31. mars 2006

Snjór


Já, hann er vinsæll snjórinn. Kristjana og fleiri krakkar í götunni eru á fullu þessa dagana að grafa holur og göng í snjó(ruðnings)skafl sem er hér úti við bílastæðið okkar. Ótrúlega skemmtilegt. Og í dag fór guttinn í skoðunarferð og undi sér vel í holunni. Spjallaði heilmikið við stóru strákana en það endaði nú með því að þeir fengu nóg og fóru heim. Þeim hefur sennilega ekki fundist félagsskapurinn góður ...

29. mars 2006

...fréttir...

Í fréttum er það helst að það er ekkert að frétta.
Þannig er það nú bara stundum.

27. mars 2006

Viðbrögð

Mikið finnst mér nú gaman að lesa kommentin ykkar gott fólk!
  • Védís elskulega systir mín
  • Svanfríður frænka í Ameríkunni
  • Heiðdís "litla" frænka og snilldarkokkur
  • Kolbrún vinkona í USA

... regluleg komment frá ykkur, alger snilld.


  • Kiddý mín kær vinkona og fyrrum sambýlingur
  • Ásgeir Páll yndislegur dóni með meiru
  • Ellen frænka í Svíaríki
  • Ágústan mín
  • Helga sæta ...

þið sjáist hér stundum og gleðjið mig í meira lagi með nærveru ykkar.


Og ekki má gleyma sjaldséðum gestum ...
  • mín kæra Olga, ótrúlega gaman að sjá þig hér inni, hlakka líka ógeðslega mikið til að fá þig í heimsókn í maí
  • Silla, fyrrum samstarfskona úr Borgaskóla, frábært að sjá nafnið þitt hér
  • og síðast ekki síst, mín elskulega vinkona KÍA sem skrifar hér inn frá Afríkunni, ég sakna þín líka og það verður snilld að hitta ykkur í sumar

Takk enn og aftur fyrir athugasemdirnar og kveðjurnar ykkar. Það er nú einmitt það sem heldur þessari síðu gangandi. Það er eitthvað við það að fá viðbrögð við því sem maður "segir".

Óver end át ...

26. mars 2006

Árni Grautur ...

... er nýja nafn sonarins. A.m.k. kallaði faðir hans hann þessu nafni nú áðan þegar drengurinn var að borða makkarónugrautinn sinn ...

Ætli mannanafnanefnd gefi grænt ljós á þetta???

24. mars 2006

Góð áminning

Ég er áskrifandi að "konublaði" sem heitir því skemmtilega nafni Húsfreyjan.

Góð áminning í nýjasta eintakinu og læt ég hana fylgja með:

Einmitt í dag er kjörið að:

- hringja í ættingja eða gamlan vin
- fitja upp á nýju handverki
- fara út að ganga eða synda
- drekka te úr fallegasta bollanum
- hella angan og mýkt í baðvatnið
- hlusta á yndislegan hljómdisk og syngja með
- klæðast fallega mjúka bolnum
- kveikja á kertum
- skoða fjölskyldumyndir
- læra eitthvað nýtt af bók í bókahillunni

Halda ákveðið um stýrið í eigin hversdegi og brosa meðvitað.

Láttu þér líða vel!

Við getum gert margt til að gera daginn í dag að sérstökum degi á einhvern hátt en ekki bara sitja með hendur í skauti og upplifa væntinga- og verkefnalausa daga sem gefa okkur ekkert annað en tilgangsleysi og leiða.

23. mars 2006

Vetur

Já, það er kominn snjór ... aftur!
Mér finnst nú alltaf eitthvað spennandi við snjóinn þó maður geti nú alveg fengið nóg af honum á stundum og allt sé einhvern veginn auðveldara í snjóleysinu.
Allt er þetta sjálfsagt gott í hófi.

19. mars 2006

Afmælishöld

Afmæli eru skemmtileg ... a.m.k. á mínu heimili. Við héldum afmælisveislu fyrir fjölskylduna og "fullorðna vini" (eins og stelpurnar kalla það) á laugardaginn. Þessi afmælisveisla var sem sé í tilefni af því að "miðjubarnið" verður 9 ára gamalt á þriðjudaginn. Þá ætlar daman hins vegar að bjóða til sín bekkjarsystrum og öðrum vinkonum. Mikið gaman, mikið fjör.
Við hjónin gáfum henni afmælisgjöf í gær, nýtt reiðhjól, og hún var svo glöð, þessi elska. Hún fagnar nú aldrei mjög hátt eða mikið, en fagnaðarlætin í gær voru með mesta móti. Ótrúlega ánægð stelpa.

