31. janúar 2008

Af ferðum og músum

Komin til Reykjavíkur, fór degi fyrr vegna slæms veðurútlits í heimabyggð ... hefði verið leiðinlegt að komast ekki suður og missa þar með af Lundúnaheimsókn. En ... notaði daginn og nánast festi mér eldhúsinnréttingu, bara eftir að staðfesta og það verður gert á allra næstu dögum. Á morgun er ferðinni svo heitið til London, mikil tilhlökkun í gangi hér á bænum og unga liðinu finnst eitthvað erfitt að sofna. Spurning hvað gerist með okkur gömlu þegar við skríðum undir sængur. 
Af músum er það helst að frétta að þær lifa enn, en lítið heyrðist til þeirra síðustu dagana áður en ég flúði heimili mitt í gær. Meindýraeyðirinn ekki kominn ennþá svo það verður spennandi að vita hve margar taka á móti okkur á þriðjudaginn kemur. Þið fáið að fylgjast með.
Óver end át fram yfir helgi ... held ég ...

27. janúar 2008

Helgin




Finnst þessi mynd dálítið flott. Tók hana í gær þegar við fengum okkur göngutúr um "landið okkar". 

Annars langar mig að segja það að ég á alveg sérlega duglegar dætur, en þær tóku hressilega til hendinni í gær og þrifu "sameignina" hátt og lágt. (Skildu sem sagt herbergin eftir). 

Í dag drifum við okkur svo í sund ... það hefur bara ekki gerst í lengri tíma svo það þykir fréttnæmt. Fórum svo á Shellið og fengum okkur pizzu og franskar á eftir. Frekar næs bara.




Af músunum er það að frétta að þær eru í góðum gír, tipla hér um háaloftið. Meindýraeyðirinn kemur á morgun með eitur og gildrur. Veri hann velkominn!


25. janúar 2008

Ég á litla mús ...

Vaknaði í nótt við krafs í veggnum. Litlu mýslunum orðið kalt og leita þá undir klæðninguna á húsinu mínu!!! 

Geta þær ekki verið heima hjá sér???


Ég svaf ekki vel það sem eftir lifði nætur.

22. janúar 2008

Klipping

Það er svo notalegt að fara í klippingu. Sérstaklega þegar verið er að þvo manni um hárið og maður fær smá nudd í hársvörðinn. Ég þurfti einmitt á því að halda í dag.

20. janúar 2008

Helgin ...

... alveg að verða búin. Alveg hreint ágætis helgi.
Fórum í fertugsafmæli til mágs míns og skemmtum okkur hið besta. Alltaf gaman að fagna góðu tilefni og hitta skemmtilegt fólk. Elfa systir stóð sig með þvílíkri prýði í eldhúsinu sem endranær og reiddi fram hinar mestu krásir.
Dagurinn í dag fór í leti og afslappelsi. Nauðsynlegt að eiga slíkar stundir inn á milli.

p.s. Þið sem enn hafið áhyggjur af handlegg drengsins míns þá gerðist að sjálfsögðu ekki neitt, hann varð aðallega hræddur. Ætli ég hefði ekki skrifað eitthvað annað ef þetta hefði verið alvarlegt. Það vita a.m.k. þeir sem mig þekkja :o)

16. janúar 2008

Sumir dagar ...

Í dag sótti ég drenginn minn á leikskólann. Það er svo sem ekki fréttnæmt, nema hvað þegar guttinn var nú kominn inn í bíl ætlaði ég eins og oft áður að loka á eftir honum bíldyrunum. Það vildi nú ekki betur til en svo að höndin varð á milli ...

Já, já, hringið nú öll í barnaverndarnefnd.

Skaðræðisöskur bárust um næsta nágrenni, ég flýtti mér bara að "kyssa á bágtið", þagga niður í þeim stutta, loka dyrunum (með mun betri árangri en áður), koma mér inn í bíl og keyra í burtu eins og ekkert hefði í skorist.

Kalt? Ég veit það ekki ...

14. janúar 2008

Tjahh ...


Búin að eyða fleiri klukkutímum í að finna og bóka miða fyrir okkur á Lion King í Lundúnum.
Það tókst að lokum.
Spenningurinn farinn að gera vart við sig hjá sumum.

10. janúar 2008

Stígvélaði kötturinn ...


... er mættur á svæðið!!!

7. janúar 2008

London here we come ...

Jæja, ég bókaði 3 flugmiða til London um næstu mánaðamót. Ætlunin er að skella sér í stelpuferð, ætlum tvær vinkonurnar með dæturnar með okkur þannig að við verðum fimm í för. Mikið verður þetta skemmtileg helgi hjá okkur. Stefnum á leikhús, að sjá Lion King, svo verða verslanirnar náttúrulega teknar út og síðast en ekki síst fáum við að eyða smá tíma með Kiddý vinkonu sem þar er við nám. Ég er strax farin að hlakka til og ekki síður dömurnar mínar tvær. 

5. janúar 2008

Jólafötin í ár ...

Já, það voru jólafötin. Ellen frænka vildi sjá myndir af þeim, enda valdi hún þau með mér. Ég hendi því inn nokkrum myndum fyrir þig góða mín og vona að þær sýni þér þetta nægilega vel. Annars verð ég bara að dressa þau upp og taka fleiri myndir. Að sjálfsögðu megið þið hin líka skoða og jafnvel skrifa eitthvað fallegt um þessi annars ágætu börn.

Fyrst er hér mynd af systkinunum saman ...



... ein af Árna Jökli með Lilju Rós uppáhaldsfrænkunni ...



... og að lokum ein af gelgjunni góðu.


1. janúar 2008

Nýtt ár


Milli hátíðanna áttum við góðan tíma, gerðum svo sem ekki mikið en fengum þó að upplifa ágætis rafmagnsleysistíma. Þetta fannst börnunum frekar merkilegt og reyndum við að hafa ofan af fyrir fólkinu á ýmsan hátt, m.a. með spilamennsku.

 

Á gamlárskvöld áttum við svo góðan tíma saman systurnar og það sem hangir á okkur. Við borðuðum góðan mat, horfðum á annálana og skaupið og skutum svo upp fáeinum flugeldum. Sumum fannst það gaman en aðrir voru pínu smeykir og vildu heldur vera innandyra.

Læt fylgja með nokkrar myndir af fólkinu mínu frá því í gærkvöld.


Fallega stelpan mín


Flugeldafólkið


Frændsystkinin óska hvort öðru gleðilegs nýs árs.