31. janúar 2006

Sjö saman ...



Hér er fjör akkúrat þessa stundina. Hér eru staddar sjö átta ára stelpur í svokölluðum vinahóp. Þær skemmta sér vel, þurfa að hafa nóg fyrir stafni og hafa hátt. Þær mættu hér í ýmis konar búningum, hér eru nornir, jarðarber, indjáni o.fl. furðuverur. Þær skelltu sér í Twister, fengu sér svo súkkulaði-fondue og eru núna að æfa leikrit í tveimur hópum. Ótrúlega skemmtilegt. Ég hlakka samt til þegar þetta verður búið ... hehe

30. janúar 2006

Heima er best

Komin heim úr stórborginni. Áttum góðan tíma þar, sáum uppfærslu nemendaóperunnar á Töfraflautunni þar sem Ásgeir Páll góðvinur fjölskyldunnar fór á kostum, vorum viðstödd skírn Jóhanns litla og fengum þessa fínu veislu eftir það, borðuðum með Eddu og Kent, fórum í kirkjuna og hittum marga góða vini, heimsóttum nokkra lækna, kíktum í kaffi til vina á Álftanesinu og Árni Jökull hitti þar vinkonu sína og jafnöldru, versluðum aðeins (alls ekki mikið) og gerðum kannski eitthvað fleira.
En mikið var nú gott að koma heim. Það er svo frábært við þetta "heim", það er alltaf svo gott að vera þar. Sem betur fer, annars væri nú lítið varið í þetta.
Læt heyra meira frá mér síðar og set kannski inn örfáar myndir.

25. janúar 2006

Hrikalegt

Þurrkarinn bilaði!
Hvað gera húsmæður þá??? Mér finnst þetta hræðilegt. Sem betur fer þvoði ég og þurrkaði heilan helling í gær til að eiga nú ALLT hreint fyrir suðurferð á morgun. En ég er strax farin að kvíða fyrir að koma heim til bilaðs besta vinar míns :(

24. janúar 2006

Innihaldslítið ...

Hverju á ég að deila með ykkur í dag?
Ég verð að standa mig í stykkinu, svo þið nennið að koma hér við áfram.

Góður dagur í vinnunni í dag, börnin indæl sem fyrr. Ég held ég sé bara heppin með hóp þetta árið. Skemmtilegir og líflegir krakkar sem ég fæ að eyða góðum dagpörtum með og reyni að sjálfsögðu eftir fremsta megni að uppfræða þá eins og mér best er unnt.

En alltaf er nú gott að koma heim að loknum vinnudegi og slappa aðeins af og spjalla við mín eigin börn, svona þegar þeim hentar að vera heima hjá sér. Sá stutti fylgir nú móður sinni mestmegnis ennþá en dömurnar sjást harla lítið. Stundum finnst mér það vera of lítið og þá sér í lagi á það við um miðlunginn minn. Með eindæmum félagslynt grey. Ég á sennilega að gleðjast í hjarta mér yfir því og hætta þessari afbrýðissemi ... hehe. Reyni það...

23. janúar 2006

Gíraffi

Ég á lítinn gíraffa ...

Leikur

Rakst á þennan á síðu hafnfirsks vinar, fannst hann nokkuð sniðugur en kannski pínu tímafrekur.
Hvað nennið þið að eyða miklum tíma í mig?

Svaraðu spurningunum í athugasemdum og það verður gaman að lesa svörin þín.

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Finnst þér ég áhugaverður einstaklingur?
5. Myndirðu þola að hlusta á mig tala í einn sólarhring samfleytt?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Lýst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tímann langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Munt þú setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?

21. janúar 2006

Þorri

Jæja, Þorrinn er runninn upp og bóndadagur var í gær. "ÞORRABLÓTIÐ" þetta eina sanna, þ.e. Egilsstaðablótið var í gær og ég fór ekki. Haldið þið að það sé nú. Búin að hlakka til alveg síðan við fluttum, en svo bara fórum við ekki. Karlinn ekki spenntur og ekki nennti ég án hans. Við förum bara næst. Þá verður hann píndur.

En við héldum samt sem áður upp á bóndadag með góðum vinum og þorramatur var á borð borinn. Ekki gat ég nú hugsað mér að bragða súrmatinn eða hákarlinn, en það er nú í lagi. Maður borðaði bara óskemmda matinn. Börnin voru hér heima með vinum sínum og gekk rosa vel, drengurinn sofnaði á skikkanlegum tíma í umsjá systra sinna.

Ég er löt að setja inn myndir, myndaandinn hlýtur að koma yfir mig á endanum. Sýnið þolgæði ... hehe.

Takk fyrir "kommentin", þau gleðja.

19. janúar 2006

Gaman

Gaman að lesa "komment" frá Védísi systur, Heiðdísi frænku og Halli, sem reyndar hefur "kommentað" áður hinumegin. Þetta blés hvatningarkrafti í mitt auma hjarta og því er ég komin aftur.

Ætla að reyna að setja eitthvað hér inn reglulega og er að vinna í að koma inn mynda"link" hér til hliðar. Þangað safnast svo smám saman myndir. Það er nú alltaf gaman að skoða myndir, er það ekki?

Engar fréttir af okkur, allt við það sama, nema kannski það að miðlungurinn er farinn að nema píanóleik. Gaman að sjá hvernig það gengur. Hún er allavega ánægð, er það ekki takmarkið? Við segjum bara: Er á meðan er!

Óver end át ...

18. janúar 2006

Nýtt blogg

Jæja, ég fékk hvatningu frá nokkrum, m.a. minni ágætu systur, um að færa mig á annað "svæði". Veit nú ekki hvort ég næ sambandi við þetta system, en látum á það reyna. Sjáum til hvort þið látið sjá ykkur hér og kannski setjið mark ykkar á þetta.

Svo sem ekkert að frétta, hér er snjór yfir öllu og nokkuð kalt.
Allir kátir og við hestaheilsu.

Meira síðar.