Myndir og video á myndasíðunni hér til hliðar.

16. mars 2006

Börnin



Það er svo dásamlegt að eiga börn. Þau lífga svo upp á tilveruna og gefa manni svo mikið. Búin að vera aðeins að skipuleggja afmælishöld í dag með miðlungnum mínum, en daman er að verða 9 ára. Það er snilld að spjalla við þessa stelpu.

Ótrúlegt að manni skuli vera treyst fyrir svona dýrgripum. Eins gott að standa sig vel í uppeldinu, a.m.k. reyna það.

„Gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta, og aðeins betur ef það er það sem þarf..." eða eitthvað svoleiðis var sungið hér um árið. Stefni ótrauð að því líka.

Óver end át ...

15. mars 2006

Miðvikudagur til ...

... þreytu kannski? Eða leti? Eða kannski eymingjaskapar?

Nei, ég segi bara svona. Langur vinnudagur en ágætur samt.

Fanney bjargaði mér svo og bauð mér í súkkulaðiköku og spjall. Notalegt í lok dagsins.

Göngutúr að því loknu. Ein að reyna að gera eitthvað í hreyfingamálunum.

Heimavinna í kvöld fyrir hjónanámskeiðið góða.

Sef svo eins og ungabarn til morguns.

Flott áætlun ...

14. mars 2006

Löt

Já, ekki búin að standa mig vel í bloggheimum sl. daga. Ástæðan er einföld ... leti!

Annars hefur lítið markvert gerst hér á bæ, miðlungurinn eyddi helginni reyndar í höfuðborginni hjá góðri vinkonu sinni og kom heim í morgun. Ákaflega ánægð með dvölina.

Við hin eyddum helginni heima, fengum til okkar skemmtilega gesti og áttum með þeim góða stund. Þórhallur mágur og Michele konan hans komu ásamt tveimur afkvæmum á laugardag og svo komu góðir "kirkjuvinir" að sunnan í kaffi til okkar á sunnudag. Alltaf gaman að fá gesti og ekki spillir fyrir ef þeir eru skemmtilegir (hverjir eru það nú ekki?)

Endilega drífið ykkur í heimsókn bara ...

8. mars 2006

Gull

Já ... Bjartur náði gulli í sleðakeppni í Torino. Haldið þið að það sé flott. Hann vildi meina að tilfinningin væri ólýsanleg. Ég þekki hana ekki ... hehe

En ég er komin í helgarfrí, nú uppsker ég laun síðasta fimmtudags og föstudags, þegar ég kenndi (eða kenndi ekki) báðum 1. bekkjunum. Það er góð tilfinning.

6. mars 2006

Helgin

Helgin fór að mestu í þátttöku í vetrarólympíuleikunum í Torino. Við hjónin og dæturnar höfum tekið þátt í ýmsum vetraríþróttum, m.a. skíðaskotfimi, bobbsleðakeppni, skíðastökki, bruni og svo mætti lengi telja.

Frúin fór sem sé í BT sl. föstudag og festi kaup á PS2 leik sem vakti mikla lukku meðal annarra fjölskyldumeðlima. Haldið að það sé nú ...

Drengurinn er má segja búinn að ná sér, allur annar en í vikunni sem leið. Fór m.a.s. í "leikskólann sinn" í dag og hitti "krakkana sína". Ákaflega glaður yfir því. Ég er með eindæmum þakklát yfir því að þessi ósköp séu afstaðin.

Meira síðar ...

2. mars 2006

Skemmtileg heimsókn



Mín ástkæra "litlasystir" heiðrar Héraðið með nærveru sinni þessa dagana ásamt krílunum sínum tveimur. Það er nú mikið gaman að hitta þau og eyða smá tíma með þeim. Litlu dömunni finnst ógurlega gaman að pirra frænda sinn sem vill "ekki leika við Lilju Rós, bara litla frænda" (sem heitir Jóhann ... ekki Jóhún!)

1. mars 2006

Öskudagur


Upp er runninn þessi langþráði öskudagur og reyndar að kveldi kominn. Dömurnar klæddu sig uppá í tilefni dagsins og héldu ánægðar af stað í skólann. Þær komu ekki síður ánægðar heim þaðan og önnur þeirra hélt svo af stað í söng- og sælgætisferð og kom heim hlaðin góðgæti. Mikil gleði í gangi yfir þessu öllu saman.