30. júlí 2008

Mamma mia

Akureyrarferðin var bara fín, veðrið gott og við þvældumst aðeins um bæinn. Hittum m.a. Unni Hermannsdóttur vinkonu mína og hennar fjölskyldu. Unnur á það til að poppa upp á líklegustu og ólíklegustu stöðum.
Aðaltilgangur ferðarinnar var að skoða nýtt rúm fyrir okkur hjónin og höfðum við ákveðna dýnutegund í huga. Við fórum því bara í eina verslun og lágum þar í rúmi dágóða stund. Ég spurði afgreiðslumanninn hvort við mættum ekki bara gista og jú, það var alveg hægt að skoða það. Ef af því varð nú ekki. Dýnurnar gátum við nú samt valið og næsta skref er að ganga endanlega frá kaupunum. Mikið hlakka ég til að fá nýtt og gott rúm. Það gamla er að syngja sitt síðasta.
Rúsínan í pylsuenda ferðarinnar var hins vegar bíóferð. Feðgarnir fóru að sjá KungFu Panda en við mæðgur fórum á Mamma mia. Mikið óskaplega skemmti ég mér vel. Strax á fyrstu mínútunni sá ég að myndin væri skemmtileg og ég hló eða brosti allan tímann. Stundum hló ég svo mikið að tárin runnu niður kinnarnar og það gerist nú ekki oft. Það vita þeir sem mig þekkja. Og svo hló ég líka oft upphátt og það gerist heldur ekki oft í bíó. Mæli með henni.
Læt þetta duga í bili ...

28. júlí 2008

Veðursæld

Loksins kom góða veðrið ... það hefur leikið við okkur síðastliðna daga og börnin hafa varla sést. Þegar þau koma svo loksins inn á kvöldin eru þau dökkbrún en það breytist snarlega eftir baðið. Vonandi helst þetta bara svona sem lengst.
Annars ætlum við að skreppa í dagsferð til Akureyrar á morgun og fær Bjartur loksins að koma með. Það verður gaman að eyða saman deginum.

22. júlí 2008

Frábær ferð

Skrapp á norðurlandið í síðustu viku ásamt Írisi vinkonu. Við tókum börnin með og áttum góðan tíma saman. Við byrjuðum á að keyra að Kröflu og ganga aðeins um svæðið þar.


Flott mynd af Árna Jökli á Kröflusvæðinu.


Næst var ferðinni heitið í Jólagarðinn í Eyjafirði og náðist þessi skemmtilega mynd af Katrínu þar. Sannkölluð jólastelpa á ferð.


Kristjana umvafin trjám í garðinum við jólahúsið.


Þarna erum við komin norður á Skaga, í Kálfhamarsvík. Þar er allt morandi í stuðlabergi og umhverfið mjög sérstakt og fallegt.


Sjórinn heillar og aðdráttarafl hans er gríðarlegt.


Árni Jökull og Kristjana við Króksbjarg á Skaga. Eins gott að passa sig að detta ekki niður.


Gaman að kíkja niður og virða fyrir sér fuglalífið og horfa á sjóinn.


Þarna er kerlan komin upp á minnisvarða sem reistur var til heiðurs konum í vegavinnu.


Falleg mynd af fallegum strák og Drangey í fjarska.


Hvíldar- og nestisstund. Gott að hvíla lúin bein á rekaviðardrumbi.

Ferðin var í alla staði góð, gott veður, margt fallegt og skemmtilegt að skoða, góður félagsskapur og svo mætti lengi telja. En mikið er líka gott að koma heim.

15. júlí 2008

Í tilefni dagsins ...



... ákvað ég að deila með ykkur leyndum fjölskylduhæfileikum.
Fjölskyldan steig á stokk í afmælisveislu frúarinnar sem haldin var í fyrra lagi. Njótið skemmtunarinnar.

13. júlí 2008

Flottur dagur

Í dag drifum við mæðgur okkur ásamt tveim hollenskum vinkonum í smá ferð. Við byrjuðum á Borgarfirði eystri og skoðuðum lunda og fleiri fugla. Kíktum í Álfastein og í gömlu kirkjuna. Alltaf gaman að koma á Borgarfjörð.
Þaðan var ferðinni svo heitið á Vopnafjörð. Fórum yfir Hellisheiði og útsýnið þaðan var ekki slæmt. Hér hafa dæturnar tyllt sér á stóran stein og í baksýn er Héraðsflóinn.



Í Vopnafirði heimsóttum við Bustarfell, en þar iðaði allt af lífi í tilefni safnadagsins. Katrín hitti lítinn sætan kálf og stakk hendinni að sjálfsögðu upp í hann. Ekki hafði ég geð á því :o)



Það var svo falleg sjón sem mætti okkur þegar heim var komið.



Ekki fleira í þetta sinn ...

11. júlí 2008

Ég elska ...

... athugasemdirnar ykkar. Það er magnað hvað þær skipta miklu máli í þessu bloggsamhengi. Ef þær væru ekki með þá nennti maður þessu sennilega ekki. Skilaboðin eru sem sé þessi: Gerið athugasemdir og það mikið af þeim :o)

Annars allt meinhægt, Védís og krakkarnir yfirgáfu okkur í dag, fóru þó ekki langt þannig að við getum væntanlega séð eitthvað aðeins meira af þeim á næstu dögum. Íris og Aníta koma á sunnudag og verða hér í nokkra daga áður en við vinkonurnar, ásamt börnum, förum og rannsökum ísbjarnaslóðir norður á Skaga. Hlakka til þess.

Fleira ekki í bili ...

8. júlí 2008

Skruppum á Humarhátíð ...

... í fyrsta sinn á ævinni. Ekki gott afspurnar þegar um Hornfirðinga er að ræða :o)
En við systur drifum skrílinn í bílinn og brunuðum af stað. Við byrjuðum að sjálfsögðu á að heilsa upp á eldgamla settið. Það er alltaf svo frábært að koma til þeirra og þau gleðjast svo innilega þegar þau sjá okkur. Frábært fólk þar á ferð.



Við röltum svo um bæinn, niður á bryggju og skoðuðum mannlífið sem var reyndar frekar slappt. Ég hélt einhvern veginn að fleira fólk væri á ferli á þessari hátíð. Var svo reyndar upplýst um það að fólk væri frekar á ferli að kvöldlagi. Þá hæfist hin eiginlega skemmtun. Við vorum farnar heim fyrir þann tíma en skemmtum okkur engu að síður ágætlega, hittum eitthvað af fólki og sumt sem maður hafði ekki hitt í um 10 ár. Það var frekar skemmtilegt.



Hér eru dömurnar staddar við bryggjuna ...



... og hér er smærra liðið, allir með forláta sleikjó sem komst varla fyrir í munninum, þrátt fyrir góða munnstærð, a.m.k. á drengjunum báðum :o)

3. júlí 2008

Ohhh ...

... ég vona að veðrið sem komið er haldist. Ég er búin að fá nóg af roki, rigningu og innan við 10 stiga hita. Í dag skín sólin, hitamælirinn sýnir tæpar 16 gráður og ég ætla út ... a.m.k. til að hengja út þvottinn.