29. maí 2011

Maí - blogg

Já, það rétt sleppur en maí er að renna sitt skeið. Alltaf jafn merkilegt hvað tíminn líður hratt og jafnvel hraðar eftir því sem árin líða.

Helstu tíðindi af fjölskyldunni eru þau að húsbóndinn er flúinn til höfuðborgarinnar, byrjaður að vinna á hóteli þar sem sölu- og markaðsstjóri. Við hin sitjum eftir og njótum þess að klára veturinn hér eystra, snjórinn á undanhaldi og skólinn að klárast í vikunni (a.m.k. hjá börnunum). Ég mun svo hefja störf við Sæmundarskóla í ágúst. Afar spennandi.

Íbúðamál eru í höfn, fáum til leigu afbragðsíbúð við Kirkjustétt í Grafarholtinu og tökum við henni 1. júlí nk. Niðurpökkun er hafin fyrir þó nokkru, hefur þó farið lítið fyrir henni undanfarið en nú um helgina tókum við Kristjana okkur til og pökkuðum talsverðu af bókum og öðru prentmáli í kassa og hættum ekki fyrr en límbandið þraut.

Annars eru dömurnar báðar komnar með sumarvinnu, Katrín er byrjuð á kassa í Bónus og Kristjana byrjar væntanlega í unglingavinnunni og fer svo að vinna í Vaski - þvottahúsi í júlí og ágúst. Þær ætla ekki að flytja suður fyrr en eftir miðjan ágúst en fá að vera hjá ömmu sinni og afa eftir að við Árni Jökull förum í lok júní.

Já, ætli þetta sé ekki það helsta ... framundan er viðburðarríkt og spennandi sumar sem einkennist helst af flutningum en auk þess ætlum við Árni Jökull í sumarbúðir við Eiðavatn í viku í júní, Kristjana ætlar í tónlistarsumarbúðir í júní og síðast en ekki síst fáum við að hitta góða vini sem búsettir eru í Afríku (þau koma til Íslands, ekki séns að ég fari þangað). Snilldarsumar framundan.

Með gleði í hjarta kveð ég í bili ... þar til síðar!