19. september 2010

:o)

Var að spá í að hætta að skrifa hér því enginn les þetta ... en komst þá að því að þetta er ekkert síður gaman fyrir sjálfa mig. Ég t.d. fór í að skoða gamlar færslur og fann margar þrælskemmtilegar og fyndnar, aðrar ekki eins skemmtilegar en samt ágætis upplýsingar og svo sá ég líka að stundum er ég að fást við hina og þessa krefjandi hluti (sem sjálfsagt hafa flokkast undir vandamál á sínum tíma). Ég ætla því að halda þessu áfram eins og ég nenni, fyrst og fremst fyrir mig en þið megið líka lesa :o)

Lífið gengur skv. áætlun, allt heimilisfólk orðið skólafólk því Bjartur dreif sig í fjarnám frá HÍ. Ég kalla hann gjarnan skólastrákinn minn og finnst það krúttlegt. Hann er áhugasamur og duglegur þessi elska :o) Er ekki örugglega eins og ég sé að tala um ungan pilt?

2. september 2010

Rútína ...

... er góð finnst mér. Nú þegar allt er að detta í vetrarrútínuna aftur þá líður mér vel. Mér finnst gaman í vinnunni minni og mér finnst gaman að koma heim eftir vinnu. Mér finnst líka gott að eiga helgarfrí.
Skólinn fer vel af stað, krakkarnir mínir í 6. bekk koma afskaplega vel undan sumri og þau eru bara dásamleg ... krefjandi og skemmtileg. Hlakka til vetrarsamstarfsins við þau og þeirra forráðamenn.
Mín eigin börn eru líka glöð að vera komin í skólann á ný, síðasti grunnskólavetur Katrínar runninn upp og mér finnst það fáránlega skrítið en jafnframt skemmtilegt. Tónlistarskólinn byrjaður og fimleikarnir líka. Allt að rúlla :o)
Ég hef til margs að hlakka, frábær vinkona á leið í heimsókn eftir tæpar tvær vikur, góðir vinir á leið í heimsókn seinna í mánuðinum, ég fæ loksins að hitta mína kæru vinkonu Írisi á Akureyri í byrjun okt. og við hjónin ætlum svo að skreppa til höfuðborgarinnar BARA TVÖ um miðjan október og fara á tónleika með Mannakornum á 17 ára brúðkaupsafmælisdaginn okkar :o)
Er þetta ekki dásamlegt? Ég bara spyr!