Komin til Reykjavíkur, fór degi fyrr vegna slæms veðurútlits í heimabyggð ... hefði verið leiðinlegt að komast ekki suður og missa þar með af Lundúnaheimsókn. En ... notaði daginn og nánast festi mér eldhúsinnréttingu, bara eftir að staðfesta og það verður gert á allra næstu dögum. Á morgun er ferðinni svo heitið til London, mikil tilhlökkun í gangi hér á bænum og unga liðinu finnst eitthvað erfitt að sofna. Spurning hvað gerist með okkur gömlu þegar við skríðum undir sængur.
Af músum er það helst að frétta að þær lifa enn, en lítið heyrðist til þeirra síðustu dagana áður en ég flúði heimili mitt í gær. Meindýraeyðirinn ekki kominn ennþá svo það verður spennandi að vita hve margar taka á móti okkur á þriðjudaginn kemur. Þið fáið að fylgjast með.
Óver end át fram yfir helgi ... held ég ...