5. janúar 2015

Dóttir mín

Ég hef heyrt því fleygt að sumum þyki gott að skrifa sig frá hlutunum og einhver slík þörf hefur blundað í mér undanfarnar vikur. Hvar ég ætti að skrifa hefur vafist fyrir mér en svo datt mér í hug þessi ágæti staður hér sem fáir ef nokkrir vita um núorðið.

Af hverju ætli maður þurfi/vilji skrifa sig frá hlutum? Kannski er um einhvers konar uppgjör að ræða og líklega er það svo í mínu tilviki. Ég læt því vaða.

Elsta dóttir mín villtist af brautinni fyrir 2-3 árum og kannaði heima sem ég hef litla sem enga þekkingu á né reynslu af. Eins og margir framhaldsskólanemar kynntist hún áfengi og slíkri neyslu þegar sú skólaganga var nýlega hafin. Til að byrja með er slík neysla oft "saklaus" ef hægt er að orða það þannig en mín dama staldraði afar stutt við þar. Hún fór hratt af stað og virtist litla sem enga stjórn hafa á þessari neyslu. Í kjölfarið bættust svo við fleiri vímuefni og áður en nokkur gerði sér grein fyrir var allt komið í óefni. Ég áttaði mig engan veginn á alvarleika málsins og alls ekki á því að um eiturlyfjaneyslu væri að ræða fyrr en hún tilkynnti mér það sjálf. Þá hafði hún þegar geymt og neytt slíkra efna á heimilinu. 

Þegar ég loksins gerði mér grein fyrir stöðunni fylltist ég gríðarlegri reiði innra með mér. Ég ásakaði sjálfa mig, eiginmanninn, stelpuna sjálfa, umhverfið og bara allt og alla sem mér datt í hug. Ég var sjálfri mér reið fyrir að hafa ekki staðið mig í uppeldinu, brugðist stelpunni minni o.s.frv. Eiginmanninum var ég reið fyrir að hafa ekki áttað sig á stöðunni, stelpunni fyrir að hafa valið þessa hræðilegu braut, umhverfinu fyrir að hafa yfir slíkum hættum að bjóða, fólki úti í bæ fyrir að útvega ungu fólki umrædd efni og svo mætti lengi telja. 

Hræðsla og áhyggjur tóku yfir, ég vissi sjaldnast hvar stelpan var eða hvað hún væri að gera, hafði áhyggjur af því með hvers konar fólki hún væri að þvælast. Síminn var alltaf við höndina og ég tilbúin að svara ef hún hefði samband, Þegar hún var heima voru samskiptin okkar á milli erfið sem og annarra fjölskyldumeðlima.

Á ákveðnum tímapunkti ræddi ég þann möguleika við hana að fara í meðferð. Sú umræða átti sér stað um miðja nótt eftir að hún hafði hringt, í vandræðum og ég farið og sótt hana. Til allrar hamingju tók hún vel í það og daginn eftir skoðuðum við það frekar og 3 dögum síðar var hún farin í sína fyrstu meðferð. Hún kom úr þeirri meðferð 10 dögum síðar staðráðin í að standa sig vel. Því miður gekk það ekki eftir og fyrr en varði var hún komin aftur á sömu brautina. Henni voru sett mörk heimafyrir og sagt að ef hún ætlaði sér að halda sig á þessum villigötum gæti hún hreinlega ekki búið hjá okkur. Það er þyngra en tárum taki að setja barni sínu slíka afarkosti en skv. ráðleggingum frá góðu fagfólki var þetta lendingin. Það kom því að því að hún fór aftur í meðferð og í kjölfar stuttrar meðferðar á Vogi fór hún áfram í svokallaða kvennameðferð og dvaldi á meðferðarheimilinu Vík í 4 vikur. Á meðan á þessari dvöl stóð slaknaði heldur betur á heimilisfólkinu en þegar leið að lokum dvalarinnar fóru áhyggjur og streita að gera vart við sig á nýjan leik. Stelpan kom heim, sótti AA-fundi og gekk sæmilega að fóta sig. Hún átti þó eftir að misstíga sig og fór því í enn eina meðferðina og var í henni yfir áramótin 2013-2014. 

Árið 2013 var erfiðasta ár sem ég hef upplifað. Þessi lífsreynsla sem ég hefði svo gjarnan viljað vera laus við hefur mótað mig og þroskað, hrukkunum hefur sjálfsagt fjölgað sem og gráu hárunum. 

Í árslok 2013 hét ég sjálfri mér því að næsta ár yrði betra og ég myndi sinna sjálfri mér og reyna að byggja mig upp. Það er skemmst frá því að segja að stelpan mín stóð sig mjög vel á árinu 2014, hefur náð heilmiklum bata, er orðin miklu öruggari með sig, byrjuð í sambúð með góðum dreng, á góð samskipti við mömmu sína og síðast en ekki síst er hún orðin mamma sjálf.
Ég átti gott ár sem leið hratt og vel, hef náð heilmiklum bata, reiðin hefur minnkað til muna, ég á góð samskipti við stelpuna mína, hef sinnt sjálfri mér ágætlega, ferðast talsvert og síðast en ekki síst er ég orðin amma!

Dóttir mín er mér afar kær. Hún er dásamlegur persónuleiki, gleðigjafi, hlý og kærleiksrík. Ég nýt þess að vera með henni, spjalla við hana, hlæja með henni og vona að þær stundir verði sem flestar í framtíðinni. 

Ég er stolt af dóttur minni. Hún er sterk og dugleg. 

Ég er svo glöð yfir því að hafa endurheimt hana. Án hennar væri líf mitt svipur hjá sjón.