála. Gaman að því bara.

Við hjónin höfum stundað borgarferðirnar af fullum krafti undanfarið ... en til skiptis. Gaman að því líka :o) Ég fór m.a. á skemmtilega leiksýningu í síðustu borgarferð, við Katrín skelltum okkur ásamt góðri vinkonu í Þjóðleikhúsið og sáum Íslandsklukkuna. Vel þess virði og ég mæli hiklaust með þeirri sýningu. Merkilegt hvað svona menningarbrölt gefur manni mikið. Íhuga það alvarlega að fara að gera meira af þessu í framtíðinni.

Sveitakveðjur frá menningarvitanum ...