30. júlí 2006

Sumarið er tíminn ...


... til að gera svo margt skemmtilegt. Sem dæmi má nefna að vaða í íslenskum ám og lækjar-sprænum. Það er eitt af því sem dætur mínar elska út af lífinu og gætu gleymt sér við heilu dagana. Og best er ef maður blotnar vel við þessa iðju.

Annars hafa síðustu dagar farið mest í garðvinnu, loksins erum við hjónakornin búin að útbúa blómabeð ... það fyrsta ... kannski og vonandi ekki það síðasta, setja niður rifs- og sólberjarunna og svo smíðaði karlinn kassa utan um jarðarberjaplönturnar sem mér áskotnuðust frá ágætri nágrannakonu. Ekki má svo gleyma snúrustaurnum sem komst niður ekki alls fyrir löngu. Frúin hengir í gríð og erg út á snúru og nýtur þess í botn. Það er bara snilld að vesenast þetta.

26. júlí 2006

Samræður

"Mamma, af hverju ertu svona risastór?"
"Mmmmm, af því ég er svo dugleg að borða."
"Þegar ég er búinn að borða mikið þá verð ég risastór eins og þú. En ég vil samt vera pabbinn eins og pabbi minn!"

25. júlí 2006

Ættarmót


Ættarmótið var skemmtilegt, alltaf gaman að eyða tíma með ættingjum sem maður sér ekki svo oft og ekki síst þegar veðrið leikur við mann. Við sváfum í tjaldvagninum, prófuðum hann í fyrsta skipti og alveg örugglega ekki það síðasta þar sem okkur líkaði það vel. Sundlaugin á staðnum var mikið notuð, Kristjana eyddi ófáum mínútum í vatninu. Komum heim í gær, ógurlega þreytt enda vakað lengur en venja er.

21. júlí 2006

Frábærir dagar

Sl. daga hafa dýrmætir vinir verið í heimsókn hjá okkur. Raggi, Kía og krakkarnir komu til okkar á miðvikudag og við kvöddum þau nú áðan. Það var alveg meiriháttar að hafa þau og eyða með þeim tíma. Svo langt síðan við höfum hist, 3 1/2 ár síðan þau fóru til Eþíópíu. En bara eins og við höfum hist í gær. Krakkarnir smullu og allt í "gúddí". Þannig eru góðir vinir.
Stefnan svo sett á sumarhús í Hollandi í júní á næsta ári þegar dvöl þeirra lýkur í Afríkunni. Það verður snilld. Ég er strax farin að hlakka til.
Vorum í mat á Eyjólfsstöðum hjá Unnari og Öldu. Það var góð og blessuð stund. Við þyrftum eiginlega að hittast oftar.
Hætt í bili, líður skringilega, gæti farið að skrifa eitthvað undarlegt ... hehe!

17. júlí 2006

Bakstur og ættarmót

Bakaði slatta í dag, var bara rosa dugleg ... eða ekki. Eigum von á góðum gestum um miðja vikuna svo það er eins gott að eiga eitthvað handa þeim að eta. Stefnan svo sett á ættarmót á Jökuldalnum um helgina og vígja þar með tjaldvagninn. Æfðum okkur að tjalda honum í gær og vorum bara býsna fljót, a.m.k. miðað við fyrsta skiptið sem tók liggur við marga klukkutíma.
Annars var ég að frétta af fyrirhuguðu fjölskyldumóti í ágúst og ætlar fólk að koma alla leið úr Svíaríki. Þetta verður snilldarhelgi.

15. júlí 2006

Afmæli


Já, þá er maður orðinn árinu eldri. Ég ætlaði nú svo sem ekkert að fara að fjölyrða neitt um það, en má þó til með að segja frá ágætri afmælisgjöf sem eldri dóttirin gaf þeirri gömlu. Myndin er að sjálfsögðu af þeim grip en þeir sem mig þekkja vita að ég hef ákaflega gaman af þeirri keppni sem um ræðir á disknum.
Að sjálfsögðu kíkti fjölskyldan saman á nokkur myndbönd í dag og hreifst yngsti meðlimurinn af lagi sem sigraði árið 1984. Lagið sungu þrír sænskir bræður og það sem heillaði guttann helst var skótau bræðranna. Ef þið munið ekki eftir þessu þá voru þetta Herreys bræður með lagið Diggi-loo-diggi-ley og voru þeir allir íklæddir gullskóm. Guttinn vill fá svona skó í afmælisgjöf!!!

13. júlí 2006

Blíða

Já, sólin skein hér í dag og hitastigið var í kringum 20 gráðurnar. Við hjónin eyddum deginum að mestu í garðinum, reyttum arfa og settum niður nokkrar hríslur. Þegar því var lokið og við vorum komin inn kom í ljós að frúin hafði brunnið þokkalega á bakinu og öxlunum. Haldið þið að það sé nú.

11. júlí 2006

Komin heim

Þá er maður nú komin heim eftir útlegðina.
Keyrðum norður- leiðina í gær og áttum góðan dag.
Fórum í sund á Akureyri og skoluðum af okkur skítinn.
Stoppuðum aðeins við Goðafoss og fannst stelpunum mikið til hans koma þó myndin beri nú annað með sér.
Fer í það mjög fljótlega að koma inn myndum úr fríinu í albúm. Læt vita.
Dagurinn í dag fer í að taka upp úr töskum, slá garðinn og fleira skemmtilegt.

2. júlí 2006

Komin í menninguna

Fórum vestur í Húsabæ á mánudaginn og dvöldum þar fram á föstudag. Áttum frábæran tíma þar. Ótrúlegt hvað tæknileysið gerir manni gott. Þarna er maður í rólegheitunum, enginn sími að trufla, ekkert sjónvarp í boði, varla útvarp og hvað þá tölvur, og maður endurnærist allur og kemur ný manneskja til baka. Set inn myndir af höllinni og dvölinni þegar heim verður komið.

Fjölskyldan er nú sameinuð á ný, í höfuðborginni þó, ætlum okkur að dvelja hér fram yfir næstu helgi og eiga góðan tíma með vinum og vandamönnum. Svo er brúðkaup á laugardag.

Ekki getum við keyrt heim á sunnudag því þá er úrslitaleikurinn á HM og það gæti skaðað sálartetur bóndans að sjá ekki þann leik. Það er mér að meinalausu að för verði frestað fram yfir leikinn. Ekki vill maður eiga skaðaðan bónda!