28. júní 2008

Skemmtilegir dagar

Við systur gerðum góða austurferð um daginn og komum við á Akureyri á leiðinni. Þar dvöldum við í glæsilegum bústað og nutum svo sannarlega verunnar nyrðra. Við vorum ekki bara tvær á ferð, leyfðum börnunum, a.m.k. sumum þeirra, að vera með okkur. Katrín varð eftir í Reykjavík hjá vinkonu sinni og kemur heim í næsta mánuði :o)


Hér eru yngri börnin mín tvö í miðbæ Akureyrar.


Árni Jökull gæðir sér á ísköldu vatni í Kjarnaskógi.
Lilja Rós frænka hans horfir hugfangin á.


Við systur lékum listir okkar eins og okkur einum er lagið.
Védís sýndi mikið hugrekki þegar hún klifraði upp þar til gerðan staur ...


... og ekki var hugrekkið minna hér þegar gamlir taktar voru rifjaðir upp. 
Lofthræðslan var ögn meiri þarna en fyrir 30 árum ...

26. júní 2008

"Viðbjóðurinn" ...

... í þarsíðustu færslu var nú ekki settur inn til að klekkja á ykkur kæru bloggvinir eða vekja með ykkur óhug til lengri tíma. Hugsunin mín var frekar sú að sýna við hvaða aðstæður sum börn í heiminum búa og vekja okkur til umhugsunar um það hvað við í hinum vestræna "vellystingaheimi" getum gert eða hvort við getum yfirhöfuð gert eitthvað. 

22. júní 2008

Farið að styttast

Við leggjum af stað heim á leið í fyrramálið. Við erum búin að vera hér í borginni í rúma viku og höfum átt prýðis tíma. En það er nú alltaf þannig að þegar kemur að heimferð þá er maður einhvern veginn búinn að fá nóg. Og þannig er ástatt nú. Við ætlum okkur þó að taka nokkra daga í heimferðina, fyrsti áfangastaður er Varmahlíð í Skagafirði. Búið er að festa bústað þar og munum við gista þar eina nótt. Svo skal ferðinni haldið áfram til Akureyrar og þar verður sofið í tvær nætur. Nk. fimmtudag verður svo brunað heim í heiðardalinn.
Annars er ýmislegt búið að bralla undanfarna viku. Fórum í skemmtiegt afmæli um síðustu helgi hjá fimm ára frænku, rugluðumst aðeins í miðbænum á þjóðhátíðardaginn, krakkarnir hafa gist hjá nokkrum vinum í vikunni, matarboð, nýfæddar mannverur skoðaðar, búðir heimsóttar svo eitthvað sé nefnt. Katrín fór svo í smá munnsuppskurð á föstudaginn þar sem fjarlægð var aukatönn sem hafði komið sér vel fyrir. Aðgerðin gekk vonum framar, daman fékk kæruleysissprautu og þegar við gengum út af stofunni leið mér eins og ég væri með dauðadrukkinn ungling mér við hlið. Hún flissaði bara og stóð varla í lappirnar. En hún var nú fljót að hrista það af sér og batinn hefur verið hraður og góður. Þetta er hörkukvendi þessi stelpa. Og verður eðlilegri með hverjum deginum sem líður, nú er hún t.d. með nokkurn veginn eðlilegan tannafjölda ... 

Þar til næst

17. júní 2008

17. júní

Við kíktum aðeins í miðbæ Reykjavíkur í dag, sólin skein en köld hafgola blés á okkur. Röltum um í rólegheitunum, skoðuðum mannlífið, sumir fengu candy floss en aðrir snuddusleikjó. Allt eftir hefðinni. Litum svo á kaffihús og enduðum röltið í M&M og Skífunni. Náðum okkur í afþreyingu á báðum stöðum. Grill hjá Védísi og co í kvöld og svo tekur tannlæknavaktin við á morgun.

11. júní 2008

Sumarfríið ...

... langþráða er hafið. Frekar ánægjuleg tilhugsun verð ég að segja. Eins og mér þykir nú yfirleitt skemmtilegt í vinnunni minni, þá er alveg bráðnauðsynlegt að fá frí annað slagið og hlaða batteríin. 

Er nýkomin heim frá Reykjavík og ætla að bruna þangað aftur á föstudag. Frumburðurinn er svo ríkur af tönnum að fræðingunum þykir ástæða til að fækka þeim aðeins, a.m.k. taka það sem finnst ekki í okkur hinum. Við ákváðum að gera úr þessu góða ferð, fara í fimm ára afmæli hjá uppáhaldsfrænkunni, heimsækja vini og ættingja og bara njóta þess að vera saman. Við förum reyndar ekki öll, karlinn verður heima að vinna. Það verður bara að hafa það þó vissulega hefði verið skemmtilegra að hafa hann með blessaðan.

Læt í mér heyra fljótlega aftur ... 

8. júní 2008

Höfuðborgin

Er stödd í höfuðborginni um þessar mundir. Var allan föstudaginn á mjög svo áhugaverðu námskeiði um lestrarnám ungra barna og verður framhald á því námskeiði á föstudag. Nú er aðeins verið að huga að undirbúningi kennslu næsta vetrar, en nú skal hoppað niður á við en ætlunin er að taka við nýgræðingunum í verðandi 1. bekk. Mjög svo spennandi verkefni.

Helgin hefur farið í afslöppun og að hitta góða vini. Það er frekar skemmtilegt myndi ég segja. Þessir vinir eru ótrúlegir, hafa ekki enn gefist upp á manni :o)

Fer svo heim að loknu námskeiði á mánudag, mun reyndar eyða tíma með litlu systur áður en heim skal haldið.

Svo tekur bara afslöppun sumarfrísins við. Dásemdin ein ...