Þið eruð nú aldeilis skemmtilegir lesendur, ég hló nú upphátt þegar ég las kommentið frá þér Adda mín :o) Merkilegt hvað þessi komment skipta máli í bloggheimum. Gera þetta svo miklu meira lifandi og skemmtilegt aflestrar.
Sl. dagar hafa að mestu farið í upplestraræfingar þeirrar elstu en hún er einn af fjórum fulltrúum Egilsstaðaskóla sem keppa í úrslitakeppninni hér á svæðinu í dag. Hún les nú heldur hratt blessunin en sameiginleg niðurstaða okkar mæðgna er að hún skuli lesa "fáránlega hægt". Að sjálfsögðu förum við Kristjana og mamma til að styðja okkar konu. Ég er ánægð með hana.
Skráði mig á ráðstefnu á Akureyri um miðjan apríl. Ráðstefnan hefur yfirskriftina Hjá öllum vakir þráin að birta öðrum hug sinn. Ég verð nú að segja að stundum finnst mér að yfirskriftin segi mér ekki um hvað ráðstefnur fjalli (það á svo sannarlega við í þessu tilviki) en kannski er ég bara svona hræðilega treg og einföld og skil bara ekki svona fín orð. Mér líst hins vegar vel á dagskrána og hlakka til að fara, hlusta á fín og flott erindi, taka þátt í málstofum og eyða góðum tíma með frábærum samstarfskonum mínum. Þær eru sko ekki af lakara taginu.
Flýg suður á morgun, ætla mér að sitja aðalfund Félags grunnskólakennara á fimmtudag og föstudag. Ætla að upplifa mig sem pínu fína frú, fæ að gista á hóteli og svona. Á föstudag kemur svo restin af fjölskyldunni og ætlum við að eyða helginni saman í borg óttans. Ætlum líka að gista á hóteli um helgina svo þetta verður lúxusferð. Gaman að leyfa sér slíkan munað einstaka sinnum. Kristjönu finnst æði að vera á hóteli, henni finnst skemmtilegast að fara í morgunmat.
Læt þetta duga í bili enda pistillinn með lengsta móti í dag ...